Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 5. desember 2005

Danska utanríkisráðuneytið hefur varað Dani við því að ferðast til Pakistan. Ástæðan er sú að fyrir helgina bauð pakistanski stjórnmálaflokkurinn Jamaat-e-Islami háa fjárhæð til handa hverjum þeim sem myrti tólf danska teiknara sem teiknuðu myndir af Múhameð fyrir danska dagblaðið Jótlandspóstinn í september sl. Blaðið bað teiknarana að teikna myndirnar í því skyni að láta reyna á tjáningarfrelsið í Danmörku með tilliti til hryðjuverkaógnarinnar í heiminum eftir að danskur rithöfundur kvartaði yfir því að hann fyndi engan teiknara sem þyrði að myndskreyta bók hans um Múhameð, en múslimar álíta það guðlast að teikna myndir af honum.

Afleiðing þessa varð sú að ströng öryggisgæzla hefur verið við skrifstofur Jótlandspóstsins síðan í september eftir að blaðinu bárust sprengjuhótanir og margir af teiknurunum hafa farið í felur eftir að hafa fengið sendar morðhótanir. Múslimar og ýmis samtök þeirra, bæði innan Danmerkur sem utan (þ.á.m. í Pakistan), hafa mótmælt birtingu myndanna og í október sendu sendiherrar 11 múslimskra ríkja bréf til Anders Fogh Rasmussens, forsætisráðherra Danmerkur, þar sem þeir kröfðust þess að hann fordæmdi birtinguna og sæi til þess að Jótlandspósturinn bæðist afsökunar á henni. 

Rasmussen harðneitaði að funda með sendiherrunum og ræða málið af þeirri einföldu ástæðu að Danmörk væri lýðræðisríki sem viðurkenndi tjáningarfrelsi og frelsi fjölmiðla. Hann hefði engin völd sem heimiluðu honum að segja dönskum fjölmiðlum fyrir verkum, né kærði hann sig um slík völd. Hann sagði ennfremur að ef birting myndanna hefði misboðið einhverjum þá gæti sá hinn sami farið með málið fyrir dómstóla. Sendiherrarnir sættu sig ekki við afstöðu forsætisráðherrans og héldu fund með nokkrum dönskum stjórnmálamönnum í því skyni að reyna að setja þrýsting á Rasmussen. Eftir fundinn var tilkynnt að ákveðið hefði verið að fela málið í hendur samtakanna Organisation of the Islamic Conference sem 56 ríki eiga aðild að þar sem múslimar eru annað hvort fjölmennir eða meirihluti íbúanna. Samtökin sendu í framhaldi af því mótmælabréf til danskra stjórnvalda.

Fjárhæðin, sem Jamaat-e-Islami hefur nú sett til höfuðs dönsku teiknurunum, samsvarar um hálfri milljón íslenzkra króna. Reyndar telur flokkurinn ranglega að aðeins einn teiknari hafi teiknað allar myndirnar tólf. Danski sendiherrann í Pakistan, Bent Wigotski, sagði að Jamaat-e-Islami hefði einnig krafizt þess að allir starfsmenn danska sendiráðsins væru reknir úr landi. Wigotski lagði þó áherzlu á að ekki stæði til að rýma sendiráðið þrátt fyrir að hafa fengið hundruðir harðorðra mótmælabréfa frá múslimum.

Wigotski viðurkenndi að málið væri engu að síður grafalvarlegt. „Það getur verið að þeir reyni að hafa hendur í hári dönsku teiknaranna, en ef þeir ná ekki til þeirra kunna þeir að finna sér blóraböggul,“ sagði hann. Sendiráðið hefur varað við því að slíkur blóraböggull gæti verið hver sem er og því hefur danska utanríkisráðuneytið gefið út tilkynningu þar sem Danir eru varaðir við því að ferðast til Pakistan eins og áður segir.

Sendiherra Pakistan í Danmörku, Javed Qureshi sem var einn af sendiherrunum ellefu sem undirrituðu mótmælabréfið til Rasmussens, hefur fordæmt morðhótanirnar. Hann sagði að engin pakistönsk stjórnvöld myndu nokkurn tímann styðja slíkt og sagðist sannfærður um að núverandi ríkisstjórn myndi beita sér í málinu. Sagðist hann ekki geta ímyndað sér annað en að slíkt bryti í bága við pakistönsk lög.

Því má bæta við að þetta er alls ekkert eindæmi. Skemmst er að minnast þess þegar hollenzki kvikmyndagerðamaðurinn Theo van Gogh var myrtur á hrottafenginn hátt á götu í Amsterdam um hábjartan dag af ungum múslima fyrir þá “sök” að hafa gert kvikmynd um kúgun kvenna í heimi íslam. Í kjölfarið fengu nokkrir hollenzkir þingmenn, sem talað höfðu fyrir því að tekið yrði á innflytjendamálum landsins, morðhótanir og urðu sumir þeirra að fara í felur vegna þess. Eins og Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, bendir á í pistli á heimasíðu sinni í gær þá minnir þetta einnig á þær hótanir sem dundu á rithöfundinum Salman Rushdie frá múslimum sem þótti hann hafa farið óvirðulegum orðum um Múhameð. Rushdie bjó í mörg ár í felum við miklar öryggisráðstafanir af þeim sökum.

Þess má að síðustu geta að enska útgáfu af þessum pistli mínum má bæði finna á vefritinu The Brussels Journal sem og á vefsíðu dönsku frjálshyggjuhugveitunnar The Copenhagen Institute.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband