Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2006

Íslenzkir sambandsríkissinnar?

Sennilega þætti fáum það fréttir ef ég segði að Evrópusamtökin vildu að Ísland gengi í Evrópusambandið. Hins vegar yrði e.t.v. eitthvað annað uppi á teningnum ef ég segði að samtökin vildu að Evrópusambandið þróaðist yfir í það að verða að sambandsríki. Það vill nefnilega svo til að Evrópusamtökin eru aðili að regnhlífarsamtökunum European Movement sem hafa höfuðstöðvar sínar í Brussel, en meginmarkmið þeirra samtaka er að stuðla að því að Evrópusambandið þróist yfir í að verða „sameinað evrópskt sambandsríki“ ("united federal Europe") ef marka má heimasíðu þeirra Europeanmovement.org.

Reyndar skilst mér að skiptar skoðanir séu í þessum efnum innan European Movement og að þar skiptist menn einkum í tvær fylkingar. Annars vegar þá sem telja þróun Evrópusambandsins hafa gengið of langt með samþykkt Maastricht-sáttmálans árið 1992 og hins vegar sambandsríkissinnana sem vilja sjá sambandið þróast yfir í að verða að sambandsríki sambærilegu við Bandaríkin. En hvað sem líður skiptum skoðunum innan European Movement þá breytir það ekki því að meginmarkmið samtakanna er alveg skýrt.

Hver er afstaðan?
Bæði í ljósi þessa, sem og þeirrar alvarlegu pólitísku krísu sem Evrópusambandið hefur búið við síðan Frakkar og Hollendingar höfnuðu fyrirhugaðri stjórnarskrá sambandsins í byrjun sumars [2005], held ég að það væri vel við hæfi að Evrópusamtökin upplýstu það hvernig þau vilji sjá þróun Evrópusambandsins í framtíðinni. Eru samtökin hlynnt því meginmarkmiði European Movement að þróa eigi sambandið yfir í að verða að einu ríki? Eða fylla þau þann flokk innan samtakanna sem telja það Evrópusamband, sem við stöndum frammi fyrir í dag, vera komið út fyrir æskileg mörk? Einnig væri fróðlegt að vita hvort Evrópusamtökin séu því fylgjandi að fyrirhuguð stjórnarskrá Evrópusambandsins nái fram að ganga? Sem notabene er engan veginn tímabært að afskrifa, þá ekki sízt í ljósi þeirrar staðreyndar að stofnanir sambandsins eru þegar fyrir margt löngu byrjaðar að innleiða stóra hluta stjórnarskrárinnar þrátt fyrir að hún hafi ekki enn náð fram að ganga – hvort sem sú verður síðan raunin eða ekki. Það er því alveg eins víst að hún taki gildi fyrr en síðar með einhverjum hætti og enn ljósara að litlar líkur eru á því að þau vinnubrögð sem notuð verða til þess verði lýðræðisleg.

Vaxtarverkir unglings?
Nái stjórnarskrá Evrópusambandsins sem slík fram að ganga mun hún klárlega verða hornsteinninn í því evrópska stórríki sem marga Evrópusambandssinna dreymir um. Það þarf ekki annað en að lesa upphafskafla hennar til gera sér grein fyrir því hvert stefnt er. Spurningin er bara hvort forystumenn Evrópusamtakanna dreymir sama draum. Formaður samtakanna sagði í grein í Morgunblaðinu 28. júní sl. [2005] að líkja mætti þeirri pólitísku krísu sem Evrópusambandið stæði frammi fyrir í dag við vaxtarverki unglings sem væri „að breytast í fullorðna manneskju.“ Maður spyr sig því óneitanlega að því í hvað sambandið eigi nákvæmlega að breytast að mati formannsins? Eitt ríki kannski? Það er allavega vandséð að Evrópusambandið geti tekið aðra stefnu verði mikið meiri samruni innan þess en orðinn er. Sambandið er í dag a.m.k. miklu nær því að vera einhvers konar sambandsríki en nokkurn tímann alþjóðastofnun. Og nái stjórnarskráin fram að ganga er alveg ljóst að þar með verður Evrópusambandið orðið að ríki enda mun tilkoma hennar þýða að sambandið verður komið með svo að segja öll einkenni ríkis samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum. Er þetta það sem formaður Evrópusamtakanna á við með þeirri fullorðnu manneskju sem hann sér fyrir sér að Evrópusambandið breytist í?

Sambandsríkissinnar
Að þessu sögðu verður að teljast afar ólíklegt að Evrópusamtökin séu þeirrar skoðunar að þróun Evrópusambandsins hafi gengið of langt. Raunar verða orð formanns samtakanna ekki skilin öðruvísi en svo að hann telji að þróun sambandsins sé einmitt komin of skammt á veg. Spurningin er bara hvernig Evrópusamtökin sjái fyrir sér þróun Evrópusambandsins í framtíðinni eins og áður segir. Í ljósi ummæla formanns samtakanna, sem og veru þeirra í regnhlífarsamtökum evrópskra sambandsríkissinna, liggur beinast við að draga þá ályktun að Evrópusamtökin séu samtök þeirra Íslendinga sem vilji sjá Evrópusambandið breytast í sambandsríki og Ísland verða hluta af því. Ég leyfi mér hins vegar að efast stórlega um að meirihluti landsmanna sé tilbúinn að skrifa upp á þá ömurlegu framtíðarsýn.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is

(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 8. september 2005. Því má bæta við að engin svör hafa enn borizt frá Evrópusamtökunum við þeim spurningum sem fram koma í greininni.)


Hvers vegna þarf að blekkja?

Það er svona allajafna ekki til marks um að menn hafi góðan málstað að verja ef þeir velja að beita blekkingum til að reyna að fá fólk á sitt band. Sérstaklega ef það gerist trekk í trekk. Ég geri fastlega ráð fyrir því að þeir sem styðja þá hugmynd að Ísland gangi í Evrópusambandið vilji meina að þeir tali fyrir góðum málstað, þ.m.t. þeir sem stillt hafa sér upp sem sérstökum talsmönnum þeirra sjónarmiða s.s. forystumenn Evrópusamtakanna. En hvers vegna þarf þá að reyna að blekkja fólk?

Tökum dæmi. Þann 4. ágúst á síðasta ári héldu Evrópusamtökin fund um reynslu Möltu af aðild sinni að Evrópusambandinu. Framsögumaður var maður að nafni dr. Roderick Pace og var hann kynntur til sögunnar í auglýsingu Evrópusamtakanna sem einn helzti sérfræðingur Möltu í samskiptum við Evrópusambandið og ráðgjafi maltnesku ríkisstjórnarinnar í samningunum um aðild þeirra að því. Auk þess sagði að dr. Pace væri forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Möltu. Hann væri með MA gráðu í alþjóðasamskiptum og Evrópufræðum frá Bologna Center við John Hopkins háskóla í Bandaríkjunum og doktorspróf frá Reading háskóla á Bretlandi. Að lokum að hann hafi skrifað tvær bækur um samskipti Möltu við Evrópusambandið og fjölmargar greinar í virt fræðirit um ýmis alþjóðamál.

M.ö.o. var augljóslega þarna á ferðinni velmenntaður fræðimaður sem væntanlega vissi hvað hann væri að tala um. Eða það var allavega það sem Evrópusamtökin vildu að fólk, sem ekki veit betur af einhverjum ástæðum, héldi. Samtökin "gleymdu" nefnilega að greina frá einu atriði varðandi feril dr. Pace sem kannski er það mikilvægasta í þessu sambandi. Svo vill nefnilega til að hann er forseti Evrópusamtakanna á Möltu (European Movement Malta) og þar með ekki hlutlausari í umfjöllun sinni um Evrópumál en kollegi hans hér á Íslandi, Andrés Pétursson. Já, eða bara ég ef út í það er farið. En af einhverjum ástæðum sáu Evrópusamtökin íslenzku enga ástæðu til að upplýsa fólk um þessa pólitísku aðkomu dr. Pace. Hvers vegna ekki?

Nú kann einhver að segja að þetta hafi kannski bara verið einsdæmi en svo er þó alls ekki. Það má eiginlega frekar segja að um reglu sé að ræða en hitt. Þann 18. marz á síðasta ári héldu Evrópusamtökin annan fund með erlendum fyrirlesara. Að þessu sinni var það tyrkneskur maður að nafni dr. Halûk Günugür sem fjallaði um Evrópusambandið og Tyrkland. Í auglýsingu Evrópusamtakanna kom fram að dr. Günugür væri lögfræðingur að mennt og að hann hefði doktorspróf frá háskólanum í Aix-en-Province í Frakklandi í Evrópurétti. Hann væri nú yfirmaður Alþjóðasamskiptadeildar Háskólans í Izmir. Hann hefði um áratugaskeið verið einn helsti sérfræðingur Tyrkja í samskiptum við Evrópusambandið og verið ráðgjafi tyrknesku ríkisstjórnarinnar í samningum við sambandið. Að lokum sagði að dr. Günugür væri frábær ræðumaður og mikill áhugamaður um aukin tengsl Tyrklands og Evrópu (þ.e. Evrópusambandsins).

Ekki þarf að koma á óvart að dr. Günugür sé mikill áhugamaður um að auka tengslin á milli Tyrklands og Evrópusambandsins í ljósi þess að hann er, líkt og áðurnefndur dr. Roderick Pace, forseti Evrópusamtakanna í heimalandi sínu (European Movement Turkey). En sem fyrr sáu Evrópusamtökin hér á landi litla ástæðu til að vera að taka það fram að svo væri. Hvers vegna ekki?

Þetta er síðan í fullkomnu samræmi við það þegar ýmsir forystumenn íslenzkra Evrópusambandssinna koma í fjölmiðla undir því yfirskini að þeir séu einungis að nálgast málin út frá fræðilegum forsendum þegar þeir eru í raun meira eða minna að reka áróður fyrir Evrópusambandsaðild. Þannig er treyst á að fólk, sem nennir ekki sjálft að setja sig af einhverju ráði inn í Evrópumálin, líti svo á að þessi eða hinn stjórnmálafræðingurinn hljóti að vera hlutlaus og vel að sér um málin fyrst hann er titlaður sem fræðimaður í fjölmiðlum.

Og áfram. Þann 14. desember 2004 birtist frétt á heimasíðu Evrópusamtakanna þar sem því var haldið fram að það væri orðum ofaukið að Evrópusambandið væri reglugerðabákn (sem er merkilegt sjónarmið þegar jafnvel forystumenn sambandsins sjá sér ekki lengur fært að neita þeirri staðreynd). Þetta byggðu samtökin á brezkri rannsókn sem sögð var hafa verið gerð af sjálfstæðri rannsóknarstofnun. Þegar málið var kannað kom í ljós að þessi svokallaða "sjálfstæða rannsóknarstofnun" var Evrópusamtökin í Bretlandi (European Movement UK).

Nú, 80% vitleysan er enn eitt dæmið. Hvernig datt mönnum eins og Eiríki Bergmanni Einarssyni og Baldri Þórhallssyni aí hug að halda því fram að við værum að taka upp um 80% af lagagerðum Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn þegar þessir menn eiga að heita sérstaklega menntaðir í Evrópufræðum? Svo þegar upplýst var af skrifstofu EFTA í Brussel að þetta væru aðeins 6,5% þá voru fyrstu viðbrögðin að segja að þetta væri eitthvað sem Halldór Ásgrímsson hefði haldið fram. Allt honum að kenna. Hvers vegna könnuðu þessir menn ekki málin betur eins og fræðimenn eiga að gera í stað þess að éta upp einhverja fáránlega fullyrðingu eftir stjórnmálamanni? Kannski vegna þess að fullyrðingin hentaði þeirra eigin pólitísku skoðunum og þeir vonuðu að enginn myndi sjá ástæðu til að kanna hið rétta í málinu?

Og svona mætti halda lengi áfram. T.d. bullið um að EES-samningurinn væri að veikjast þó aldrei hafi verið hægt að sýna fram á að svo væri. Því héldu bæði Evrópusambandssinnaðir stjórnmálamenn og fræðimenn fram jöfnum höndum um árabil. Fáir hafa þó sennilega haldið þessu meira fram en nú fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson. En þetta heyrir maður núorðið varla lengur því þessir aðilar hafa aldrei getað tilgreint nein veikleikamerki á samningnum þrátt fyrir margítrekaðar óskir um það. Framsóknarflokkurinn ályktaði meira að segja á flokksþingi sínu á dögunum að samningurinn hentaði Íslendingum vel og að ekkert benti til annars en að svo yrði áfram. Um leið og flokkurinn var laus við Halldór.

Svo aftur sé spurt: Ef Evrópusambandssinnar telja sig hafa góðan málstað að verja, hvers vegna þá þessar blekkingar?

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


Spennandi kosningar framundan

Komandi kosningar gætu orðið mjög spennandi. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig fylgi stjórnmálaflokkanna mun þróast eftir því sem nær dregur kosningunum. Framsókn teflir fram nýjum formanni sem á eftir að sýna hvað í honum býr - eða býr ekki. Það á eftir að koma í ljós hvort ný forysta flokksins á eftir að höfða frekar til kjósenda en sú gamla. Hvað sem öðru líður verður allavega seint sagt að Halldór Ásgrímsson hafi haft mikinn kjörþokka þannig allt er mögulegt þó ekki nema fyrir það að honum hafi verið skipt út. Svo verður jú alltaf að gera ráð fyrir þeim möguleika að Framsókn taki góðan endasprett rétt fyrir kosningar eins og gjarnan hefur verið raunin.

Samfylkingin hefur náð nýjum lægðum í fylgi samkvæmt skoðanakönnun Gallups sem birt var á föstudaginn og er nú í aðeins 22% fylgi. Það þarf að fara aftur í apríl 2002 til að finna jafn slaka útkomu hjá flokknum í könnunum fyrirtækisins. Það var greinilega hræðilegt axarskaft hjá samfylkingarfólki að skipta Össuri Skarphéðinssyni út fyrir Ingibjörgu Sólrúnu. Ingibjörg átti að auka stórlega fylgi Samfylkingarinnar, en hefur þess í stað sennilega skaðað flokkinn meira en nokkur annar. Allt getur þó vitanlega enn gerzt í þeim efnum eins og öðru en það ber að hafa í huga að Samfylkingin hefur haft tilhneigingu til að hegða sér hliðstætt og Sjálfstæðisflokkurinn, þ.e. að fá nokkuð minna í kosningum en í skoðanakönnunum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú verið með fylgi um og yfir 40% síðan í september á síðasta ári. Mest hefur fylgið farið í 44% en gjarnan verið í 42-43%. Það verður fróðlegt að sjá hvort þessi þróun helst áfram fram að kosningum og vona ég svo sannarlega að sú verði raunin.

Vinstri-grænir hafa tilhneigingu til að toppa á vitlausum tímum í skoðanakönnunum. Mælast gjarnan með mikið fylgi á miðju kjörtímabili eða allt þar til kosningabaráttan fer í gang og enda svo í fáeinum prósentum. Að mínu mati eiga Vinstri-grænir og Samfylkingin við andstæð vandamál að stríða. Vinstri-grænir hafa nokkuð skýra stefnu á flestum sviðum (allavega miðað við Samfylkinguna) og þeir hafa sömuleiðis ágætan leiðtoga. Samfylkinguna skortir hins vegar bæði. Stefnan er út og suður, ef hún er þá einhver, og leiðtogaskorturinn er vægast sagt tilfinnanlegur sem og viðvarandi.

Vandi Vinstri-grænna er að stefna þeirra er í flestum tilfellum jaðarstefna sem gera má ráð fyrir að höfði nær eingöngu til þröngs hóps á vinstri væng stjórnmálanna. Stefna þeirra mun sennilega seint höfða til fjöldans nema þá kannski ef allt færi bókstaflega norður og niður í efnahagsmálum og helmingur þjóðarinnar yrði atvinnulaus eða eitthvað þvíumlíkt. Líkt og gerðist í Þýzkalandi í byrjun fjórða áratugar síðustu aldar. Við einhverjar slíkar aðstæður ná öfgafullar jaðarstefnur helzt árangri. Það veltur þó vitaskuld allt á vinstri-grænum hvernig þeir halda á málum hvernig fylgi þeirra þróast á næstu mánuðum.

Ég spái því annars að lokum Frjálslyndi flokkurinn nái inn í mesta lagi tveimur mönnum og jafnvel bara einum - ef einhverjum. Það er þó vissulega full snemmt að segja mikið til um það á þessari stundu. Helzti dragbítur flokksins er að mínu mati sá að hann hefur alls enga sérstöðu og er enn að reyna að festa sig í sessi í íslenzkum stjórnmálum. Hver er t.d. munurinn á frjálslyndum og Samfylkingunni? Nákvæmlega! Hinn helzti dragbíturinn er aftur bezti vinur íhaldsins, Magnús Þór Hafsteinsson.

Þetta verður án efa fróðlegur vetur og fróðlegar kosningar næsta vor. Ég hlakka til!

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


Mánudagspósturinn 21. ágúst 2006

Ofbeldisfull mótmæli nokkurra andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar undanfarna daga fær mann til að velta fyrir sér hvernig fámennur hópur öfgamanna getur komið óorði á mun stærri hóp hófsamra einstaklinga. Ég er viss um að flestir íslenzkir umhverfisverndarsinnar geta engan veginn fallizt á þær ofbeldisfullu aðferðir sem öfgamennirnir fyrir austan beita þessa dagana. Ekki kannski sízt vegna þess að það er gefið mál að margir muni líta á ofbeldismennina sem dæmigerða umhverfisverndarsinna og andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar sem þeir eru þó alls ekki að mínu mati - eða það vona ég allavega ekki með þeirra eigin hagsmuni fyrst og fremst í huga.

Staðreyndin er einfaldlega sú að öfgar skila aldrei neinu. Það er sama hvaða mál er annars vegar í því sambandi. Ofbeldismennirnir fyrir austan munu ekki ná neinum árangri með aðgerðum sínum öðrum en að skemma enn frekar þá ímynd sem umhverfisverndarsinnar hafa hér á landi. Þessi ofbeldisverk höfða án efa ekki nema í bezta falli til þröngs hóps á vinstrivængnum sem tilbúinn er að samþykkja slíka öfga og skemmdarverk - og þegar hefur verið sannfærður.

Það vantar þó ekki að ófáir forystumenn íslenzkra vinstrimanna stígi fram á sviðið og mótmæli því sem þeir kalla aðför að tjáningarfrelsi ofbeldismannanna. Bæði vinstri-grænir og Samfylkingin sáu ástæðu til að álykta sérstaklega í þá veru. Samfylkingin sá sér vitaskuld ekki annað fært en að fylgja í kjölfar vinstri-grænna í þeim efnum, enda hefur forysta Samfylkingarinnar tekið þann pól í hæðina undir það síðasta að líta á vinstri-græna sem sinn höfuð andstæðing og samkeppnisaðila.

Stefán Pálsson, arftaki titilsins mótmælandi Íslands, var spurður að því í Blaðinu sl. föstudag hvort hann teldi virkjanaframkvæmdir nýtt hernám (þegar herinn verður farinn þurfa herstöðvaandstæðingar vitaskuld að finna sér nýtt áhugamál). Stefán svaraði: "Ég ætla nú ekkert að segja um það, en það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir alla sem taka þátt í pólitískri baráttu þegar verið er að brjóta á rétti fólks til að mótmæla og funda."

Það er nefnilega það. Hvorki Stefán, félagar hans í Vinstrihreyfingunni - grænu framboði né Samfylkingin hafa hins vegar áhyggjur af rétti fólks til að sinna atvinnu sinni í friði eða rétti fólks til að þurfa ekki að þola það að eignir þeirra séu skemmdar eða slegið sé upp tjaldbúðum á þeim án þess að fá til þess leyfi fyrst. Vinstrimenn hafa að vísu aldrei verið miklir áhugamenn um eignarréttinn minnugir orða guðföður síns, Karls Marx, um að eign sé þjófnaður.

Staðreyndin er einfaldlega sú að það er enginn að banna einum eða neinum að mótmæla ef það er gert á friðsamlegan hátt og í samræmi við leikreglur lýðræðisins. En um leið og farið er út á brautir ofbeldis og skemmdarverka eru menn komnir langt yfir strikið og á það er ekki hægt að fallast þó vinstri-grænir og Samfylkingin telji það vera í góðu lagi.

Það er einfaldlega ekki hægt að fallast á það að ekkert sé gert í því ákveði einhverjir aðilar að víkja til hliðar lýðræðislegum leikreglum vegna þess að þeir telji sig ekki ná nægilegum árangri með því að fylgja þeim og velji þess í stað að beita ofbeldi og skemmdarverkum. Ef menn fara út fyrir strikið verða þeir einfaldlega að taka afleiðingum gerða sinna sama hvað íslenzkir vinstrimenn segja.

En vinstrimenn hafa að vísu heldur aldrei verið neinir sérstakir áhugamenn um að fólk beri ábyrgð á eigin lífi og gerðum...

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


Gullkornið á sunnudegi

"Abortion is advocated only by persons who have themselves been born."

Ronald Reagan


Virka mótmæli?

Nú eru margir á þeirri skoðun að grasrótarhreyfingar og mótmæli séu hluti af almennri stjórnmálaþátttöku manna. Þessi atriði kunna ef til vill að vera óhefðbundin stjórnmálaþátttaka en þátttaka er hún engu að síður.

Ég tel að mótmæli virki best þar sem ekki eru lýðræðisríki eða ,,frjáls” ríki. Það kann ef til vill að hljóma þversagnarkennt þar sem flest mótmæli í ólýðræðisríkjum eru kæfð niður með vopnavaldi. Hins vegar tel ég að ef mótmælendurnir eru nógu þrautseigir þá nái þeir árangri.

Frakkar þurftu að berjast með blóði fyrir lýðræði árið 1789, Bandaríkjamenn sömuleiðis nokkrum árum áður. Þar var fólk að berjast fyrir réttinum til að fá á annað borð að mótmæla, það er að segja, lýðræði, skoðana- og tjáningafrelsi. Annað gott dæmi er réttindabarátta blökkumanna í Bandaríkjunum. Þó svo að Bandaríkin hafi á þessum tíma verið lýðræðisríki voru annmarkar á lýðræðinu og því takmörk sett. Flestir myndu vera sammála um að takmörkun blökkumanna að sama líferni og annarra hafi verið mannréttindabrot og stór brotalöm á lýðræðinu.

En þá að mótmælum í frjálsum vestrænum ríkjum. Þau mótmæli eru oftast nær, fullyrði ég, skipulög af annað hvort sérhagsmuna hópum eða stjórnarandstöðu viðkomandi landa.

Tökum bara Ísland sem dæmi. Hver eru helstu mótmælin og hverjir standa fyrir þeim? Verkalýðsfélög og ASÍ, stjórnarandstöðuflokkarnir, Öryrkjabandalag Íslands, Félag eldri borgara, Samtök herstöðvarandstæðinga og svo framvegis. Nú má ekki skilja það sem svo að hér sé gert lítið úr mótmælum og hvað þá fyrrnefndum félögum, langt því frá. Ég er aðeins að benda á það að það er ekki verið að berjast fyrir ,,nauðsynlegum umbótum” á mannréttindum eða lýðræði. Það getur ekki hvaða félag sem er sagt að sinn málstaður sé spurning um mannréttindi. Ég get ekki samþykkt það að bættari launakjör séu mannréttindi. Þau eru einfaldlega samningsatriði milli þess sem greiðir og þess sem þiggur launin.

Það er nú ekki hægt annað, þegar á annað borð er talað um mótmæli, að velta fyrir sér vitleysisganginum á Austurlandi þessa dagana. Helsta markmið þeirra sem telja sig vera að mótmæla einhverju er að ,,vekja athygli á málstað sínum.” Það gera þeir með því að ráðast inn á skrifstofur fyrirtækja og halda fólki þar í gíslingu (skilja svo reyndar ekkert í því að starfsmenn skuli reyna að henda þeim út), ráðast inn á lokuð vinnusvæði þar sem strangar öryggiskröfur eru við lýði, tefja vinnu og valda fjárhagslegur tjóni.

Slík háttsemi er auðvitað með öllu fáránleg og óásættanleg. Hún gefur mótmælum slæmt orð og er komin langt út fyrir það sem kallast venjuleg mótmæli. Hegðun þessa hóps mun engann árangur bera. Nú hafa menn að sjálfsögðu rétt á að hafa skoðanir, hvort sem þær eru að vera með eða á móti virkjunarframkvæmdum, en ákvörðunin hefur verið tekin í fullvalda ríki með lýðræðislega kjörna stjórn að fara út í þessar framkvæmdir og þær verða ekki stöðvaðar þó að hópur manna sem hafa greinilega ekkert annað að gera með líf sitt eyði sumrinu í tjaldi og framkvæmi skemmdarverk.

Gísli Freyr Valdórsson


Um ofurlaun og samfélagslega ábyrgð

Tekjur, bæði háar og lágar, hafa verið mikið í umræðunni síðustu daga. Umræðan er að mestu leyti á þann veg að hér á landi sé hópur manna með allt of háar tekjur og oftar en ekki er talað um að þær séu ,,úr takt við raunveruleikann” eins og allir séu með á hreinu hver raunveruleikinn sé í þessum málum. Meira að segja Morgunblaðið tekur undir þessar raddir í leiðara sínum í dag þar sem tekið er undir sjónarmið varaforseta ASÍ um að í gamla daga hafi hálaunamenn unnið sveittir fyrir launun sínum ólíkt því sem nú gerist. Tekið er þar dæmi af þeim merka manni, Þorvaldi í Síld og Fisk.

Það er tvennt sem hér er vert að fjalla um tengt þessu. Í fyrsta lagi er auðvitað sá fáránlegi siður að á Íslandi fá allir að skoða álagningarskrár náungans og í öðru lagi umræðan um þessi laun sem oftast er á lágu plani. Nú vil ég taka fram að mér finnst 22 milljónir í mánaðarlaun mjög mikill peningur (eins og öllum öðrum) en slíkar upphæðir eru líklega einsdæmi um tekjur manna hér á landi.

Birting álagningarseðla

Það hefur einnig mikið verið fjallað um birtingu álagninarseðla. Aðeins einn alþingismaður, Sigurður Kári Kristjánsson, hefur beitt sér af einhverju viti fyrir því að slíkri birtingu verði hætt. Birting þeirra er þó oftast vörð með kjafti og klóm með alls kyns vitleysis rökum. Meðal annars því að þetta auki gegnsæi í landinu, sýni tölur um launamun kynjanna og svo frv. Sigurður Kári bendir einnig réttilega á að forsendur slíkra birtinga (sem settar voru í lög árið 1921) eru löngu brostnar eftir að kæruheimild einstaklinga til skattstjóra voru afnumdar árið 1962.

Birting álagningarskráanna hefur ekkert með gegnsæi að gera. Þær eru bara til þess valdar að fullnægja hnýsni í fólki og gera það oft að verkum að fólk verður fyrir aðkasti eftir slíka birtingu, þá vegna of háa launa eða of lága ef einhver telur svo vera. Fyrir utan það er vert að hafa í huga að um 10-15% allra skattgreiðenda biðja um einhvers konar leiðréttingu á álagningarseðlum sínum þannig að upplýsingarnar sem þarna eru birtar eru auðvitað ekki allar réttar. Tímaritið Frjáls Verslun birtir slíkar upplýsingar af gróðavoninni einni saman en tekur ekkert tillit til annara þátta.

Morgunblaðið og ríkisafskipti

En þá að ofurlaunum. Eins og fyrr sagði þá gerir fólk mikið mál úr þeim upplýsingum sem koma fram í fjölmiðlum eftir að álagningarskrár hafa verið birtar. Einhverra hluta vegna þurfa stjórnarmenn fyrirtækja að verja þá stefnu sína að vilja greiða stjórnendum sínum háar tekjur. Verkalýðsforingjar og jafnvel stjórnmálamenn hoppa hæð sína af hneykslun og reiði yfir þessum fréttum. Allt í einu er það orðið ósiðlegt að fyrirtæki í einkarekstri borgi háar tekjur.

Eins og fyrr hefur komið fram tekur Morgunblaðið undir raddir verkalýðshreyfingarinnar í þessum málum. Í leiðara blaðsins í dag segir skort á gagnrýni á þessar tekjur, ,,Verkalýðshreyfingin hefur þagað þunnu hljóði. Stjórnmálaflokkar, sem kenna sig við jafnaðarmennsku, hafa þagað þunnu hljóði. Og með því að segja það er ekki gert lítið úr ábyrgð þeirra, sem hafa með athöfnum og athafnaleysi gert stórfyrirtækjum kleift að fara sínu fram, en það eru að sjálfsögðu núverandi stjórnarflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur.”

Og síðar segir leiðarinn, ,,Nú verður fróðlegt að sjá hver viðbrögðin verða. Verkalýðshreyfingin hefur bolmagn til þess að taka þetta mál upp. Ríkisstjórninni ber skylda til að taka þetta upp og höfuðábyrgðin á að koma böndum á þessa þróun liggur hjá Alþingi.
Hafa þessir aðilar kjark og dug til að taka til hendi? Það kemur í ljós en þeir hinir sömu mættu gjarnan minnast þess, að það eru kosningar til þings í vor.”

Þar höfum við það, Morgunblaðið er orðinn stærsti talsmaður ríkisafskipta á Íslandi. Morgunblaðið vill að ríkisstjórnin og Alþingi setji lög sem ,,koma böndum á þessa þróun”. Hvernig lög vill Morgunblaðið sjá? Á Alþingi að setja lög sem banna fjármálafyrirtækjum að greiða meira en X mikla upphæð á mánuði? Á ríkið að setja lög sem taka tekjur af þessum mönnum? Hvað yrði þá réttlæt upphæð, er Morgunblaðið með einhverja sérstaka tölu í huga? Eru 5 milljónir skárra en 20 milljónir? Og ef svo er, á hverju byggist það? Hefur Morgunblaðið í samvinnu við Verkalýðshreyfingarnar hugsað sér upp sérstaka tölu fyrir þá sem reka eða stjórna fyrirtækjum.? Á slíkt að ná bara yfir fjármálafyrirtæki eða öll fyrirtæki?

Og annað. Hvað meinar Morgunblaðið með því að verkalýðshreyfingin hafi ,,bolmagn til þess að taka þetta mál upp.” Er verkalýðshreyfingin á Íslandi ekki búin að gera nógu mikinn skaða nú þegar? Þeim hefur tekist að koma í veg fyrir skattalækkanir á alla launþega með frekju og yfirgangi og hótun um ofbeldi. Á verkalýðshreyfingin líka að stjórna þessu? Á verkalýðshreyfingin að hafa ,,bolmagn” til að geta tekið upp hvaða mál sem er, hvenær sem er og ná sínu fram, bara ef það er nógu pólitískt?

Ummæli verkalýðsforingja

Nei, umræðan um þessi mál er á villigötum. Hinn mæti og annars ágæti maður, Kristján Gunnarsson formaður Starfsgreinasambands Íslands, blindast af kratanum (Kristján var í framboði fyrir Alþýðuflokkinn þegar ég var að alast upp í Keflavík) í sjálfum sér þegar hann tjáir sig í Morgunblaðinu í dag. Hann segir, ,,Ég kalla eftir samfélagslegri ábyrgð KB-banka. Hvernig ætli samningarnir við ræstingafólkið í bankanum séu? Eru sömu gildin í gangi þegar það er samið við það fólk eins og ofurforstjórana?”
Ný spyr ég Kristján, hversu bættari er ræstingakonan í KB-banka (sem ég vona að hafi sæmileg laun) af því að laun forstjórans verði lækkuð? Græðir hún eitthvað á því? Önnur spurning er, ber hún jafn mikla ábyrgð á rekstri fyrirtækisins eins og ,,ofurforstjórinn”? Ef að hann stendur sig ekki í starfi þá hefur hún líklega ekkert starf. Gleymum því ekki.

Pétur Sigurðsson formaður Verkalýðsfélags Vestfjarða lætur hafa eftir sér orð í anda Marx í Morgunblaðinu, ,,Það er greinilegt að við erum ekki að búa til þjóðfélag jafnaðar með þessari þróun.” Bíddu við, það er búið að reyna að búa til þjóðfélag jafnaðar, það var reynt í Sovétríkjunum sálugu og tókst nú ekki betur en svo að um 50 milljónir manna dóu úr hungri. Enn eru austantjaldsríkin að reyna að rífa sig upp úr áhrifum kommúnistmans og eiga enn langt í land. Pétur heldur síðan áfram og gagnrýnir stefnu stjórnvalda um að hafa lága skatta á fyrirtækjum, gagnrýnir almenningshlutafélög eins og þau leggja sig með þeim orðum að allt í einu átti ,,almúginn ekki neitt.”
Þá væri gaman að biðja Pétur að rifja upp fjárhagslegt ástand þjóðarinnar fyrir 1991. Vill hann kannski fara aftur til þess tíma. Telur hann að fyrirtæki eins og bankarnir, Síminn og fleiri séu betur farin í höndum hins opinbera en einkaaðila.

En allir þessi verkalýðsleiðtogar með Morgunblaðið hika ekki við að nota þessi fleygu orð, ,,þetta er úr takt við samfélagið” eða ,,úr öllu samhengi”. Hver gefur þeim rétt til þess að skilgreina hvernig samfélagið á að virka? Ég spyr aftur, hversu bættari væri samfélagið ef launin yrðu minnkuð á þá menn sem hafa fyrrnefndar tölur í tekjur? Við vitum öll að það er ekki hægt að jafna út öll laun þannig að allir séu með jafn mikið. Slíkt fyrirkomulag virkar ekki. Það er auðvelt að standa fyrir utan og gagnrýna. Það er auðvitað alveg rétt að slíkar tölur valda óróa í samfélaginu. En er það ekki bara af því að hlutirnir eru að breytast mjög hratt. Tekjur Thors fjölskyldunnar ollu líka óróa á sínum tíma. Það eru alltaf til þeir sem öfundast og skammast yfir velgengni annara. Í stað þess að hoppa á vagninn taka þeir þátt í neikvæðninni.

Það ætti hver að líta í eigin barm og fara vel með það sem hann hefur. Það skaðar engann þó að örfáir menn hafi einhverjar ofurtekjur (ef menn vilja þannig að orði komast) ef að almennt ríkir hagsæld í landinu. Kannski vill Morgunblaðið koma núverandi stjórnmálaflokkum frá og taka upp sósíalískt kerfi? Kannski vill blaðið stöðva þá hagsæld sem hefur verið á Íslandi s.l. ár? Stjórnarmenn stórfyrirtækja eiga ekki að þurfa að verja launagreiðslur til stjórnenda fyrirtækjanna. Hluthafar geta ,,kosið” með aðgerðum, s.s. selt hlutabréf sín í þeim eða tekið viðskipt sín annað. Morgunblaðið ætti ekki að kalla á ríkisafskipti. Það er nóg af þeim fyrir.

Að lokum, af hverju spurði Morgunblaðið forsvarsmenn verkalýðshreyfinganna ekki um margföld laun sín miðað við þá launþega sem þeir semja fyrir? Hvað ætli réttlæti það? Er það í takt við ,,samfélagið?”

Gísli Freyr Valdórsson

Styttri útgáfa af greininni birtist í Morgunblaðinu 10.ágúst 2006.


Gráðugu geiturnar

Evrópubúar eiga sér guð. Hann heitir ,,hið opinbera". Ríki og bær sinna okkur frá vöggu til grafar. Við sækjum opinbera skóla, leggjumst inn á sjúkrahús ríkisins, þiggjum atvinnuleysisbætur, vaxtabætur, barnabætur og hvað það nú heitir allt saman. Við treystum því að stjórnvöld hjálpi þeim sem minna mega sín, sjái um þróunaraðstoð, fylgist með hlýnun jarðar, segi okkur veðurfréttir, kenni börnum okkar á hljóðfæri og útvegi okkur atvinnu (gefðu mér álver), sjái um fjárveitingar til menninga, lista, íþrótta og tómstunda og ég veit ekki hvað.

Ég held að ein af mörgum afleiðingum þessarar tilbeiðslu okkar á ,,stóra bróður" sé sú að margir geri lítið til að hjálpa t.d fátækum, sjúkum og öðrum slíkum. Af hverju segi ég það? Jú, það er innprenntað í okkur frá blautu barnsbeini að þeir sem minna megi sín, eða þurfi á einhverskonar aðstoð að halda, eigi að vera sinnt af ,,hinu opinbera". ,,Ríkið" á að hjálpa þeim. Afleiðingin er sú að einstaklingum finnst það frekar en ella vera vandamál einhvers annars en þeirra sjálfra að aðstoða.

Þessari kenningu minni til stuðnings bendi ég hér á þá staðreynd að almenningur í Bandaríkjunum, þar sem ríkið hefur tekið að sér miklu færri ,,velferðarverkefni" en stjórnmvöld í Evrópu, gefur 15 falt meira í þróunaraðstoð til þriðja heims landa en almenningur búsettur í Evrópu. Ath: FIMMTÁN DOLLARAR FRÁ BANDARÍKJUNUM Á MÓTI EINUM FRÁ EVRÓPU!

Ég legg til að framlög einstaklinga til mannúðarmála (og hér er ég ekki einungis að tala um þróunaraðstoð, heldur um hvaðeina annað, sem talist getur gott málefni) verði gerð frádráttarbær frá skatti. Það gæti hjálpað til við að virkja hinn ,,óobinbera" almenning til dáða, og losað hann undan slæmum áhrifum ,,uppeldisins".

Sindri Guðjónsson


Verður Evrópa íslömsk?

Verður Evrópa íslömsk innan fárra áratuga og jafnvel skemmri tíma en það? Mörgum þykja vægast sagt miklar blikur á lofti í því sambandi í ljósi þróunar undanfarinna ára. Í dag munu tugir milljóna múslima búa í Vestur-Evrópu og þeim fer sífellt fjölgandi, bæði vegna þess að þeir eignast að meðaltali mun fleiri börn en innfæddir Evrópumenn og vegna þess að sífellt fleiri múslimar kjósa að setjast að í Evrópulöndum með samþykki viðkomandi stjórnvalda án þess að allajafna séu gerðar sérstakar kröfur til þeirra um aðlögun. Á sama tíma fækkar innfæddum í mörgum ríkjum Vestur-Evrópu þar sem fæðingar halda ekki í við tölu látinna. Við þetta bætist síðan að sívaxandi fjöldi innfæddra Evrópumanna kýs að flytja frá heimalöndum sínum, einkum vegna vaxandi glæpatíðni og almennrar óánægju með þá þjóðfélagsþróun sem getið er að framan.

Fyrir fáum árum síðan þótti ýmsum það vera til marks um hreint ofsóknaræði, heimsku og jafnvel rasisma að tala um að múslimar kynnu innan ekki svo langs tíma að verða meirihluti íbúa ýmissa Evrópuríkja (íslam hefur vitaskuld ekkert með kynþætti að gera frekar en kristni). En þeim fjölgar án efa stöðugt sem telja þá þróun vel mögulega og rúmlega það sem er kannski ekki að furða þegar evrópskir ráðamenn eru farnir að ganga út frá því sem gefnum hlut að þróunin verði með þessum hætti. Þannig gerðist það t.a.m. fyrir ekki alls löngu að jafnaðarmaðurinn Jens Orback, ráðherra lýðræðismála í sænsku ríkisstjórninni, lét þau orð falla í útvarpsviðtali að Svíar yrðu að sýna íslam og múslimum skilning og umburðarlyndi þar sem múslimar myndu gera slíkt hið sama þegar Svíar yrðu orðnir minnihlutahópur í Svíþjóð!

Þarna er sennilega byggt á þeirri sögufölsun að kristnir menn, Gyðingar og aðrir, sem ekki aðhylltust íslam, hafi notið umburðarlyndis í ríkjum múslima fyrr á öldum. Staðreyndin er sú að langur vegur er frá því að svo hafi verið. Þeir voru þvert á móti skilgreindir sem undirmálslið og höfðu réttarstöðu samkvæmt því. Lönd þeirra voru þannig t.a.m. gerð upptæk og þeir urðu að vinna sem ánauðugir leiguliðar múslima, þeir þurftu að borga háa skatta, þeim var ekki heimilt að byggja kirkjur eða bænahús né viðhalda þeim sem fyrir voru, þeir urðu að búa í sérstökum hverfum og klæðast sérstökum fötum sem aðgreindu þá frá öðrum svo eitthvað sé nefnt.

Miklum fjölda kristinna manna var í gegnum aldirnar rænt frá heimalöndum sínum og þeir hnepptir í þrældóm í ríkjum múslima, ekki sízt konum. Ekki einu sinni við Íslendingar fórum varhluta af því samanber Tyrkjaránið svokallað (sem í raun var framið af Márum frá Alsír). Þetta varð til þess að ýmsir kristnir menn tóku þann kostinn að taka upp íslam í von um betri meðferð. Ein afleiðing þess eru múslimarnir í Bosníu í dag sem eru í raun aðeins Serbar sem köstuðu trúnni á meðan Tyrkir réðu Balkanskaganum. Fyrir vikið fengu slíkir trúskiptingar eilítið betri meðhöndlun en voru áfram álitnir undirmálsfólk. Önnur afleiðing þessa voru tíðar uppreisnir kristinna manna og Gyðinga gegn kúgurum sínum.

Þetta gilti víðast hvar í hinum múslimska heimi, hvort sem það var á Balkanskaganum, Norður-Afríku eða á Spáni áður en múslimar voru hraktir þaðan 1492. Nú kann einhver að spyrja að því hvort líklegt sé að komið verði fram við kristna, Gyðinga og aðra sem ekki aðhyllast íslam, með sama hætti ef múslimar verða meirihluti íbúa Evrópuríkja? Það getur vitaskuld enginn sagt fyrir um. Hins vegar lízt manni eðlilegt ekki á það t.a.m. þegar skoðanakönnun í Bretlandi frá því fyrr á þessu ári sýnir að 40% brezkra múslima séu hlynnt því að taka upp Sharia lög íslams á þeim svæðum í Bretlandi þar sem múslimar eru í meirihluta. Helmingur þeirra ef aðeins er miðað við þá sem tóku afstöðu.

Þeir munu sömuleiðis vera ófáir múslimsku trúarleiðtogarnir sem hafa talað fyrir því að þegar múslimar hafi náð undirtökunum í Evrópu verði Sharia lögunum komið þar á og evrópsk ríki þar með gerð íslömsk. Nú þegar eru Sharia lögin í gildi að meira eða minna leyti á afmörkuðum svæðum í Evrópu þar sem múslimar eru fjölmennir, s.s. í úthverfum ýmissa franskra borga. Þar gilda í raun ekki lög viðkomandi lands nema þá að litlu leyti og lögreglan þorir allajafna ekki inn í þau af ótta við afleiðingarnar (samanber óeirðirnar í Frakklandi í nóvember sl.).  Í viðtali við norska dagblaðið Klassekampen fyrr á þessu ári sagði Hege Storhaug, hjá mannréttindahugveitunni Human Rights Service, að hún myndi gjarnan vilja sjá þann múslimska trúarleiðtoga sem segði að Sharia lögin yrðu ekki ráðandi í Noregi ef múslimar kæmust þar í meirihluta. Ýmsir múslimskir trúarleiðtogar hafa sömuleiðis haldið því fram að lýðræðið sé heiðið stjórnfyrirkomulag sem samrýmist ekki íslam og múslimar hvattir til að hunza lýðræðislegar kosningar. T.d. gerðist þetta í tengslum við sveitarstjórnarkosningar í Danmörku s.l. haust.

Eins og ég hef oft sagt er ég sannfærður um að minnihluti múslima í heiminum séu öfgamenn. Hins vegar er það ógnvænlega að öfgamennirnir virðast oftar en ekki hafa gríðarleg ítök og áhrif á meðal þeirra sem hófsamir eru. Líkt og gerðist í Evrópu á miðöldum þegar kaþólska kirkjan gein yfir öllu og lítil aðgreining var á milli hins veraldlega og andlega - rétt eins og víðast hvar í múslímaheiminum í dag. Gott dæmi um þetta er teikningamálið svokallað sem hófst í Danmörku eins og kunnugt er. Múslimskir trúarleiðtogar, einkum í Danmörku, kynntu undir því máli og ekki sízt í ríkjum múslima með tilheyrandi ofbeldisverkum og hatri. Það mál varð raunar til þess að hópur hófsamra múslima gekk fram fyrir skjöldu og sagði trúarleiðtogana ekki vera sína fulltrúa.

Hvað varðar þá spurningu hvort múslimar verði orðnir meirihluti íbúa í einhverjum Evrópuríkjum innan fárra áratuga má vel vera að ýmsir telji það þróun sem ekkert sé við að athuga verði hún að raunveruleika. Það má þó allt eins og ekki síður gera ráð fyrir að mörgum lítist ekki á þá framtíðarsýn. Það er vitaskuld furðulegt að ekki hafi farið fram nein umræða um þetta í Evrópu að kalla megi. Og enn furðulegra að evrópskir ráðamenn eins og Jens Orback skuli tala opinberlega um það að þróunin verði svona eins og málið sé bara frágengið og ekkert við það að athuga. En í ljósi þess félagslega rétttrúnaðar sem einkennt hefur málaflokkinn er þetta vissulega ekkert einkennilegt. Það eru vitaskuld litlar líkur á því að hægt sé að ræða annars hvaða mál sem er, og hvað þá komast að einhverri skynamlegri niðurstöðu, ef aðeins má ræða það frá einni hlið og öðrum ekki.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is

(Myndin með greininni er af forsíðu hins virta brezka tímarits The Spectator frá því í nóvember sl. þar sem fjallað var um þetta mál á sömu nótum og hér er gert.)


Hezbollah hvað?

Það er eiginlega alveg sama hvert er litið – flestir sem eitthvað láta sig varða málefni Ísraels og nágrannaríkja þeirra mótmæla framferði Ísraelsmanna í Líbanon þessa dagana. Heilu þingflokkarnir álykta til um að yfirvöld eigi að mótmæla ,,hörku” Ísraelsmanna.

Ögmundur Jónasson (sem ég held að hati Ísrael eins og þessi grein segir til um) tekur vel í hugmyndir róttæklinga í flokk sínum að Ísland slíti stjórnmálasambandi við Ísrael og sett verði viðskiptabann á landið. Félag eins og Ísland-Palestina mótmæla aðgerðum Ísraelsmanna í Líbanon.

Fjölmiðlar tala um innrás Ísraelsmanna inn í Líbanon hafi byrjað 11. júlí en minnast sjaldan á að hryðjuverkasamtök hafi rænt Ísraelskum hermönnum fyrir það.

BBC talar um að Líbanskir borgarar séu drepnir (e.killed) af Ísraelsmönnum á meðan almenningur í Ísrael lætur lífið (e.die) af völdum flugskeyta Hezbollah.

NFS birtir myndir af látnum börnum í Líbanon en lætur sig litlu skipta af látnum börnum af stríðsvöldum í Ísrael. Kannski skipta þau ekki miklu máli?

Hezbollah skýtur á hverjum degi mörgum tugum flugskeyta á N-Ísrael frá Líbanon. Það er athyglisverð staðreynd að það eru aðallega ísraelskir múslimar sem búa í N-Ísrael og hafa orðið fórnarlömb Hezbollah. Hezbollah hefur drepið marga trúbræður sína síðustu vikur... og þeim er alveg sama.

Enginn minnist hins vegar á Hezbollah. Ögmundi, Steingrími J., Össuri og þeir sem mest hafa tjáð sig um þessi mál virðist vera nokkuð sama um Hezbollah. Kannski að þeir telji samtökin vera saklaus? Þetta er kannski bara allt Bush og Ísrael að kenna?

Það er alltaf auðveldasta niðurstaðan og SJÁLFSKIPAÐIR sérfræðingar í málefnum þessara landa eins og Jón Ormur Halldórsson, telja sig geta sett fram slíkar kenningar án nokkurns rökstuðnings. Meira um þetta síðar.

Gísli Freyr


Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband