Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 4. júlí 2005

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, lýsti þeirri skoðun sinni nýverið í ræðu sem hann flutti í Bandaríkjunum að hann teldi Íslendinga eiga meiri samleið með Bandaríkjamönnum en Evrópusambandinu, þá sérstaklega þegar kæmi að efnahagsmálum. Sagði hann að einsleit reglugerðasmíð sambandsins fyrir aðildarríki þess væri ekki endilega jafnheppileg og það fyrirkomulag sem til staðar væri í bandarísku samfélagi. Að hans mati hefðu einstök ríki Bandaríkjanna mun meira svigrúm og frelsi á margvíslegum sviðum en gerðist í Evrópusambandinu.

Haft var eftir „einum leiðtoga stjórnarandstöðunnar“ í Blaðinu 28. júní sl. af þessu tilefni að forsetinn stjórnaði ekki utanríkisstefnu Íslands. Þessi ágæti stjórnarandstöðuleiðtogi vildi þó greinilega ekki láta nafns síns getið af einhverjum ástæðum. En hvað sem því líður þá hafa stjórnarandstæðingar hingað ekki séð ástæðu til að gera neinar athugasemdir við það þegar forsetinn hefur verið að tjá sig opinberlega um hápólitísk álitamál, hvort sem það hefur verið hér heima eða erlendis, og raunar allajafna fagnað þeim afskiptum hans og um leið skammað ýmsa aðra fyrir að gagnrýna hann í þeim efnum. Nú kveður hins vegar greinilega við talsvert annar tónn úr herbúðum stjórnarandstæðinga.

Rétt er að geta þess að þó ég sé vissulega mjög sammála Ólafi Ragnari í samanburði hans á Bandaríkjunum og Evrópusambandinu frá íslenzkum bæjardyrum séð þá er ég engu að síður þeirrar skoðunar að það sé ekki hlutverk þess sem gegnir forsetaembættinu hverju sinni að tjá sig með svo afgerandi hætti um hápólitísk málefni, hvort sem um er að ræða skipan mála á íslenzkum fjölmiðlamarkaði eða samband Íslands og Evrópusambandsins.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband