Leita í fréttum mbl.is

Vinstrimenn á móti jafnræði

Ýmsir hagsmunaaðilar á vinstrivængnum hafa nú endurvakið grátkórinn yfir því að stjórnvöld hafi tekið þá ákvörðun á síðasta ári að félagsskapurinn Mannréttindaskrifstofa Íslands skyldi ekki lengur vera áskrifandi að árlegu fjárframlagi frá ríkinu á fjárlögum eins og verið hafði í nokkur ár. Ástæðan var einföld: Mannréttindaskrifstofan rifti einfaldlega einhliða þeim samningi sem það hafði við ríkið um þessi fjárframlög. Í kjölfar þess var málið tekið til endurskoðunar og komust stjórnvöld að þeirri niðurstöðu að óeðlilegt væri að einn einkaaðili á Íslandi, sem starfaði að mannréttindamálum, væri tekinn út fyrir sviga og veitt sérstök staða þegar kæmi að stuðningi hins opinbera við slíkt starf. Því var ákveðið að allir aðilar á Íslandi, sem starfa að mannréttindamálum, skyldu sitja við sama borð gagnvart ríkinu og geta sótt um styrki til þess á jafnræðisgrundvelli til ákveðinna verkefna.

Þessu vildu ófáir vinstrimenn hins vegar ekki una og heimtuðu, og heimta enn, að félagsskapurinn Mannréttindaskrifstofa Íslands njóti algerrar sérstöðu í þessum efnum umfram aðra sambærilega aðila og sé veitt sérstök fyrirgreiðsla af hálfu hins opinbera sem öðrum stendur ekki til boða. Verður að teljast alveg furðulegt að umræddir vinstrimenn, sem básúna það óspart að þeir standi fyrir jafnræði í þjóðfélaginu o.s.frv., skuli setja sig upp á móti því að allir skuli sitja við sama borð í þessu máli. Er þetta einungis enn eitt dæmið um það hvernig þessir aðilar segja eitt en þegar á hólminn er komið er lítil sem engin innistæða fyrir stóru og fallegu orðunum. Tvöfeldnin er allsráðandi.

Að öðru leyti fer hér á eftir grein sem ég ritaði í lok síðasta árs um þetta mál:

---

Mannréttindaskrifstofa Íslands: Óháð ríkinu ...en samt ekki

Aðstandendur Mannréttindaskrifstofu Íslands eru sem kunnugt er æfir yfir þeirri ákvörðun stjórnvalda að skrifstofan skuli ekki lengur vera áskrifandi að árlegum fjárframlögum frá hinu opinbera, þ.e. úr vösum skattgreiðenda. Fyrir þá sem ekki þekkja til hafa ráðuneyti utanríkis- og dómsmála greitt samtals 8 milljónir króna til skrifstofnunnar árlega samkvæmt samningi sem gerður var við hana 1. janúar 1999. Samkvæmt honum átti hluti af framlaginu að renna til Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands. Mannréttindaskrifstofa Íslands rifti hins vegar samningnum við Mannréttindastofnunina um síðustu áramót án þess að tilkynna það til stjórnvalda og varð stofnunin þar með af tekjum sínum. Fréttu stjórnvöld ekki af þessu fyrr en 16. júní í sumar þegar Mannréttindastofnunin tilkynnti þeim það bréfleiðis. Í bréfinu sagði m.a. að þar með væru upprunalegar forsendur fyrir opinberum fjárveitingum til Mannréttindaskrifstofu Íslands breyttar og því ljóst að skrifstofan kæmi ekki lengur fram fyrir hönd beggja aðila í þessum málum gagnvart ráðuneytinu. Þetta leiddi til þess að stjórnvöld ákváðu að endurskoða málið.

Jafnræði látið gilda
Mannréttindaskrifstofa Íslands hafði annars óskað eftir því í sumar að fjárframlagið frá ríkinu yrði hækkað sem er mjög merkilegt í ljósi þess að skrifstofan var í raun ekki í aðstöðu til krefjast framlags frá hinu opinbera yfir höfuð að svo komnu máli þar sem hún hafði rift samningnum þar um. Stjórnvöld ákváðu í kjölfarið að áfram verði kveðið á um sömu upphæð í fjárlögum fyrir næsta fjárlagaár til mannréttindamála en að fjárframlög verði hins vegar ekki lengur eyrnamerkt neinum einum aðila umfram annan í þeim efnum eins og var í tilfelli Mannréttindaskrifstofu Íslands. Jafnræði verði því látið gilda í þeim efnum og öllum einkaaðilum, sem vinna að mannréttindamálum hér á landi, frjálst að sækja um framlög úr þeim sjóði.

En sem fyrr segir hefur þessi ákvörðun stjórnvalda ekki mælzt vel fyrir hjá aðstandendum Mannréttindaskrifstofu Íslands. Er reyndar með sanni hægt að segja að þeir hafi brugðist hinir verstu við og jafnvel hafa komið fram samsæriskenningar um að stjórnvöld séu á einhvern hátt sár út í skrifstofuna fyrir einhver álit sem hún hefur gefið um ýmsar stjórnarathafnir á þessu ári. Að auki er ekki annað að sjá en að haft hafi verið samband við ýmsa í mannréttindageiranum, bæði innanlands og erlendis, og þeir fengnir til að lýsa áhyggjum sínum yfir því að allt sé að fara á versta veg hér á landi í mannréttindamálum. Slíkar yfirlýsingar dæma sig hins vegar mest sjálfar og lýsa sennilega betur þeim sem viðhafa slíkar óábyrgar yfirlýsingar en þeim sem þeim er ætlað að beinast gegn.

Áskrifandi að ávísunum
Staðreyndin er sú að þetta mál allt er lýsandi dæmi um það hvernig fer þegar aðilar eru farnir að kunna vel við sig á ríkisspenanum og farnir að líta á það sem sjálfsagðan hlut að vera áskrifandi að ávísunum frá hinu opinbera. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, hefur einmitt ítrekað bent á það að frjáls félagasamtök eins og Mannréttindaskrifstofa Íslands, sem styrkt væru með opinberu fé, gætu ekki gert ráð fyrir því að fá fjárframlög frá hinum opinbera um alla framtíð. Slíkt væri auðvitað ekki sjálfgefið. Skrifstofunni var gerð grein fyrir þessu þann 11. júní sl. í svari dómamálaráðuneytisins við ósk hennar um hækkað fjárframlag. Það er því alrangt sem talsmenn Mannréttindaskrifstofunnar hafa sagt að henni hafi ekki verið gefin nein viðvörun vegna breytts fyrirkomulags auk þess sem aðstandendur hennar hefðu mátt vita að það yrði vart liðið lengi að skrifstofan væri fjármögnuð á grundvelli samningsins frá 1999 eftir að þeir höfðu rift honum einhliða.

Krafa talsmanna Mannréttindaskrifstofu Íslands, um að henni verði áfram úthlutað ákveðnu framlagi úr ríkissjóði, hefur byggst á því að án þess sé skrifstofan óstarfhæf og til að tryggja að hún sé hlutlaus og óháð ríkisvaldinu geti hún ekki byggt starfsemi sína á samkeppni um styrki frá hinu opinbera við önnur frjáls félagsamtök sem starfa að mannréttindamálum hér á landi. M.ö.o. er hún því mótfallin að jafnræði sé látið gilda á milli hennar og annarra aðila sem starfa á sama sviði en að sama skapi hlynnt því að stjórnvöld beiti sér fyrir mismunun í þeim efnum og veiti henni einhverja sérmeðferð umfram aðra. Mannréttindaskrifstofan mun þó þegar hafa sótt um framlag frá ríkinu í samræmi við breyttar forsendur.

Óháð eða ekki óháð?
En ef það er virkilega stefna aðstandenda Mannréttindaskrifstofunnar, að hún sé óháð ríkisvaldinu, þá færi auðvitað bezt á því að þeir byggju þannig um hnútana að starfsemi hennar væri ekki undir því komin hvort hún fengi fjárframlög frá hinu opinbera eða ekki. Minna má í því sambandi á að mannréttindasamtökin Amnesty International hafa þá stefnu að þiggja ekki framlög frá stjórnvöldum né stjórnmálaflokkum, hvort sem er hér á landi eða erlendis, í því skyni að tryggja hlutleysi sitt og að samtökin séu óháð slíkum aðilum. Gildir einhver önnur formúla um Mannréttindaskrifstofu Íslands í þessum efnum?

Staðreyndin er einfaldlega sú að Mannréttindaskrifstofa Íslands er ekki óháðari íslenzkum stjórnvöldum en svo að hún telur sig alls óstarfhæfa án þess að vera áskrifandi að fjárframlögum frá hinu opinbera.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband