Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 18. júlí 2005

Í Fréttablaðinu 12. júlí sl. birtist frétt undir fyrirsögninni „Það er vilji þjóðarinnar að haldið verði í málskotsréttinn“. Sennilega væri ekki hægt að kveða fastar að orði þó reynt væri. Þegar fréttin er lesin er þessa mjögsvo afgerandi fullyrðingu hins vegar hvergi að finna. Í henni er rætt við Jónínu Bartmarz, þingmann Framsóknarflokksins sem sæti á í nefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Er m.a. vitnað í hana þar sem hún segir: „Ég held að það sé ekki vilji þjóðarinnar að afnema málskotsréttinn ...“ Það er nefnilega það. Jónína segist halda að þjóðin vilji halda í málskotsréttinn en Fréttablaðið telur sig hins vegar vera í aðstöðu til að fullyrða að svo sé á grundvelli orða hennar. Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega?

Annars hefur umræðan um hinn svokallaða „málskotsrétt“ forseta Ísland verið all merkileg á köflum. Þannig mætti t.a.m. nefna aðeins eitt atriði. Eins og þekkt er eru forystumenn Samfylkingarinnar iðnir við að tala um að innleiða þurfi beinna lýðræði á Íslandi, halda fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur o.s.frv. (reynslan sýnir reyndar að yfirleitt er slíkt tal úr þeirri átt talið eitt). En þrátt fyrir það hafa þeir sett sig upp á móti þeirri hugmynd að sett verði ákvæði í stjórnarskrána í stað ákvæðisins um „málskotsréttinn“ svonefnda þar sem kveðið verði á um að almenningur geti með einhverjum hætti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslur um ákveðin mál að eigin frumkvæði og án þess milliliðar sem aðkoma forsetans að málinu óneitanlega felur í sér. Þetta er auðvitað að því gefnu að menn séu þeirrar skoðunar að forsetinn hafi raunverulega það vald að synja lögum frá Alþingi staðfestingar sem ég notabene er ekki.

Forystumenn Samfylkingarinnar hafa annars farið í mun fleiri hringi í þessu máli en bara þennan  - eins og þeirra er von og vísa. Þannig hafa þeir t.a.m. ásamt fleirum í stjórnarandstöðunni sakað ríkisstjórnina um að hafa „haft af þjóðinni“ þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin á síðasta ári. Á sama tíma vilja þeir að Ísland gangi í Evrópusambandið þar sem það hefur beinlínis verið stundað í gegnum tíðina að fara í kringum vilja almennings í þjóðaratkvæðagreiðslum ef hann hefur ekki verið í samræmi við vilja forystumanna sambandsins. Þ.e.a.s. auðvitað í þau sárafáu skipti sem almenningi þar á bæ hefur verið leyft að tjá hug sinn til einhverra samrunaskrefanna innan þess með þeim hætti.

Þetta er annars t.a.m. í stíl við það þegar forystumenn Samfylkingarinnar hafa haldið því fram að stjórnvöld rækju ekki sjálfstæða utanríkisstefnu gagnvart Bandaríkjastjórn. Á sama tíma vilja þeir hins vegar að Ísland gangi í Evrópusambandið þar sem ljóst er að engin sjálfstæð utanríkisstefna yrði rekin af hálfu okkar Íslendinga kæmi til aðildar. Kveðið er á um sameiginlega utanríkisstefnu sambandsins í fyrirhugaðri stjórnarskrá þess eins og kunnugt er og þó stjórnarskráin sé vissulega í uppnámi, og óvíst hvort hún taki einhvern tímann gildi, þá hafa forystumenn Evrópusambandsins lýst því yfir að jafnvel þó svo verði ekki beri að halda áfram því starfi sem þegar er hafið við að koma á sérstöku embætti utanríkisráðherra sambandsins, sjálfstæðri utanríkisstefnu þess sem og utanríkisþjónustu sem smám saman er ætlað að koma í stað sjálfstæðra utanríkisþjónusta aðildarríkjanna.

Þessi framganga forystumanna Samfylkingarinnar er auðvitað alveg gríðarlega trúverðug. Annars er það nú auðvitað svo að það kemur lítið á óvart að þeir séu sjálfum sér ósamkvæmir og tali í endalausa hringi. Slíkt er fyrir löngu orðið fremur að reglu en undantekningu.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband