Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 5. september 2005

Gísli Marteinn Baldursson tilkynnti formlega þann 28. ágúst sl. að hann hyggðist bjóða sig fram í fyrsta sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar sem fram fara næsta vor. Kom þetta fram í ræðu sem hann flutti á fjölmennum fundi stuðningsmanna í Iðnó sem kunnugt er. Var húsið bókstaflega troðfullt en undirritaður var þar á meðal. Afar ánægjulegt er að Gísli Marteinn hafi tekið þessa ákvörðun. Nú er bara að sjá hverjar lyktir verða í prófkjörinu sem sennilega mun fara fram í byrjun nóvember. Persónulega styð ég Gísla heilshugar í framboði hans og trúi því að hann eigi eftir að fara með sigur af hólmi.

Hann hefur heldur ekki skemmt fyrir sá augljósi taugatitringur sem verið hefur til staðar hjá aðilum á vinstrivængnum vegna framboðs Gísla Marteins, bæði fyrir og eftir að það lá fyrir að hann hyggðist stefna á fyrsta sætið á lista Sjálfstæðisflokksins. Þetta hefur einkum verið áberandi hjá ýmsum framámönnum innan Samfylkingarinnar og hefur Össur Skarphéðinsson, þingmaður flokksins, farið þar fremstur í flokki. Hefur hann hamast gegn framboði Gísla allt frá því í vor og fundið því allt til foráttu á heimasíðu sinni eins og komið hefur fram. Eru það mikil meðmæli með framboði Gísla.

Með því neyðarlegra í þessum efnum af hálfu Össurar var að halda því fram að Gísli Marteinn hefði verið að setja sig í sama hóp og Bjarni Benediktsson, Geir Hallgrímsson og Davíð Oddsson þegar hann nefndi að allir þessir menn hefðu verið tiltölulega ungir þegar þeir tóku við sem oddvitar borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma. Með þessu var Gísli þó augljóslega aðeins að meina að það að hann væri ungur maður þýddi ekki að hann væri þar með ekki hæfur til að leiða sjálfstæðismenn í borginni, en eins og kunnugt er hafa sumir orðið til að nefna það hingað til sem hugsanlegan ókost við framboð hans.

Í gærkvöldi var síðan svakaleg frétt á Stöð 2 um að Gísli Marteinn hefði ekki lokið BA námi í stjórnmálafræði þó það væri haft eftir honum í bókinni Samtíðarmenn. Mátti helzt skilja á kynningunni á fréttinni að verið væri að fletta ofan af einhverju skipulögðu samsæri. Í fréttinni sjálfri kom hins vegar berlega í ljós að einungis væri um að ræða atvik sem ætti sér eðlilegar og skiljanlegar skýringar. Gísli ætti lítið eftir af náminu og hefði gert ráð fyrir að vera búinn með það þegar bókin kæmi út. Þær áætlanir hefðu hins vegar frestast. Þetta var nú öll æsifréttin.

Er alveg með ólíkindum hvað sumir af andstæðingum Gísla Marteins eru augljóslega tilbúnir að leggjast lágt vegna hræðslu sinnar við framboð hans. Það sýnir ennfremur hversu lítið þessir sömu aðilar hafa greinilega á Gísla að þeir skuli þurfa að tína til annan eins tittlingaskít og það hvort hann hafi lokið BA námi eða ekki og reyna að mála það upp sem einhverja æsifrétt sem síðan kemur í ljós að er alger stormur í vatnsglasi og reyndar miklu minna en það. Það verður að segjast eins og er að þessi vinnubrögð gera mann enn staðfastari í þeirri trú en áður að Gísli Marteinn sé rétti maðurinn til að leiða lista okkar sjálfstæðismanna í vor.

---

Og meira um Össur en það var ekki síður neyðarlegt að sjá hann hlaupa algerlega á sig í pistli á dögunum þar sem hann skammaðist út í íslenzk stjórnvöld fyrir að senda ekki þegar í stað íslenzkar björgunarsveitir til Bandaríkjanna vegna náttúruhamfaranna sem áttu sér stað þar nýverið. Talaði hann um seinagang og ég veit ekki hvað. Þarna opinberaði hann algerlega þekkingarleysi sitt í því hvernig svona mál ganga fyrir sig. Menn senda einfaldlega ekki björgunarsveitir til annara landa án þess að fyrir liggi að viðkomandi stjórnvöld hafi óskað eftir aðstoð þeirra. Í þessu tilfelli afþökkuðu Bandaríkjamenn aðstoðina eins og kunnugt er. Það er einfaldlega ekki nóg að Sameinuðu þjóðirnar hafi óskað eftir slíkri aðstoð þó Össur haldi það greinilega. Bandaríkin eru sjálfstætt ríki og hafa ein vald til þess að heimila erlendum björgunarsveitum að starfa í landinu.

---

Annars hefur verið mjög sérstakt að fylgjast með því hvernig fylgi Samfylkingarinnar hefur þróast á undanförnum mánuðum eftir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var kjörin formaður flokksins. Það er ekki að sjá að tilkoma hennar í formannsstólinn hafi skipt nokkru máli fyrir fylgi hans eins og manni skildist að ætti að gerast á stuðningmönnum hennar. Fylgi flokksins er nú 30% samkvæmt síðustu skoðanakönnun Gallups en var 31% í kosningunum 2003 eins og kunnugt er. Það verður óneitanlega fróðlegt að sjá hvernig þróunin verður í þessum málum í vetur.

---

Að lokum bendi ég lesendum á grein eftir mig sem birtist í gær á vefritinu "The Brussels Journal" sem ritstýrt er af Flæmingjanum Dr. Paul Belien sem m.a. er meðlimur í Mont Pelerin Society. Var mér boðið að gerast þar fastur penni sem ég þáði. Er ég þar í góðum félagsskap Dr. Belien, Daniels Hannans, þingmanns brezka Íhaldsflokksins á þingi Evrópusambandsins, og fleiri mætra manna.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband