Mánudagur, 9. janúar 2006
Mánudagspósturinn 9. janúar 2006
Eitt af því sem veldur íslenzkum Evrópusambandssinnum erfiðleikum í áróðri sínum fyrir því að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið er fullveldið. Á sínum tíma voru íslenzkir Evrópusambandssinnar hlynntir því að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið yrði lögfestur hér á landi og þvertóku þá fyrir að í honum fælist einhver fullveldisskerðing. Í dag er eitt af áróðursbrögðum þeirra að reyna að telja fólki trú um þá vitleysu að með því að ganga í Evrópusambandið myndi Ísland endurheimta það fullveldisafsal sem EES-samningurinn hafði í för með sér! M.ö.o. hafa menn þarna farið í heilan hring í málflutningi sínum og þetta er almenningi síðan boðið upp á.
Vissulega hefur EES-samningurinn í för með sér ákveðna fullveldisskerðingu fyrir Ísland þar sem við þurfum að taka upp í gegnum hann ákveðinn hluta af löggjöf Evrópusambandsins. Sá hluti er þó sáralítill af heildarlöggjöf sambandsins eins og kom berlega í ljós í úttekt skrifstofu EFTA á því sl. vor. Aðeins er um að ræða 6,5% löggjafar Evrópusambandsins sem fellur undir EES-samninginn en ekki 80% eins og forystumenn íslenzkra Evrópusambandssinna höfðu fram að því ítrekað haldið að þjóðinni og þ.á.m. sjálfskipaðir Evrópusérfræðingar. Sérfræðiþekkingin sú náði þó ekki lengra en þetta.
Staðreyndin er sú að ef Ísland gengi í Evrópusambandið er klárt mál að áhrif okkar yrðu sáralítil innan þess. Við höfum margfalt meira um eigin mál að segja eins og staðan er í dag en raunin yrði nokkurn tímann innan sambandsins. Og sama er að segja um áhrif okkar á alþjóðavettvangi. Þróunin innan Evrópusambandsins er með auknum hraða í þá átt að vægi aðildarríkjanna sé í samræmi við íbúafjölda þeirra og eðli málsins samkvæmt er sá mælikvarði okkur Íslendingum ekki beint hagstæður. Sem dæmi má nefna að á þing Evrópusambandsins myndum við í bezta falli fá þrjá fulltrúa af 730. Þessir þrír fulltrúar myndu síðan mjög ólíklega koma allir frá sama stjórnmálaflokknum þannig að óvíst er hvort þeir myndu endilega sjá einhverja ástæðu til að vinna saman nema í helzt í undantekningartilfellum.
Íslenzkir Evrópusambandssinnar virðast sumir halda að Ísland yrði stórveldi við það að ganga í Evrópusambandið og þannig hefur maður t.d. heyrt því fleygt frá slíkum aðilum að sameiginleg sjávarútvegsstefna sambandsins yrði ekkert vandamál fyrir okkur því þegar Ísland væri orðið aðili að því myndum við hafa svo gríðarleg áhrif á mótun hennar og gætum nánast breytt henni bara eins og okkur sýndist. Skemmst er nú frá því að segja að Bretar, eitt af stóru ríkjunum í Evrópusambandinu, hafa verið aðilar að því síðan árið 1972 og allar götur síðan reynt mikið til að breyta sjávarútvegsstefnu þess þannig að hún hentaði hagsmunum þeirra en án nokkurs árangurs.
Og svona mætti halda lengi áfram. Málið er einfaldlega það að við höfum ekkert í Evrópusambandið að gera þó einhverja íslenzka Evrópusambandssinna langi voðalega mikið til þess. Hvers vegna í ósköpunum ættum við að gera það? Ísland er að koma svo margfalt betur út úr alþjóðlegum úttektum á árangri þjóða en nokkurn tímann Evrópusambandið, aftur og aftur og aftur. Nei, í Evrópusambandið höfum við ekkert erindi!
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Meginflokkur: Mánudagspósturinn | Aukaflokkar: Evrópumál, Hjörtur J. | Breytt 27.4.2007 kl. 23:35 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004