Leita í fréttum mbl.is

Halldór á forsætisráðherrastóli í eitt ár

Í gær var ár liðið frá því að Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins, tók við embætti forsætisráðherra af Davíð Oddssyni formanni Sjálfstæðisflokksins. Davíð hafði þá setið á forsætisráðherrastóli samfellt í rúm þrettán ár. Samhliða þessu tók Davíð við embætti utanríkisráðherra af Halldóri, sem þá hafði verið á þeim stóli í tæpan áratug. Ljóst var við þessi tímamót að Halldór hefði mikla reynslu til að takast á hendur þetta mikla verkefni að verða verkstjóri í ríkisstjórn Íslands. Hann er starfsaldursforseti Alþingis og hefur setið á þingi í þrjá áratugi. Halldór hefur setið rúman hálfan annan áratug á ráðherrastóli, í ár sem forsætisráðherra, rúm 9 ár sem utanríkisráðherra og 8 ár sem sjávarútvegsráðherra.

Það var vissulega til marks um traust persónulegt samstarf Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar að þeir skiptust á embættum í stjórn flokkanna, sem setið hefur í áratug, án beinna átaka eða togstreitu um valdastóla. Eftirsjá var af Davíð úr forystusæti ríkisstjórnarinnar, enda er hann mun öflugri stjórnmálamaður en Halldór. Mörgum sjálfstæðismönnum þótti enda mjög súrt í broti að miklu minni flokkur tæki við forsæti í ríkisstjórn landsins. Það er enda deilt mjög um ágæti þess að Halldór varð forsætisráðherra. Það hefði farið best á því auðvitað að formaður Sjálfstæðisflokksins hefði leitt stjórnina, enda forystumaður mun stærri stjórnmálaflokks, með miklu öflugra umboð kjósenda.

En nú þegar að Halldór hefur setið sem forsætisráðherra í ár er ekki úr vegi að líta yfir farinn veg. Hvernig hefur þetta fyrsta ár Halldórs í embættinu verið? Mörgum dettur eflaust í hug orðin vandræðagangur og erfiðleikar. Óhætt er að fullyrða að Halldór hafi haldið allt öðruvísi á málum í embætti og í formennsku flokksins en Steingrímur Hermannsson, forveri hans á formannsstóli, gerði meðan hann gegndi síðast á sama tíma bæði formennsku í Framsóknarflokknum og forsætisráðherraembættinu, 1988-1991. Steingrímur hefur enda gagnrýnt Halldór svo eftir hefur verið tekið. Halldór fetar aðrar leiðir og ekki er laust við að gæti þar áhrifa frá Blair og vinnubrögðum hans í almennri umræðu.

Í pólitík sinni undanfarin ár hefur hann safnað að sér liði fyrrum fréttamanna sem aðstoðarmanna og almennatengslaráðgjöfum innan flokksins og í ráðuneytinu. Almennt séð er einsdæmi hér á landi að forsætisráðherra hafi á sínum snærum á að skipa fjölda fyrrum fréttamanna í opinberu hlutverki sem málsvara flokksins og ráðuneytisins, bæði í fjölmiðlum og á opinberum vettvangi. Með þessa menn innanborðs tekst Halldóri oft að spinna umræðuna og túlka með öðrum hætti og beina henni í aðra farvegi. Er upp koma stór mál eru sendir af örkinni spunameistararnir þrír, þeir eru virkir í netskrifum innan flokksins og eru málsvarar Halldórs víða. Spuninn teygir sig því víða.

Ef marka hefur mátt skoðanakannanir hefur ekki blásið byrlega fyrir Halldór. Fylgi flokksins og persónulegt fylgi hans sem forsætisráðherra hefur verið lítið. Framsóknarflokkurinn hefur náð sögulegu lágmarki í skoðanakönnunum í forsætisráðherratíð Halldórs. Flokkurinn og Halldór sjálfur hafa því mjög lítið grætt á því að hafa hlotið forsætið í ríkisstjórn stjórnarflokkanna. Hart var sótt að Halldóri á fyrri hluta ársins vegna ýmissa mála. Eins og flestir vita er þekkja til mælinga á persónufylgi forsætisráðherra landsins í gegnum árin hefur Halldór hlotið óvenjuslæma útreið í könnunum.

Altént höfum við ekki séð slíkar tölur mjög lengi og t.d. hafði Davíð Oddsson sem forsætisráðherra sterka stöðu í embætti og mikinn stuðning í skoðanakönnunum, en var vissulega umdeildur. En staða Halldórs er mun veikari. Vissulega verður að taka tillit til þess að Halldór er formaður smáflokks skv. skoðanakönnunum og því hægt að búast við að formenn slíkra flokka njóti minna fylgis en forystumenn stærstu flokka landsins í embættinu. Er greinilegt að Halldór hefur brugðist við þessum könnunum og dapri stöðu í mælingum meðal landsmanna með markvissum hætti, annað er að minnsta kosti ekki hægt að sjá hjá spunasérfræðingunum hans. Þeir hafa sótt fram fyrir hönd Halldórs og staðið vörð um stöðu hans á opinberum vettvangi.

Athygli vakti fyrr á árinu er spunameistarar hans tilkynntu að Halldór myndi feta í fótspor forsætisráðherra Bretlands og halda blaðamannafundi reglulega til að ræða málin við fjölmiðlamenn. Fátt hefur komið út úr því. Reyndar sagði Halldór á frægum blaðamannafundi í júní vegna umræðunnar um tengsl hans við Skinney-Þinganes vegna sölunnar á Búnaðarbankanum að það væri fyrsti reglulegi blaðamannafundurinn hans. Síðan hefur mjög lítið gerst. Innan Framsóknarflokksins hefur ástandið verið eldimt, það hefur blasað við enda hefur hitnað mjög yfir yfirborði flokksins. Svo virðist sem að Halldór Ásgrímsson hafi aldrei verið veikari í sessi í forystu flokksins, en einmitt eftir að hann tók við embætti forsætisráðherra fyrir ári.

Flest virðist hafa gengið Halldóri Ásgrímssyni í óhag sem forsætisráðherra, á því sem margir höfðu áður talið að yrði hápunktur ferils hans. Komu viss grunnátök í flokknum vel fram á flokksþingi Framsóknarflokksins í mars. Þar var ekki bara tekist á í lokuðum herbergjum um stefnuna og stöðu mála, heldur fyrir opnum tjöldum. Sérstaklega átti þetta við um Evrópumálin. Þar var tekist á með mjög ákveðnum hætti. Hefur verið merkilegt að sjá forystumenn flokksins takast á um málið og tjá ólíka sýn til ESB. Að lokum fór svo á flokksþinginu að ESB-stefna flokksins sem átti að vera mjög afgerandi varð mjög útvötnuð og sagði nær ekkert nýtt. Voru það mikil vonbrigði fyrir stuðningsmenn aðildar innan flokksins.

Við lok flokksþingsins var Halldór endurkjörinn formaður flokksins. Hlaut hann rúm 80% atkvæða, um 16% minna fylgi en síðast. Segir það eflaust margt um stöðu Halldórs að hann hlýtur lakari kosningu í embætti flokksformanns eftir að hann tók við embætti forsætisráðherra, en sem utanríkisráðherra, er hann var meira erlendis og fjarri innra starfinu beint. Þetta þótti mjög athyglisverð niðurstaða. Ekki var um að ræða átakaþing hjá flokknum hvað varðar kosningar forystumanna, þeir voru endurkjörnir með yfirgnæfandi hætti, en hlutu þó veikara umboð en síðast.

Við blasir að ástandið í Framsóknarflokknum er eldfimt. Raunveruleg átök um völd og áhrif munu væntanlega verða á næsta flokksþingi, sem haldið verður á kosningaári, á árinu 2007. Hinn brothætti Framsóknarflokkur á því væntanlega erfiða tíma framundan hvað varðar þessi mál. Átökin þar virðast rétt að hefjast. Fyrir liggur að átakalínurnar eru víða og flokkurinn horfir brothættur fram á veginn til þess uppgjörs sem verður fyrir lok kjörtímabilsins um stefnu og áherslur flokksins.

Svo verður fróðlegt að sjá hvort samstarf flokkanna breytist, nú er Davíð Oddsson hættir þátttöku í stjórnmálum. Framsóknarflokkurinn og Halldór eru allavega á vissum þáttaskilum, nú þegar hann hefur setið í forsæti ríkisstjórnar Íslands í nákvæmlega ár. Verður fróðlegt að fylgjast með stjórnmálaferli Halldórs á næstu árum og fylgjast þá einkum með því hvort hann muni leiða flokkinn framyfir næstu þingkosningar, eða víkja af pólitíska sviðinu á kjörtímabilinu eins og Davíð Oddsson.

Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr(a)simnet.is

Powered by Hexia

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband