Leita í fréttum mbl.is

Málefni flugvallar á höfuðborgarsvæðinu

Enginn vafi leikur á að kosningabaráttan í Reykjavík fyrir næstu borgarstjórnarkosningar er hafin af fullum krafti. R-listinn hefur geispað golunni og eftir standa framboð flokkanna sem mynduðu hræðslubandalag gegn Sjálfstæðisflokknum. Framundan er spennandi kosningabarátta í borginni og skv. skoðanakönnunum blasir annað pólitískt landslag við nú. Ljóst er að tekist verður víða á um leiðtogastóla framboðanna og höfum við seinustu daga orðið vitni að átökum innan Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar um forystuna. Slagurinn er hafinn mun fyrr en oft áður og stefnir í hörð átök, bæði milli flokkanna og eins innan þeirra um forystustóla. Við blasir hinsvegar og hefur gert bæði fyrir og eftir dauða R-listans að eitt helsta kosningamál næstu borgarstjórnarkosninga verði skipulagsmál og ber þar óneitanlega hæst málefni Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni. Um er að ræða stórmál, sérstaklega fyrir okkur sem búum úti á landi og þurfum á að halda góðum samgönguleiðum til höfuðborgarsvæðisins.

Mín skoðun á málefnum flugvallar þar hefur jafnan verið skýr. Ég vil að hann verði áfram á höfuðborgarsvæðinu. Sama má eflaust segja um flest landsbyggðarfólk. Reykjavík er höfuðborg landsins, sem slík er hún vettvangur t.d. stjórnsýslu og stórfyrirtækja. Öllum er okkur á landsbyggðinni nauðsynlegt að nota flug sem samgönguleið til að sækja þjónustu. Enginn vafi er á því að mínu mati að Reykjavíkurflugvöllur er flugvöllur allra Íslendinga, vettvangur okkar allra, ekki bara Reykvíkinga. Að mínu mati og okkar hér sem erum úti á landi er flugið óneitanlega samgönguleið, lífæð okkar svæðis til höfuðborgarsvæðisins og nauðsynlegur punktur í okkar lífi. Reykjavíkurflugvöllur er mikilvægur okkur sem þurfum að fara um hann mörgum sinnum á ári til að komast suður til Reykjavíkur til fundahalda eða þá til að halda í lengri ferðir. Ég nota mun frekar flugið en bílinn ef ég þarf að fara suður, til lengri eða skemmri tíma – hiklaust vegna þess að um er að ræða bæði í senn hraðvirkari og betri kost til samgangna við höfuðborgarsvæðið.

Þó Reykjavíkurflugvöllur sé mikilvægur punktur líta sumir íbúar á höfuðborgarsvæðinu jafnan á völlinn sem sitt einkamál og öðrum komi það ekki við hvernig unnið verði í málum hans á komandi árum. Það hefur allavega verið sjónarmið valdabræðings vinstrimanna sem ráðið hefur í borginni seinasta áratuginn, en hefur nú fengið á sig dánarvottorð þeirra sem stofnuðu hann. Rúm fjögur ár eru liðin síðan hinn látni R-listi hélt misheppnaða kosningu meðal borgarbúa um framtíð vallarins. Hún var misheppnuð í þeim skilningi að hún var bæði byggð á undarlegum forsendum og borgarbúar tóku ekki afstöðu að stóru leyti. Umræðan snerist að öllu leyti að mínu mati um hagsmuni Reykvíkinga og einblínt á vægast sagt þrönga hagsmuni. Landsbyggðarfólki gafst ekki kostur á að tjá sín sjónarmið og fara yfir það sem því þætti mikilvægast í sama máli. Það er staðreynd, vægast sagt dapurleg staðreynd. Nú horfir svo við að menn eru tilbúnir til að líta á nýja kosti í stöðunni. Menn ræða og það alvarlega þann möguleika að finna annan stað fyrir völlinn.

Nú hefur rykið verið dustað af þriggja áratuga gamalli tillögu um völl á Lönguskerjum, sem Trausti Valsson kom manna fyrstur með, og Hrafn Gunnlaugsson færði í glæsilegan myndrænan búning í mynd sinni, Reykjavík í öðru ljósi, á árinu 2001. Er það jákvætt að tekin sé upp umræða um þann kost í málinu. Það er mjög stutt síðan að öll umræða hljóðaði á þann veg að flugvöllurinn skyldi fara úr Vatnsmýrinni en svo væri það annarra að finna út úr hvað taka ætti við. Það sáu allir að við svo búið gat umræðan ekki einvörðungu verið stödd. Það þurfti að útfæra aðra möguleika og annan status í málið. Þessi hlið málsins, einhliða tal án framtíðarsýnar um hvað yrði völlinn gat ekki gengið. Nú er það greinilega að baki og allir hafa lagst á eitt með það að landa þessu máli með þeim hætti sem sómi er að fyrir bæði landsbyggðarfólk sem og höfuðborgarbúa. Umræðan var ekki málefnaleg áður, það var ráðist að okkur úti á landi fyrir að verja þennan mikilvæga samgöngupunkt okkar og fundið að því að við værum að tjá okkur um mál sem að mati sunnanmanna væri aðeins þeirra mál.

Mér persónulega fannst sérstaklega leitt að heyra tal sumra sem töluðu um aðkomu okkar að flugvellinum, sem er samgöngulegur miðpunktur allra landsmanna, og því að okkur var liggur við brigslað um að vera að skipta okkur af annarra manna málum. Það var leitt að heyra vanþekkingu sumra á stöðu mála. Það er annar tónn kominn nú – mun jákvæðari og eðlilegri tónn. Í stað ómálefnalegrar umræðu um einhliða tón málsins hefur opnast samstarfsgrunnur að málefnalegri umræðu um eðlilega kosti málsins. Höfuðborgarsvæðið er og verður alla tíð okkur mikilvægt og það er að mínu mati alveg lágmark að okkur séu tryggðar góðar samgöngur þangað og fljótvirkar. Flutningur innanlandsflugsins til Keflavíkur er og verður óásættanlegur kostur í mínum huga og okkar allra úti á landi. Finna þarf ásættanlega staðsetningu á höfuðborgarsvæðinu fyrir flugvöll. Fyrir það fyrsta í mínum huga snýst þetta mál um þá ábyrgð og þær skyldur sem höfuðborgin okkar þarf að bera gagnvart öllum landsmönnum öllum.

Þar er allt í senn miðpunktur stjórnsýslunnar og þar á viðskipta- og menningarlíf landsins sínar höfuðstöðvar. Það er mjög einfalt í mínum huga að greiðar samgöngur allra landsmanna, til og frá Reykjavík, eru forsenda þess að höfuðborgin geti sinnt sínu hlutverki með eðlilegum hætti. Það er vissulega mál Reykvíkinga hvort þeir vilja hafa flugvöll innan borgarmarkanna eða ekki og önnur sveitarfélög hafa ekkert um það að segja. En á meðan Reykjavík er höfuðborg landsins og sinnir ýmsum þeim þáttum sem þeim sess fylgir geta þeir ekki lokað umræðuna á afmörkuðum bletti sinna skoðana. Það er bara þannig. Ég lít svo á að höfuðborgin sé mín rétt eins og borgarbúa að þessu leyti. Um er að ræða málefni sem skiptir því ekki bara borgarbúa máli að því leyti. Ekki veitir af umræðu um þessi mál. Hef ég talið mikilvægt varðandi Reykjavíkurflugvöll að í samfélaginu öllu verði frjó og góð umræða, þar sem teknir yrðu fyrir kostir og gallar flugvallar í Vatnsmýrinni og farið yfir málið frá víðu sjónarhorni.

Það er óhætt að segja að okkur landsbyggðarfólki hafi brugðið nokkuð við það að sjá þann mæta mann, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson leiðtoga borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, segja í viðtali í dægurmálaþættinum Íslandi í dag á þriðjudagskvöldið að það væri stefna sín að flugvöllurinn ætti að fara úr Vatnsmýrinni – ekki árið 2016 eins og við hefur blasað heldur strax á næsta kjörtímabili. Er nokkuð nema furða að maður spyrji hvort þessi borgarfulltrúi sé að fara á taugum í prófkjörsslag sjálfstæðismanna í borginni. Eins og kunnugt er hefur hann nú fengið mótframboð til leiðtogastöðunnar frá Gísla Marteini Baldurssyni og ef marka má háværar raddir fjölmiðlanna ætla Guðlaugur Þór Þórðarson og Júlíus Vífill Ingvarsson í leiðtogaslaginn ennfremur. Ég verð að viðurkenna að mér brá nokkuð að sjá þennan þaulreynda sveitarstjórnarmann gjörsamlega farinn á taugum í þessu viðtali og sendandi yfirboð á það sem Gísli Marteinn hafði sagt skömmu áður og gefið í skyn að hann væri með aðra skoðun en Vilhjálmur Þ. Gísli Marteinn hefur reyndar sagt svipaða hluti en þó komið með raunhæfa stefnu á hvað eigi að taka við, t.d. flugvallarkost á Lönguskerjum.

Það er nú bara þannig að við úti á landi sem notum innanlandsflugið viljum gjarnan heyra, þó við séum ekki kjósendur í Reykjavík, hvað eigi að taka við fari völlurinn úr Vatnsmýrinni. Ég vil annars benda mætum félögum mínum í borginni á það að völlurinn hefur verið festur í sessi í borginni nokkurn tíma enn og stórum fjárhæðum varið í það verkefni að efla völlinn og aðstæður hans. Spurningin vaknar um það hvort þeim peningum var hent út um gluggann? Þetta er stór spurning. Það er varla furða að við á landsbyggðinni séum undrandi á ummælum Vilhjálms Þ. sem hingað til hefur verið rödd hófsemi og skynsemi umfram allt í flugvallarmálunum. Nú keppist hann við að toppa tal annarra frambjóðenda í prófkjörsslagnum og býður bara hærra. Minnir mann satt best að segja á pókerspilara við spilaborðið sem dobblar spilamanninn sem gaf á undan. Eða ég get ekki annað sagt um þetta en það. Er þetta það sem koma skal? Spurt er: ætla sjálfstæðismenn í Reykjavík að bjóða okkur landsbyggðarsjálfstæðismönnum virkilega upp á það að boða brotthvarf vallarins úr Vatnsmýrinni en koma ekki með neitt í staðinn?

Ég ætlast til þess, sérstaklega af formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, þó flokksbróðir minn sé, að hann tali skýrar og nefni kosti í stöðunni. Það vita það allir að Vilhjálmur Þ. hefur talað með öðrum hætti um stöðu mála, verið með aðra kosti uppi og talað mun varfærnar en blasti við okkur áhorfendum á þriðjudagskvöldið í viðtalsþættinum fyrrnefnda. Ég ítreka vissulega að ég útiloka ekki að flugvöllur á höfuðborgarsvæðinu verði færður til. En það verður að gera með rólegum hætti og yfirveguðum - í fullri sátt. Flugvöllur á höfuðborgarsvæðinu er nefnilega ekki einkamál Reykvíkinga. Hann hefur verið festur í sessi vissan tíma og menn verða að vinna málið rólega og miða við tímaramma sem uppi eru á borðinu umfram allt. Tek ég undir með Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra, að mikilvægt sé að vinna málið yfirvegað en þó af krafti. En mest er um vert að finna hentuga staðsetningu vilji borgaryfirvöld að völlurinn fari á þeim tíma sem talað hefur verið um, eftir árið 2016.

Hugmyndin um flugvöll á Lönguskerjum eða jafnvel á Álftanesi (eins og samgönguráðherra hefur talað fyrir seinustu daga) er vissulega mjög góður kostur. Er ég sammála Gísla Marteini leiðtogaefni Sjálfstæðisflokksins í borgarmálunum, um að það sé vel þess virði að kanna kosti og galla tillögunnar um Lönguskerjaflugvöll. Kanna verður þó alla þætti málsins og hvort hún sé raunhæf að því leyti að hún geti gengið upp – átt sér líf utan teikniborðsins og myndar Hrafns um skipulagsmál í borginni. Í þessum efnum er talað er um flugvöllinn leiðist mér þegar menn eru að tala um það sem grunn hvort hann sé í Vatnsmýrinni. Það er eins og fyrr hefur komið fram í þessum pistli í sjálfu sér aukaatriði að mínu mati. Grunnpunktur af minni hálfu er að hann sé á höfuðborgarsvæðinu. Það er innri ákvörðun yfirvalda í sveitarfélaginu hvar hann sé ætli Reykjavík og svæðið þar í kring að standa undir nafni sem höfuðborg og vera áfram sá miðpunktur sem hann hefur verið til fjölda ára.

En það er óhætt að segja að við á landsbyggðinni fylgjumst með vel með þessu hitamáli í kosningabaráttunni í Reykjavík. Þetta er í senn bæði hjartans mál í okkar huga og málefni sem skiptir okkur höfuðmáli. Samgöngur og tengingar í samgönguátt fyrir okkur á landsbyggðinni mun ávallt skipta okkur máli, nú á komandi árum sem ávallt fyrr. Þegar níu mánuðir eru til kosninga er þetta þegar orðið lykilmál baráttunnar og á eflaust margt vatn eftir að renna til sjávar hvað varðar þessa umræðu fyrir kjördag þann 27. maí á næsta ári.

Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr@simnet.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband