Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 7. nóvember 2005

Prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar næsta vor er nú lokið og niðurstöðunar liggja fyrir. Persónulega hefði ég viljað sjá Gísla Martein Baldursson ná fyrsta sætinu en niðurstaðan varð önnur og þar við situr. Niðurstaðan er engu að síður sú að um er ræða öflugan framboðslista sem verður teflt fram eftir áramót í kosningabaráttunni og með honum munum við klárlega sigra kosningarnar og ná völdum í borginni og innleiða þá nýju tíma sem Gísli Marteinn talaði fyrir í prófkjörsbaráttunni. Þær hugmyndir hafa augljóslega fallið í góðan jarðveg á meðal sjálfstæðismanna í Reykjavík og langt út fyrir þann hóp. Prófkjörsbaráttan sýnir það svo um munar.

Vinstrimenn hafa að sjálfsögðu brugðist við niðurstöðum prófkjörsins eins og við var að búast sama hver niðurstaðan hefði verið eða hvaða fólk hefði verið í framboði. Þ.e.a.s. þeir hafa gefið lítið fyrir niðurstöðuna, fundið henni allt til foráttu og talið hana verða sínum eigin flokkum til framdráttar í kosningunum í vor. Það er ánægjulegt að sjá þann mikla taugatitring og örvæntingu sem greinilega er til staðar í röðum andstæðinga Sjálfstæðisflokksins. Það er alveg klárt mál að Reykvíkingar vilja nýja tíma í borginni og eru búnir að fá nóg af óráðsíu vinstrimanna. Enda er ekki seinna vænna að koma lagi á hlutina áður en hún verður hreinlega sett á hausinn. Dæmalausri skuldasöfnun þann tíma sem vinstriflokkarnir hafa ráðið ferðinni í Reykjavík verður að ljúka og það verður ekki gert nema sjálfstæðismenn nái völdum í borginni.

Það var annars sérstaklega fyndið að sjá hvað Stefán Jón Hafstein brást vandræðalega við þeirri spurningu í fréttatíma Stöðvar 2 í gærkvöldi hvort það væri ekki að kasta steinum úr glerhúsi að segja að hvorki Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson né Gísli Marteinn væru frambærileg leiðtogaefni. Hann varð voðalega skrítinn, vafðist tunga um tönn og sagðist svo ekki skilja spurninguna. Það þarf auðvitað ekki að hafa mörg orð um þetta að öðru leyti, það vita allir hvað átt er við og ekki sízt Stefán Jón. Leiðtogavandræði R-listans hafa nú ekki verið lítil á kjörtímabilinu sem nú fer að ljúka og forystuekla Samfylkingarinnar er ekki síðri. Ingibjörg Sólrún átti víst að rífa fylgi Samfylkingarinnar upp en síðan hún tók við sem formaður flokksins hefur fylgi hans minnkað stöðugt og er nú innan við 28% skv. síðustu skoðanakönnun Gallups.

En hvað sem líður ánægjulegum vandræðagangi á vinstrivængnum þá er ljóst að Gísli Marteinn kemur mjög sterkur út úr þessu prófkjöri sjálfstæðismanna, eins og ýmsir hafa orðið til að banda á s.s. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, þrátt fyrir að hafa ekki ná því sæti sem hann stefndi á (sem reyndar enginn af frambjóðenunum gerði nema Hanna Birna Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Þ.) Gísli lýsti því strax yfir í byrjun prófkjörbaráttunnar að hann hefði vel getað tekið þá ákvörðun að stefna á t.d. annað sætið eða það þriðja og þ.a.l. getað tekið mun léttari slag. En hann er auðvitað baráttumaður og það kom að sjálfsögðu ekkert annað til greina en að ráðast á garðinn þar sem hann var hæstur og reyna við leiðtogasætið.

Eftir stendur að Gísli, sem hefur ekki verið lengi þátttakandi í borgarmálunum, er nú orðinn einn af leiðtogum sjálfstæðismanna í borginni með mjög sterkt umboð til þess. Rúmlega 5 þúsund sjálfstæðismenn lögðu leið sína á kjörstað til að greiða honum atkvæði í eitt af þremur efstu sætum listans, þar af langflestir í efsta sætið. Það er því alveg ljóst að Gísli Marteinn er klárlega framtíðarleiðtogi innan Sjálfstæðisflokksins.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband