Leita í fréttum mbl.is

Á móti Bush...

Það er nokkuð athyglisvert að fylgjast með vinstri mönnum „vona” innilega að John F. Kerry verði kosinn næsti forseti Bandaríkjanna. Margir hafa sagt að það geti verið betra fyrir heimsbyggðina og heimsfriðinn ef Kerry verður forseti.
Þetta segja menn án þess þó að færa sérstök rök fyrir máli sínu. Þeim finnst þetta bara.

En þetta er þó misjafnt. Ungur vinstrimaður skrifar t.d. athyglisverða
grein í september s.l. þar sem hann leggur áherslu á að Kerry sé ekki jafnaðarmaður og ætti sko ekki heima í Samfylkingunni. Ungi maðurinn (sem af skrifum hans að dæma er líklega á framhaldsskólaaldri) telur upp nokkur atriði sem hann er ekki sammála Kerry um, t.d. stefnu BNA í Ísrael, málefni samkynhneigðra  - og jú auðvitað stríðið í Írak.

Þessi ungi maður tekur fram að „frekar frysi í helvíti” en að hann styddi Bush.
Hann tekur þó fram í greininni að hann styðji ekki Kerry.
Við skulum skoða niðurlag greinarinnar:
„Það sem ég er að segja er að við, jafnaðarmenn og félagshyggjufólk, ættum að fara varlega í það að hrósa Kerry og lýsa yfir aðdáun okkar honum. Í fyrsta lagi er opinber stefna hans lengra til hægri en jafnvel stefna Sjálfstæðisflokksins og í öðru lagi á eftir að koma í ljós hve mikið af fögru orðunum hann á eftir að standa við. Auðvitað eigum við öll að vona að hann sigri kosningarnar og komi Bush þeim hættulega glæpamanni frá. Munum bara að kúkur er alveg eins og skítur.”
Ungi maðurinn er greinilega farinn að læra af forystusveit Samfylkingarinnar og er með og á móti og styður þennan en samt ekki og alls ekki hinn en…
ja, maður veit í rauninni aldrei hvar þeir enda.

Menn tala á móti Bush á ómálefnalegan hátt og koma upp með fullyrðingar án þess þó að rökstyðja þær, slæmt er það nú þegar þingmenn eru farnir að stunda slíkt. Björgvin Sigurðsson þingmaður Samfylkingarinnar kallar stjórn Bush „hægri ofsatrúarstjórn” í pistli á heimasíðu sinni.
Menn hafa oftar reynt að bendla Bush við orð eins og „ofastrú” og „bókstarfstrú.” Þannig er reynt að merkja manninn sem trúarofstækismann og gera lítið úr stjórnmálastefnu og karakter hans. Þessi aðferð hefur verið notuð af mörgum vinstrimönnum sem eru á móti honum en vita ekki hvernig þeir eiga að koma því frá sér.
Hér skal ekki dæmt um hvort að trúarlíf Bush Bandaríkjaforseta sé „rétt eða rangt”, en það er a.m.k. ekkert rangt við það að stjórnmálamenn séu trúaðir og vinstri menn á Íslandi – sem og aðrir – ættu að varast alla hleypidóma um það, hvað eru ,,trúaröfgar” eða ,,ofsatrú.”

Annað mál er að menn hafa aftur og aftur gefið í skyn að George W. Bush sé heimskur maður. Þarna hafa menn heldur ekkert fyrir sér annað en að hann stamar einstaka sinnum og þegar hann var yngri þjáðist hann af lesblindu.
Gaman væri að vita hvort að þessir sömu aðilar séu tilbúnir að segja þeim skólabörnum sem stama eða þjást af lesblindu að þau séu heimsk og geti ekki orðið neitt í lífinu!!

Það er reyndar líka gaman að fylgjast með vinstrimönnum hafa vit fyrir forsetanum í málefnum Íraks og Mið-Austurlanda. Allir virðast vita betur en hann hvernig leysa skuli deiluna milli Ísraels og Palestínu, Íraksstríðið og jú auðvitað stríðið gegn hryðjuverkum. Fólk talar eins og að ef Bush sigri í kosningunum þá sé heimsendir í nánd. Svipaðar raddir heyrðust fyrir kosningarnar 1984 þegar Ronald Reagan var í svipaðri aðstöðu og Bush er nú. Reagan hélt þó áfram að gera það sem hann taldi rétt og skildi að mæta þyrfti Sovétríkjunum með hörku. Að lokum var það Ronald Reagan sem átti einn
stærsta þáttinn í því að binda endi á Kalda stríðið.

Við skulum ekki gleyma því að það var ekki George W. Bush sem byrjaði stríðið gegn hryðjuverkum. Það var ekki George W. Bush sem reyndi að komast yfir gereyðingarvopn með illt eitt í huga. Það var ekki George W. Bush eða hans hægri „öfgastefna” sem borgaði ungu fólki fyrir að sprengja sig í loft upp í ísraelskum strætisvögnum. Það féll einfaldlega í hans skaut að taka á þeim erfiðleikum sem komu upp m.a. eftir 11. september 2001. Bandaríkjamenn (og reyndar hin vestræna menning) stendur frammi fyrir því að lifa eins og Osama bin Laden vill að þeir lifi eða vera drepin af heilaþvegnum lærisveinum hans nema þessum öfgahópum sé haldið í skefjum. Hvorki Saddam Hussein né bin Laden eiga í persónulegu stríði við George W. Bush. Það eru ekki minni líkur á að 9/11 hefði átt sér stað þó svo að Gore hefði á sínum tíma orðið forseti.
Kannski að Gore hefði orðið þunglyndur og þyngst um 30 kíló eftir árásirnar eins og hann gerði eftir kosningarnar síðustu. Greinilega sterkur karakter það?
Hafa skal í huga að flestir vinstrimenn „vonuðu” að Gore myndi vinna árið 2000.

Það er ljóst að Bandaríkjamanna bíður erfitt verkefni. Þeir eiga eftir að klára það sem þeir byrjuðu á í Írak, þeir eiga eftir að ná Osama bin Laden og koma þarf efnahag landsins aftur í gott far. Það reyndar gerist að mestu að sjálfu sér án hjálpar stjórnvalda. Það eina sem gæti gerst er að Kerry (ef hann vinnur) myndi hækka skatta og þrengja þannig að efnahagskerfinu og gera það verra en það er. En bandaríkjamenn hafa áður farið í gegnum efnahagslegar þrengingar og kunna að stíga upp úr þeim. Það er ljóst að stríðið gegn hryðjuverkum og stríðið í Írak (sem reyndar er hluti af fyrrnefndu stríði) vegur þungt.

Nú getur ungur íhaldsmaður á Íslandi aðeins lýst yfir takmörkuðum stuðningi við Bush þar sem hann hefur ekki kosningarétt í BNA og fáir bandaríkjamenn lesa síðuna (ennþá). En samt hefur verið fyndið að fylgjast með vinstrimönnum og fjölmörgum fjölmiðlum lýsa yfir af miklum þunga að John F. Kerry verði vonandi næsti forseti bandaríkjanna. Stjórnmálamenn eins og Össur Skarphéðinsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ögmundur Jónasson, Steingrímur J. Sigfússon og svo mætti halda áfram að telja, hafa ítrekað lýst yfir andúð sinni á núverandi bandaríkjaforseta. Þetta er sama fólk og bað fólk um að kjósa sig til að leiða þjóðina fyrir hálfu öðru ári síðan.
Athugum eitt. Eftir kosningarnar hér á landi 2003 átti Bush allavega eftir að vera forseti í næstum tvö ár. Athyglisvert hefði verið að sjá þetta fólk haga samskiptum sínum við þennan mann, sem þau þó fyrirlíta, hefðu þau komist til valda.

Oft er talað um að meira segja demókratar séu svo langt til hægri á evrópskan mælikvarða að meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn sé langt til vinstri við þá. Reyndar mega vinstrimenn eiga það að þeir eru hugmyndafræðilega nokkuð samstíga demókrötum. Háir skattar, góðgerðarstarfsemi til þeirra sem ekki vilja vinna fyrir hlutunum á eigin spýtur, fátæktargildrur og óeining innanborðs eru atriði sem eru vel kunnug vinstrimönnum á Íslandi.

Megi betri maðurinn vinna í kvöld.

Gísli Freyr Valdórsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband