Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 6. júní 2005

Eins og rækilega hefur verið greint frá í fréttum sendi Samband ungra sjálfstæðismanna Alfreð Þorsteinssyni, stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur og oddvita framsóknarmanna í borgarstjórn Reykjavíkur, spilið Monopoly að gjöf fyrir helgina. Var það von SUS að Alfreð myndi fyrir vikið láta sér nægja að spila spilið, sem eins og kunnugt er gengur út á það að kaupa eignir fyrir spilapeninga, og hætti fyrir vikið að leika sér með fjármuni borgarbúa. Var tilefnið samþykkt meirihluta stjórnar Orkuveitunnar um að standa að byggingu fleiri hundruð sumarbústaða við Úlfljótsvatn sem eins og allir vita er ekki fyrsta gæluverkefnið sem Alfreð og félagar í meirihluta stjórnarinnar fara út í og nægir þar sennilega að nefna fjárfestingar á sviði risarækjueldis og gagnamiðlunar sem kostað hafa borgarbúa milljarða króna.

Viðbrögð Alfreðs voru annars merkileg en hann ákvað að endursenda spilið með þeim skilaboðum að SUS ætti frekar að gefa það Davíð Oddssyni vegna þess að hann hafi á sínum tíma staðið fyrir því sem borgarstjóri Reykjavíkur að Orkuveitan byggði Perluna í Öskjuhlíð. Verður það að teljast alveg furðulegt að fullorðinn maður skuli taka upp á því að afsaka eigin vitleysu og bruðl með því að benda á aðra og segja að þeir séu ekkert skárri og taka síðan sem dæmi í því sambandi ákvörðun sem tekin var fyrir um 15 árum síðan þegar töluvert annar hugsunarháttur var í gangi varðandi afskipti opinberra aðila, eða aðila á þeirra vegum, af atvinnulífinu en um er að ræða í dag. Það er einu sinni eitt að benda á að eitthvert uppátæki sé ekki einsdæmi, sé verið að ýja að slíku, en allt annað að reyna að nota slíkt til að afsaka uppátækið.

Segir það sennilega meira en margt annað um málefnalega stöðu Alfreðs í þessum efnum að hann skuli kjósa að bregðast við með þeim hætti sem hann gerði í stað þess að reyna að verja umrædd uppátæki sín með málefnalegum hætti, eitthvað sem ekki hefur tekizt hingað til.

---

Hollendingar fóru að dæmi Frakka og höfnuðu fyrirhugaðri stjórnarskrá Evrópusambandsins sl. miðvikudag, en með enn meira afgerandi hætti. Tæpur þriðjungur hollenzkra kjósenda greiddu atkvæði gegn samþykkt stjórnarskrárinnar, eða um 63% þeirra sam þátt tóku. Kosningaþátttaka var um 62%. Höfnun Frakka og Hollendinga á stjórnarskránni hefur skapað gríðarlega pólitíska óvissu innan Evrópusambandsins og á sama tíma hrundið af stað eins konar “dómínó”-áhrifum að því er virðist. Þannig snerist afstaða Dana til stjórnarskrárinnar algerlega við eftir að fyrir lá að henni hefði verið hafnað í Frakklandi og Hollandi. Það gerðist aðeins á einni viku ef marka má skoðanakannanir. Nú eru um 56% þeirra Dana sem afstöðu taka andvígir stjórnarskránni en fram til þessa hafa stuðningsmenn stjórnarskrárinnar verið í meirihluta.

Niðurstaðan í Frakklandi og Hollandi hefur líka leitt til þess að nokkrar skoðanakannanir í röð sýndu í vikunni að mikill meirihluti Norðmanna sé nú á móti því að Noregur gangi í Evrópusambandið, eða um 56%, en fram til þessa hafa aðildarsinnar þar í landi yfirleitt verið í meirihluta upp á fáein prósentustig. Hvert framhaldið verður í þessum málum er ekki gott að segja og skýrist sennilega fyrst að einhverju marki á fundi forystumanna Evrópusambandsins sem fram fer um næstu helgi.

---

Að lokum er rétt að minnast þess að á þessum degi árið 1944 gerðu hersveitir bandamanna innrás í Normandy í Frakklandi sem þá var hersetið af Þjóðverjum. Innrásin fékk dulnefnið “Operation Overlord” og var innrásardagurinn nefndur “D-day”. Innrásin er stærsta innrás frá hafi sem gerð hefur verið í sögunni og endaði með því að bandamenn náðu fótfestu í Frakklandi og gátu í framhaldinu sótt í átt til Þýzkalandi úr vestri. Ítarlegar upplýsingar um innrásina má t.a.m. finna í alfræðiorðabókinni Wikipedia.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband