Miðvikudagur, 10. ágúst 2005
Einkarekstur á fjarskiptamarkaði á ný
Nýlega var fagnað 100 ára ártíð fjarskipta hér á landi, þegar Og Vodafone gaf minnisvarða um fyrsta loftskeytið sem barst hingað til lands á vegum Marconi félagsins. Var það sannarlega við hæfi að samkeppnisaðili ríkisfyrirtækisins Símans (sem var) skyldi koma að því er þessara merku tímamóta var minnst, enda var Marconi félagið einkafyrirtæki, hvers umboðsmaður hér á landi var hinn framsýni Einar Benediktsson. Félag þetta starfaði í um eitt ár hér á landi, þegar ríkisstjórn Íslands svo gerði samning við ,,Mikla Norræna um sæstreng til landsins í gegnum Færeyjar og Hjaltland, sem fékk jafnframt einkaleyfi á fjarskiptarekstri til og frá landinu. Á sama tíma var Landsími Íslands stofnaður og má þá segja að samkeppni í íslenskum fjarskiptamarkaði hafi verið stöðvuð. Einkaleyfið rann svo út 1. september 1926 og tók þá Landsíminn við rekstri sæsímastöðvarinnar á Seyðisfirði. En þetta tækifæri var ekki notað til að koma á frelsi á fjarskiptamarkaði og þurftu Íslendingar að bíða til 1. janúar 1998 eftir því.
Síðan hafa vaxið upp öflugir samkeppnisaðilar við Símann, og er Og Vodafone, sem minnst var á hér að framan, afkomandi flestra þeirra fyrirtækja sem spruttu upp í kjölfar þessa frelsis. Því er það engin furða að það fyrirtæki hafi ákveðið að minnast sérstaklega á fjarskiptin á vegum Marconi félagsins, enda er það í bullandi samkeppni við afkomenda þess fyrirtækis sem hrakti Marcon félagið af markaðnum með ríkisvernd. En nú loksins er ríkið loksins algerlega komið út úr þessum markaði með þeim tímamótum sem áttu sér stað á fimmtudaginn fyrir viku er skrifað var undir sölu Símans til einkaaðila. Íhaldsmanni eins og mér finnst auðvitað sem ríkið hafi aldrei átt að skipta sér af þessum markaði í upphafi, en það væri líklegast að símamarkaðurinn væri mun þróaðri og í miklum mun meira jafnvægi en raunin varð.
Afskipti ríkisins af fjarskiptamarkaðnum er þó því miður alls ekki að fullu lokið. Samkeppnislög og stofnanir ríkisvaldsins sem eiga að framfylgja þeim hafa tekið við, og má vænta þess að þetta muni halda áfram að setja frjálsum markaði og fyrirtækjum á honum skorður sem dragi úr hagnaði, hagkvæmni og líklegast þegar upp er staðið, samkeppni. Þó er það mun skárra fyrirkomulag en var og verður að líta á það í því ljósi. Gleðjast yfir því sem gleðilegt er, að ríkið hefur stórminnkað afskipti sín af þessum markaði, þó ekki sé gengið jafn langt og margir frjálshyggjumenn myndu vilja sjá. Smá skref í rétta átt eru oft mun farsælli en stór stökk og umbyltingar, og má jafnframt vel færa rök fyrir að samkeppniseftirlit sé nauðsynlegt vegna þeirrar skekkju sem nú þegar er komin inn í kerfið vegna áratuga einokunarstöðu Landsímans.
Á hinn bóginn er hérna verið að byggja upp alveg nýtt kerfi ríkisumsvifa í kringum þessa eftirlits- og samkeppnismálaflokka, sem alveg hefði verið hugsanlegt að komast hjá. Hvort samkeppniseftirlit er nauðsynlegt eða til ama er og verður eitt helsta deilumál a.m.k. á hægri væng stjórnmálanna um ókomna tíð. Við getum þó allir verið sammála um að sala Símans hafi verið heillaskref sem styrkja muni efnahag landsins, en síðan kemur upp önnur deila, hvað á að gera við peningana sem úr sölunni komu? 67 milljarðar króna (þ.e. 67 þúsund milljónir) sem menn hafa velt fyrir sér að setja í stórvirki sem einungis væri þörf á að fara út í einu sinni, svo sem hugmyndir um hátæknisjúkrahús (hef fjallað um slíkar hugmyndir í pistli hér á vefnum áður), stórfelldar vegaframkvæmdir eða annað slíkt.
Ýmsum á vinstri kanti íslenskra stjórnmála þykir þessi upphæð mögur, alla vega miðað við þær upphæðir sem þeir telja þetta ,,þjónustufyrirtæki í almannaþágu sem er orðskrípið sem margir þeim megin vilja nota, geta gefið af sér næstu árin miðað við hagnað síðustu ára. Þessir aðilar virðast ekki átta sig á að fyrirtækið hefur verið látið borga út óvenjumikinn hagnað undanfarin ár, þar eð eigandinn, ríkið, er í raun að fá út úr fyrirtækinu uppsafnaðan hagnað þess. Einnig má benda á að þetta eru lægri upphæðir en ríkið er að borga árlega í vexti af skuldum, svo miðað við það væri langfarsælast að nota peningana til að borga upp skuldir og þannig losna við gífurlegan vaxtakostnað til lengri tíma litið. Margt annað hefur verið týnt til í þeirri viðleitni vinstrimanna að halda aftur af framþróun (eða afturhvarfi til hins gamla og góða), svo sem að kaupendur fyrirtækisins myndu taka allt að láni og fá þá peninga til baka með hærri álögum á viðskiptavini. Slík rök falla sjálfkrafa um sjálft sig, enda er samkeppnin svo hörð á þessum markaði að ekki er mikið svigrúm til hækkana.
Einnig er ljóst að þar sem lífeyrissjóðirnir eru stór hluti kaupenda sem og eigendur eins ríkasta fyrirtækis Íslendinga að hér eru engir aukvisar á ferð og þeir hafa svo sannarlega efni á þessu. Sérstaklega þar sem þeir virðast hafa nokkuð skýra sýn um hvert stefna eigi með fyrirtækið í framtíðinni. Vissulega væri gaman að sjá Íslendinga fara í útrás í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum. Ég óska nýjum eigendum til hamingju með kaupin, sem og Íslendingum til hamingju með hið góða söluverð. Vonum að þeim peningunum verði vel varið.
Höskuldur Marselíusarson
Breytt 6.10.2006 kl. 13:19 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004