Leita í fréttum mbl.is

ERR-OR-listi í kröppum dansi

Á laugardaginn ákvað borgarstjórnarflokkur R-listans að hækka útsvar á skattgreiðendur í Reykjavík upp í hæstu leyfilegu mörk, eða í 13,03 prósent úr 12,7 prósentum. Þá munu fasteignagjöld hækka úr 0,320 prósentum í 0,345 prósent. Ekki er hægt að segja að þessi ákvörðun hafi komið á óvart því flestum er kunnug sú bága fjárhagsstaða sem R-listinn hefur komið borginni í. Í sjónvarpsfréttum RÚV á laugardagskvöldið kom fram að fyrir meðal skattgreiðanda munu þessar hækkanir kosta 10-15 þúsund krónur á ári. Þá er miðað við mann sem er með 3 milljónir í árstekjur og á íbúð sem kostar 10 milljónir. Áætluð tekjuaukning borgarsjóðs af þessum hækkunum er um 1 milljarður króna á ári.

Árni Þór Sigurðsson forseti borgarstjórnar hafði þetta um hækkanirnar að segja:

,,Það sem við erum að hugsa um fyrst og fremst með þessum hækkunum núna er að eiga svigrúm til þess að mæta kjarasamningum á næstu mánuðum og misserum og sömuleiðis til að eiga svigrúm að einhverju leyti til að grynnka á skuldum borgarinnar.”

Það jákvæða við þessi ummæli er að forvígismenn R-listans eru loksins farnir að viðurkenna að skuldasöfnun borgarinnar sé vandamál. Það sorglega er hins vegar það að svona skuli vera komið fyrir fjárhag borgarinnar og að ekki hafi verið gripið í taumana fyrr.

Skuldasöfnun er ekki eina vandamálið sem hrjáir R-listann.
Allir hafa fylgst með vandræðaganginum í kringum afsögn Þórólfs Árnasonar og væntanleg borgarstjóraskipti. Það hryggilega, sem skinið hefur í gegnum ummæli borgarfulltrúa, og raunar einnig fráfarandi borgarstjóra, í því ferli er það hvaða hagsmuni þeir bera fyrst og fremst fyrir brjósti:

,,Ástæðan fyrir því að ég tók það að mér var sú að mér þótti vænt um Reykjavíkurlistann og það sem hann stendur fyrir. Ég stend upp úr stóli borgarstjóra af sömu ástæðum og ég settist í hann.”

Þetta sagði Þórólfur Árnason í yfirlýsingu sinni þegar hann sagði af sér. Þegar hann svaraði spurningum á eftir hafði hann meðal annars þetta að segja:

,,Það er mitt mat að ákvörðunin sé best fyrir Reykjavíkurlistann og mig sjálfan.”

og:

,,Mér finnst fyrst og fremst að ég sé að hugsa um framtíð Reykjavíkurlistans og heiður minn í samhengi”.

Í fréttum RÚV klukkan 22, þann 9. nóvember hafði Árni Þór Sigurðsson forseti borgar-stjórnarm.a. þetta um málið að segja:

,,Eins og ég segi vil ég bara að við fáum tóm til að ræða þetta í okkar hópi hvað við teljum best fyrir Reykjavíkurlistann.”

Fleiri borgarfulltrúar gáfu svipuð svör við spurningum fréttamanna.

Þar höfum við það. Þeir hagsmunir sem R-listamenn bera fyrst og fremst fyrir brjósti eru ekki hagsmunir Reykvíkinga, sem þeir þó hafa valist til að starfa fyrir – heldur þeirra eigin hagsmunir – hagsmunir R-listans. Það er framtíð R-listans en ekki framtíð Reykvíkinga sem þeim eru efst í huga. Svo virðist sem hugsjónir þeirra snúist fyrst og fremst um það að viðhalda eigin völdum en ekki um það að bæta samfélagið í borginni. Þannig klifaði hver borgarfulltrúinn á fætur öðrum á því í liðinni viku að við ákvörðun um brotthvarf Þórólfs Árnasonar og val á nýjum borgarstjóra hefðu hagsmunir R-listans fyrst og fremst verið hafðir að leiðarljósi. Þetta virðist mörgum þykja alveg eðlilegt. Hvað ætli fólk hefði sagt ef Davíð Oddsson hefði lýst því yfir þegar hann var forsætisráðherra að ákvarðanir hans í landsmálunum stjórnuðust af því hvað best væri fyrir Sjálfstæðisflokkinn?

Í þessu tel ég ábyrgð borgarfulltrúa R-listans mikla, en minni ástæða er til að gagnrýna Þórólf Árnason fyrir störf hans fyrir R-listann. Hafa ber í huga að Þórólfur settist í borgarstjórastólinn þegar allt var þegar komið í óefni. Hann var ráðinn til starfa á vegum R-listans til að framfylgja þeirra stefnu. Mikilhæfur maður sem var ráðinn til að framfylgja vonlausri stefnu R-listans. Það var því eðlilegt að hann bæri hagsmuni R-listans fyrir brjósti – það voru jú þeir sem réðu hann en hann var ekki kosinn af borgarbúum. Það voru svo fyrst og fremst borgarfulltrúar R-listans sem tóku ákvörðun um brotthvarf hans. En ummæli Þórólfs endurspegla væntanlega hvaða hagsmunir þar voru í fyrirrúmi eins og ummæli borgarfulltrúa staðfesta.

Það þarf svo sem engan að undra að þeir sem að R-listanum standa, séu uggandi um framtíð hans. Margoft hefur sýnt sig að samstarfið hangir á bláþræði. Hinn bági fjárhagur mun ekki bæta ástandið. Hvert munu R-listamenn sækja fé í næstu gæluverkefni, og til að axla skuldabyrðina nú þegar svigrúm til útsvarshækkana verður fullnýtt? Það skyldi þó ekki vera að þess sæi stað á orkureikningum borgarbúa eins og fordæmi eru fyrir. Talsmenn R-listans benda á að staða borgarsjóðs sé nú ekki svo slæm. Staðreyndin er hins vegar sú að skuldirnar hafa verið færðar að miklu leyti frá borgarsjóði yfir á fyrirtæki borgarinnar til að hylja óráðsíuna.

ERR-listinn má með sanni kallast ERROR-listinn. Þýðing enska orðsins ,,error” samkvæmt orðabókum er ,,villa”, ,,skekkja”, ,,ávirðing”, ,,yfirsjón” og ,,misgjörð”. Þessi orð eru mjög lýsandi fyrir það sem Err-listinn stendur fyrir. Villan er m.a. sú að fulltrúar hans telja sig geta stjórnað borginni farsællega, skekkjuna má finna í rekstri borgarsjóðs og fyrirtækja borgarinnar, yfirsjónirnar eru margar og ávirðingarnar og misgjörðirnar felast meðal annars í því að hafa velt eigin eyðslu yfir á komandi kynslóðir með ótæpilegri skuldasöfnun.

Raunar mætti skrifa margar greinar um sukk R-listans varðandi Orkuveitu Reykjavíkur og önnur fyrirtæki á vegum borgarinnar, með Alfreð Þorsteinsson í broddi fylkingar. Sú umfjöllun rúmast ekki í þessum pistli. Í því sambandi vil ég að svo stöddu bara minna á að ERR stendur fyrir R-listann og OR fyrir Orkuveitu Reykjavíkur. ERR+OR=ERROR.

Þorsteinn Magnússon


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband