Mánudagur, 11. október 2004
Þáttaskil í íslenskum stjórnmálum
Þó undirritaður hafi valið þá fyrirsögn sem að ofan getur að líta, á sína fyrstu grein á Íhald.is er það ekki opnun vefritsins sem hann hefur í huga með titlinum. Vissulega er það von mín að með tíð og tíma verði Íhald.is rödd inn í íslenskt samfélag, þar sem staðfastri en jafnframt skynsamlegri hægri hugmyndafræði er haldið á lofti, og að greinar sem í vefritinu birtast öðlist vægi í hinni lýðræðislegu umræðu og skoðanaskiptum. En tíminn einn leiðir í ljós hvort svo verður.
Það eru því allt önnur þáttaskil, og snöggtum meiri, sem titillinn vísar til. Það eru þau tímamót sem urðu þann 15. september síðastliðinn þegar Davíð Oddsson steig upp úr stóli forsætisráðherra eftir ríflega 13 ára farsælan feril í þessu áhrifamesta embætti þjóðarinnar. Þegar litið er yfir farinn veg, frá árinu 1991, þegar Davíð tók við embætti, má sjá að breytingarnar sem orðið hafa á íslensku samfélagi eru geysimiklar. Efnahagur þjóðarinnar hefur tekið stórstígum framförum og lífskjörin gerbreyst til hins betra. Atvinnu- og viðskiptafrelsi hefur aukist til muna, með einkavæðingu ríkisfyrirtækja, aðildinni að evrópska efnahagssvæðinu, hagstæðara regluverki og lægri sköttum á fyrirtæki, sem hafa verið einstaklingum í atvinnulífinu hvatning til dáða og framfara.
Þessi efnahagsstjórn, þar sem sjónarmið hægri hugmyndafræði hafa fengið að njóta sín, hefur leitt til aukinnar hagsældar og bættra lífskjara, í þágu landsmanna allra. Einn besta mælikvarðann á almenn lífskjör í landinu tel ég vera kaupmátt ráðstöfunartekna, því sú stærð varðar alla þá sem á annað borð hafa tekjur. Kaupmáttur launa hefur á tímabilinu hækkað um um það bil 30%. Þar er einkum fyrir að þakka efnahagslegum stöðugleika sem hagstjórnin hefur skilað. Verðlag hefur haldist stöðugt og verðbólga því ekki étið upp kauphækkanir launafólks jafnharðan, eins og títt var á níunda áratugnum, og gjarnan vill brenna við, komist vinstri stjórnir til valda. Margir vinstrisinnar hafa legið ríkisstjórnum Davíðs á hálsi fyrir að hugsa einungis um atvinnurekendurna þá sem hæstar hafa tekjurnar. Dæmið sem tekið er hér að ofan sýnir svo ekki verður um villst
að slík gagnrýni er reist á brauðfótum. Sumum hættir nefnilega til að gleyma því að fyrirtækin þurfa að hafa góð rekstrarskilyrði til að geta gert vel við sitt starfsfólk.
Og það eru jú fyrirtækin sem sjá um að veita hinum almenna launamanni atvinnu.
Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson notaði tækifærið við þingsetningu þann
1. október sl. til að þakka Davíð Oddsyni fyrir ,,farsæl störf, forystu á umbrotatímum
og mikilvægt framlag til hagsældar og velferðar Íslendinga. Þá lét Ólafur þess getið að þetta framlag skipaði Davíð ,,í sérstakan virðingarsess í annálum þings og þjóðar. Það er til marks um þann mikla árangur sem ríkisstjórnir Davíðs Oddsonar hafa náð, að þessi fyrrum höfuðandstæðingur Davíðs í íslenskum stjórnmálum skuli kveða svo að orði.
Það er von mín að þau þáttaskil sem nú hafa orðið í landsstjórninni séu fyrst og fremst þau að nýr maður er tekinn við í brúnni, en að ekki verði horfið frá þeirri stefnu sem hér hefur verið rekin undanfarin ár. Ljóst er að sjónarsviptir verður að Davíð úr stóli forsætisráðherra. Þó Halldór Ásgrímsson sé reyndur og fjölhæfur stjórnmálamaður er ljóst er að hans bíður erfitt verkefni, að fylla skarð Davíðs Oddssonar í forsætis-ráðuneytinu. Þó mikið hafi áunnist undanfarinn áratug eða svo er ýmislegt óunnið í þvi verki að færa íslensku þjóðina enn framar hvað lífskjör og lífsgæði varðar. Halldór hefur með sínum flokki tekið virkan þátt í því verki sem að ofan er lýst. Því eru góðar líkur á því að ríkisstjórn hans auðnist að halda áfram á þeirri braut farsællar hagstjórnar sem ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hafa markað.
Þorsteinn Magnússon
Breytt 6.10.2006 kl. 13:19 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004