Mánudagur, 15. maí 2006
Mánudagspósturinn 15. maí 2006
Ófáir talsmenn þess að Ísland gangi í Evrópusambandið hafa verið iðnir við það að kalla eftir virkri umræðu um Evrópumálin eins og það hefur verið nefnt. Þetta á ekki sízt við um forystu Samtaka iðnaðarins og þá einkum og sér í lagi í kjölfar vitrunar Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra, fyrr á þessu ári um að Ísland yrði orðið að hreppi í Evrópusambandinu fyrir árið 2015. Vitanlega er hið bezta mál að kallað sé eftir virkri umræðu um Evrópumálin þar sem þau væru væntanlega rædd á breiðum grundvelli og skoðuð út frá sem allra flestum hliðum svo komast megi að skynsamlegri niðurstöðu. Það hefur þó sýnt sig í gegnum tíðina að þegar stuðningsmenn aðildar að Evrópusambandinu hér á landi hafa kallað eftir umræðum um málaflokkinn hafa þeir átt við umræður sem snúist um það að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið - ekki hvort.
Þegar Samtök iðnaðarins kölluðu eftir auknum umræðum um Evrópumálin í byrjun þessa árs vonaðist ég til þess að nú yrði breyting á og í þetta skiptið væri átt við raunverulegar umræður þar sem fjallað yrði um málið á breiðum grunni. Samtökin sögðust ekki ætla að láta sitja við orðin tóm í þeim efnum og hafa þau haldið tvær samkundur á árinu þar sem Evrópumálin hafa verið rædd; Iðnþing 2006 og síðan svonefndan ráðgjafaráðsfund 11. maí sl. Á báðum þessum samkundum voru nær allir þeir, sem annað hvort fluttu erindi eða tóku þátt í pallborðsumræðum, talsmenn þess að Ísland gangi í Evrópusambandið og taki upp evruna.
Ber s.s. að skilja það sem svo að þetta sé hugmynd Samtaka iðnaðarins um virka umræðu? Nær væri jú að kalla þetta einræðu í samræmi við það sem komið var inn á hér á undan. Að sjálfsögðu ráða samtökin því alfarið hvernig þau skipuleggja sína fundi, en það er auðvitað spurning hversu mikil umræða á sér stað þegar raðað er saman fólki sem hefur svo að segja nákvæmlega sömu afstöðu til viðfangsefnisins. Einkum er þetta athyglisvert í ljósi þess að Samtök iðnaðarins segjast ekki hafa pólitíska afstöðu til Evrópumálanna heldur séu þau aðeins að hugsa um hagsmuni meðlima sinna. Er það ekki einmitt meðlimum samtakanna mest í hag að þau nálgist þessi mál með sem breiðastri skírskotun? Sérstaklega þegar skoðanakannanir samtakanna hafa ítrekað sýnt að stór hluti meðlima þeirra er andvígur aðild að Evrópusambandinu?
Til samanburðar við fundahöld Samtaka iðnaðarins má nefna að þann 8. apríl sl. hélt Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, opinn fund um evruna og krónuna þar sem þess var sérstaklega gætt að ólíkum sjónarmiðum væri gert nokkurn veginn jafn hátt undir höfði sem tókst mjög vel. Og það sem meira er þá var einmitt fulltrúi Samtaka iðnaðarins annar af tveimur framsögumönnum fundarins. Enginn fulltrúi þeirra sjónarmiða, að hagsmunum Íslands sé bezt borgið með því að standa utan Evrópusambandsins, flutti hins vegar erindi eða tók þátt í pallborðsumræðum á samkundum Samtaka iðnaðarins sem þó segjast styðja virka umræðu um Evrópumálin.
Það er því orðið meira en ljóst hvað íslenzkir Evrópusambandssinnar eiga við þegar þeir tala um umræður um Evrópumál.
---
Og áfram um Evrópumálin. Einhvern veginn held ég að Halldór Ásgrímsson ætti að líta aðeins í eigin barm áður en hann skammar aðra fyrir að taka undir órökstudda gagnrýni ýmissra erlendra aðila á íslenska fjármálakerfið. Ítrekaðar yfirlýsingar hans þess efnis, og þá ekki sízt við erlenda aðila, að hugsanlega kunni að koma til álita að taka upp evru hér á landi (sem er þess utan í bezta falli langsótt) vegna stöðunnar í efnahagsmálum þjóðarinnar í augnablikinu, eru ekki beint til þess fallnar að auka tiltrú fólks á það erlendis.
---
Það er alltaf jafn sérkennilegt að heyra talsmenn aðildar að Evrópusambandinu tala um að við verðum að ganga í sambandið til að geta tekið þátt í alþjóðavæðingunni og að sama skapi að ef göngum ekki þar inn jafngildi það einangrun. Við erum auðvitað alveg ægilega einangruð eins og staðan er í dag! Þetta er enn fyndnara í ljósi þeirrar staðreyndar að Evrópusambandið er tollabandalag og sem slíkt einn stærsti þröskuldurinn í vegi fyrir viðskiptafrelsi í heiminum. Það er merkilegt til þess að hugsa að til séu hægrimenn sem vilja ganga í sambandið vegna þess að þeir halda að það sé svo hægrisinnað fyrirbæri. Það útskýra þeir með því að innan sambandsins sé fríverzlun til staðar á milli aðildarríkjanna.
Jújú, það er alveg rétt. En ástæðan fyrir því hefur í raun ekkert með hægrimennsku að gera. Eins og kunnugt er er stefnt að því leynt og ljóst að breyta Evrópusambandinu í eitt ríki þar sem aðildarríkin verða að eins konar fylkjum eða héröðum. Sennilega er fátt eðlilegra en að frelsi sé í viðskiptum á milli einstakra hluta ríkja og þannig hefur fríverzlunin innan sambandsins, eins og áður segir, ekkert með einhverja hægrimennsku að gera. Ég veit t.d. ekki til þess að íslenzkir vinstrimenn séu að tala fyrir því að teknir verði upp tollar á viðskipti á milli einstakra sveitarfélaga hér á landi.
---
Og að lokum, talandi um alþjóðavæðinguna. Nú síðast var greint frá því á Mbl.is að Ísland sé í fyrsta sæti í samanburði á 29 aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) þegar litið er til þess hversu reiðubúin löndin eru fyrir alþjóðavæðingu og vaxandi alþjóðlega samkeppni. Um daginn var sömuleiðis greint frá því að Ísland væri samkeppnishæfasta hagkerfið í Evrópu og það fjórða samkeppnishæfasta í heiminum að mati IMD viðskiptaháskólans í Sviss.
Mér sýnist við því bara vera í nokkuð góðum málum utan Evrópusambandsins í þessum efnum, en auk þess að halda því fram að Ísland þurfi að ganga í Evrópusambandið, til að geta tekið þátt í alþjóðavæðingunni, hafa Evrópusambandssinnar hér á landi viljað meina að ef Ísland gengi í sambandið og tæki upp evruna myndi það auka samkeppnishæfni landsins. Já, kannski eins og þeirra ríkja sem eru þegar innan sambandsins og með evruna en engu að síður neðar en Ísland á lista IMD og í ófáum tilfellum langt fyrir neðan?
Í þessu sambandi mætti rifja upp ummæli Brian Prime, forseta Evrópusamtaka smáfyrirtækja, frá því í heimsókn hans til Íslands í febrúar sl. Aðspurður að því hvort Íslendingar ættu að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna sagði hann það algeran óþarfa. Það væri svipað og að senda íslenskan skíðagöngumann á vetrarólympíuleika með sandpoka á bakinu.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is
Meginflokkur: Mánudagspósturinn | Aukaflokkur: Hjörtur J. | Breytt 27.4.2007 kl. 23:04 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004