Föstudagur, 3. desember 2004
86 ára ártíð íslenzks fullveldis
Um þessar mundir fögnum við Íslendingar 86 ára ártíð íslenzks fullveldis. Með sambandslögunum, sem tóku gildi þann 1. desember árið 1918, var Ísland loksins viðurkennt sem frjálst og fullvalda ríki. Þetta var einkum ávöxtur áratuga baráttu Íslendinga fyrir aukinni sjálfstjórn. Aðstæður voru og þjóðinni afar hagstæðar árið 1918. Fyrri heimstyrjöldin 1914-1918 hafði m.a. haft það í för með sér að nokkuð los hafði komið á tengsl Íslands við Danmörku. Hugmyndir um sjálfsákvörðunarrétt þjóða fengu ennfremur ríkari hljómgrunn í lok styrjaldarinnar og töldu dönsk stjórnvöld sig í betri stöðu til að endurheimta hluta af hertogadæminu Slésvík, sem Danir höfðu misst til Þjóðverja (Prússa) árið 1864, ef þau sýndu Íslendingum samningslipurð. Þegar sambandslögin tóku gildi hafði Ísland verið undir yfirráðum erlendra ríkja í meira en sex og hálfa öld; fyrst Norðmanna frá 1262 til 1397 og síðan Dana frá 1397 til 1918. Fyrir þann tíma höfðu Íslendingar verið sjálfstæðir í meira en 350 ár. Án efa hefur ákveðinn vonarneisti alltaf lifað með þjóðinni um að hún myndi einn dag endurheimta frelsi sitt og öðlast stjórn yfir eigin málum í þær aldir sem hún bjó við erlend yfirráð.
Það var þó ekki fyrr en á fyrri hluta 19. aldar sem vonir þjóðarinnar fóru að glæðast um aukna sjálfstjórn. Var það fyrst og fremst fyrir ötula og ósérhlífna framgöngu margra mætra Íslendinga og fór þar fremst í flokki sjálfstæðishetja Íslendinga, Jón Sigurðsson. Með sambandslögunum varð Ísland aðeins í konungssambandi við Danmörku, en nær öll völd yfir landinu fengu Íslendingar í eigin hendur. Danir fóru þó áfram með utanríkismál í umboði íslenzkra stjórnvalda. Annað sem sambandslögin höfðu í för með sér var m.a. að Danir sáu áfram um eftirlit með fiskveiðum í landhelgi Íslands unz íslenzk stjórnvöld tækju þau mál yfir sem gerðist fáum árum síðar. Ríkisborgararéttur var aðskilinn, en ríkisborgarar beggja landa nutu eftir sem áður gagnkvæmra réttinda í báðum löndunum.
Kveðið var á um að Hæstiréttur Danmerkur skyldi áfram vera æðsta dómsvald í íslenzkum málum unz íslenzkur hæstaréttur tæki til starfa, sem varð strax árið 1920.
Að lokum var síðan gert ráð fyrir því að eftir árslok 1940 gæti þing hvorrar þjóðar krafizt þess að sambandslögin yrðu endurskoðuð. Með sambandslögunum urðu þáttaskil í langvinnri baráttu Íslendinga fyrir stjórnfrelsi. Með þeim varð fullvalda íslenzkt ríki loksins staðreynd og opnað á sambandsslit við Danmörku og stofnun sjálfstæðs ríkis innan aldarfjórðungs.
Þannig markar fullveldisdagurinn 1. desember í raun ekki síður mikilvæg tímamót í sögu okkar Íslendinga en lýðveldisdagurinn 17. júní og í raun mikilvægari. Ljóst er að langmest ávannst í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar með sambandslögunum 1. desember 1918. Má segja að lýðveldisstofnunin hafi í raun verið lokapunkturinn á því sem opnað var á með sambandslögunum.
Ég vil óska Íslendingum öllum til hamingju með íslenzkt fullveldi í 86 ár.
Það er von mín að við munum áfram öðlast gæfu til að standa vörð um fullveldi landsins svo að áfram verði hægt að halda upp á þessi mikilvægu tímamót um alla framtíð.
Heimild: Einar Laxness: Íslandssagan a-ö. Reykjavík. 1977.
Hjörtur J. Guðmundsson
Breytt 6.10.2006 kl. 13:19 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004