Miðvikudagur, 23. mars 2005
Leikskólar eru ekki og verða ekki ókeypis
Í síðustu viku skrifaði ég grein sem fjallaði í meginatriðum um það hvernig ýmsir aðilar gera í sífellu kröfu á ríkissjóð um að ríkið borgi fyrir hin og þessi áhugamál manna.
Einnig kom fram í greininni að þeir sem kvarta hvað mest undan sífelldum erfiðleikum í rekstri eru sveitastjórnarmenn sem reka sveitafélögin.
Það er virðist vera skrítið mál hvernig sumir sveitarstjórnarmenn reka sveitafélögin sín. Á meðan Akureyrarbær skilar hagnaði af rekstri sínum aukast skuldir Reykjavíkurborgar stöðugt. Hafa ber í huga að Akureyrarbær er ekki að fullnýta ,,rétt sinn með fullu útsvari sem er 13,03%. Það gerir Reykjavíkurborg hins vegar. Borgin hækkaði útsvar sitt í hámark s.l. áramót til að greiða mætti niður skuldir og einfaldlega fá meiri pening inn í rekstur borgarinnar. Eða þannig var það allavega kynnt okkur borgarbúum.
Hér er hægt að athuga tvennt. Af hverju getur Akureyrarbær skilað afgangi af rekstrarfé sínu en ekki Reykjavík? Nú hefði maður haldið að þessu væri öfugt farið þar sem Reykjavíkurborg, með R-listann í fararbroddi (og Steinunni Valdísi í afturtogi), er að fá eins mikið fjármagn og mögulegt er frá einstaklingum og hefur nú nýlega samið við ríkið um að það greiði fasteignaskatt til borgarinnar sem er töluvert fjármagn.
Þegar útsvarið var hækkað um áramótin talaði forseti borgarstjórnar um að tekjur borgarinnar myndu aukast um 900 milljónir á ári. Nú með samingum við ríkið munu tekjur borgarinnar aukast um 690 milljónir á ári. Já, borgin er s.s. að fá rúmlega einn og hálfan milljarð í ,,aukatekjur árlega.
Nú hefði maður gert ráð fyrir því að fjármagn þetta yrði notað til að borga niður þær skuldir sem R-listinn hefur á undanförnum áratug safnað á herðar borgarbúa. Það var jú eins og áður sagði meginforsendan fyrir því að hækka útsvarið. Það hefur hins vegar ekki verið gert. Í staðinn birtist frétt í síðustu viku um að nú ætlaði borgin að auka enn útgjöld sín. R-listinn virðist nefnilega líta þannig á að þegar tekjur borgarinnar hækki þurfi útgjöldin líka að hækka. Þannig hefur borgin jú verið rekin síðan 1994.
Þetta er nú reyndar ekki alveg rétt hjá mér þannig að ég þarf að bakka með þessa yfirlýsingu mína, þ.e.a.s. að borgin sé fljót að hækka útgjöldin þegar tekjurnar hækka. Það jú víst þannig að útgjöldin hækka bara þegar borgarfulltrúa-elítunni hentar. Þannig hafa menn ekkert sett fyrir sig að stofna til ýmissa gæluverkefna og útgjaldaaukninga þegar þeim sýnist.
Ókeypis leikskólar?
En allavega, snúum okkur að nýjasta útgjalda-útspili borgarinnar. Nú er rúmlega ár í kosningar og R-listinn þarf að hressa upp á ímynd sína. Þannig að nú ætlar borgarstjórn að gefa barnafólki ókeypis pössun allt að sjö tíma á dag. Einhverra hluta vegna telur Steinunn Valdís, sitjandi borgarstjóri R-listans, að fjármál borgarinnar séu í það góðum farvegi að hægt sé að eyða 850 milljónir króna aukalega til að greiða niður leikskólagjöld. En það er nokkuð við þetta að athuga.
Í fyrsta lagi er ekki ,,leikskólaskylda í landinu. Þannig að það er ekki talið nauðsynlegt að börn séu í leikskóla eins og það er talið nauðsynlegt að þau séu í skóla. Það er jú skólaskylda í landinu og þar er á herðum sveitafélaga að standa að rekstri skólanna. Gott og vel.
Það kann að líta vel út fyrir brotinn R-lista að ætla nú að gera vel við barnafólk. En hins vegar er R-listinn þarna að setja auka útgjöld á herðar borgarbúa. Það er ekki sjálfsagt mál að borgin borgi niður leikskólagjöld. Hvað með þá foreldra sem kjósa að vera heima með börnum sínum? Eiga þeir foreldrar ekki jafnmikinn rétt á þessu fjármagni? Er það síðri uppeldisaðferð en að setja börnin á leikskóla? Er ekki sanngjarnt að öll börn séu sett undir sama hatt, bæði þau sem fara á leikskóla og þau sem eru heima? Og hvað með fólkið sem ekki á börn? Af hverju eiga allir borgarbúar að borga undir leikskólapláss barna?
Og annað. Leikskólar eru ekki og verða ekki ókeypis. Þar er alltaf einhver sem borgar. Þó svo að R-listinn sé með þessu útgjaldaspili sínu að reyna að kaupa atkvæði fyrir næstu kosningar þá kemur þetta til með að kosta mikið af peningum eins og áður hefur komið fram. Það er alltaf kostulegt þegar ráðamenn (í þessu tilviki R-listinn) segir við fólk að það sé að fá eitthvað ókeypis.
Barnafólk er ekkert að fá þessa þjónustu ókeypis.
Það er ekki samfélagsskylda borgaranna að borga leikskólapláss fyrir barnafólk. Það má vel vera að það líti vel út að fólk fái frítt leikskólapláss og þeir þurfi að vera leiðinlegir sem mótmæla þessu. En staðreynd málsins er sú að þetta kostar peninga sem skattborgarar eiga ekki að vera skyldugir til að greiða. Það er ekki skylda okkar sem borgum hámarksútsvar í Reykjavík að borga upp ímynd R-listans. Þarna er illa farið með peninga sem hægt væri að eyða í allt annað. Og helst að eyða þeim alls ekki, nema þá að borga upp skuldir. Það eru jú þessir krakkar sem nú eru og verða í gjaldfrjálsum leikskóla sem þurfa síðan að borga þær skuldir sem yfirmenn Steinunnar Valdísar hafa safnað á s.l. áratug. Kannski að það þurfi að senda núverandi borgarstjórn á fjármálanámskeið hjá Akureyrarbæ.
Málefnaleg Steinunn Valdís
Ég er ekki sá eini sem gagnrýni þetta nýjasta útspil R-listans. Bæði fjármálaráðherra og aðrir sveitastjórnarmenn hafa gagnrýnt þetta.
S.l. vikur og mánuði hafa átt sér stað samningaviðræðum milli ríkis og sveitafélaga um tekjuskiptingu þessa tveggja aðila. Mikil vinna hefur farið í þetta en svo virðist sem helsta krafa sveitafélaga sé að fá að hækka útsvar sitt mun meira en nú er heimilt. Sem betur fer hefur ríkisstjórnin ekki heimilað það.
Sveitastjórnarmenn gagnrýna borgarstjórnina fyrir að greiða niður leikskóla af því að það geti ekki allir fylgt þessu eftir og gert það sama. Hvers konar vitleysa er þetta eiginlega? Þeir eru nú fúlir af því að þeir hafa ekki sömu möguleika á að veita þessa þjónustu. Það er auðvitað bara hið besta mál. Þarna hafa önnur sveitafélög fullkomið tækifæri til að fara ekki að fordæmi borgarstjórnar Reykjavíkur. Þarna er fullkomið tækifæri til að eyða ekki meiri peningum skattgreiðenda.
Sú gagnrýni sem helst er varið í er gagnrýni fjármálaráðherra á R-listann.
Geir H. Haarde segir m.a. ,, ... að þetta væri vægast sagt hið furðulegasta mál. Gert hefði verið samkomulag í tekjustofnsnefnd um fullkomlega einhliða tilfærslu mikils fjármagns frá ríki til sveitarfélaga. Hugmyndin hefði verið sú, að þessum peningum væri varið til að mæta þörfum þeirra sveitarfélaga sem standa höllustum fæti fjárhagslega.
Borgarstjóri Reykjavíkur hefði hins vegar ekki getað á sér setið og byrjað að eyða þeim hluta fjármagnsins, sem ætti að renna til Reykjavíkurborgar. Inni í þessum pakka sé, að ríkið hæfi að greiða fasteignagjöld af fasteignum sínum og ljóst væri, að borgin teldi sig nú hafa meira svigrúm, fjárhagslega, en hún hefði haft fyrir samkomulagið.
Og hvernig bregst Steinunn Valdís við?
Jú. á bls. 4 í Fréttablaðinu í dag er haft eftir henni: ,,Ég kippi mér ekki upp við það þó fjármálaráðherra taki eitthvert geðvonskukast. Já, málefnaleg hún Steinunn.
Það má s.s. alls ekki gagnrýna hana eða vinnubrögð R-listans.
Þá eru menn bara að taka ,,geðvonskukast.
Það er ekkert skrítið að fjármálaráðherra komi með þessa gagnrýni. Hann er einn af þeim sem þarf að hlusta á vælið þegar sveitastjórnarmenn biðja um meiri pening. Hann hefur greinilega gefið Reykjavíkurborg mikið eftir og áður en sólin er sest hefur borgarstjórn ákveðið að eyða öllu í einhverja vitleysu. Ef einhver gagnrýnir vinnubrögð Steinunnar Valdísar getur hún ekki svarað til baka á málefnalegan hátt. Það er fjöldi manns (m.a. Geir H. Haarde) sem fara vel með það sem skattgreiðendur borga. Það hefur R-listinn hins vegar ekki gert og ætlar sér aldrei að gera. Steinunn Valdís ætti að sjá sóma sinn í því að biðja fjármálaráðherra afsökunar á þessum orðum. Hún minnir á óþroskaðan ungling sem ekkert hefur til síns máls nema að kalla menn nöfnum.
Gísli Freyr Valdórsson
Breytt 6.10.2006 kl. 13:19 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004