Leita í fréttum mbl.is

Evrópusambandið og kvótakerfið

Sumir þeir, sem lítt spenntir eru fyrir kvótakerfinu, eiga það til að segja að það sé eins gott að við göngum bara í Evrópusambandið þar sem við ráðum hvort sem er ekkert yfir Íslandsmiðum eins og staðan er í dag. Yfirráðin yfir þeim séu í höndunum á fámennri klíku manna hér á landi. Jafnvel heyrir maður því fleygt að rétt væri að ganga í sambandið allt að því einvörðungu í því skyni að koma meintu höggi á umrædda aðila. Þetta segja menn allajafna án þess að hafa góða yfirsýn yfir málið og án þess að hafa kynnt sér staðreyndir þess til hlítar. Það er vitanlega til marks um mikla skammsýni að láta andúð á einhverjum aðilum ráða afstöðu sinni til pólitískra álitamála og sérstaklega jafn víðfems málaflokks og Evrópumálanna.

En hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á ágæti kvótakerfisins þá eru flestir sammála um að ef við Íslendingar gengjum í Evrópusambandið myndi kvótakerfið sem slíkt halda sér þar sem sambandið hefur ekki bein afskipti af því með hvaða hætti aðildarríkin skipta þeim kvóta sem það úthlutar þeim. Þannig hefur verið bent á að hliðstætt kvótakerfi sé við líði í Hollandi eins og hér á landi. Aftur á móti myndi aðild Íslands að Evrópusambandinu þýða að stjórn fiskveiða á Íslandsmiðum myndi að nær öllu leyti færast til sambandsins og þar með talið t.a.m. ákvörðun heildarkvóta. Íslendingar myndu auk þess ekki lengur sitja einir að veiðum við Ísland eins og ítrekað hefur komið fram í máli forystumanna innan sambandsins á undanförnum árum.

Lengi getur vont versnað
Annars ætti öllum að vera ljóst, sem eitthvað hafa kynnt sér þessi mál, að hversu slæmt sem ýmsum kann að þykja íslenzka kvótakerfið þá er fiskveiðistjórnun Evrópusambandsins augljóslega verri. Nægir þar sennilega að nefna tíðar fréttir á undanförnum árum af hruni fiskistofna í lögsögu sambandsins og nú síðast fyrir nokkrum dögum síðan. Er nú svo komið að Evrópusambandið hefur loksins ákveðið að grípa til aðgerða og boðað niðurskurð aflaheimilda upp á tugi prósenta sem mun þýða að leggja þarf fiskiskipum í þúsundatali innan sambandsins með tilheyrandi efnahagskerppu í sjávarúrvegshéruðum og fólksflótta frá þeim sem nægur mun vera fyrir.

Þó hafa fiskifræðingar ráðlagt ráðamönnum Evrópusambandsins mun meiri niðurskurð og jafnvel fiskveiðibönn á ákveðnum svæðum og hafa lengi varað þá við því hvernig mál væru að þróast. Þannig kallaði t.d. Brezka vísindaakademían, æðsta vísindastofnun Bretlands, sameiginlega sjávarútvegsstefnu sambandsins „hneyksli“ fyrir rúmu ári síðan og sakaði það um að ákvarða meiri heildarkvóta en fiskistofnar þyldu og stuðla þannig að hruni þeirra. Evrópusambandið er hins vegar löngu orðið frægt fyrir að hunza ráðleggingar vísindamanna í þessum efnum.

Sótt á önnur mið
Vegna sífellt verra ásigkomulags eigin fiskimiða Evrópusambandsins hefur það sótt í stöðugt meira mæli í mið ýmissa annarra ríkja, þá ekki sízt í Vestur-Afríku. Fiskistofnum í lögsögu þessara ríkja hefur hrakað mjög á undanförnum árum og segja heimamenn að gömul og góð mið séu nú ekki svipur hjá sjón. Segja ríkin þessa þróun fyrst og fremst til komna vegna Evrópusambandsins sem þau hafa sakað um ofveiði og fyrir að virða ekki fiskveiðisamninga.

Einnig hefur Evrópusambandið sózt eftir að komast í mið ýmissa annarra þjóða og má þar t.a.m. nefna Grænlendinga og Norðmenn svo ekki sé minnzt á okkur Íslendinga. Þannig gerði sambandið t.a.m. þá kröfu, þegar samningaviðræður voru í gangi um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) fyrir rúmum áratug síðan, að kveðið væri á í honum um að sambandinu væri úthlutað ákveðnum kvóta í íslenzkri lögsögu.
Það er því afar einkennilegt að sumir skuli halda að ef við Íslendingar sæktum um aðild að Evrópusambandinu myndi það sætta sig við það að við sætum ein að miðunum við Ísland. Eitthvað sem forystumenn sambandsins hafa aldrei ljáð máls á heldur þvert á móti sagt að við gætum ekki litið á miðin við Ísland sem eitthvað einkamál okkar ef við gerðumst þar aðilar.

Nóg til að afskrifa aðild
Það er því ljóst að þegar menn tala um Evrópusambandsaðild sem einhvers konar lausn frá kvótakerfinu þá vaða menn í villu. Ljóst er að Evrópusambandsaðild myndi ekkert bæta í þeim efnum. Annars má auðvitað aldrei gleyma því að þó sjávarútvegsmálin spili stórt hlutverk í umræðum um Evrópumálin hér á landi þá er margt annað sem gerir það að verkum að hagsmunum þjóðarinnar yrði ekki borgið með aðild að Evrópusambandinu. Ókostirnir í tengslum við sjávarútvegsmálin eru hins vegar svo miklir að þeir einir eru í raun nóg til að afskrifa aðild.

Því má heldur ekki gleyma að utan Evrópusambandsins höfum við Íslendingar margfalt meira um það að segja hvernig staðið er að stjórn fiskveiða við Ísland en raunin væri nokkurn tímann innan sambandsins. Við kjósum það fólk sem tekur ákvarðanirnar í þessum málum eins og staðan er í dag. Innan Evrópusambandsins væru þau völd hins vegar fyrst og fremst í höndum embættismanna í Brussel sem hafa ekkert lýðræðislegt umboð frá almenningi.

Hjörtur J. Guðmundsson

Þess má geta að greinin er rituð út frá stöðu mála eins og hún er í dag. Eins og getið er í henni myndu yfirráðin yfir sjávarútvegsmálum hér við land færast að mestu leyti til Evrópusambandsins ef við Íslendingar gerðumst þar aðilar. Því er í raun engin trygging fyrir því að sambandið muni ekki skipta sér í framtíðinni af því hvernig aðildarríkin skipta þeim aflaheimildum sem sambandið úthlutar þeim. Ef til þess kæmi vita menn heldur ekkert með hvaða hætti þau afskipti yrðu, en hingað til hefur slíkt þó yfirleitt gengið út á það að sífellt meira vald hefur fluzt frá aðildarríkjunum og til sambandsins.

Birtist einnig í Morgunblaðinu þann 17. desember 2004


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband