Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 20. júní 2005

Egill Helgason gerir Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum, að umfjöllunarefni í nýlegum pistli á vefsvæði sínu á Vísi.is. Reyndar kallar Egill Heimssýn „hreyfingu Evrópuandstæðinga á Íslandi“ og virðist þar með falla í þá gryfju sem sumir eru fastir í að geta ekki gert greinarmun á annars vegar landfræðilega fyrirbærinu “Evrópu” og hins vegar fyrst og fremst stjórnmálafræðilega fyrirbærinu “Evrópusambandinu”. Nema þetta orðalag sé einfaldlega meðvitað og Egill sé með þessu að leggja sitt lóð á vogaskálarnar í þeim einkennilega áróðri Evrópusambandsinna að þetta tvennt sé eitt og hið sama?

En hvað um það. Egill segir að Heimssýn sé samsett á hliðstæðan hátt og „nei-hreyfingin í Evrópu“ (reyndar leyfi ég mér að efast stórlega um að Egill hafi einhverja yfirsýn yfir samsetningu þeirra nokkur hundruð félagsmanna sem eru í Heimssýn). Þar séu t.a.m. „gamlir sósíalistar“ og tekur hann Ragnar Arnalds sem dæmi um það. Einnig „ungir andstæðingar hnattvæðingarinnar“, sem er sá titill sem Ármann Jakobsson fær, „evróskeptíkerar úr ysta hægri stóra hægri flokksins“, sem er skilgreining Egils á Sigurði Kára Kristjánssyni, frjálshyggjumenn eins og Birgir Tjörvi Pétursson og að lokum segir Egill að „með laumist fulltrúar þeirra sem séu andsnúnir innflytjendum“ og nefnir hann mig sem dæmi um það.

Ekki er hægt að skilja það öðruvísi en svo að þessum einkunnagjöfum sé ætlað að draga upp dökka mynd af þeim sem í hlut eiga. Finnst mér t.a.m. furðulegt að Egill geri að því skóna að Sigurður Kári sé einhvers konar hægriöfgamaður og fróðlegt þætti mér líka að fá rök fyrir þeirri fullyrðingu að ég sé andsnúinn innflytjendum þó ég hafi vissulega lagt áherzlu á mikilvægi aðlögunar í gegnum tíðina, þegar kemur að innflytjendamálunum, og eðlilegs aðhalds í samræmi við það. Eitthvað sem flestir gera sennilega í dag.

Reyndar virðist Egill ekki vita í hvorn fótinn hann eigi að stíga í Evrópumálunum og má þannig t.a.m. nefna að sl. haust kom Daniel Hannan, þingmaður brezka Íhaldsflokksins á Evrópusambandsþinginu, til Íslands á vegum Heimssýnar og var m.a. í viðtali í Silfri Egils. Var Egill víst afar hrifinn af Hannan og var stuttu síðar svo ánægður með grein eftir hann í brezka tímaritinu The Spectator að hann sá ástæðu til að skrifa sérstaklega um hana á vefsvæði sínu á Vísi.is og leggja áherzlu á það helzta sem Hannan hafði að segja.

Í grein sinni fjallaði Hannan um það hvað við Íslendingar værum að gera það gott fyrir utan Evrópusambandið og að ástæða þess væri sú að við hefðum haft vit á því að standa fyrir utan það. Ennfremur sagði hann að Bretar gætu tekið okkur sér til fyrirmyndar um að ekkert mál væri fyrir ríki að standa fyrir utan sambandið. Hannan lýsti svo þeirri von sinni í lok greinarinnar að Íslandi auðnaðist að standa áfram fyrir utan Evrópusambandið um ókomna tíð. Þetta nefndi Egill allt í skrifum sínum á Vísi.is án þess að gera við það nokkra athugasemd. Hannan er vitanlega einn af þeim sem mynda nei-hreyfinguna í Evrópu sem Egill er núna svo afskaplega uppi á kant við af einhverjum ástæðum.

Ekki er hægt að sjá annað en að mikils ósamræmis gæti hjá Agli í þessum efnum sem annars vegar segir í pistli sínum að í „meginstraumi stjórnmálanna“ detti engum heilvita manni í hug annað en að Ísland eigi samleið með Evrópusambandinu og að EES-samningurinn sé „svo gott sem aðild“ en tekur síðan undir með Daniel Hannan um að við Íslendingar séum að gera það eins gott og raun ber vitni vegna þess að við höfum haft vit á því að ganga ekki í sambandið!

Það vill nefnilega svo til að hin svokallaða nei-hreyfing í Evrópu inniheldur svo miklu fleiri en bara eitthvað fólk sem er vel til hægri eða vel til vinstri þó reynt hafi verið að mála hlutina þannig upp af fjölmörgum stuðningsmönnum Evrópusamrunans. Ég gæti nefnt til sögunnar í því sambandi ýmsar evrópskar hreyfingar og fleiri aðila víða í hinu pólitíska landslagi sem hafa ýmislegt við þann samruna að athuga sem verið hefur í gangi innan Evrópusambandsins. Að ýja að því að öll slík gagnrýni byggst allajafna á einhverri útlendingaandúð og verndarhyggju er auðvitað stórmerkilegt í ljósi þess að Evrópusambandið sjálft er tollabandalag sem beitir háum verndartollum til þess að standa vörð um þá framleiðslu sem fram fer innan múra þess.

Staðreyndin er einfaldlega sú að andstaðan við aukinn samruna innan Evrópusambandsins, og við aðild að því í þeim tilfellum sem það á við, er oftar en ekki byggð á forsendum frelsis, lýðræðis, fullveldis og andstöðu við miðstýringu og reglugerðafargan. Sú er einmitt einkum raunin hér á landi sem og t.a.m. í Bretlandi og víðar.

Fullyrðing Egils um að í „meginstraumi stjórnmálanna“ detti engum heilvita manni í hug að Ísland eigi ekki samleið með Evrópusambandinu og að EES-samningurinn sé „svo gott sem aðild“ er síðan furðuleg þó ekki nema bara í ljósi þeirrar staðreyndar að aðeins einn stjórnmálaflokkur á Íslandi, Samfylkingin, hefur aðild að Evrópusambandinu á stefnuskrá sinni og hefur í raun og veru ekki enn lagt í að setja það stefnumál á dagskrá. Hvar er þessi meginstraumur? Er það Samfylkingin? Er Sjálfstæðisflokkurinn þá t.a.m. utan hans? Nær er reyndar að segja að í meginstraumi stjórnmálanna hér á landi sé sú skoðun ríkjandi að Ísland eigi ekki erindi í Evrópusambandið, a.m.k. ekki í nánustu framtíð.

Og að halda því fram að EES-samningurinn sé svo gott sem aðild að Evrópusambandinu þarf í sjálfu sér ekki að ræða mikið, svo augljós er munurinn þarna á milli, jafnvel þó menn vilji ekki sjá hann. Það er t.d. bara nýbúið að sýna fram á að við erum ekki að taka yfir nema brot af lagagerðum sambandsins í gegnum samninginn, þvert á fyrri og margítrekaðar fullyrðingar íslenzkra Evrópusambandssinna. Þó aðeins sé litið til þessa eina atriðis er það nóg til að sjá að himinn og haf er á milli aðildar að Evrópusambandinu annars vegar og EES-samningsins hins vegar.

Annars veltir maður því eðlilega fyrir sér að lokum hvort það skyldi vera einskær tilviljun að Egill taki upp á því að skrifa þennan neikvæða pistil um Heimssýn og meðlimi hreyfingarinnar einmitt núna þegar allt er á öðrum endanum innan Evrópusambandsins eins og kunnugt er og reyndar rúmlega það? Gæti verið að um sé að ræða misheppnaða tilraun til að beina athyglinni að einhverju öðru þegar kemur að Evrópumálunum en þeirri alvarlegu stjórnmálakreppu sem þar er við líði og fjallað hefur verið rækilega um í fjölmiðlum á undanförnum vikum – íslenzkum Evrópusambandssinnum væntanlega til mikillar mæðu? Annað tilefni á ég a.m.k. bágt með að koma auga á.

---

Annars hafa leiðtogar Evrópusambandsins ákveðið að setja fyrirhugaða stjórnarskrá sambandsins á ís og á að taka ákvörðun um framhald málsins eftir einhverja mánuði, jafnvel ekki fyrr en að ári. Í millitíðinni er hugmyndin að leggja enn meira kapp á að reka áróður fyrir stjórnarskránni í aðildarríkjum Evrópusambandsins og þá einkum þeim auðvitað sem hafa lofað þegnum sínum þjóðaratkvæðagreiðslum um málið. Telja ýmsir að slíkur aukinn áróður muni ekki skila miklu og jafnvel snúast upp í andhverfu sína enda ógrynni fjár þegar verið varið í þeim tilgangi af Evrópusambandinu sjálfu sem og aðildarríkjunum en án þess að það hafi skilað sér betur en raun ber vitni.

Leiðtogar Evrópusambandsins munu meira eða minna vera sammála um það að sambandið hafi aldrei verið í eins mikilli stjórnmálakreppu og nú er raunin. Og nú er bara að bíða þess að Eiríkur Bergmann Einarssin mæti í viðtal hjá einhverjum fjölmiðlanna sem hlutlaus sérfræðingur í Evrópumálum og segi að það sé eðlilegt ástand að Evrópusambandið sé í stöðugri stjórnmálakreppu. Eða svo sagði hann allavega þegar leiðtogar sambandsins voru að rembast við að koma sér saman um efni stjórnarskrárinnar hér um árið. Spurningin er þá bara hvort það sé líka eðlilegt ástand innan Evrópusambandsins að þar sé í ófáum tilfellum viðvarandi efnahagskreppa?

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
 
(Birt einnig á www.heimssyn.is)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband