Leita í fréttum mbl.is

Óæskileg ríkisafskipti – æskileg hugleiðing íhaldsmanns

Við búum í frábæru landi. Landslagið er fallegt, við erum hraust og heilbrigð og okkur líður vel á eyjunni okkar. Við eigum sterkustu mennina, fallegustu konurnar og hreinasta vatnið. Við erum líka með nokkuð gott stjórnarfar – en bara misvitra ráðamenn.

Við skulum skoða nokkur dæmi um ákvarðanir sem þingmenn
og ráðamenn þjóðarinnar hafa tekið.

Einu sinni var bannað að drekka bjór á Íslandi. Þegar menn hittust á bar gátu menn fengið sér kók eða vodka. Menn höfðu leyfi frá yfirvöldum til að neyta 40% áfengra drykkja, en ekki bjórs. Og af hverju? Jú, af því að það voru menn á Alþingi sem ákváðu einn daginn að það væri bannað að drekka bjór. Ekki er íhaldsmaðurinn að mæla með stanslausri áfengisdrykkju – en þó „stjórn”lausri.

Það eru tæplega tveir áratugir síðan útvarprekstur var gefinn frjáls á Íslandi.
Almenningi var bannað að starfrækja útvarps- og sjónvarpsstöðvar.
Nokkrum árum áður en að lögin voru afnumin höfðu menn verið dregnir fyrir dómstóla fyrir það að útvarpa „frjálsu” útvarpi.
En þetta er kannski ekki alveg svona einfalt. Ríkið setti sjónvarp og útvarp auðvitað í gang og því kannski eðlilegt að það væri með gamalt „einkaleyfi” undir höndum.
En það voru hins vegar þingmenn sem börðust hatrammlega gegn því að útvarpsrekstur yrði gefinn frjáls. Já, það voru í alvöru menn sem töldu að almenningi væri ekki treystandi til að starfrækja útvarp og sjónvarp.
(Athygli skal vakin á því að það voru raddir úr sömu átt sem sökuðu Davíð Oddsson um að „vega að lýðræðinu” með því að ætla að setja lög á fjölmiðla).
En það er auðvitað ekki verið að „vega að lýðræðinu” með því að berjast gegn því að leyfð yrði frjáls fjölmiðlun á Íslandi? Maður spyr sig.

En þetta er ekki búið. Þangað til fyrir örfáum árum mátti ekki stunda hnefaleika á Íslandi. Menn máttu stökkva úr flugvél með fallhlíf á bakinu, klífa jökla og fjöll, jú og auðvitað sparka hver í annan í fótbolta. En nei, ekki hnefaleika, sem þó eru viðurkennd íþrótt.
Af hverju? Jú, einn daginn var ákveðið á Alþingi að banna hnefaleika á Íslandi.
Um fimmtíu árum seinna var lagt fram frumvarp um að afnema þetta bann.
Eðlilegast hefði verið að þingheimur hefði strax séð að þarna væri um tímaskekkju að ræða sem auðvelt væri að leiðrétta. Ekki alveg. Það voru þingmenn sem börðust líka hatrammlega gegn afnámi bannsins. Sem betur fer höfðu þeir ekki sigur.
Nú má ekki skilja það svo að höfundi þessarar greinar finnist gaman að láta lemja sig. En ef einhver annar vill gera það í leikfimissölum landsins hef ég engan rétt á að banna honum það. Það vildi reyndar svo til að leiðinda atvik kom upp nokkrum mánuðum eftir að bannið var afnumið. Ungur strákur sem farið hafði í hringinn af fúsum og frjálsum vilja slasaðist í Vestmanneyjum. Ekki þurfti að bíða lengi eftir að Kolbrún Halldórsdóttir kæmi með tillögu sem yrði til þess að drengurinn slasaðist ekki aftur - setja lög í landinu sem bönnuðu honum að stunda sportið.

Hér á undan eru rifjuð upp þrjú atriði sem einu sinni voru bönnuð með lögum en eru það sem betur fer ekki lengur. En fyrst við erum í þessum hugleiðingum skulum við skoða nokkur dæmi sem eru okkur aðeins nær.

Í fyrra ákváðu forsvarsmenn 10-11 að hafa nokkrar af búðum sínum opnar á Hvítasunnudag. Það er hinsvegar bannað með lögum hér og búðirnar voru ekki opnar til kl. 11 um kvöldið heldur mættu laganna verðir og lokuðu þeim nokkru fyrr.
Já, lögreglan sá til þess að menn gætu ekki verslað þennan dag, allvega á þessum stað.
Þennan sama dag megum við fara í ferðalög, hitta vini og kunningja, fara í bíó, ná okkur í spólu – en, ekki versla í matvörubúð.

Íslendingar eru neyddir til að borga afnotagjöld af sjónvarpi. Það er fólk í vinnu við það að þefa uppi þá glæpamenn sem eru með sjónvarp en borga ekki afnotagjöld.
Það voru og eru menn og konur sem telja að það sé mikilvægt að ríkið haldi uppi menningarlegum fjölmiðli. Einnig hafa ýmsir afturhaldsmenn bent á að þetta sé öryggistæki fyrir þjóðina.
Samkvæmt skilgreiningu ríkisins hlýtur Sex and the City þá að vera „menningarlegri” heldur en t.d. Friends. Það er margt hægt að fara yfir í málefnum RÚV og verða því síðar gerð skil á vefritinu.

Í dag er borgarstjórn í Reykjavík sem „vill helst” að menn taki strætó í stað þess að nota einkabíl. Þessi borgarstjórn telur að Reykjavík eigi að vera borg fyrir fólk en ekki bíla. (eins og það þurfi að vera annað hvort eða). Borgarstjórnarmeirihlutinn telur sig vita betur en borgarbúar. Athyglisvert.

Það eru fleiri úrelt fyrirbæri sem ríkið er að sinna t.d. ÁTVR sem er efni í sérgrein.

Ég gæti haldið hér áfram að telja upp óeðlileg og óæskileg afskipti ríkisvaldsins á borgurunum. En ég held að lesendur geri sér nokkra grein fyrir stöðu mála. Nú má alls ekki skilja það svo að ég sé að draga neikvæða mynd af landinu okkar, alls ekki. Ráðamenn þjóðarinnar (líka þeir ganga í fússi út úr þingsölum við minnsta tilefni þurfa að gera sér grein fyrir því í hvers umboði þeir starfa og nýta þann tíma sem þeim er gefinn vel. Alþingismenn eru t.d. ekki á launaskrá okkar landsmanna til að koma í veg fyrir að menn geti stundað ákveðnar íþróttir. Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur ekki leyfi til að taka ákvörðun fyrir fólkið með bílanotkun þeirra. Alþingismenn, ráðherrar, sveitarstjórnarmenn og fleiri sem kosnir eru af almenningi eiga ekki að eyða dýrmætum tíma sínum í að velta fyrir sér hvernig þeir geti reynt að hafa vit fyrir landsmönnum.

Hér hefur verið stiklað á stóru. Ofangreind dæmi sýna okkur að það er mikið verk fyrir höndum. Það skiptir meira máli að ráðamenn búi þannig í haginn fyrir okkur að við getum látið drauma okkar rætast og ákveðið svo sjálf hvernig við viljum haga okkar lífum. Til þess þarf ekki misvitra Alþingismenn.

Gisli Freyr Valdórsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband