Leita í fréttum mbl.is

Kosningavetur framundan - verum vakandi

Nú fara prófkjörin að hefjast þar sem flokkarnir velja frambjóðendur sína fyrir kosningarnar næsta vor. Það verður gaman að fylgjast með því næstu vikur og mánuði þegar frambjóðendur fara að kynna sig og fyrir hvað þeir standa. Í sumum flokkum eins og Samfylkingunni til dæmis, skipta prófkjör litlu enda hafa menn verið færðir fram og til baka ef það hentar forystu flokksins. Gott dæmi er þegar minn ágæti kennari, Eiríkur Bergmann, var færður til á lista fyrir síðustu kosningar af því að allt í einu datt núverandi formanni í hug að gefa kost á sér í sæti á lista Samfylkingarinnar. Hún beið að sjálfsögðu þangað til að prófkjörinu væri lokið og þá þótti góð hugmynd að setja til hliðar fólk sem hafði lagt á sig mikla vinnu í prófkjöri, enda Samfylkingin fánaberi lýðræðisins. En þetta var nú smá útúrdúr svona strax í byrjun.

Í lok síðasta árs birti ég grein hér á síðunni þar sem ég velti því fyrir mér hvort að rekstur ríkisins sé of góður um þessar mundir. Það sem ég á við með því er að hér undanfarin ár hafa skattar verið að lækka (lítillega) og einnig hefur ríkið verið að greiða niður erlendar skuldir sínar sem í dag eru sáralitlar. Að borga skuldir og lækka skatta er eitthvað sem vinstri menn hafa aldrei verið hrifnir af. Í stað þess að greiða niður erlendar skuldir vildu vinstri menn á Alþingi frekar hirða hugsanlegar arðgreiðslur úr Símanum í ríkiskassann (sem þó komust ekki í hálfkvisti við vextina sem lögðust ofan á erlendu lánin).

Ef fer sem horfir verður ríkiskassinn rekinn með hagnaði aftur á næsta ári. Á síðasta ári var 130 milljarða tekjuafgangur af ríkinu (ég tel nauðsynlegt að tala hér um ,,ríkið” en ekki hið opinbera því flest sveitafélög á landinu stefna fjármálum sínum í aðra átt). Þrátt fyrir mikinn tekjuafgang hafði núverandi ríkisstjórn það ekki í sér að lækka skatta enn frekar þó fullt svigrúm væri til þess. Það er vissulega miður.

En fari það nú þannig að næsta sumar verði mynduð hér vinstri stjórn er full ástæða til að hafa áhyggjur. Þá hefur sú stjórn fullt tækifæri til að bæði hækka skatta og hækka skuldir ríkisins. Rekstur Reykjavíkurborgar s.l. 12 ár er gott dæmi. Þar byrjuðu skuldirnar að hækka mjög hratt og síðustu ár R-listans byrjuðu skattar og aukagjöld að hækka til að eiga fyrir þessu öllu saman. Vinstri stjórn gæti e.t.v. aukið aukið skuldirnar verulega á fjórum árum án þess að hækka skatta. Skattahækkunin fylgir þó fljótlega á eftir.

Það er því full ástæða fyrir þá sem er annt um efnahag landsins að hafa augun opin á komandi vetri. Stjórnmálamenn vilja gjarna lofa upp í ermina á sér þegar kemur að kosningum enda auðvelt að lofa að borga eitthvað með peningum sem maður á ekki sjálfur. Staðreyndin er hins vegar sú að nú er fullt svigrúm til skattalækkanna.

Brýnasta ,,útgjaldarverkefni” ríkissins er að tryggja varnir landsin, efla Landhelgisgæsluna og auka öryggi borgaranna. Þegar því hefur verið mætt er full ástæða til að lækka skatta og leyfa einstaklingum að njóta þess sjálfir sem þeir vinna sér inn.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband