Leita í fréttum mbl.is

Skattar að lækka: Gott mál

Rétt er að minna á það sem ríkistjórnin er að gera í skattamálum um þessar mundir. Það þarf að auglýsa það vel og vandlega. Stefna Sjálfstæðisflokksins er að skila sér, eins og við er að búast.

Vinstri-grænir hafa sagt að þessar skattalækkanir gagnist ekki réttu fólki. Er það?

  1. Verið er að afnema eignaskatt. Stór hópur eignaskattsgreiðanda er fólk sem komið er yfir sjötugt, 24% af tekjum ríkisins af eignarskattinum kemur frá þessu fólki. Meirihluti þeirra er með minna 1,5 milljónir í árstekjur. Þetta kemur öldruðum sem sagt vel. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einmitt verið gagnrýndur fyrir að hugsa ekki nægilega vel um aldraða...
  2. Skattleysismörk munu hækka um 20%.
    Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hverjum það hjálpar mest.
  3. Barnabætur hækka um 2400 milljónir.
    Það hljóta allir að sjá að það hjálpar fjölskyldufólki með lágar og millitekjur.

Ef að Vinstri-grænir telja þetta fólk ekki ,,rétt fólk”, þá er ég illa svikinn.

En skattalækkanirnar hafa verið gagnrýndar á fleiri forsendum.
Sumir segja að þetta sé allt eitt allsherjar svindl, og tala um að nýir duldir skattar éti þetta allt saman upp – og vísa til hækkunar á komugjöldum á sjúkrahús, svo eitthvað sé nefnt.
Ég vil fremur borga nokkrum hundraðköllum meira í komugjöld og bifreiðargjöld, og borga lægri skatta í staðinn, enda eru umrædd gjöld óravegu frá því að éta upp allar skattalækkanirnar. Hófleg komugjöld gefa mönnum smá kostnaðarvitund, sérstaklega þegar kostnaður ríkisins kemur líka fram. Fólk þarf að sjá að allt þetta sem menn geta fengið ,,ókeypis”, er ekkert ókeypis, heldur rosalega dýrt. Þeir sem borga eru allir vinnandi menn, líka þú. Að sjálfsögðu á að koma til móts við t.a.m. öryrkja eða þá sem ekki geta borgað eins og aðrir.

Það er líka frábært að hinn ,,sérstaki tekjuskattur” verði aflagður, og að tekjuskatturinn lækki almennt. Þetta er hvetjandi. Nú er meiri hagur í því að gera sig að verðmætara vinnuafli með því að mennta sig eða taka að sér erfiðari verkefni í vinnu, þar sem að skattarnir munu ekki éta eins mikið upp af ávinningnum og áður. Þetta mun auka verðmætasköpun.
Skattalækkanir skapa verðmæti

Málflutningur Samfylkingarinnar
Það er hollt og lærdómsríkt að skoða aðeins málflutning Samfylkingarinnar í þessu máli.
Þeir vildu lækka skatta fyrir kosningar, en nú ekki. Þeir vildu ekki lækka matarskatt fyrir kosningar, en nú vilja þeir það. Þeir eru sjaldan samkvæmir sjálfum sér, og vita yfirleitt ekki hvað þeir vilja. Þeir segja ávallt það sem þeir halda að menn vilji heyra hverju sinni, eða það sem kemur sér verst fyrir andstæðinga þeirra. Þeir eru stefnulaus flokkur.
Ef að þeir stjórnuðu hér væri hér stefnulaus stjórn.

Það ætti að segja meira en mörg orð, að á meðan ríkisstjórnin undir forystu Sjálfstæðisflokksins lækkar og afnemur skatta, að þá hækkar R-listinn, undir forystu félagshyggjuaflanna útsvarið og önnur gjöld. Þetta er munurinn á hægri stefnu og vinstri stefnu í framkvæmd.

Sindri Guðjónsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband