Leita í fréttum mbl.is

Hugsum um peninga

Nú er ungi sjálfstæðismaðurinn ekki að hvetja til græðgi eða eintómrar peningahyggju, þvert á móti. Hins vegar eru mikið af peningum í umferð í landinu og því ekki úr vegi að ungt fólk taki skynsamlega afstöðu til þeirra, sé duglegt að vinna fyrir þeim og fari vel með þá í framtíðinni. Samt sem áður eru fulltrúar stjórnmálaflokka í landinu sem láta sér það litlu skipta hvernig fólk fer með peninga. Ekki það að það eigi nokkuð að koma stórnmálaflokkum við, en vinstri menn virðast hvað eftir annað taka upp hanskann fyrir þá sem hafa að sjálfsdáðum komið sér í fjárhagsleg vandræði. Þegar upp koma vandamál er það ríkinu að kenna og nú undanfarið er farið að kenna bönkunum um.

Steingrímur J. Sigfússon hefur t.d. kennt ríkisstjórninni um það glapræði að selja ríkisbankanna og þ.a.l. hafi fjármálaheimurinn farið á „vitlausa“ braut og allt sé hér á leiðinni norður og niður. Vinstri menn voru mikið á móti sölu ríkisbankanna og börðust hart gegn því. Í dag kenna þeir bæði ríkinu og bönkunum um hvernig „komið er fyrir“ fjölda manns. Staðreyndin er reyndar sú að fjölda fólks er að taka lán sem það ræður ekki við, kaupir hitt og þetta og leyfir sér ýmsan munað sem það hefur ekki efni á.

Þar er hins vegar hvorki efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar né bönkunum um að kenna. Annar þingmaður stjórnarandstöðunnar, Jóhanna Sigurðardóttir, reynir ítrekað að slá pólitískar keilur með því að ætla að taka upp hanska „litla mannsins“ og fylla hann af efnislitlum loforðum um að ef hann kýs vinstri flokkana næst muni líf hans verða svo miklu miklu betra. Smá hagfræðiþekking og heilbrigð skynsemi segir okkur auðvitað að lífið er ekki svona einfalt.

Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og núverandi ríkisstjórn undir forsæti Halldórs Ásgrímssonar hafa lagt á sig mikla vinnu s.l. áratug við að skapa hér hagsæld og velmegun fyrir alla landsmenn. Það hefur tekist af því að mikillar hagsýnni hefur verið gætt og menn hafa myndað hér stöðugleika sem ekki er auðvelt að raska. Þetta hefði ekki tekist ef hér hefði setið vinstri stjórn. Menn hafa sýnt skynsemi og aukið frelsi markaðarins til að hagsæld gæti orðið. Vinstri flokkarnir boða þveröfuga stefnu. Það að hækka lágmarkslaun, atvinnuleysisbætur og ýmsar aðrar bætur er ekki spurning um mannréttindi né sanngjarna eða góða efnahagsstjórn. Vinstri menn telja sig vera að tala fyrir „fátæka manninn“ og fyrir kosningar lofa þeir fólki öllu fögru sem ekki vinnur sjálft fyrir laununum sínum. Nú er ekki verið að gera lítið úr láglaunafólki né því fólki sem hefur einhverja fötlun sem kemur í veg fyrir að það geti unnið sér inn laun. Maður hugsar sig samt tvisvar um þegar öryrkjum fjölgar hratt og uppi eru stanslausar kröfur í þjóðfélaginu um hærri bætur hér og hærri bætur þar.

Lág laun eru ekki helsta ástæða fátæktar á Íslandi. Til er of mikið að fólki sem fer hreinlega illa með peninga sína, tekur kolrangar ákvarðanir í lífinu og svo þegar allt er komið í koll, kennir það öðrum um.

Höfum eitt á hreinu; þó svo að bankarnir auglýsi grimmt allskonar lán og yfirdrætti, þá þýðir það ekki að þeir séu að gefa út fría peninga. Það að unglingur gangi í unglingaklúbb bankanna og fari síðan og kaupi sér tölvu á láni (væntanlega með undirskrift foreldra) þýðir ekki að hann hafi verið neyddur til þess. Það að maður fari í dag, taki nýtt húsnæðislán og endurnýi allt innbúið á 4,15% vöxtum þýðir ekki að bankinn eða sú hagsæld í landinu sem nú ríkir hafi neytt viðkomandi aðila til að fara á eyðslufyllerí.

Samfélagið er allt sem betur fer að breytast í þá átt að ríkisafskipti eru að verða minni og fólk verður meira og meira ábyrgara fyrir sínu eigin lífi. Þetta þóknast vinstri mönnum illa. Þeir vilja halda fólki í fátæktargildrum með því að hækka bætur og eyða eins miklu og þeir mögulega geta af fjármagni ríkissins. Staðreynd málsins er einfaldlega sú að allir þurfa að leggja sitt af mörkum til að vinna sér til hnífs og skeiðar. Þegar fólk getur auðveldlega lifað af bætum frá ríkinu er engin hvatning né drifkraftur til að gera neitt. Hvernig væri nú ef vinstri menn hættu að setja menn í flokka eins og „litli maðurinn“ og „fátæki maðurinn“ og áttuðu sig á því að til að hagsæld skapist fyrir alla þá þarf frelsi einstaklingsins að vera í fyrirrúmi sem og frelsi markaðarins. Það er einstaklinganna sjálfra að sækjast eftir því sem þeirra er og undir þeim sjálfum komið að halda því og fara vel með það sem þeir hafa í höndunum.

Það skal tekið skýrt fram hér að ekki er verið að gera lítið úr því fólki sem hefur minna á milli handanna en flestir aðrir. Hins vegar er gagnrýnisvert hvernig vinstri flokkar ætla sífellt að festa fólk í sama fari með eintómum innihaldslausum loforðum.

Ég hvet fólk til þess að vera duglegt og fara vel með það fjármagn sem það hefur á milli handanna. Að vera ríkur hefur ekkert með það að gera hvað maður hefur í tekjur heldur hvað maður eyðir litlu og auðvitað í hvað maður eyðir. Hugsum um peninga með skynsemi.

Gísli Freyr Valdórsson

Greinin birtist áður þann 28.des 2004 á sus.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband