Mánudagur, 9. maí 2005
Mánudagspósturinn 9. maí 2005
Ekki kom á óvart að brezki Verkamannaflokkurinn skyldi hafa sigur í þingkosningunum í Bretlandi sem fram fóru sl. fimmtudag. Hins vegar verður sigurinn að teljast í bezta falli varnarsigur eins og komið hefur fram í fjölmiðlum. Flokkurinn hefur nú aðeins þingmeirihluta upp á 67 þingsæti miðað við 167 eftir kosningarnar 2001. Þetta þýðir að mjög erfitt kann að reynast fyrir Tony Blair að koma ýmsum málum í gegnum þingið á kjörtímabilinu, ekki sízt í ljósi þess að fjölmargir af hans eigin þingmönnum eru honum andsnúnir og þá einkum þeir sem eru mjög vinstrisinnaðir. Er talið líklegt að stutt sé orðið eftir af setu Blairs á stóli forsætisráðherra og að Gordon Brown, fjármálaráðherra, muni fyrr en síðar taka við.
Taki Brown við, sem er frekar spurning um hvenær en ekki hvort, þykir líklegt að Verkamannaflokkurinn muni sveigjast nokkuð til vinstri, en undir stjórn Blairs hefur flokkurinn færst meira til hægri en nokkurn tímann áður. Þessu hafa vinstrimenn innan hans kunnað afar illa sem og margir kjósenda hans. Hins vegar er ekki neinum almennilegum valkosti fyrir að fara vinstramegin við Verkamannaflokkinn. Þetta hefur þýtt að Blair hefur talið sig nokkið öruggan með að vinstrimenn upp til hópa kysu ekki annað en flokkinn þrátt fyrir að vera ósáttir við að hann hafi færst til hægri og sömuleiðis ekki sízt við þá ákvörðun Blairs að ráðast inn í Írak.
Þó er talið að Frjálslyndum demókrötum hafi tekizt að laða til sín talsvert af vinstrisinnuðu óánægjufylgi, þá sjálfsagt ekki sízt vegna andstöðu sinnar við Íraksstríðið. Frjálslyndi demókrataflokkurinn er þó í raun ekki mjög vinstrisinnaður heldur miðjuflokkur. Íhaldsflokkurinn græddi hins vegar sennilega lítið á að gagnrýna Blair fyrir lygar í tengslum við Íraksmálið, a.m.k. þegar kom að þeim kjósendum sem andvígir eru Íraksstríðinu, enda flokkurinn ekki andvígur innrásinni í Írak sem slíkri heldur aðeins gagnrýninn á það hvernig Blair stóð að þeirri ákvörðun að taka þátt í henni.
Íhaldsmenn bættu við sig 33 þingsætum sem er í sjálfu sér talsverður árangur en þeir höfðu vitanlega sett sér að komast í ríkisstjórn. Það var þó nokkuð ljóst að það myndi sennilega ekki takast ef marka mátti skoðanakannanir þó allt hefði auðvitað getað gerzt á kjördag, ekki sízt ef margir af kjósendum Verkamannaflokksins hefðu ekki neytt kosningaréttar síns. Það var einmitt það sem Blair og forystumenn flokksins óttuðust hvað mest og hvöttu því kjósendur hans til að sitja ekki heima.
Annað sem hugsanlegt er að gerist, þegar Gordon Brown tekur við sem forsætisráðherra og leiðtogi Verkamannaflokksins, er að flokkurinn, sem og ríkisstjórnin, verði minnan Evrópusambandssinnuður en verið hefur hingað til. Þetta er þó auðvitað engan veginn víst. Hins vegar hefur Brown jafnan verið talinn mun meiri efasemdarmaður um samrunann innan Evrópusambandsins en Blair, einkum þegar kemur að evrunni.
En hvernig sem mál munu þróast er ljóst að næsta kjörtímabil mun að öllum líkindum reynast ríkisstjórn Verkamannaflokksins erfitt.
---
Davíð Oddsson, utanríkisráðherra, benti á það í umræðum á Alþingi á dögunum, um málefni félagsskaparins Mannréttindaskrifstofu Íslands, að Amnesty International, sem aðild á að skrifstofunni, væri þeirrar skoðunar að mannréttindaskrifstofur ættu ekki að búa við opinberan stuðning. Jóhanna K. Eyjólfsdóttir, framkvæmdastjóri Amnesty International á Íslandi, sagði það vera misskilning að Amnesty leggðist gegn opinberum framlögum til mannréttindamála. Amnesty hafnaði sjálft styrkjum til að geta starfað í löndum þar sem einræði eða ógnarstjórn ríki.
Einmitt já. Ef þetta væri virkilega raunin, hvers vegna segir Amnesty International þá ekki bara að samtökin þiggi aðeins fé frá lýðræðislegum stjórnvöldum? Það væri ekkert að því ef það sem Jóhanna segir væri í reynd rétt. Þarna er þó augljóslega aðeins um að ræða verulega slappa tilraun til að réttlæta þá þversögn að Amnesty International telji það lykilatriði, til að tryggja sjálfstæði samtakanna, að þiggja ekki opinber fjárframlög á sama tíma og þau telja það lykilatriði að Mannréttindaskrifstofa Íslands fái opinber fjárframlög til að tryggja sjálfstæði hennar. Þverstæðan er auðvitað alger!
---
Ég minntist á nýja dagblaðið um daginn, Blaðið. Í frétt á Stöð 2 um daginn, í tilefni af því að fyrsta eintak blaðsins var gefið út, var m.a. haft eftir Sigurði G. Guðjónssyni, stjórnarformanns útgáfufélags blaðsins, að það yrði fréttablað með almennum fróðleik en að áherzlur verði þó aðrar en fyrir væru. Blaðið yrði frjálst og óháð, skrifað af gamalreyndum og nýjum blaðamönnum og af þeim sökum sagðist Sigurður telja að Blaðið yrði allt öðruvísi en þau blöð sem fyrir væru á markaðinum. Ég verð nú að segja eins og er að þó ég fagni útgáfu Blaðsins, sem viðleitni til að auka fjölbreytni á íslenzkum fjölmiðlamarkaði, og óski aðstandendum þess alls hins bezta þá kem ég illa auga á þá meintu sérstöðu sem blaðinu er ætlað að hafa umfram þau blöð sem fyrir eru út frá þessum orðum Sigurðar.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Breytt 6.10.2006 kl. 13:19 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004