Föstudagur, 10. mars 2006
Samtökin '78 - Andstæðingar tjáningarfrelsisins

Andstæðinga tjáningarfrelsisins er víða að finna. Fólk sem er uppfullt af félagslegum rétttrúnaði og getur engan veginn unað því að til séu aðrir sem hafa aðrar skoðanir en það sjálft á lífinu og tilverunni. Því þarf að kæfa þær skoðanir í fæðingu, koma í veg fyrir að þær heyrist með því að viðhalda ótta meðal fólks um einhvers konar félagslega útskúfun, að það verði sett á svarta lista og eigi sér ekki aftur viðreisnar von. Manni verður óhugnanlega hugsað til alræðisríkja síðustu aldar. Samtökin ’78 eru einn slíkra aðila eins og hr. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, hefur m.a. fengið að reyna. Og nú hafa samtökin kært Gunnar Þorsteinsson, forstöðumann Krossins, fyrir grein sem hann ritaði í Morgunblaðið 26. febrúar sl. þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að það þjónaði ekki hagsmunum barna að alast upp hjá samkynhneigðum pörum.
Gunnar er kærður á grundvelli 233a gr. almennra hegningalaga þar sem segir að „hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“ Ekki er ætlunin að eyða mörgum orðum í það hversu mikil aðför þessi lagagrein er að frelsi fólks til að tjá skoðanir sínar, en þess í stað skal bent á góða grein eftir Teit Björn Einarsson á Deiglan.com þar sem um það er fjallað. Þess utan má vel gera sér í hugarlund að Gunnar gæti að sama skapi kært Samtökin ’78 fyrir að ráðast á sig vegna trúar sinnar, enda grundvallast skoðanir hans á þessum málum á henni. Það er aftur ágætt dæmi um það hversu fáránlega opin fyrir túlkun þessi lagagrein er.
Ekki er annars langt síðan sænski hvítasunnupresturinn Åke Green var kærður fyrir að segja m.a. í predikun að samkynhneigð væri „afbrigðileg, hræðilegt krabbameinsæxli í líkama samfélagsins.“ Hann var sakfelldur í undirrétti en síðan sýknaður bæði í áfrýjunarrétti og hæstarétti Svíþjóðar. Rökstuðningurinn fyrir sýknuninni var sá að þrátt fyrir að ummæli Green brytu í bága við sænsk lög þá væru allar líkur á því að hann myndi verða sýknaður fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu yrði hann sakfellur í Svíþjóð í ljósi fyrri úrskurða réttarins sem byggðir væru á 9. grein Mannréttindasáttmála Evrópu. Að mati réttarins gengu ummæli Green ekki lengra en það sem fram kemur í Biblíunni í þessu sambandi, en lögmaður hans bar því við að sakfelling bryti í bága við trúfrelsi hans. Ljóst er að ummæli Gunnars eru langtum vægari en nokkurn tímann ummæli Åke Green.
En hvað sem öllum dómsmálum líður þá gildir einfaldlega það sama í þessu tilfelli eins og öðrum að ef Samtökin ’78 eru ósátt við ummæli Gunnars liggur beinast við að svara honum. Ef hann hefur jafn rangt fyrir sér og samtökin vilja meina ætti það að vera hægðarleikur án þess að þurfa að blanda dómstólum í málið. Það að samtökin skuli hins vegar kjósa að kæra Gunnar bendir ekki til þess að málefnastaða þeirra sé ýkja sterk. Það kemur hins vegar ekki á óvart í tilfelli þessara samtaka sem hafa í gegnum tíðina byggt baráttu sína að stóru leyti á félagslegri rétthugsun og þeirri skoðanakúgun sem hún felur í sér og treyst á að þau gætu þannig kæft niður alla gagnrýni á sig og sinn málstað.
Staðreyndin er sú að enginn er yfir gagnrýni hafinn, hvorki Samtökin ’78 né aðrir. Samtökin hafa í gegnum tíðina óspart gagnrýnt Gunnar Þorsteinsson og aðra fyrir trú þeirra og skoðanir þeirra á samkynhneigð og í því sambandi m.a. ráðist heiftúðlega gegn Þjóðkirkjunni og biskupi Íslands. En enginn má gagnrýna málstað eða málflutning samtakanna, þá er sá hinn sami úthrópaður vondur maður, fordómafullur hommarhatari eða eitthvað þaðan af verra í krafti félagslegrar rétthugsunar og fær síðan kæru í hausinn í stað þess að nálgast sé málin með málefnalegum hætti. Þar á bæ er augljóslega enginn vilji fyrir slíku frekar en fyrri daginn.
„Það er enginn skaði þó meiningarmunur sé, heldur getur orðið skaði að hversu meiningunum er fylgt. Fullkomin samhljóðan meininga hjá mörgum mönnum getur aðeins verið, þar sem er fullkomin harðstjórn, og enginn þorir að láta uppi það, sem hann meinar ...“ -Jón Sigurðsson, forseti (1841).
Hjörtur J. Guðmundsson
Gísli Freyr Valdórsson
Sindri Guðjónsson
Flokkur: Ritstjórnarviðhorf | Breytt 27.4.2007 kl. 23:20 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004