Mánudagur, 18. september 2006
Meiri umræðu um Evrópumálin!
Ég vil endilega meiri umræðu um Evrópumálin, því meiri því betra raunar. Evrópusambandssinnar virðast þeirrar skoðunar að meiri umræða um málaflokkinn sé þeirra málstað í hag. Að vísu hefur það ítrekað sýnt sig að í þeirra orðabók þýðir umræða um Evrópumálin ekki almenn umræða heldur umræða sem hefur það að útgangspunkti að Ísland skuli ganga í Evrópusambandið. Umræða sem fær aðra niðurstöðu, sér í lagi þá að hagsmunum Íslands sé bezt borgið utan sambandsins, er því ekki umræða heldur eitthvað allt, allt annað.
Staðreyndin er sú að reynslan sýnir, bæði hér heima sem og erlendis, að aukin umræða um Evrópumálin leiðir allajafna til aukinnar andstöðu við Evrópusamrunann, eins og samrunaþróunin innan Evrópusambandsins hefur gjarnan verið kölluð - ekki til aukins stuðnings. Gildir þá einu hvort litið er til þjóðaratkvæðagreiðslunnar um evruna í Svíþjóð 2003, þjóðaratkvæðagreiðslnanna um fyrirhugaða stjórnarskrá Evrópusambandsins í Frakklandi og Hollandi á síðasta ári (sem notabene er engan veginn tímabært að afskrifa) eða þjóðaratkvæðagreiðslnanna um Evrópusambandsaðild í Noregi 1972 og 1994 svo dæmi séu tekin.
Í öllum þessum tilfellum töldu stjórnvöld að meirihlutastuðningur væri við umrædd samrunaskref í aðdraganda þess að ákvarðanir um þjóðaratkvæði voru teknar. En síðan fóru umræðurnar í gang og niðurstaðan var að meirihluti almennings hafnaði þeim. Rannsóknir í Frakklandi sýndu raunar að því meira sem fólk vissi um stjórnarskrá Evrópusambandsins og innihald hennar þeim mun líklegra var það til að hafna henni. Nú, þremur árum eftir að Svíar höfnuðu evrunni, er enn mikill meirihluti þeirra andvígur henni og langur vegur er frá því að Norðmenn séu á leiðinni í sambandið.
Hér á landi virðist tilhneigingin vera sú sama. Í byrjun árs 2002 sýndi skoðanakönnun Gallup að mikill meirihluti Íslendinga styddi aðild að Evrópusambandinu. Ári síðar, eftir að miklar umræður um Evrópumálin höfðu átt sér stað, bæði í kjölfar stofnunar Heimssýnar þá um sumarið og ítrekaðra yfirlýsinga forystumanna Samfylkingarinnar um að Evrópusambandsaðild yrði sett á oddinn hjá flokknum fyrir þingkosningarnar 2003, snerist spilið algerlega við og mikill meirihluti landsmanna var orðinn andvígur aðild samkvæmt könnunum.
Það er því alrangt þegar því er stundum haldið fram að við sjálfstæðissinnar viljum ekki að Evrópumálin séu rædd, hvort sem það er innan Sjálfstæðisflokksins eða annars staðar. Við viljum endilega að þessi mál séu rædd sem mest. Við viljum hins vegar að raunverulegar umræður um málaflokkinn eigi sér stað þar sem allar hliðar eru skoðaðar. Eins og áður segir teljast það hins vegar ekki umræður um Evrópumálin að mati Evrópusambandssinna nema niðurstaðan sé sú að Ísland eigi að afsala sér fullveldi sínu og ganga í Evrópusambandið.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
(Birtist áður í Morgunblaðinu 13. september 2006)
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkur: Hjörtur J. | Breytt 27.4.2007 kl. 22:05 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004