Leita í fréttum mbl.is

Virka mótmæli?

Nú eru margir á þeirri skoðun að grasrótarhreyfingar og mótmæli séu hluti af almennri stjórnmálaþátttöku manna. Þessi atriði kunna ef til vill að vera óhefðbundin stjórnmálaþátttaka en þátttaka er hún engu að síður.

Ég tel að mótmæli virki best þar sem ekki eru lýðræðisríki eða ,,frjáls” ríki. Það kann ef til vill að hljóma þversagnarkennt þar sem flest mótmæli í ólýðræðisríkjum eru kæfð niður með vopnavaldi. Hins vegar tel ég að ef mótmælendurnir eru nógu þrautseigir þá nái þeir árangri.

Frakkar þurftu að berjast með blóði fyrir lýðræði árið 1789, Bandaríkjamenn sömuleiðis nokkrum árum áður. Þar var fólk að berjast fyrir réttinum til að fá á annað borð að mótmæla, það er að segja, lýðræði, skoðana- og tjáningafrelsi. Annað gott dæmi er réttindabarátta blökkumanna í Bandaríkjunum. Þó svo að Bandaríkin hafi á þessum tíma verið lýðræðisríki voru annmarkar á lýðræðinu og því takmörk sett. Flestir myndu vera sammála um að takmörkun blökkumanna að sama líferni og annarra hafi verið mannréttindabrot og stór brotalöm á lýðræðinu.

En þá að mótmælum í frjálsum vestrænum ríkjum. Þau mótmæli eru oftast nær, fullyrði ég, skipulög af annað hvort sérhagsmuna hópum eða stjórnarandstöðu viðkomandi landa.

Tökum bara Ísland sem dæmi. Hver eru helstu mótmælin og hverjir standa fyrir þeim? Verkalýðsfélög og ASÍ, stjórnarandstöðuflokkarnir, Öryrkjabandalag Íslands, Félag eldri borgara, Samtök herstöðvarandstæðinga og svo framvegis. Nú má ekki skilja það sem svo að hér sé gert lítið úr mótmælum og hvað þá fyrrnefndum félögum, langt því frá. Ég er aðeins að benda á það að það er ekki verið að berjast fyrir ,,nauðsynlegum umbótum” á mannréttindum eða lýðræði. Það getur ekki hvaða félag sem er sagt að sinn málstaður sé spurning um mannréttindi. Ég get ekki samþykkt það að bættari launakjör séu mannréttindi. Þau eru einfaldlega samningsatriði milli þess sem greiðir og þess sem þiggur launin.

Það er nú ekki hægt annað, þegar á annað borð er talað um mótmæli, að velta fyrir sér vitleysisganginum á Austurlandi þessa dagana. Helsta markmið þeirra sem telja sig vera að mótmæla einhverju er að ,,vekja athygli á málstað sínum.” Það gera þeir með því að ráðast inn á skrifstofur fyrirtækja og halda fólki þar í gíslingu (skilja svo reyndar ekkert í því að starfsmenn skuli reyna að henda þeim út), ráðast inn á lokuð vinnusvæði þar sem strangar öryggiskröfur eru við lýði, tefja vinnu og valda fjárhagslegur tjóni.

Slík háttsemi er auðvitað með öllu fáránleg og óásættanleg. Hún gefur mótmælum slæmt orð og er komin langt út fyrir það sem kallast venjuleg mótmæli. Hegðun þessa hóps mun engann árangur bera. Nú hafa menn að sjálfsögðu rétt á að hafa skoðanir, hvort sem þær eru að vera með eða á móti virkjunarframkvæmdum, en ákvörðunin hefur verið tekin í fullvalda ríki með lýðræðislega kjörna stjórn að fara út í þessar framkvæmdir og þær verða ekki stöðvaðar þó að hópur manna sem hafa greinilega ekkert annað að gera með líf sitt eyði sumrinu í tjaldi og framkvæmi skemmdarverk.

Gísli Freyr Valdórsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband