Föstudagur, 9. desember 2005
Sápukúlan Ingibjörg Sólrún
Hvað er að gerast hjá Samfylkingunni? spurði vinkona mín mig á dögunum, en hún er stödd erlendis í námi. Átti hún þar við fréttir fjölmiðla um nýja skoðanakönnun Gallup á fylgi íslenzku stjórnmálaflokkanna, en Samfylkingin hefur bókstaflega verið í frjálsu falli í þeim efnum allt síðan í maí á þessu ári. Ég svaraði því til að flokkurinn hefði skipt um formann. Það væri ekki að sjá að neitt annað gæti útskýrt þessa þróun betur, enda hófst hún um leið og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók við sem formaður hans af Össuri Skarphéðinssyni. Ingibjörg væri auk þess búin að misstíga sig í fjölda mála síðan hún settist í formannsstólinn og verða ítrekað að athlægi af þeim sökum.
Eins og menn annars muna pantaði Ingibjörg formannsstólinn í Samfylkingunni árið 2003 og fór síðan í nám til London. Á þeim tveimur árum sem liðu frá því og þar til hún varð loks kosin formaður má gera fastlega ráð fyrir að ófáir stuðningsmenn hennar bæði innan flokksins og utan hans hafi byggt upp miklar vonir um það að hún myndi færa honum nýja og betri tíð þegar hún hefði tekið við sem formaður. Tvö ár eru mjög langur tími í pólitík og nógur tími til að byggja upp háar skýjaborgir sem lítil sem engin innistæða er síðan fyrir þegar á reynir.
Ófáir stuðningsmenn Ingibjargar Sólrúnar höfðu á orði að þegar hún tæki við myndi það hafa í för með sér mikla fylgisaukningu fyrir Samfylkinguna. Að vísu átti það sama að gerast fyrir síðustu alþingiskosningar 2003, en þá var hún sem kunnugt er forsætisráðherraefni flokksins í stað Össurar sem þó var formaður hans. En útreið Samfylkingarinnar þá undir forystu Ingibjargar virtist ekki hafa mikil áhrif á stuðningsmenn hennar sem hafa sjálfsagt kennt Össuri um allt saman. Hann var jú formaður flokksins þó ekki hafi borið mikið á honum í kosningabaráttunni. A.m.k. langt því frá eins mikið og Ingibjörgu sem sjá mátti á ótölulegum fjölda auglýsinga og veggspjalda svo minnti á persónudýrkun í fyrrum austantjaldsríkjum.
Svo rættist draumurinn loksins sl. vor fyrir stuðningsmenn Ingibjargar og hún varð formaður Samfylkingarinnar m.a. með dyggum stuðningi Fréttablaðsins. Síðan fór fylgið strax að reitast af flokknum. Fylgið var 34% í maí þegar landsfundur Samfylkingarinnar var haldinn og Ingibjörg kosin formaður. Í júní var það 33%, í júlí 32% og í ágúst var það svo komið niður í 30% eða minna en kjörfylgi flokksins úr síðustu kosningum sem var 31%. Viðbrögð forystumanna Samfylkingarinnar voru þau sömu í allt sumar. Það væri ekkert að marka fylgið yfir sumartímann á meðan mestallt pólitískt starf lægi niðri. Þetta myndi allt breytast þegar kæmi fram á haustið og þing kæmi saman.
Gott og vel. Haustið kom og hvað gerðist? Fylgi Samfylkingarinnar fór niður í 29% í september. Og ballið var þar með ekki búið. Í október mældist fylgi flokksins 28% og í síðustu könnun Gallup var það komið í 25% sem er minna en fylgi Samfylkingarinnar í kosningunum 1999 þegar hún fékk 27% atkvæða! Samt er þingið komið saman og hefur auk þess verið starfandi í fleiri vikur. Það þarf að fara aftur til ágústmánaðar árið 2002 til að finna jafn slæma útkomu hjá Samfylkingunni í könnunum Gallup og nú, en þá var fylgi flokksins 24%. Fylgið hefur nú hrunið af Samfylkingunni í sex mánuði í röð! Og þvílík tilviljun að þetta skuli einmitt byrjar þegar Ingibjörg Sólrún hefur tekið við sem formaður flokksins ef menn halda virkilega að sú sé raunin.
Nei, þetta er sko engin tilviljun. Og hver skyldu svo viðbrögðin úr herbúðum Samfylkingarinnar vera núna? Það er ekki hægt að kenna sumrinu um lengur. Reyndar er víst ekki mikið um viðbrögð að ræða við síðustu könnuninni nema það að Ingibjörg segir unnið að innra starfi Samfylkingarinnar og að þessar tölur muni breytast. Það er nefnilega það. Fróðlegt væri að vita hvað hefði klikkað svona hressilega í innra starfi flokksins sl. sex mánuði ef það er skýringin á þessum ósköpum. En hvað sem því líður þá má sennilega gera fastlega ráð fyrir því að skýjaborgir stuðningsmanna Ingibjargar séu nú orðnar að martröð.
(Birtist áður í Morgunblaðinu 6. desember 2005)
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Breytt 6.10.2006 kl. 13:19 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004