Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2006

"Danadrottning var heilinn á bak við teikningamálið"

20060115_B_Margrethe_IIMargrét Danadrottning var heilinn á bak við hatursherferð gegn íslam og múslimum sem náði hámarki með teikningamálinu svokallaða sem hófst fyrir réttu ári síðan þegar danska dagblaðið Jótlandspósturinn birti tólf teikningar af Múhameð spámanni múslima. Þetta er a.m.k. það sem ófáir íslamskir trúarleiðtogar í Danmörku hafa haldið fram. Samkvæmt þeim hvatti drottningin Dani til þess að veita íslam andspyrnu og ráðast gegn múslinum í Danmörku í ræðu sem hún hélt í apríl 2005. Þessu héldu trúarleiðtogarnir fram í viðtölum við arabísk dagblöð og samtölum við arabíska embættismenn og stjórnmálamenn þegar þeir ferðuðust um Miðausturlönd fyrir um níu mánuðum síðan í því skyni að kynda undir hatri og ofbeldi í garð Dana og Danmerkur.

Þetta var upplýst síðastliðið sumar af danska utanríkisráðuneytinu sem fékk upplýsingar um málið frá Det Dansk-Egyptiske Dialoginstitut, stofnun með aðsetur í Egyptalandi sem beitir sér fyrir bættum samskiptum á milli Danmerkur og Egyptalands. Trúarleiðtogarnir héldu því ennfremur fram að danska ríkisstjórnin og danska þjóðin eins og hún leggur sig stæði á bak við þessa hatursherferð. Hanna Ziadeh, fjölmiðlafræðingur hjá Det Dansk-Egyptiske Dialoginstitut, sagði að markmið þeirra hafi verið að gera alla dönsku þjóðina ábyrga fyrir teikningunum í Jótlandspóstinum.

Trúarleiðtogarnir héldu því fram í ferð sinni um Miðausturlönd að þeir fengju engan aðgang að dönskum fjölmiðlum og að verið væri að skipuleggja fleiri "hræðilegar niðurlægingar" í Danmörku gegn íslam og múslimum, þ.á.m. að kveikt yrði í moskum. Ziadeh sagði að upplýsingarnar sem  Det Dansk-Egyptiske Dialoginstitut hefur safnað væru aðeins úr tíu viðtölum í jafnmörgum stórum dagblöðum í Miðausturlöndum. Hins vegar hefðu trúarleiðtogarnir talað við miklu fleiri fjölmiðla þar, þ.m.t. margar sjónvarpsstöðvar. Fyrir vikið væri aðeins vitað um hluta af þeim röngu upplýsingum, sem þeir hefðu dreift um Miðausturlöndum, á Vesturlöndum.

Trúarleiðtogarnir hafa ítrekað þvertekið fyrir að hafa sagt annað en sannleikann í ferð þeirra um Miðausturlönd og sagt að allar rangar upplýsingar í arabískum fjölmiðlum væru viðkomandi blaðamönnum að kenna. Ziadeh segir hins vegar að þessar röngu upplýsingar séu svo viðamiklar að ekki sé hægt að útskýra þær einungis með því að um mistök hafi verið að ræða hjá blaðamönnunum. Í viðtölunum megi einnig sjá mynstur þegar kemur að þessum upplýsingum. Varla hafa allir blaðamennirnir, á hinum ýmsu fjölmiðlum í Miðausturlöndum, gert nákvæmlega sömu mistökin?

"Yfirlýst markmið trúarleiðtoganna var að skapa gríðarlega hneykslan í hinum íslamska heimi í því skyni að setja af stað öldu mótmæla sem myndi að lokum neyða Jótlandspóstinn og dönsku ríkisstjórnina til að biðjast afsökunar [á birtingu teikninganna]. En teikningarnar einar og sér voru greinilega ekki nógu grófar. Því fannst trúarleiðtogunum þeir tilneyddir að halda því fram að málið senrist um meira en bara einhverjar teikningar sem birtust í einu dagblaði einn dag. Þetta varð að líta út fyrir að vera hluti af kerfisbundnum móðgunum sem m.a. innihéldu særandi kvikmynd og ritskoðun á Kóraninum og það varð að líta út fyrir að ríkisstjórn og heil þjóð stæði á bak við þessa hatursherferð gegn íslam og múslimum,"segir Ziadeh.

Samkvæmt skoðanakönnun sem gerð var af fyrirtækinu Rambøll Management fyrir Jótlandspóstinn og birt á dögunum eru 53% Dana enn þeirrar skoðunar að rétt hafi verið af blaðinu að birta teikningarnar fyrir ári síðan á meðan 38% telja það hafa verið ranga ákvörðun. Í sambærilegri könnun í nóvember á síðasta ári (áður en óeirðir urðu í Miðausturlöndum á meðal múslima vegna teikninganna, gerðar voru árásir á dönsk sendiráð og byrjað var að sniðganga danskar vörur þar) sögðust 54% að birting teikninganna hefði verið rétt ákvörðun á meðan 25% töldu hana vera ranga.

Í annarri skoðanakönnun, sem birt var í byrjun september sl., sögðust 57% Dana búast við annarri krísu eins og teikningamálinu innan fimm ára. Könnunin sýndi ennfremur að aðeins um þriðjungur Dana telur í dag að mögulegt sé að samræma íslam og lýðræði samanborið við 50% í hliðstæðri könnun fyrir fáeinum mánuðum síðan. Mikill meirihluti Dana vill sömuleiðis strangari innflytjendalöggjöf samkvæmt könnuninni. Önnur nýleg könnun sýnir að einn af hverjum fjórum Dönum er nú mun neikvæðari gagnvart íslam og múslimum í Danmörku en áður en teikningamálið kom til.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is

(Birt áður í enskri útgáfu á vefritinu The Brussels Journal.)


« Fyrri síða

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband