Bloggfærslur mánaðarins, september 2005
Föstudagur, 9. september 2005
66.700.000.000 og Síminn hringir áfram
Miklum áfanga var náð í vikunni þegar reidd var af hendi greiðsla fyrir eitt stærsta ríkisfyrirtæki landsins. Stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar er þar með lokið og á sama tíma hefur ríkið loksins dregið sig alfarið úr samkeppnisrekstri á fjarskiptamarkaði. Skv. greinagerð frá forsætisráðuneytinu barst ríkissjóði greiðsla frá Skipti ehf. að upphæð 66,7 milljarðar krónar fyrir Símann. Nærri helmingur fjármagnsins, 32,2 milljarður króna, var greiddur í erlendri mynt og verður allur sá hluti notaður til að greiða upp erlendar skuldir.
Ekki stendur til að bera í bakkafullan lækinn um hvernig ráðstafa hefði mátt því fjármagni sem fékkst fyrir Símann. Hins vegar finnst mér vert að velta upp nokkrum atriðum sem tengjast í fyrsta lagi viðbrögðum stjórnarandstöðunnar, sem frekar en fyrri daginn hafði ekkert nytsamlegt til málann að leggja, í öðru lagi úthlutun fjármagnsins og í þriðja lagi hugmyndafræðinni á bakvið tilfærslur sem þessa.
Nú er rétt að taka fram að ég hef enga sérstaka skoðun á því hvernig ráðstafa hefði átt fjármagninu á annan hátt. Það gleður mig að mikill hluti þess er notaður til að greiða niður skuldir (eins og komið verður að hér síðar) en hvað varðar restina af fjármagninu þá er það verkefni ríkisstjórnarinnar að ráðstafa því. Þessi ríkisstjórn hefur farið vel með efnahagsmál síðustu ár (þó svo að hún hafi verið óþarflega eyðlusöm á köflum) og er því treystandi til að ráðstafa þessu fé. Hvort að það fer í götur, skip eða spítala er ekki aðalmálið. Allt eru þetta verkefni sem ríkisstjórnin hafði á prjónunum hvort eð er.
Síðan má auðvitað deila um hversu mikil þörf er á því að ríkið sinni sumum af þessum verkefnum en það er efni í annað díbeit.
Viðbrögð Stjórnarandstöðunnar
Á þriðjudag var tilkynnt hvernig ríkisstjórnin hefði ákveðið að ráðstafa fjármagninu. Nú geta menn s.s. haft ýmsar skoðanir á því. Ingibjörg Sólrún, sem mikla reynslu hefur af opinberum rekstri eftir ,,glæsilegan feril sem borgarstjóri, hafði nú sitt að segja um málið. (Rétt þykir mér nú að taka fram að um leið og vinstri menn byrja að tala um peninga verður manni dálítið órótt. Sérstaklega þegar þeir tala um peningana okkar. Það hefur áður komið fram hér á vefritinu.)
Þannig er sagt frá í frétt um málið: ,,Formaður Samfylkingarinnar telur ríkisstjórnina fara of geyst í að ráðstafa fénu, sem fékkst fyrir sölu Símans, fram í tímann. Hún telur farsælla að leggja peningana til hliðar og ávaxta þá fyrst um sinn í stað þess að ráðstafa fénu fram í tvö næstu kjörtímabil.
Kannski hefði Ingibjörg átt að lesa betur greinagerð forsætisráðuneytisins en þar kemur skýrt fram að féið verður ávaxtað á tvennan hátt. Í fyrsta lagi sparar ríkið sér umtalsvert fjármagn í vaxtagreiðslur með því að greiða upp hluta af erlendum skuldum og í öðru lagi verður peningurinn lagður inn til ársins 2007 þar sem hann mun ávaxtast. Ingibjörg hafði ekki frekari hugmyndir um hvað hún vildi við fjármagnið gera. Fannst bara ríkisstjórnin fara of geyst í að ráðstafa því. Þegar Ingibjörg var síðan spurð að því af hverju hún héldi þetta var svarið einfalt. Menn eiga bara ekkert að vera að ráðstafa fjármagni svona langt fram í tímann. Þetta eru engir smáaurar.
Í sömu frétt segir: ,,Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, hefur gagnrýnt hvernig stjórnvöld hafa staðið að ráðstöfun símasölupeningana þótt hann telji verkefnin góð og gild.
Þar höfum við það. Verkefnin góð og gild en samt gagnrýni á það hvernig fjármagninu er ráðstafað. Gaman væri ef að Ingibjörg eða Steingrímu gætu bent á hvað ef þessu þau hefðu viljað stroka út af listanum. Hvorugt þeirra hefur sagt nokkuð til um það.
Þau vilja kannski segja við kjósendur út um allt land að þau vilji ekki byggja upp þá vegi sem til stendur að byggja? Kannski telja þau málefni geðfatlaðra ekki mikilvæg? Kannski er Landhelgisgæslan ekki heldur á forgangslista hjá þeim? Við vitum ekki svarið við neinum af þessum spurningum því þau höfðu ekkert um það að segja hvað þau hefðu vilja gera við fjármagnið. Við hins vegar vitum að bæði vilja þau að hið opinbera starfi í samkeppni á fjarskiptamarkaði. Steingrímur telur slík fyrirtæki betur komin í höndum ríkissins en einkaaðila. Það er hans skoðun og hana ber að virða. Ingibjörg hefur á hinn bóginn sýnt vilja sinn í verki með ævintýrinu í kringum línu.net. Ekki ber að virða þá skoðun því að það voru borgarbúar sem tóku á sig allan kostnað vegna þessa misheppnaða ævintýris.
Silfrinu útdeilt
Eins og ég sagði upphafi hef ég s.s. enga sérstaka skoðun á því hvernig ráðstafa hefði átt fénu. Kannski hefði jafnvel verið gott að ráðstafa því ekki. Held þó að þá hefði það fljótlega gufað upp í ýmsan rekstur hins opinbera. Það er þó fyrst og fremst gleðiefni og um helmingur þess sé notaður til að greiða niður erlendar skuldir. Við skulum hafa í huga að vaxtagreiðslur erlendra skulda voru hærri en arður Símans til ríkissjóðs. Þetta sjá allir. Tja, allir nema vinstrimenn.
Allt eru þetta verkefni sem þegar voru á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Ég fagna sérsaklega ráðstöfun fjármagns til kaupa á nýju varðskipi og flugvél til Langhelgisgæslunnar enda hafa málefni hennar verið mér hugfangin. Tel ég nauðsynlegt að hún sér styrkt og efld og hér hefur verið stigið löngu tímabært skref til þess. Því verða væntanlega gerð fleiri skil hér á íhald.is þegar fram sækja stundir.
Hvað uppbyggingu hátæknisjúkrahúss varðar þá tel ég þá framkvæmd betur komna í höndum einkaaðila. Ég trúi því að einn daginn munu einkaaðilar stofnsetja (eða kaupa) sjúkrahús og gera í framhaldi af því þjónustusamning við ríkið. Ríkið rekur í dag stór sjúkrahús og eru þau mjög illa rekin. Það er ekki bara að það vanti meira fjármagn í rekstur þeirra heldur eru þau að mörgu leyti illa rekin. Aftur, efni í aðra umræðu.
Meira hef ég ekki um einstaka liði ráðsöfunarféssins að athuga. Málefnum nýsköpunarsjóðs verða gerð frekari skil síðar.
Næstu verkefni
Þó svo að hér sé lokið stærstu einkavæðinu Íslandsögunnar þá er enn langt í land. Ríkið á eignarhlut í fjöldamörgun fyrirtækjum og stendur enn í ýmiss konar atvinnurekstri sem betur væri komin í höndum einkaaðila. Það er ekki eins og ríkið hafi unnið í lottói og fengið einhvern óvæntan pening. Þessi peningur var til en fastur í ríkisfyrirtæki, m.ö.o. ríkið átti þetta fjármagn til.
Þá er eðlilegt að spyrja, hvað á ríkið meira? Hér má sjá lista yfir þau fyrirtæki sem ríkið á enn eignarhlut í. Ríkið á allt frá 0,6% hluta til 100% hluta í hinum ýmsu fyrirtækjum s.s. hótelum, hestaleigum, orkuveitum, trésmiðjum, sláturfélögum, útgerðarfélögum og svo mætti lengi telja. Meirihluti þeirra fyrirtækja sem ríkið á enn hlut í eru fyrirtæki á samkeppnismarkaði. Eignahlutur þeirra er betur komin í höndum einstaklinga en hins opinbera og tel ég að ríkið eigi að halda áfram af miklum krafti við að koma þessum fyrirtækjum úr eign ríkisins yfir til einkaaðila. Ríkið fékk um 67 milljarða fyrir Símann. Það er líklega annað eins ef ekki meira til sem liggur í eignum ríkissins í hinum ýmsu fyrirtækjum.
Þá er bara að halda áfram báráttunni fyrir einkavæðingu. Nema auðvitað að Steingrímur J. og Ingibjörg hafi einhverjar betri hugmyndir?
Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is
Miðvikudagur, 7. september 2005
Davíð hættir í stjórnmálum – þáttaskil hjá Sjálfstæðisflokknum
Davíð Oddsson utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti á blaðamannafundi í Valhöll í dag að hann myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs sem formaður flokksins á landsfundi hans sem haldinn verður dagana 13. - 16. október nk. Ákvörðun Davíðs markar mikil þáttaskil. Hann hefur verið formaður Sjálfstæðisflokksins frá 10. mars 1991 er hann felldi Þorstein Pálsson þáverandi formann flokksins, í spennandi kosningu á landsfundi. Með því mörkuðust önnur þáttaskil í lífi Davíðs Oddssonar, en hann hafði verið borgarstjóri í Reykjavík samfellt í 9 ár, 1982-1991, er hann varð forystumaður flokksins í landsmálunum og sat í borgarstjórn árin 1974-1994.
Davíð varð forsætisráðherra eftir kosningasigur flokksins árið 1991 og leiddi stjórn með Alþýðuflokki til ársins 1995 og með Framsóknarflokknum til ársins 2004. Leiddi hann því ríkisstjórn Íslands samfellt 1991-2004, eða í 13 ár, lengur en nokkur annar Íslendingur í stjórnmálasögu landsins. Hann hefur svo verið utanríkisráðherra frá 15. september 2004. Á þrettán ára forsætisráðherraferli hans urðu miklar breytingar á íslensku samfélagi. Þessar breytingar hafa leitt til aukins frelsis handa viðskiptalífinu og almenningi, hagsældar, lækkunar skatta, og bættra lífskjara langt umfram það sem gerst hefur í nálægum löndum.
Á blaðamannafundinum í Valhöll tilkynnti Davíð að hann myndi taka við embætti seðlabankastjóra og verður formaður bankastjórnar þann 20. október nk., en eins og Davíð benti á er það afmælisdagur eiginkonu hans, Ástríðar Thorarensen. Davíð Oddsson mun víkja úr ríkisstjórn og láta af þingmennsku fyrir Reykvíkinga þann 27. september nk. Þann dag er boðaður ríkisráðsfundur á Bessastöðum. Þar mun Geir H. Haarde varaformaður Sjálfstæðisflokksins, taka við embætti utanríkisráðherra af Davíð. Árni M. Mathiesen tekur við embætti fjármálaráðherra af Geir og eftirmaður Árna á stóli sjávarútvegsráðherra verður Einar Kristinn Guðfinnsson þingflokksformaður.
Við þessar miklu breytingar verður Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Við sæti Davíðs Oddssonar á þingi tekur Ásta Möller formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, sem sat á þingi árin 1999-2003 og hefur verið fyrsti varamaður flokksins í RN síðan. Eru þetta mjög umfangsmiklar breytingar sem eiga sér stað með brotthvarfi Davíðs á forystu flokksins og lykilmannskap hans. Stóll formanns þingflokksins losnar við þessa uppstokkun. Flest bendir til þess að Arnbjörg Sveinsdóttir taki við formennsku í þingflokknum, enda varaformaður nú. Ákvörðun um það verður tekin í næstu viku.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur í rúm 70 ár verið í fararbroddi íslenskra stjórnmála. Það hefur verið gæfa hans að valist hafa til forystustarfa hæfir og frambærilegir menn. Margir ákváðu að styðja flokkinn á árum áður vegna forystuhæfileika t.d. Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar, og flokkurinn varð stórveldi í íslenskum stjórnmálum vegna forystu þeirra í flokknum. Þessir menn voru þekktir fyrir yfirburðaleiðtogahæfileika, mælsku sína og víðsýni í íslenskri pólitík. Nú, þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur samfellt setið í ríkisstjórn í 14 ár er von að spurt sé - hver er lykillinn að velgengni Sjálfstæðisflokksins í landsmálapólitík?
Svarið er í mínum huga einfalt. Davíð Oddsson hefur með miklum leiðtogahæfileikum tryggt að flokkurinn er í forystu íslenskra stjórnmála. Hann hefur allt frá sigri sínum í borgarstjórnarkosningunum 1982 verið einn af helstu forystumönnum flokksins og verið í fararbroddi innan hans. Hann leiddi flokkinn til glæsilegra kosningasigra og forystu í landsmálum í upphafi tíunda áratugarins og hefur verið risi í íslenskum stjórnmálum síðan og leitt íslensk stjórnmál. Tíundi áratugurinn var tími Davíðs og sögubækur framtíðarinnar munu staðfesta það. Hann leiddi miklar breytingar á íslensku samfélagi og markaði sér spor í íslenska stjórnmálasögu sem aldrei munu gleymast.
Ef einhver stjórnmálamaður á seinustu áratugum hefur haft sjötta skilningarvitið í pólitík er það Davíð. Hann hefur með mælsku sinni, hressilegum skoðunum og forystuhæfileikum sínum tryggt forystu flokksins í landsmálunum. Undir hans leiðsögn hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið sterkari. Staða Sjálfstæðisflokksins nú er mjög athyglisverð, pólitískt séð, enda er einsdæmi að einn flokkur stjórni landinu í jafnlangan tíma með setu í ríkisstjórn með sama leiðtoganum við stjórnvölinn. Davíð hefur verið þekktur fyrir að vera áberandi. Hann hefur óhikað tjáð skoðanir sínar og verið óhræddur við að tala tæpitungulaust.
Það hefur í senn verið helsti styrkleiki og helsta gæfumerki Sjálfstæðisflokksins að hafa átt svo glæsilegan og áberandi leiðtoga - sannkallan skipstjóra sem segir til verka og hefur notið virðingar innan flokks og utan vegna starfa sinna. Styrkleiki hans sannaðist einna helst að mínu mati á síðasta ári þegar að hann veiktist snögglega. Hann kom hnarreistur frá þeirri glímu og sýndi enn og aftur styrkleika sinn og kraft sem stjórnmálamanns. Hann kom fram í skemmtiþætti Gísla Marteins Baldurssonar og sagði sjúkrasöguna með sínum hætti: glæddi alvarlega sögu léttum undirtóni.
Á síðasta ári var sótt mjög harkalega að Davíð í fjölmiðlamálinu, sem stóð stóran hluta ársins og reyndi mjög á hann. Davíð stóð af sér árásir stjórnarandstöðunnar sem studdar voru af forseta Íslands sem breytti eðli embættis forseta Íslands til að reyna að þóknast forystumönnum stjórnarandstöðunnar og vissum forystumönnum stórfyrirtækjum, svo með ólíkindum var á að horfa. Eðli forsetaembættisins verður sennilega aldrei samt og er reyndar með ólíkindum að Davíð og þeir sem næst honum stóðu í stjórnarsamstarfinu hafi staðið af sér þá atlögu sem fjölmiðlar og forystumenn forsetaembættis og stjórnarandstöðu reyndu að kasta á þá til að reyna að fella stjórn landsins.
Hún stóð allt af sér og hélt velli. Forystumenn samstarfsins störfuðu saman áfram af krafti þó hart væri að þeim sótt úr mörgum áttum. Degi eftir að ríkisstjórnin hafði ákveðið að fella fjölmiðlalög úr gildi veiktist Davíð snögglega. Kom persónulegur styrkur Davíðs og fjölskyldu hans vel fram í þessum veikindum hans. Vegna þessara veikinda var pólitísk staða Davíðs að margra mati í óvissu. Hann sló á þá óvissu eins og honum einum var lagið með glæsilegri fjölmiðlaframkomu á heimili sínu um miðjan ágúst með því að tilkynna að hann yrði utanríkisráðherra. Davíð er án vafa maður allra ára í stjórnmálum. Hann er sá stjórnmálamaður sem bæði hefur verið elskaður og hataður, umdeildur og stendur í fararbroddi í stjórnmálum á Íslandi seinustu áratugi.
Ég gekk í Sjálfstæðisflokkinn sumarið 1993. Síðan hafa liðið tólf ár. Löngu fyrir þann tíma hafði ég þó mótað mér pólitískan áhuga og hreifst af sjálfstæðisstefnunni. Við ákvörðunina um að ganga í flokkinn hafði líka sitt að segja hver leiddi flokkinn. Ég hreifst af forystu Davíðs Oddssonar - hreifst af krafti hans sem stjórnmálamanns og ekki síður styrkleika hans við forystu Sjálfstæðisflokksins. Ég hef í gegnum störf mín þar kynnst svo Davíð sjálfum og ekki síður kynnst í návígi hversu góður og farsæll leiðtogi hann hefur verið. Það er algjörlega óhætt að fullyrða að ég hafi borið mikla virðingu fyrir honum. Forysta hans hefur enda verið okkur mjög heilladrjúg og farsæl.
Í dag, 7. september 2005, á þeim degi sem fyrir liggur að Davíð Oddsson hættir í stjórnmálum og lætur af forystu Sjálfstæðisflokksins eftir farsælan feril, hefur hann verið formaður flokksins í 5.295 daga. Aðeins Ólafur Thors hefur verið formaður flokksins lengur. Við sem störfum í Sjálfstæðisflokknum getum litið um öxl yfir fjórtán ára formannsferil Davíðs Oddssonar og þrettán ár hans í forsæti ríkisstjórnar Íslands með stolti. Hann hafði jákvæð áhrif á íslenskt samfélag og leiddi okkur öll rétta leið. Umgjörð atvinnulífsins er nú betri en áður, starfsskilyrði þess hagstæðari, skattar almennings og fyrirtækja lægri og svigrúm til athafna meira en áður. Tekist hefur að treysta forsendur velferðarkerfisins með öflugu atvinnulífi á grundvelli stöðugleika í efnahagsmálum. Þetta vannst undir forystu Davíðs Oddssonar.
Ég fer ekki leynt með það að ég vonaði allt til enda að Davíð Oddsson myndi gefa kost á sér áfram. Davíð er einstakur stjórnmálamaður, einn öflugasti stjórnmálamaður í stjórnmálasögu landsins, það er ekki flóknara. En hann tekur þessa ákvörðun sjálfur og við í flokknum virðum hana og kveðjum hann með nokkrum söknuði en við höfum fjölda fólks sem tekur við verkunum og forystu flokksins. En ég neita því ekki að ég sé eftir Davíð úr stjórnmálum. Við þessi miklu þáttaskil í Sjálfstæðisflokknum vil ég fyrir mitt leyti þakka Davíð fyrir verk hans í þágu okkar og flokksins okkar. Hann getur farið af stjórnmálasviðinu hnarreistur - hans ævistarf í stjórnmálum er glæsilegt. Ég óska honum góðs gengis á nýjum vettvangi.
Stefan Friðrik Stefánsson
stebbifr(a)simnet.is
Þriðjudagur, 6. september 2005
Breytingar á Ritstjórn
Vegna mikilla anna hefur Þorsteinn Magnússon ákveðið að draga sig úr ritstjórn Íhald.is.
Þorsteinn var einn af upphafsmönnun vefritsins og því mikil eftirsjá í góðum manni.
Sæti Þorsteins í ritsjórn tekur Hjörtur J. Guðmundsson.
Um leið og ég býð Hjört velkominn þakka ég Þorsteini fyrir farsælt samstarf og óska honum alls hins besta.
f.h. Ritstjórnar
Gísli Freyr
Mánudagur, 5. september 2005
Mánudagspósturinn 5. september 2005
Gísli Marteinn Baldursson tilkynnti formlega þann 28. ágúst sl. að hann hyggðist bjóða sig fram í fyrsta sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar sem fram fara næsta vor. Kom þetta fram í ræðu sem hann flutti á fjölmennum fundi stuðningsmanna í Iðnó sem kunnugt er. Var húsið bókstaflega troðfullt en undirritaður var þar á meðal. Afar ánægjulegt er að Gísli Marteinn hafi tekið þessa ákvörðun. Nú er bara að sjá hverjar lyktir verða í prófkjörinu sem sennilega mun fara fram í byrjun nóvember. Persónulega styð ég Gísla heilshugar í framboði hans og trúi því að hann eigi eftir að fara með sigur af hólmi.
Hann hefur heldur ekki skemmt fyrir sá augljósi taugatitringur sem verið hefur til staðar hjá aðilum á vinstrivængnum vegna framboðs Gísla Marteins, bæði fyrir og eftir að það lá fyrir að hann hyggðist stefna á fyrsta sætið á lista Sjálfstæðisflokksins. Þetta hefur einkum verið áberandi hjá ýmsum framámönnum innan Samfylkingarinnar og hefur Össur Skarphéðinsson, þingmaður flokksins, farið þar fremstur í flokki. Hefur hann hamast gegn framboði Gísla allt frá því í vor og fundið því allt til foráttu á heimasíðu sinni eins og komið hefur fram. Eru það mikil meðmæli með framboði Gísla.
Með því neyðarlegra í þessum efnum af hálfu Össurar var að halda því fram að Gísli Marteinn hefði verið að setja sig í sama hóp og Bjarni Benediktsson, Geir Hallgrímsson og Davíð Oddsson þegar hann nefndi að allir þessir menn hefðu verið tiltölulega ungir þegar þeir tóku við sem oddvitar borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma. Með þessu var Gísli þó augljóslega aðeins að meina að það að hann væri ungur maður þýddi ekki að hann væri þar með ekki hæfur til að leiða sjálfstæðismenn í borginni, en eins og kunnugt er hafa sumir orðið til að nefna það hingað til sem hugsanlegan ókost við framboð hans.
Í gærkvöldi var síðan svakaleg frétt á Stöð 2 um að Gísli Marteinn hefði ekki lokið BA námi í stjórnmálafræði þó það væri haft eftir honum í bókinni Samtíðarmenn. Mátti helzt skilja á kynningunni á fréttinni að verið væri að fletta ofan af einhverju skipulögðu samsæri. Í fréttinni sjálfri kom hins vegar berlega í ljós að einungis væri um að ræða atvik sem ætti sér eðlilegar og skiljanlegar skýringar. Gísli ætti lítið eftir af náminu og hefði gert ráð fyrir að vera búinn með það þegar bókin kæmi út. Þær áætlanir hefðu hins vegar frestast. Þetta var nú öll æsifréttin.
Er alveg með ólíkindum hvað sumir af andstæðingum Gísla Marteins eru augljóslega tilbúnir að leggjast lágt vegna hræðslu sinnar við framboð hans. Það sýnir ennfremur hversu lítið þessir sömu aðilar hafa greinilega á Gísla að þeir skuli þurfa að tína til annan eins tittlingaskít og það hvort hann hafi lokið BA námi eða ekki og reyna að mála það upp sem einhverja æsifrétt sem síðan kemur í ljós að er alger stormur í vatnsglasi og reyndar miklu minna en það. Það verður að segjast eins og er að þessi vinnubrögð gera mann enn staðfastari í þeirri trú en áður að Gísli Marteinn sé rétti maðurinn til að leiða lista okkar sjálfstæðismanna í vor.
---
Og meira um Össur en það var ekki síður neyðarlegt að sjá hann hlaupa algerlega á sig í pistli á dögunum þar sem hann skammaðist út í íslenzk stjórnvöld fyrir að senda ekki þegar í stað íslenzkar björgunarsveitir til Bandaríkjanna vegna náttúruhamfaranna sem áttu sér stað þar nýverið. Talaði hann um seinagang og ég veit ekki hvað. Þarna opinberaði hann algerlega þekkingarleysi sitt í því hvernig svona mál ganga fyrir sig. Menn senda einfaldlega ekki björgunarsveitir til annara landa án þess að fyrir liggi að viðkomandi stjórnvöld hafi óskað eftir aðstoð þeirra. Í þessu tilfelli afþökkuðu Bandaríkjamenn aðstoðina eins og kunnugt er. Það er einfaldlega ekki nóg að Sameinuðu þjóðirnar hafi óskað eftir slíkri aðstoð þó Össur haldi það greinilega. Bandaríkin eru sjálfstætt ríki og hafa ein vald til þess að heimila erlendum björgunarsveitum að starfa í landinu.
---
Annars hefur verið mjög sérstakt að fylgjast með því hvernig fylgi Samfylkingarinnar hefur þróast á undanförnum mánuðum eftir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var kjörin formaður flokksins. Það er ekki að sjá að tilkoma hennar í formannsstólinn hafi skipt nokkru máli fyrir fylgi hans eins og manni skildist að ætti að gerast á stuðningmönnum hennar. Fylgi flokksins er nú 30% samkvæmt síðustu skoðanakönnun Gallups en var 31% í kosningunum 2003 eins og kunnugt er. Það verður óneitanlega fróðlegt að sjá hvernig þróunin verður í þessum málum í vetur.
---
Að lokum bendi ég lesendum á grein eftir mig sem birtist í gær á vefritinu "The Brussels Journal" sem ritstýrt er af Flæmingjanum Dr. Paul Belien sem m.a. er meðlimur í Mont Pelerin Society. Var mér boðið að gerast þar fastur penni sem ég þáði. Er ég þar í góðum félagsskap Dr. Belien, Daniels Hannans, þingmanns brezka Íhaldsflokksins á þingi Evrópusambandsins, og fleiri mætra manna.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Föstudagur, 2. september 2005
Málefni flugvallar á höfuðborgarsvæðinu
Enginn vafi leikur á að kosningabaráttan í Reykjavík fyrir næstu borgarstjórnarkosningar er hafin af fullum krafti. R-listinn hefur geispað golunni og eftir standa framboð flokkanna sem mynduðu hræðslubandalag gegn Sjálfstæðisflokknum. Framundan er spennandi kosningabarátta í borginni og skv. skoðanakönnunum blasir annað pólitískt landslag við nú. Ljóst er að tekist verður víða á um leiðtogastóla framboðanna og höfum við seinustu daga orðið vitni að átökum innan Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar um forystuna. Slagurinn er hafinn mun fyrr en oft áður og stefnir í hörð átök, bæði milli flokkanna og eins innan þeirra um forystustóla. Við blasir hinsvegar og hefur gert bæði fyrir og eftir dauða R-listans að eitt helsta kosningamál næstu borgarstjórnarkosninga verði skipulagsmál og ber þar óneitanlega hæst málefni Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni. Um er að ræða stórmál, sérstaklega fyrir okkur sem búum úti á landi og þurfum á að halda góðum samgönguleiðum til höfuðborgarsvæðisins.
Mín skoðun á málefnum flugvallar þar hefur jafnan verið skýr. Ég vil að hann verði áfram á höfuðborgarsvæðinu. Sama má eflaust segja um flest landsbyggðarfólk. Reykjavík er höfuðborg landsins, sem slík er hún vettvangur t.d. stjórnsýslu og stórfyrirtækja. Öllum er okkur á landsbyggðinni nauðsynlegt að nota flug sem samgönguleið til að sækja þjónustu. Enginn vafi er á því að mínu mati að Reykjavíkurflugvöllur er flugvöllur allra Íslendinga, vettvangur okkar allra, ekki bara Reykvíkinga. Að mínu mati og okkar hér sem erum úti á landi er flugið óneitanlega samgönguleið, lífæð okkar svæðis til höfuðborgarsvæðisins og nauðsynlegur punktur í okkar lífi. Reykjavíkurflugvöllur er mikilvægur okkur sem þurfum að fara um hann mörgum sinnum á ári til að komast suður til Reykjavíkur til fundahalda eða þá til að halda í lengri ferðir. Ég nota mun frekar flugið en bílinn ef ég þarf að fara suður, til lengri eða skemmri tíma hiklaust vegna þess að um er að ræða bæði í senn hraðvirkari og betri kost til samgangna við höfuðborgarsvæðið.
Þó Reykjavíkurflugvöllur sé mikilvægur punktur líta sumir íbúar á höfuðborgarsvæðinu jafnan á völlinn sem sitt einkamál og öðrum komi það ekki við hvernig unnið verði í málum hans á komandi árum. Það hefur allavega verið sjónarmið valdabræðings vinstrimanna sem ráðið hefur í borginni seinasta áratuginn, en hefur nú fengið á sig dánarvottorð þeirra sem stofnuðu hann. Rúm fjögur ár eru liðin síðan hinn látni R-listi hélt misheppnaða kosningu meðal borgarbúa um framtíð vallarins. Hún var misheppnuð í þeim skilningi að hún var bæði byggð á undarlegum forsendum og borgarbúar tóku ekki afstöðu að stóru leyti. Umræðan snerist að öllu leyti að mínu mati um hagsmuni Reykvíkinga og einblínt á vægast sagt þrönga hagsmuni. Landsbyggðarfólki gafst ekki kostur á að tjá sín sjónarmið og fara yfir það sem því þætti mikilvægast í sama máli. Það er staðreynd, vægast sagt dapurleg staðreynd. Nú horfir svo við að menn eru tilbúnir til að líta á nýja kosti í stöðunni. Menn ræða og það alvarlega þann möguleika að finna annan stað fyrir völlinn.
Nú hefur rykið verið dustað af þriggja áratuga gamalli tillögu um völl á Lönguskerjum, sem Trausti Valsson kom manna fyrstur með, og Hrafn Gunnlaugsson færði í glæsilegan myndrænan búning í mynd sinni, Reykjavík í öðru ljósi, á árinu 2001. Er það jákvætt að tekin sé upp umræða um þann kost í málinu. Það er mjög stutt síðan að öll umræða hljóðaði á þann veg að flugvöllurinn skyldi fara úr Vatnsmýrinni en svo væri það annarra að finna út úr hvað taka ætti við. Það sáu allir að við svo búið gat umræðan ekki einvörðungu verið stödd. Það þurfti að útfæra aðra möguleika og annan status í málið. Þessi hlið málsins, einhliða tal án framtíðarsýnar um hvað yrði völlinn gat ekki gengið. Nú er það greinilega að baki og allir hafa lagst á eitt með það að landa þessu máli með þeim hætti sem sómi er að fyrir bæði landsbyggðarfólk sem og höfuðborgarbúa. Umræðan var ekki málefnaleg áður, það var ráðist að okkur úti á landi fyrir að verja þennan mikilvæga samgöngupunkt okkar og fundið að því að við værum að tjá okkur um mál sem að mati sunnanmanna væri aðeins þeirra mál.
Mér persónulega fannst sérstaklega leitt að heyra tal sumra sem töluðu um aðkomu okkar að flugvellinum, sem er samgöngulegur miðpunktur allra landsmanna, og því að okkur var liggur við brigslað um að vera að skipta okkur af annarra manna málum. Það var leitt að heyra vanþekkingu sumra á stöðu mála. Það er annar tónn kominn nú mun jákvæðari og eðlilegri tónn. Í stað ómálefnalegrar umræðu um einhliða tón málsins hefur opnast samstarfsgrunnur að málefnalegri umræðu um eðlilega kosti málsins. Höfuðborgarsvæðið er og verður alla tíð okkur mikilvægt og það er að mínu mati alveg lágmark að okkur séu tryggðar góðar samgöngur þangað og fljótvirkar. Flutningur innanlandsflugsins til Keflavíkur er og verður óásættanlegur kostur í mínum huga og okkar allra úti á landi. Finna þarf ásættanlega staðsetningu á höfuðborgarsvæðinu fyrir flugvöll. Fyrir það fyrsta í mínum huga snýst þetta mál um þá ábyrgð og þær skyldur sem höfuðborgin okkar þarf að bera gagnvart öllum landsmönnum öllum.
Þar er allt í senn miðpunktur stjórnsýslunnar og þar á viðskipta- og menningarlíf landsins sínar höfuðstöðvar. Það er mjög einfalt í mínum huga að greiðar samgöngur allra landsmanna, til og frá Reykjavík, eru forsenda þess að höfuðborgin geti sinnt sínu hlutverki með eðlilegum hætti. Það er vissulega mál Reykvíkinga hvort þeir vilja hafa flugvöll innan borgarmarkanna eða ekki og önnur sveitarfélög hafa ekkert um það að segja. En á meðan Reykjavík er höfuðborg landsins og sinnir ýmsum þeim þáttum sem þeim sess fylgir geta þeir ekki lokað umræðuna á afmörkuðum bletti sinna skoðana. Það er bara þannig. Ég lít svo á að höfuðborgin sé mín rétt eins og borgarbúa að þessu leyti. Um er að ræða málefni sem skiptir því ekki bara borgarbúa máli að því leyti. Ekki veitir af umræðu um þessi mál. Hef ég talið mikilvægt varðandi Reykjavíkurflugvöll að í samfélaginu öllu verði frjó og góð umræða, þar sem teknir yrðu fyrir kostir og gallar flugvallar í Vatnsmýrinni og farið yfir málið frá víðu sjónarhorni.
Það er óhætt að segja að okkur landsbyggðarfólki hafi brugðið nokkuð við það að sjá þann mæta mann, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson leiðtoga borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, segja í viðtali í dægurmálaþættinum Íslandi í dag á þriðjudagskvöldið að það væri stefna sín að flugvöllurinn ætti að fara úr Vatnsmýrinni ekki árið 2016 eins og við hefur blasað heldur strax á næsta kjörtímabili. Er nokkuð nema furða að maður spyrji hvort þessi borgarfulltrúi sé að fara á taugum í prófkjörsslag sjálfstæðismanna í borginni. Eins og kunnugt er hefur hann nú fengið mótframboð til leiðtogastöðunnar frá Gísla Marteini Baldurssyni og ef marka má háværar raddir fjölmiðlanna ætla Guðlaugur Þór Þórðarson og Júlíus Vífill Ingvarsson í leiðtogaslaginn ennfremur. Ég verð að viðurkenna að mér brá nokkuð að sjá þennan þaulreynda sveitarstjórnarmann gjörsamlega farinn á taugum í þessu viðtali og sendandi yfirboð á það sem Gísli Marteinn hafði sagt skömmu áður og gefið í skyn að hann væri með aðra skoðun en Vilhjálmur Þ. Gísli Marteinn hefur reyndar sagt svipaða hluti en þó komið með raunhæfa stefnu á hvað eigi að taka við, t.d. flugvallarkost á Lönguskerjum.
Það er nú bara þannig að við úti á landi sem notum innanlandsflugið viljum gjarnan heyra, þó við séum ekki kjósendur í Reykjavík, hvað eigi að taka við fari völlurinn úr Vatnsmýrinni. Ég vil annars benda mætum félögum mínum í borginni á það að völlurinn hefur verið festur í sessi í borginni nokkurn tíma enn og stórum fjárhæðum varið í það verkefni að efla völlinn og aðstæður hans. Spurningin vaknar um það hvort þeim peningum var hent út um gluggann? Þetta er stór spurning. Það er varla furða að við á landsbyggðinni séum undrandi á ummælum Vilhjálms Þ. sem hingað til hefur verið rödd hófsemi og skynsemi umfram allt í flugvallarmálunum. Nú keppist hann við að toppa tal annarra frambjóðenda í prófkjörsslagnum og býður bara hærra. Minnir mann satt best að segja á pókerspilara við spilaborðið sem dobblar spilamanninn sem gaf á undan. Eða ég get ekki annað sagt um þetta en það. Er þetta það sem koma skal? Spurt er: ætla sjálfstæðismenn í Reykjavík að bjóða okkur landsbyggðarsjálfstæðismönnum virkilega upp á það að boða brotthvarf vallarins úr Vatnsmýrinni en koma ekki með neitt í staðinn?
Ég ætlast til þess, sérstaklega af formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, þó flokksbróðir minn sé, að hann tali skýrar og nefni kosti í stöðunni. Það vita það allir að Vilhjálmur Þ. hefur talað með öðrum hætti um stöðu mála, verið með aðra kosti uppi og talað mun varfærnar en blasti við okkur áhorfendum á þriðjudagskvöldið í viðtalsþættinum fyrrnefnda. Ég ítreka vissulega að ég útiloka ekki að flugvöllur á höfuðborgarsvæðinu verði færður til. En það verður að gera með rólegum hætti og yfirveguðum - í fullri sátt. Flugvöllur á höfuðborgarsvæðinu er nefnilega ekki einkamál Reykvíkinga. Hann hefur verið festur í sessi vissan tíma og menn verða að vinna málið rólega og miða við tímaramma sem uppi eru á borðinu umfram allt. Tek ég undir með Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra, að mikilvægt sé að vinna málið yfirvegað en þó af krafti. En mest er um vert að finna hentuga staðsetningu vilji borgaryfirvöld að völlurinn fari á þeim tíma sem talað hefur verið um, eftir árið 2016.
Hugmyndin um flugvöll á Lönguskerjum eða jafnvel á Álftanesi (eins og samgönguráðherra hefur talað fyrir seinustu daga) er vissulega mjög góður kostur. Er ég sammála Gísla Marteini leiðtogaefni Sjálfstæðisflokksins í borgarmálunum, um að það sé vel þess virði að kanna kosti og galla tillögunnar um Lönguskerjaflugvöll. Kanna verður þó alla þætti málsins og hvort hún sé raunhæf að því leyti að hún geti gengið upp átt sér líf utan teikniborðsins og myndar Hrafns um skipulagsmál í borginni. Í þessum efnum er talað er um flugvöllinn leiðist mér þegar menn eru að tala um það sem grunn hvort hann sé í Vatnsmýrinni. Það er eins og fyrr hefur komið fram í þessum pistli í sjálfu sér aukaatriði að mínu mati. Grunnpunktur af minni hálfu er að hann sé á höfuðborgarsvæðinu. Það er innri ákvörðun yfirvalda í sveitarfélaginu hvar hann sé ætli Reykjavík og svæðið þar í kring að standa undir nafni sem höfuðborg og vera áfram sá miðpunktur sem hann hefur verið til fjölda ára.
En það er óhætt að segja að við á landsbyggðinni fylgjumst með vel með þessu hitamáli í kosningabaráttunni í Reykjavík. Þetta er í senn bæði hjartans mál í okkar huga og málefni sem skiptir okkur höfuðmáli. Samgöngur og tengingar í samgönguátt fyrir okkur á landsbyggðinni mun ávallt skipta okkur máli, nú á komandi árum sem ávallt fyrr. Þegar níu mánuðir eru til kosninga er þetta þegar orðið lykilmál baráttunnar og á eflaust margt vatn eftir að renna til sjávar hvað varðar þessa umræðu fyrir kjördag þann 27. maí á næsta ári.
Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr@simnet.is
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004