Mánudagur, 28. nóvember 2005
Mánudagspósturinn 28. nóvember 2005

Umbætur eru eitthvað sem allajafna eiga sér ekki stað í stjórnkerfi Evrópusambandsins. Slíkt heyrir til algerra undantekninga ef þær þá eiga sér nokkurn tímann stað. Þannig sagði Jules Muis, fyrrv. yfirmaður innri endurskoðunar í framkvæmdastjórn sambandsins, í viðtali við brezka ríkisútvarpið BBC í lok árs 2003 að þörf væri á breyttum starfsanda innan framkvæmdastjórnarinnar. Sagði hann ennfremur að starfsfólk hennar væri fyrst og fremst valið eftir hæfileikum þess til að viðhalda óbreyttu ástandi. Umbætur innan framkvæmdastjórnarinnar, sagði Muis verða fremur fyrir slysni en að yfirlögðu ráði.
Muis ræddi við BBC í kjölfar rannsóknar á umfangsmikilli fjármálaóreiðu hjá hagstofu framkvæmdastjórnarinnar, Eurostat, sem þá var í gangi og skilaði engum árangri þegar upp var staðið. Í viðtalinu sagði Muis einmitt m.a. að störf embættismanna Evrópusambandsins í Brussel væru metin eftir því hversu leiknir þeir væru í að gára ekki vatnið og styggja engan. Innan framkvæmdastjórnarinnar ríkti kurteisissamsæri og erfitt væri að segja sannleikann. Það væru því yfirleitt uppljóstrarar sem helst kæmu á breytingum. Gallinn er hins vegar sá að slíkir aðilar eru þeir einu sem eru sóttir til saka af Evrópusambandinu. Þeir sem ljóstrað er upp um eru hins vegar látnir óáreittir í samræmi við regluna um að gára ekki yfirborðið.
Staðan í Evrópusambandinu er raunar orðin svo alvarleg að þessu leyti að margir eru komnir á þá skoðun að foyrstumönnum sambandsins sé einfaldlega um megn að koma á nauðsynlegum umbótum í stjórnkerfi þess og ekki sízt efnahagsmálum þess. Kannski er eitt bezta dæmið um þetta sú staðreynd að endurskoðendur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hafa nú neitað að undirrita bókhald þess í 11 ár í röð vegna þess að langstærstur hluti útgjaldaliða sambandsins um 90% eru óútskýrðir. Ekki er vitað í hvað þessir fjármunir hafa farið nema að örlitlu leyti. Er um að ræða gríðarlega háar fjárhæðir, en sama og ekkert er gert til að laga þetta ástand. Vandamálinu er bara velt áfram ár eftir ár.
Annað gott dæmi er Lissabon-áætlunin svokallaða. Aðildarríki Evrópusambandsins samþykktu hana árið 2000 og átti sambandið samkvæmt henni að verða upplýstasta, öflugasta og samkeppnishæfasta markaðssvæði heimsins árið 2010. Flestir eru þó sammála um að Evrópusambandið sé lengra frá þessu markmiði í dag en það var árið 2000 og að útilokað sé að sambandið nái markmiði áætlunarinnar á tilsettum tíma eða bara yfir höfuð. Ófáir forystumenn Evrópusambandsins hafa sjálfir gengizt við þessu. Það er auðvitað ekki skrítið að staðan sé svona þegar samkomulag er í gildi um að viðhalda óbreyttu ástandi.
Tengt þessu eru reglulegar yfirlýsingar forystumanna Evrópusambandsins um að nú þurfi að taka til í reglugerðafrumskógi sambandsins og grisja þar aðeins. Þrátt fyrir þessa staðreynd halda íslenzkir Evrópusambandssinnar því statt og stöðugt fram að Evrópusambandið sé alls ekki reglugerðabákn. Kannski hafa þeir ekki enn fengið nýjustu línuna frá Brussel? Síðast lýsti einmitt forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, José Manuel Barroso, nú fyrir skemmstu því yfir að taka þyrfti til hendinni í þessum efnum. Aldrei er þó lagt til mikil átök í því sambandi og þegar upp er staðið gerist ekki neitt. Það eina sem gerist er að reglugerðafargan sambandsins heldur áfram að aukast stórlega ár eftir ár.
Í síðasta mánuði gagnrýndi Margot Wallström, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sambandið fyrir að hafa einungis verið pólitískt verkefni fyrir fáa útvalda. Sagði hún Evrópusambandið ekki hafa náð að tengjast fólkinu og kallaði eftir því að upplýsingastefna sambandsins yrði tekin til gagngerrar endurskoðunar eins og það var orðað. Þetta sagði hún vitanlega í kjölfar þess að Frakkar og Hollendingar höfnuðu fyrirhugaðri stjórnarskrá Evrópusambandsins sl. sumar. Sagðist Wallström ætla að beita sér fyrir áætlun sem miðaði að því að tekið yrði meira tillit til sjónarmiða almennings.
Þetta hljómar auðvitað afskaplega vel. Það er ánægjulegt að Wallström, sá mikli Evrópusambandssinni, hafi loksins áttað sig á því að Evrópusambandið sé aðeins hugarfóstur fárra útvalinna, eitthvað sem gagnrýnendur sambandsins hafa um langt árabil og jafnvel áratugi bent á en Evrópusambandssinnar þvertekið fyrir. Gallinn er bara sá að aðeins er um að ræða ódýrt almannatengslabragð, enda þarf ekki að segja neinum að Wallström hafi einungis verið að gera sér grein fyrir eðli Evrópusambandsins núna.
Staðreyndin er sú að á næstu mánuðum er hugmyndin að fara af stað með mikla áróðursherferð í aðildarríkjum Evrópusambandsins til að fá almenning í þeim til að styðja fyrirhugaða stjórnarskrá sambandsins sem alls ekki hefur verið afskrifuð í Brussel. Hafa verið eyrnamerktar háar fjárhæðir í það verkefni. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kallar þetta þó að sjálfsögðu upplýsingaherferð.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Breytt 6.10.2006 kl. 13:19 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004