Mánudagur, 12. desember 2005
Mánudagspósturinn 12. desember 2005
"Við neyðumst einfaldlega til að taka upp nýja stefnu í innflytjendamálum. Útreikningar velferðarnefndarinnar eru skelfilegir og sýna meðal annars hve aðlögun innflytjenda hefur algerlega brugðist," sagði Frederiksen. Nefndin reiknaði m.a. út hvað það myndi þýða ef tekið yrði alveg fyrir straum innflytjenda frá vanþróuðum ríkjum til Danmerkur. Niðurstaðan var sú að þörfin fyrir sparnað í velferðarkerfinu á næstu áratugum myndi dragast saman um heil 75%.
Fyrir mánuði síðan lagði danska ríkisstjórnin til að það skilyrði yrði sett fyrir veitingu dansks ríkisborgararéttar að umsækjendurnir hefðu unnið í Danmörku í fjögur af síðustu fimm árum fyrir umsóknina. Þetta var ein a nokkrum tillögum stjórnarinnar um að þrengja lög um veitingu ríkisborgararéttar. Þessar kröfur eru hugsaðar til viðbótar við þær kröfur sem fyrir eru, m.a. að umsækjendur þreyti próf í danskri sögu og menningu auk prófs í dönsku. Ástæða þessara tillaga eru áhyggjur danskra stjórnvalda af því að nýjir ríkisborgarar kynnu að leggja minna til dansks samfélags en þeir fengju í gegnum félagslega aðstoð. Ekki verður annað séð en að nýja velferðarskýrslan renni stoðum undir þær áhyggjur.
Frá því að hægristjórn Anders Fogh Rasmussens tók við völdum í Danmörku í lok árs 2001 hafa Danir ekki tekið við eins mörgum flóttamönnum og innflytjendum en áður var. Þannig fór árlegur fjöldi útgefinna dvalarleyfa úr 5.156 árið 2000 í 2.447 árið 2003 samkvæmt tölum frá dönsku hagstofunni. Á sama tíma fór veiting dvalarleyfa á grundvelli fjölskyldusameiningar úr 10.021 niður í 4.791.
Með stuðningi Danska þjóðarflokksins hefur ríkisstjórnin Rasmussens komið á ströngum reglum um veitingu dvalarleyfa, dregið verulega út veitingu félagslegra bóta til innflytjenda og beitt sér fyrir því að tryggja að hælisleitendur sem neitað er um hæli í Danmörku yfirgefi landið, m.a. með því að svipta þá bótagreiðslum og sjá þeim eingöngu fyrir lágmarksframfærslu.
Rikke Hvilshøj, ráðherra innflytjendamála í dönsku ríkisstjórninni, sagði fyrir nokkrum dögum síðan að það væri ekki nokkur vafi í hennar huga að aðgerðir stjórnvalda á undanförnum árum, til að draga úr straumi innflytjenda til Danmerkur, hefðu skilað sér vel. Eitt af því sem við höfum orðið að viðurkenna er að það skiptir máli hversu margir koma til landsins, sagði hún. Það er gagnstæð fylgni á milli þess hversu margir koma hingað og hversu vel við getum tekið á móti þeim sem koma hingað.
Hvilshøj sagði ennfremur að atvinnuleysi og léleg menntun væru mestu vandamálin sem innflytjendur í Danmörku stæðu frammi fyrir. Aðeins 46% innflytjenda frá þróunarlöndum væru vinnandi samanborið við 73% Dana. 60% ungra innflytjenda flosnuðu upp úr framhaldsskólum. Hvilshøj bætti við að yfirstandandi efnahagsuppsveifla í Danmörku og lítið atvinnuleysi væru réttu aðstæðurnar fyrir innflytjendur til að verða sér úti um atvinnu.
Hvilshøj sagði að aðlögun innflytjenda snerist ekki sízt um það að sannfæra þá um að taka dönskum gildum opnum örmum. Í sumum tilfellum sagði hún að innflytjendur yrðu að losa sig við menningarlegar og pólitískar hugmyndir frá heimalöndum sínum. Að mínu mati ætti Danmörk að vera land þar sem væri svigrúm fyrir mismunandi menningar og trúarbrögð, sagði hún. En sum gildi eru okkur engu að síður mikilvægari en önnur. Við neitum t.a.m. að draga lýðræðið í efa, jafnréttið og tjáningarfrelsið.
Aðspurð hvað henni fyndist um umræðuna sem verið hefur undanfarna mánuði í Danmörku um frelsi fjölmiðla, eftir að danska dagblaðið Jótlandspósturinn birti tólf teikningar af Múhameð, sagði Hvilshøj: Fyrir mína parta þá reyni ég að passa það hvernig ég orða hlutina. Það hafa ýmis ummæli verið látin falla í þessari umræðu sem ég kann ekki við. Ég tel þó ekki að afstaða Dana hafi verið að snúast í auknum mæli gegn innflytjendum. Þvert á móti. Samanborið við önnur Evrópulönd höfum við mikla reynslu af þessum málum. Því getur fylgt sársauki að tala um suma hluti, en að þegja um þá leysir engin vandamál.
(Birtist áður á ensku á vefritinu The Brussels Journal og á vefsíðu dönsku frjálshyggjuhugveitunnar The Copenhagen Institute.)
---
Því má bæta við að mér þótti ánægjulegt að sjá að hollenzka þingkonan Ayaan Hirsi Ali skyldi birta hluta af síðasta Mánudagspóstinum mínum á heimasíðunni sinni í síðustu viku. Hún birti þó eðli málsins samkvæmt ekki hluta af íslenzku útgáfunni af greininni heldur þeirri ensku sem birtist á The Brussels Journal. Eins og kunnugt er er Ayaan Hirsi Ali af sómölskum uppruna og hefur verið mjög gagnrýnin á íslam um árabil, ekki sízt vegna eigin reynslu.
Fyrir rúmu ári síðan neyddist hún til að fara í felur vegna morðhótana sem hún fékk vegna handrits sem hún skrifaði fyrir kvikmynd um kúgun kvenna í heimi íslam. Í byrjun þessa árs kom Hirsi Ali úr felum aftur en hefur síðan verið undir strangri öryggisgæzlu og það ekki að ástæðulausu. Nýverið fékk hún enn slíkar hótanir ásamt öðrum hollenzkum þingmanni sem gagnrýnt hefur íslamska bókstafstrú, Geert Wilders.
Kvikmyndagerðamaðurinn, Theo van Gogh, var myrtur á hrottalegan hátt af ungum múslima fyrir rúmu ári síðan á götu í Amsterdam um hábjartan dag fyrir þá sök að hafa gert kvikmyndina.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Breytt 6.10.2006 kl. 13:19 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004