Mánudagur, 19. desember 2005
Mánudagspósturinn 19. desember 2005
Forystuekla Samfylkingarinnar virðist engan endi ætla að taka. Á sínum tíma var mikið rætt um það innan flokksins að annað hvort þyrfti að fá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem þá var enn borgarstjóri Reykjavíkur, eða Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi sendiherra, til að taka við forystu hans. Svo fór að lokum, eins og kunnugt er, að Ingibjörg var kosin formaður flokksins sl. vor og síðan hefur fylgi flokksins bókstaflega hrunið ef marka má skoðanakannanir.
Fyrir vikið hafa þær raddir nú færst í aukana sem vilja að Jón Baldvin komi að forystu Samfylkingarinnar með einum eða öðrum hætti. M.ö.o. reyndist það ekki nóg að Ingibjörg Sólrún tæki við forystu flokksins eins og ófáir töldu. Hún hefur a.m.k. enn sem komið er ekki reynst sá sterki foringi sem stuðningsmenn hennar vildu meina að hún yrði. Raunar þvert á móti ef eitthvað er sem aftur hlýtur að valda því annars ágæta fólki talsverðu hugarangri.
Að öðru leyti er ekki hægt að túlka vangavelturnar um komu Jóns Baldvins að forystu Samfylkingarinnar öðruvísi en ákveðinn áfellisdóm yfir Ingibjörgu Sólrúnu. Hún hafi einfaldlega ekki staðið undir þeim væntaningum sem gerðar voru til hennar. Að öðrum kosti væri auðvitað engin þörf á því að velta fyrir sér komu Jóns Baldvins að forystumálum flokksins.
---
Birti að öðru leyti hér grein eftir mig sem birtist í Morgunblaðinu þann 14. desember sl. sem svar við gagnrýni á grein sem ég hafði áður skrifað í blaðið um fylgishrun Samfylkingarinnar.
Samfylkingarmenn í sárum
Hjálmtýr Heiðdal, kvikmyndagerðarmaður, ritaði grein í Morgunblaðið á dögunum og kvartaði sáran yfir því að ég og einhverjir fleiri hefðum að undanförnu tjáð okkur í blaðinu um fylgishrun Samfylkingarinnar sem átt hefur sér stað allt frá því Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var kjörin formaður flokksins sl. vor. Orðrétt segir hann um mína aðkomu að því máli: Ungur maður að nafni Hjörtur J. Guðmundsson (einn af ritstjórum vefritsins íhald.is) gerir mikla atlögu sem eingöngu byggist á niðurstöðum skoðanakannana (Mbl. 6. des.). Allur málatilbúnaður hans hrynur ef næsta skoðanakönnun sýnir vaxandi gengi Samfylkingarinnar - Hjörtur er ekki málefnalegri en svo.
Það er nefnilega það. Fyrst ber nú að geta þess að ég sagði aldrei neitt um það í greininni minni hvað framtíðin kynni að bera í skauti sínu í þessum efnum þó Hjálmtýr geri að því skóna, enda er ég eðli málsins samkvæmt ekki frekar en aðrir í aðstöðu til að segja neitt til um það. Eins og þeir vita sem lásu greinina var ég einungis að tala um það hvernig fylgi Samfylkingarinnar hefði þróast frá því Ingibjörg var kjörin formaður flokksins sem er ekki beint eitthvað til að hrópa húrra fyrir! Það er annars furðulegt að á sama tíma og Hjálmtýr sakar mig um að vera ómálefnalegur skuli hann gera mér upp skoðanir með þessum hætti.
Í annan stað er merkilegt að Hjálmtýr (sem ég býst við að sé Samfylkingarmaður) reyni að gera lítið úr því að ég skuli hafa byggt mál mitt eingöngu á skoðanakönnunum. Samfylkingin er nú fræg fyrir það að hafa í gegnum tíðina byggt heilu stefnurnar á að því er virðist litlu öðru en skoðanakönnunum. Yfirleitt hefur ekki þurft mikið meira en eina slíka könnun til þess. Sennilega er nóg að nefna Evrópumálin í því sambandi. Greinin mín var hins vegar byggð á heilum átta skoðanakönnunum, sex frá Gallup og tveimur frá Fréttablaðinu, sem allar bar að sama brunni. Fylgi Samfylkingarinnar hefur bókstaflega hrunið sl. sex mánuði!
Ég geri annars ráð fyrir því að næst þegar Samfylkingin vekur máls á einhverju á grundvelli skoðanakannana, ég tala nú ekki um ef aðeins verður um að ræða eina slíka, að þá muni Hjálmtýr skrifa grein í Morgunblaðið og kvarta yfir því hversu ómálefnaleg forysta flokksins er. Svona ef hann vill vera sjálfum sér samkvæmur. Greinin mín fjallaði um það hvernig fylgi Samfylkingarinnar hefði þróast sl. sex mánuði og eðlilega byggði ég því mál mitt á skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið í því sambandi. Ef Hjálmtýr veit um einhverja betri aðferð til að mæla fylgi stjórnmálaflokka á milli kosninga en slíkar kannanir þá gæti ég trúað að forsvarsmenn Gallup og hliðstæðra aðila yrðu áhugasamir að heyra meira um þá uppgötvun.
En að öllu gamni slepptu þá er staðreyndin einfaldlega sú að þetta er ekkert annað en væl í Hjálmtý með fullri virðingu fyrir honum og hans skoðunum. Það er hins vegar meira en skiljanlegt að stuðningsmenn Ingibjargar Sólrúnar séu í einhverri tilvistarkreppu þessa dagana. Ekki lái ég þeim það. Hjálmtýr kvartar sáran yfir því m.a. að skuldinni af minnkandi fylgi Samfylkingarinnar sé skellt á Ingibjörgu. Er hún ekki formaður flokksins? Var ekki Össuri alltaf kennt um allt sem aflaga fór í þessum efnum þegar hann var formaður? Og ef þessa þróun má ekki rekja að miklu leyti til Ingibjargar, hvers þá?
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Breytt 6.10.2006 kl. 13:19 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004