Bloggfærslur mánaðarins, október 2006
Mánudagur, 30. október 2006
Batnandi mönnum er bezt að lifa
Ég mátti til með að vekja athygli á þessari frétt um að Ungir jafnaðarmenn hafi ályktað gegn þeirri ákvörðun íslenzkra stjórnvalda að hefja á ný hvalveiðar í atvinnuskyni. Það er svo sannarlega ekki á hverjum degi sem aðilar innan Samfylkingarinnar dansa ekki eftir því sem skoðanakannanir segja hverju sinni og því ljóslega um merkisatburð að ræða. Ég er að vísu engan veginn sammála þessari ályktun UJ, en það er aftur á móti jákvætt þegar stjórnmálaöfl taka sjálfstæða afstöðu til mála í stað þess að stunda þann populisma að dansa bara eftir því sem skoðanakannanir segja hverju sinni. Raunar er það svo að þeir sem það gera eru fyrst og síðast líklegir til að skaða sig sjálfa með því háttalagi.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Ungir jafnaðarmenn segja hvalveiðar ekki einkamál Íslendinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinstrimenn á villigötum | Breytt 27.4.2007 kl. 21:43 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 23. október 2006
Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlantshafsins!
Brezk stjórnvöld saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlantshafsins með því að hefja hvalveiðar á ný í atvinnuskyni. Ég held að þau ættu fyrst að líta í eigin barm. Hvað tók það langan tíma að loka loksins Sellafield-kjarnorkuverinu sem samkvæmt nýjustu fréttum er þó enn að valda alvarlegum umhverfisspjöllum? Það er merkilegt að stjórnvöld hér á landi, í Noregi og víðar hafi þurft að þrýsta á Breta árum saman til þess að verinu væri loksins lokað fyrst brezk stjórnvöld eru svona heilög þegar kemur að umhverfismálum að þau telja sig geta talað niður til okkar Íslendinga og skipað okkur fyrir í þeim efnum. Hvalveiðar okkar auk þess sjálfbærar og því í sátt við náttúruna en ég held einhvern veginn að það muni seint teljast í sátt við náttúruna að losa geislavirkan úrgang út í hana eins og gert hefur verið ítrekað í tilfelli Sellafield-kjarnorkuversins.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Stjórnmál - almennt | Breytt 27.4.2007 kl. 21:43 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 22. október 2006
Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
Jón Baldvin Hannibalsson hafði í hyggju að spila sjálfan sig sem fórnarlamb símahlerana, en þess í stað hefur nú verið sýnt fram á með áreiðanlegum heimildum að hann beitti sér sjálfur fyrir því að njósnað væri um aðra og þá sérstaklega samráðherra sinn í ríkisstjórn, Svavar Gestsson. Símahleranirnar eiga að hafa átt sér stað fyrir meira en áratug síðan og af einhverjum ástæðum sá Jón ekki ástæðu til að vekja athygli á þeim fyrr en akkúrat núna rétt fyrir kosningar þegar hann hefur verið orðaður við framboð fyrir Samfylkinguna.
Jón hefur ýjað að því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi beitt sér fyrir þessum meintu hlerunum, en nú segist hann hafa talið að Bandaríkjamenn hafi staðið fyrir þeim. Hvers vegna lét hann þá ekki ríkisstjórnina vita af þessu? Kannski voru símar fleiri ráðherra hleraðir? Hélt Jón að þetta væri bara eitthvað einkamál hans? Að hann einn væri hleraður? Líklegast er þó að þessar hleranir séu aðeins til í hausnum á Jóni Baldvini og lærisveins hans Árna Páls Árnasonar, enda hafa þeir engar sönnur fært á þessar sögur sínar. Einu heimildirnar eru einhverjir ónafngreindir menn sem enginn veit hverjir eru.
Merkilegt annars að Jón skuli fyrst saka Þór Whitehead um að hafa tekið þátt í einhverju samsæri með Birni Bjarnasyni, um að undirbúa jarðveginn fyrir íslenzka leyniþjónustu, með ritgerð sinni sem birtist í tímaritinu Þjóðmálum, einmitt núna þegar varpað er ljósi á þátt hans í að láta njósna um Svavar Gestsson og fleiri. Það er hins vegar heill mánuður síðan tímaritið var gefið út.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Þór var að undirbúa farveginn fyrir frumvarp um öryggisgæslu, segir Jón Baldvin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinstrimenn á villigötum | Breytt 27.4.2007 kl. 21:44 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 15. október 2006
Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
Ég upplýsi það hér með að ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að síminn minn hafi verið hleraður þegar ég starfaði við lagerumsjón og bókanir fyrir Kaupfélag Húnvetninga sumarið 2002. Íslenzkur maður varaði mig við því að ég væri hleraður og síðan fékk ég staðfestingu á því þegar sami maður sagði mig hafa talað ógætilega í símann. Það kemur þó ekki til greina að ég upplýsi hver þessi einstaklingur er þrátt fyrir að hann sé eina heimild mín fyrir þessum alvarlegu ásökunum.
Einhvern veginn á þennan hátt hljómar fullyrðing Árna Páls Árnasonar, fyrrv. starfsmanns varnamálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, sem segist hafa verið hleraður fyrir um áratug síðan en hefur aldrei séð ástæðu til að vekja athygli á því fyrr en núna, einmitt þegar það vill svo til að sami maður er á leið í framboð fyrir Samfylkinguna. Hinn maðurinn, sem haldið hefur hliðstæðu fram um sig og hefur álíka miklar sannanir fram að færa um það, Jón Baldvin Hannibalsson, mun að sama skapi vera að íhuga framboð fyrir flokkinn ef marka má Ríkisútvarpið. Tímasetningin á þessum "uppljóstrunum" tvímenninganna er að sjálfsögðu tilviljun.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Stjórnmál - almennt | Breytt 27.4.2007 kl. 21:46 | Slóð | Facebook
Laugardagur, 14. október 2006
Bölvuð auðmannastéttin
Nú hefur verið tekin sú ákvörðuna að selja húsið er stendur við Fríkirkjuveg 11. Það væri svo sem ekki í frásögu færandi nema hvað að þetta er jú glæsilegt hús og á sér mikla og langa sögu. Thor Jensen athafnarmaður lét reisa húsið á sínum tíma og bjó þar ásamt konu sinni, börnun og vinnufólki þangað til þau hjónin fluttu upp í Mosfellsdal. Eftir að þau fluttust þangað fór að bera á eftirsjá af því að hafa selt húsið, en einmanaleikanum sem fygldi því að búa ,,lengst upp í sveit er þó þar um að kenna.
En allavega, það sem er mikilvægt að leggja áherslu á er að húsið var reist með EINKAFRAMTAKI af EINSTAKLINGI og var lengst framan af í EINKAEIGU. Síðan kom að því að hið opinbera eignaðist húsið en eins og fyrr segir er búið að taka ákvörðun um að setja það aftur í einkaeign. Þá rísa sósíalistar upp og skammast. Vinstri grænir telja það nauðsynlegt að slíkt hús sé í eigu hins opinbera.
Orðrétt segir í bókun vinstri grænna: ,,Það er afar mikilvægt að sú starfsemi sem fer fram í húsinu þjóni almenningi og falli vel að nábýlinu við grænt og opið svæði borgarbúa en húsið sé ekki falboðið auðmannastéttinni í landinu. (feitl. mín eigin)
Karl Marx hefði alveg eins getað lagt fram þessa bókun.
Já, það væri auðvitað alveg hræðilegt ef t.d. Björgúlfur Thor keypti húsið, sem langafi hans byggði fyrir eigið fé, og notaði það á einhvern hátt. Enda hefur það sýnt sig og sannað að þessi ,,auðmannastétt er ekki treystandi fyrir neinu góðu og allir vita að enginn hugsar jafn vel um húsin sín eins og hið opinbera. Ekki er ,,auðmannastéttinni treystandi til að hugsa um húsin sín. Jú, og svo verður hið opinbera líka að ákveða hvaða starfssemi fer fram í stóru húsunum. Þessi ,,auðmannastétt er vís með að vera bara með einhverja vitleysu. Það er spurning hvort vinstri grænir vilji ekki taka smá rúnt um Þingholtin og velja einhver hús sem hið opinbera gæti eignast og notað einhvern veginn til að ,,auðmannastéttin sé ekki að braska með þau sín á milli. Kannski er best að þjóðnýta þetta allt saman.
Nei, satt best að segja hélt maður að svona tal væri ekki til, eða öllu heldur ekki notað, lengur. Hvað ef að nokkrir einstaklingar með meðaltekjur taka sig saman og kaupa húsið í sameiningu? Hvernig bregðast sósíalistar við því? Því miður tekur Egill Helgason undir þetta í pistli á heimasíðu sinni. Ég hef reyndar mjög gaman af Agli og þykir mér það miður að hann skuli taka undir þessi orð VG í borgarstjórn.
Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is
Bókun fulltrúa Vinstri grænna vegna sölu á Fríkirkjuvegi 11 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinstrimenn á villigötum | Breytt 27.4.2007 kl. 21:48 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 12. október 2006
Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
Það er alveg ótrúlegt til þess að hugsa að Jón Baldvin Hannibalsson hafi ekki hafa sagt eitt aukatekið orð um það við einn eða neinn að síminn á skrifstofunni hans hafi verið hleraður þegar hann var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar 1991-1995 eins og hann vill meina. Hvers vegna að minnast á þetta núna? Það er að sjálfsögðu aðeins tilviljun að það er gert í aðdraganda þingkosninga...
Jón Baldvin byggir fullyrðingar sínar á því að einhver ónafngreindur tæknimaður hafi staðfest fyrir sig að síminn hans væri hleraður. Gott og vel, hvernig væri að gefa upp hver þessi eina heimild Jóns er fyrir þessum alvarlegu ásökunum? Nei, það fæst ekki gefið upp. Og í stað þess að nefna þetta við nokkurn mann fyrr en nú ákvað Jón Baldvin s.s. bara að sitja sem ráðherra til ársins 1995 vitandi að hann væri með hleraðan síma - samkvæmt hans eigin orðum!
Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Vinstrimenn á villigötum | Breytt 27.4.2007 kl. 21:54 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 8. október 2006
Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
Athyglisverð grein birtist í Morgunblaðinu í dag undir fyrirsögninni "Keisarakvillar" þar sem höfundurinn, Kópavogsbúinn Steinar Steinsson, veltir því beinlínis fyrir sér hvort hann sé Íslendingur, hvort hann sé "tækur í þjóðarhópinn" eins og hann orðar það. Ástæðan er tilhneiging alltof margra til þess að fullyrða að Íslendingar séu á móti þessu og hinu, eða vilji þetta eða hitt. Steinar segir sig því hljóta að þurfa að dansa í takt við þessar fullyrðingar til að geta talist hluti af þjóðinni. Grein sinni lýkur hann síðan með því að segja að þessir fullyrðingaglöðu einstaklingar, spámennirnir eins og hann kallar þá, hafi nú fært sig upp á skaftið og séu farnir að taka sér umboð fyrir ófædda Íslendinga og skírskotar þar til Kárahnjúkavirkjunar.
"Spámennirnir hafa nú fært sig uppá skaftið og tekið sér umboð fyrir ófædda Íslendinga. Hvar þeir hafa grafið upp umboðið er mér ráðgáta, ef til vill hafa þeir einhver himnesk sambönd við æðri máttarvöld eins og keisararnir áður fyrr. Einn ágætur skemmtikraftur hefur nýtt þessa nýju hugmynd og bætt henni á skemmtidagskrá sína og er gaman að því, hitt væri verra ef hann trúir því í raun að æðri máttarvöld hafi fært honum umboð fyrir þá ófæddu, það væri einskonar keisarakvilli. Mér finnst Austfirðingar mikið ágætis fólk og áhugasamt um að bæta sín lífskjör og auka verðmæti eigna sinna og það án þess að seilast inn á svæði annara landshluta. Í raun er undarlegt að þetta fólk og framtak þess skuli eiga þó nokkuð af óvildarmönnum. Bestu óskir til Austfirðinga, nýtið þetta tækfæri til að setja stoðir undir auðugra mannlíf, meiri menntun og fjölbreyttari tækifæri."
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Stjórnmál - almennt | Breytt 27.4.2007 kl. 21:55 | Slóð | Facebook
Laugardagur, 7. október 2006
Hvað er maðurinn að tala um?
Í Blaðinu í gær birtist grein eftir Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason sem var vægast sagt innihaldslaus. Tilgangur greinarinnar var að vísu augljós, þ.e. að hvetja sjálfstæðismenn í Norðvesturkjördæmi til að veita Borgari Þór Einarssyni, formanni Sambands ungra sjálfstæðismanna, gott brautargengi hvort sem þar mun fara fram prófkjör eða uppstilling. Hins vegar var vægast sagt ruglingslegt hvers vegna veita ætti Borgari stuðning. Eftir lestur greinarinnar er ég engu nær um það. Skoðum aðeins hvað Ásgeir segir um þetta:
"Þrátt fyrir að núverandi ríkisstjórnarflokkar hafi staðið sig vel í að skapa hér aðstæður fyrir áður óþekkta velmegun, þá mun árangur í fortíð ekki vera nægilegt farteski í kosningabaráttunni framundan. Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið í ríkisstjórn samfellt frá árinu 1991 og flokkurinn á mikið verk fyrir höndum ef honum á að takast að tryggja sér áframhaldandi umboð til forystu. Hann hefur gengið í gegnum farsæla endurnýjun í forystunni og þarf að ganga í gegnum ákveðna hugmyndafræðilega endurnýjun líka. Ekki svo að skilja að hann þurfi að hverfa frá stefnu sinni í neinum málaflokki, áherslan á frelsi einstaklingsins til orðs og athafna er ávallt farsælust. En hann þarf að beita sér á fleiri sviðum, þannig að góður árangur náist þar eins og í þeim málaflokkum sem flokkurinn hefur einbeitt sér hvað mest að. Ég er þeirrar skoðunar að ungt fólk í Sjálfstæðisflokknum sé vel til þess fallið að taka næstu skref, takast á við næstu verkefni og koma fram með lausnir nýrra tíma."
Gott og vel. Flokkurinn þarf að endurnýja hugmyndafræði sína en samt ekki að hverfa frá stefnu sinni í neinum málaflokki? Endurnýjun hlýtur að fela í sér breytingar, eða hvað? Nei, það er ekki að sjá að neinu þurfi að breyta þegar allt kemur til alls. Þetta gengur vitaskuld ekki upp. Og burtséð frá þessu, í hverju flest þessi hugmyndafræðilega endurnýjun? Við því koma engin svör í grein Ásgeirs. Síðan á flokkurinn að beita sér á fleiri sviðum, en ekki orð um það hvaða svið það eiginlega eru. Og hvaða næstu skref eru þetta? Og hvaða næstu verkefni? Og hvaða lausnir? Ekki orð um það heldur.
Nú er tilgangurinn með þessari grein alls ekki að vera með nein leiðindi út í Ásgeir Helga, en hins vegar leyfi ég mér að efast stórlega um að þessi grein hans hafi sannfært nokkurn mann um að rétt sé að veita Borgari Þór brautargengi í Norðvesturkjördæmi. Ég er ansi hræddur um að til þess verði menn að orða hlutina talsvert skýrar en hann gerir.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Stjórnmál - almennt | Breytt 27.4.2007 kl. 21:56 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 6. október 2006
Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
Norska vinstristjórnin hefur ákveðið að hækka skatta í Noregi til að auka tekjur ríkisins eins og greint er frá á fréttavef Morgunblaðsins í dag. Alls upp á tvo milljarða norskra króna. Þ.á.m. á að hækka matarskattinn svokallaða, þ.e. virðisaukaskattur á matvörur. Á sama tíma þykist Samfylkingin, systurflokkur norska Verkamannaflokksins sem er stóri flokkurinn í norska ríkisstjórnarsamstarfinu, ætla að lækka þann skatt hér á landi komist hún í ríkisstjórn.
Eðlilega taka menn slíkum yfirlýsingum með miklum fyrirvara, enda nánast náttúrulögmál að vinstrimenn hækka skatta. R-listinn, hvar Samfylkingin var lengi vel stærsti flokkurinn, lofaði skattalækkunum ítrekað á meðan hann hélt um stjórnartaumana í Reykjavík en niðurstaðan varð þó allt önnur, álögur á borgarbúa voru þvert á gefin loforð miskunnarlaust hækkaðar.
Tilfellið nú í Noregi sýnir annars vel þann furðulega og takmarkaða hugsunarhátt vinstrimanna að halda að eina leið ríkisins, til að auka tekjur sínar (ef þess þarf endilega) sé að hækka álögur á fólk. Þeir bara skilja ekki, þrátt fyrir fjölda dæma um það, að hægt er að auka tekjur ríkisins með því einmitt að lækka skatta sem leiðir til þess að veltan í viðkomandi þjóðfélagi eykst sem aftur þýðir að ríkið fær minni sneið af stærri köku í stað stærri sneiðar af minni köku áður. Önnur afleiðing þessa er að almenn velsæld eykst eins og þróunin hér á Íslandi á undanförnum árum sýnir einna bezt.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Vinstrimenn á villigötum | Breytt 27.4.2007 kl. 21:57 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 4. október 2006
Hringlandaháttur allra flokka
Eftir umræður gærdagsins í pólitíkinni er ekki skrýtið að maður sé ef til vill ringlaður. Samfylkingin byrjaði daginn á því að skammast út í ríkisstjórnina fyrir lélegt fjárlagafrumvarp (að þeirra mati). Allt í einu er vinstri sósíalistaflokkurinn farinn að skamma hægri (stundum sósíalistaflokkinn) fyrir að hafa aukið útgjöld ríkissins allt of mikið. Þetta er reyndar alveg rétt. Eins og marg oft hefur komið fram hér hjá þessu vefriti og öðrum góðum hægri vefritum hafa ríkisumsvif og ríkisútgjöld aukist allt of mikið síðastliðinn áratug.
En Samfylkingin var auðvitað með lausn á þessu. Auka ríkisútgjöld (þó bara til ákveðinna hópa). Ingibjörg Sólrún hefur einmitt góða reynslu af rekstri hins opinbera þannig að það hlýjar manni um hjartarætur að hún vilji beina ríkinu á sömu braut og Reykjavíkurborg á síðasta áratug. Þar voru eins og allir vita greiddar niður skuldir í stórum stíl, skattar lækkaðir svo um munar og allur fjármálarekstur til fyrirmyndar. Það er einmitt þess vegna sem útsvarsgreiðendur greiða hæsta mögulega útsvar í Reykjavík.
Nei, auðvitað er Ingibjörg Sólrún og félagar hennar í Samfylkingunni ekki líkleg til stórræða í ríkisstjórn. Það er alveg vitað fyrirfram að það mun hægja verulega á góðæri komist hér á vinstri stjórn. Sem betur fer hefur þó aldrei verið vinstri stjórn heilt kjörtímabil.
En nóg um það. Hringlagaháttur Samfylkingarinnar skýrir sig sjálfur. Hins vegar er full ástæða til að minna forystu Sjálfstæðisflokksins á fyrir hvað flokkurinn á að standa.
Bæði forsætis- og fjármálaráðherra hafa kynnt með stolti að um 15 milljarða tekjuafgangur eigi að verða af rekstri ríkissins á næsta ári. Það er gott, þ.e.a.s. það er gott að ríkið er ekki rekið með halla eins og Reykjavíkurborg, en það segir okkur líka að ríkið hefur of miklar tekjur. Bæði eru skattar of háir auk þess sem ýmiss gjöld s.s. tollar og vörugjöld eru of há. Og að sjálfsögðu boðuðu forsvarsmenn hægri flokksins skattalækkanir og lækkun á gjöldum... Nei ekki aldeilis.
Nú á að hætta við að hætta við að eyða pening. Já, fyrr á þessu ári tilkynnti ríkisstjórnin að beðið yrði með ýmsar framkvæmdir til að hægja á þenslunni. Nú telur ríkisstjórnin að þenslan sé ekki svo mikil og því sé óhætt að fara að eyða aftur.
Flokkurinn eru búinn að boða svik á kosningaloforði. Ætlar flokkurinn að fara inn í kosningavetur eyðandi fjármagni almennings? Er Sjálfstæðisflokkurinn hættur að vera hægri flokkur? Kannski að nýr framkvæmdarstjóri flokksins bregðist við og snúi flokknum lengra til hægri aftur?
Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is
Stjórnmál - almennt | Breytt 27.4.2007 kl. 21:33 | Slóð | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004