Leita í fréttum mbl.is

Um ofurlaun og samfélagslega ábyrgð

Tekjur, bæði háar og lágar, hafa verið mikið í umræðunni síðustu daga. Umræðan er að mestu leyti á þann veg að hér á landi sé hópur manna með allt of háar tekjur og oftar en ekki er talað um að þær séu ,,úr takt við raunveruleikann” eins og allir séu með á hreinu hver raunveruleikinn sé í þessum málum. Meira að segja Morgunblaðið tekur undir þessar raddir í leiðara sínum í dag þar sem tekið er undir sjónarmið varaforseta ASÍ um að í gamla daga hafi hálaunamenn unnið sveittir fyrir launun sínum ólíkt því sem nú gerist. Tekið er þar dæmi af þeim merka manni, Þorvaldi í Síld og Fisk.

Það er tvennt sem hér er vert að fjalla um tengt þessu. Í fyrsta lagi er auðvitað sá fáránlegi siður að á Íslandi fá allir að skoða álagningarskrár náungans og í öðru lagi umræðan um þessi laun sem oftast er á lágu plani. Nú vil ég taka fram að mér finnst 22 milljónir í mánaðarlaun mjög mikill peningur (eins og öllum öðrum) en slíkar upphæðir eru líklega einsdæmi um tekjur manna hér á landi.

Birting álagningarseðla

Það hefur einnig mikið verið fjallað um birtingu álagninarseðla. Aðeins einn alþingismaður, Sigurður Kári Kristjánsson, hefur beitt sér af einhverju viti fyrir því að slíkri birtingu verði hætt. Birting þeirra er þó oftast vörð með kjafti og klóm með alls kyns vitleysis rökum. Meðal annars því að þetta auki gegnsæi í landinu, sýni tölur um launamun kynjanna og svo frv. Sigurður Kári bendir einnig réttilega á að forsendur slíkra birtinga (sem settar voru í lög árið 1921) eru löngu brostnar eftir að kæruheimild einstaklinga til skattstjóra voru afnumdar árið 1962.

Birting álagningarskráanna hefur ekkert með gegnsæi að gera. Þær eru bara til þess valdar að fullnægja hnýsni í fólki og gera það oft að verkum að fólk verður fyrir aðkasti eftir slíka birtingu, þá vegna of háa launa eða of lága ef einhver telur svo vera. Fyrir utan það er vert að hafa í huga að um 10-15% allra skattgreiðenda biðja um einhvers konar leiðréttingu á álagningarseðlum sínum þannig að upplýsingarnar sem þarna eru birtar eru auðvitað ekki allar réttar. Tímaritið Frjáls Verslun birtir slíkar upplýsingar af gróðavoninni einni saman en tekur ekkert tillit til annara þátta.

Morgunblaðið og ríkisafskipti

En þá að ofurlaunum. Eins og fyrr sagði þá gerir fólk mikið mál úr þeim upplýsingum sem koma fram í fjölmiðlum eftir að álagningarskrár hafa verið birtar. Einhverra hluta vegna þurfa stjórnarmenn fyrirtækja að verja þá stefnu sína að vilja greiða stjórnendum sínum háar tekjur. Verkalýðsforingjar og jafnvel stjórnmálamenn hoppa hæð sína af hneykslun og reiði yfir þessum fréttum. Allt í einu er það orðið ósiðlegt að fyrirtæki í einkarekstri borgi háar tekjur.

Eins og fyrr hefur komið fram tekur Morgunblaðið undir raddir verkalýðshreyfingarinnar í þessum málum. Í leiðara blaðsins í dag segir skort á gagnrýni á þessar tekjur, ,,Verkalýðshreyfingin hefur þagað þunnu hljóði. Stjórnmálaflokkar, sem kenna sig við jafnaðarmennsku, hafa þagað þunnu hljóði. Og með því að segja það er ekki gert lítið úr ábyrgð þeirra, sem hafa með athöfnum og athafnaleysi gert stórfyrirtækjum kleift að fara sínu fram, en það eru að sjálfsögðu núverandi stjórnarflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur.”

Og síðar segir leiðarinn, ,,Nú verður fróðlegt að sjá hver viðbrögðin verða. Verkalýðshreyfingin hefur bolmagn til þess að taka þetta mál upp. Ríkisstjórninni ber skylda til að taka þetta upp og höfuðábyrgðin á að koma böndum á þessa þróun liggur hjá Alþingi.
Hafa þessir aðilar kjark og dug til að taka til hendi? Það kemur í ljós en þeir hinir sömu mættu gjarnan minnast þess, að það eru kosningar til þings í vor.”

Þar höfum við það, Morgunblaðið er orðinn stærsti talsmaður ríkisafskipta á Íslandi. Morgunblaðið vill að ríkisstjórnin og Alþingi setji lög sem ,,koma böndum á þessa þróun”. Hvernig lög vill Morgunblaðið sjá? Á Alþingi að setja lög sem banna fjármálafyrirtækjum að greiða meira en X mikla upphæð á mánuði? Á ríkið að setja lög sem taka tekjur af þessum mönnum? Hvað yrði þá réttlæt upphæð, er Morgunblaðið með einhverja sérstaka tölu í huga? Eru 5 milljónir skárra en 20 milljónir? Og ef svo er, á hverju byggist það? Hefur Morgunblaðið í samvinnu við Verkalýðshreyfingarnar hugsað sér upp sérstaka tölu fyrir þá sem reka eða stjórna fyrirtækjum.? Á slíkt að ná bara yfir fjármálafyrirtæki eða öll fyrirtæki?

Og annað. Hvað meinar Morgunblaðið með því að verkalýðshreyfingin hafi ,,bolmagn til þess að taka þetta mál upp.” Er verkalýðshreyfingin á Íslandi ekki búin að gera nógu mikinn skaða nú þegar? Þeim hefur tekist að koma í veg fyrir skattalækkanir á alla launþega með frekju og yfirgangi og hótun um ofbeldi. Á verkalýðshreyfingin líka að stjórna þessu? Á verkalýðshreyfingin að hafa ,,bolmagn” til að geta tekið upp hvaða mál sem er, hvenær sem er og ná sínu fram, bara ef það er nógu pólitískt?

Ummæli verkalýðsforingja

Nei, umræðan um þessi mál er á villigötum. Hinn mæti og annars ágæti maður, Kristján Gunnarsson formaður Starfsgreinasambands Íslands, blindast af kratanum (Kristján var í framboði fyrir Alþýðuflokkinn þegar ég var að alast upp í Keflavík) í sjálfum sér þegar hann tjáir sig í Morgunblaðinu í dag. Hann segir, ,,Ég kalla eftir samfélagslegri ábyrgð KB-banka. Hvernig ætli samningarnir við ræstingafólkið í bankanum séu? Eru sömu gildin í gangi þegar það er samið við það fólk eins og ofurforstjórana?”
Ný spyr ég Kristján, hversu bættari er ræstingakonan í KB-banka (sem ég vona að hafi sæmileg laun) af því að laun forstjórans verði lækkuð? Græðir hún eitthvað á því? Önnur spurning er, ber hún jafn mikla ábyrgð á rekstri fyrirtækisins eins og ,,ofurforstjórinn”? Ef að hann stendur sig ekki í starfi þá hefur hún líklega ekkert starf. Gleymum því ekki.

Pétur Sigurðsson formaður Verkalýðsfélags Vestfjarða lætur hafa eftir sér orð í anda Marx í Morgunblaðinu, ,,Það er greinilegt að við erum ekki að búa til þjóðfélag jafnaðar með þessari þróun.” Bíddu við, það er búið að reyna að búa til þjóðfélag jafnaðar, það var reynt í Sovétríkjunum sálugu og tókst nú ekki betur en svo að um 50 milljónir manna dóu úr hungri. Enn eru austantjaldsríkin að reyna að rífa sig upp úr áhrifum kommúnistmans og eiga enn langt í land. Pétur heldur síðan áfram og gagnrýnir stefnu stjórnvalda um að hafa lága skatta á fyrirtækjum, gagnrýnir almenningshlutafélög eins og þau leggja sig með þeim orðum að allt í einu átti ,,almúginn ekki neitt.”
Þá væri gaman að biðja Pétur að rifja upp fjárhagslegt ástand þjóðarinnar fyrir 1991. Vill hann kannski fara aftur til þess tíma. Telur hann að fyrirtæki eins og bankarnir, Síminn og fleiri séu betur farin í höndum hins opinbera en einkaaðila.

En allir þessi verkalýðsleiðtogar með Morgunblaðið hika ekki við að nota þessi fleygu orð, ,,þetta er úr takt við samfélagið” eða ,,úr öllu samhengi”. Hver gefur þeim rétt til þess að skilgreina hvernig samfélagið á að virka? Ég spyr aftur, hversu bættari væri samfélagið ef launin yrðu minnkuð á þá menn sem hafa fyrrnefndar tölur í tekjur? Við vitum öll að það er ekki hægt að jafna út öll laun þannig að allir séu með jafn mikið. Slíkt fyrirkomulag virkar ekki. Það er auðvelt að standa fyrir utan og gagnrýna. Það er auðvitað alveg rétt að slíkar tölur valda óróa í samfélaginu. En er það ekki bara af því að hlutirnir eru að breytast mjög hratt. Tekjur Thors fjölskyldunnar ollu líka óróa á sínum tíma. Það eru alltaf til þeir sem öfundast og skammast yfir velgengni annara. Í stað þess að hoppa á vagninn taka þeir þátt í neikvæðninni.

Það ætti hver að líta í eigin barm og fara vel með það sem hann hefur. Það skaðar engann þó að örfáir menn hafi einhverjar ofurtekjur (ef menn vilja þannig að orði komast) ef að almennt ríkir hagsæld í landinu. Kannski vill Morgunblaðið koma núverandi stjórnmálaflokkum frá og taka upp sósíalískt kerfi? Kannski vill blaðið stöðva þá hagsæld sem hefur verið á Íslandi s.l. ár? Stjórnarmenn stórfyrirtækja eiga ekki að þurfa að verja launagreiðslur til stjórnenda fyrirtækjanna. Hluthafar geta ,,kosið” með aðgerðum, s.s. selt hlutabréf sín í þeim eða tekið viðskipt sín annað. Morgunblaðið ætti ekki að kalla á ríkisafskipti. Það er nóg af þeim fyrir.

Að lokum, af hverju spurði Morgunblaðið forsvarsmenn verkalýðshreyfinganna ekki um margföld laun sín miðað við þá launþega sem þeir semja fyrir? Hvað ætli réttlæti það? Er það í takt við ,,samfélagið?”

Gísli Freyr Valdórsson

Styttri útgáfa af greininni birtist í Morgunblaðinu 10.ágúst 2006.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband