Mánudagur, 18. apríl 2005
Mánudagspósturinn 18. apríl 2005
Jæja, formannskjörið í Samfylkingunni er í algleymingi. Póstkosning framundan og landsfundur í lok næsta mánaðar. Formannsefnin tvö, Össur Skarphéðinsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hafa tekist á að undanförnum vikum sem og stuðningsmenn þeirra, einkum undir það síðasta. Hefur ýmislegt fróðlegt komið fram í þeim átökum sem e.t.v. hefði ekki heyrzt annars. T.a.m. gagnrýndi Össur Baugsveldið harðlega fyrir að hygla stjórnmálamönnum og konum sem það hefði mætur á. Var væntanlega flestum ljóst að þar var einkum skírskotað til Ingibjargar Sólrúnar þó Össur hafi borið á móti því eftir á.
Einnig upplýsti Össur að stuðningsmenn Ingibjargar í Samfylkingunni hefðu sótt það stíft að henni væri úthlutað öruggu þingmannssæti fyrir Alþingiskosningarnar 2003 í Reykjavíkurkjördæmi norður. Eðlilega vildi enginn sitjandi þingmaður Samfylkingarinnar í kjördæminu gefa eftir þingsæti sitt til Ingibjargar. Því fór svo að hún fékk einungis sæti neðar á framboðslistanum en var engu að síður útnefnd sem forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar. Foringjadýrkunin sem fylgdi í kjölfarið muna síðan sennilega flestir með stórum andlitsmyndum af Ingibjörgu úti um allt svo manni varð óhjákvæmilega hugsað til áróðurmynda í gömlu kommúnistaríkjunum.
Eins og allir vita fór það síðan svo að Ingibjörg náði ekki kjöri og varð aðeins varaþingmaður að kosningunum loknum. Össur auðmýkti reyndar Ingibjörgu með því að bjóða Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherrastólinn ef Framsókn myndaði ríkisstjórn með Samfylkingunni. Þetta tilboð hefur án efa kitlað Halldór en tilhugsunin um þingmeirihluta upp á aðeins einn mann hefur sennilega ekki kitlað hann eins mikið. Össur hafði reyndar sótt það stíft í aðdraganda kosningabaráttunnar að hann og hann einn myndi verða forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar. Annað kæmi bara ekki til greina. Síðan kúventist sú afstaða í anda Ragnars Reykáss.
Eins og kunnugt er setti Samfylkingin setti sér nokkur markmið fyrir kosningarnar 2003. Þau voru að fella ríkisstjórnina, komast í ríkisstjórn, koma Ingibjörgu Sólrúnu á þing og gera hana að forsætisráðherra og að ná svokölluðum 35% múr í fylgi. Reyndar var þessi múr upphaflega 40% en var síðan færður niður í 35% þegar líða tók á kosningabaráttuna og datt svo niður í 30% einhverjum dögum fyrir kjördag þegar skoðanakannanir sýndu að 35-40% væri ekki raunhæft fylgi fyrir Samfylkinguna. Skemmst er auðvitað frá því að segja að ekkert af þessum markmiðum flokksins náðust.
Eftir kosningarnar 2003 var Ingibjörg í vægast sagt miklu pólitísku tómarúmi með enga formlega stöðu innan Samfylkingarinnar utan að vera varaþingmaður. Þetta þótti stuðningsmönnum hennar ekki ásættanlegt eftir að hún varð að segja af sér sem borgarstjóri Reykjavíkur eftir að hafa sett á svið ótrúlegt leikrit þar sem hún hélt virkilega að Vinstri-grænir og Framsókn myndu taka því þegjandi og hljóðalaust að hún færi í framboð fyrir Samfylkinguna í landsmálunum á sama tíma og hún væri fulltrúi óháðra í borgarstjórn og sameiginlegur borgarstjóri þeirra flokka sem mynda R-listann.
Pólitísku tómarúmi Ingibjargar eftir kosningarnar var síðan reddað með því að búa til sérstakt batterí í kringum hana sem fékk nafnið Framtíðarhópur Samfylkingarinnar og fékk það verk að koma með tillögur að framtíðarstefnu flokksins. Mörgum þykir þó fátt gáfulegt hafa komið frá þeim hópi þann tíma sem hann hefur starfað og þ.á.m. Össuri Skarphéðinssyni. Mætti nefna t.d. hugmyndir Ingibjargar Sólrúnar um að semja við Evrópusambandið um að sjá um varnir Íslands í stað Bandaríkjanna. Þær hugmyndir urðu þó að engu eftir að fulltrúi frá varnarmálaskrifstofu sambandsins upplýsti að það væri engan veginn í stakk búið að sjá um varnir landsins.
Annars er nú búið að koma því þannig fyrir að Ingibjörg komizt loksins á þing. Bryndís Hlöðversdóttir hefur ákveðið að segja af sér þingmennsku í sumar og taka við starfi deildarforseta við lagadeild Viðskiptaháskólans á Bifröst. Reyndar skilst mér að það starf sé aðeins laust í ár. Þetta eru því vægast sagt undarleg skipti. Það vill annars svo merkilega til að Bryndís er einmitt þingmaður í sama kjördæmi þar sem Ingibjörg Sólrún er fyrsti varaþingmaður.
Í aðdraganda formannskjörsins í Samfylkingunni var Ingibjörgu einmitt legið á hálsi að hún væri ekki aðalmaður á þingi og að óheppilegt væri ef formaður flokksins væri það ekki. Þetta allt væri því sennilega æði mikil tilviljun ef sú væri í reynd raunin eins og Bryndís og Ingibjörg hafa haldið fram. En fólk sér nú alveg í gegnum þetta.
Svo kemur bara í ljós í lok maímánaðar hver verður formaður Samfylkingarinnar. Mér er eiginlega nokkuð sama.
Hjörtur J. Guðmundsson
Breytt 6.10.2006 kl. 13:19 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004