Leita í fréttum mbl.is

Skrautlegir fjölmiðlar

Seint í síðustu viku opnaði á ný landamærastöðin á mótum Gasasvæðisins og Egyptalands. Stöðin hefur verið lokuð þá tæpu þrjá mánuði sem liðnir eru frá því Ísraelsher hvarf á braut frá Gasasvæðinu. Þetta er talinn mikill áfangi fyrir Palestínumenn þar sem palestínska heimastjórnin tekur nú við stjórn landamærastöðvarinnar. Þetta er að sjálfsögðu hið besta mál. Reyndar er bara hægt að fara frá Gasa svæðinu inn í Egyptaland en ekki til baka. Ef fólk vill fara aftur til Gasa svæðisins þarf það að keyra nokkuð sunnar þar sem Ísraelsmenn fara með stjórn landamæraeftirlits. Fyrir því er ástæða sem komið verður að hér síðar.

Það er sem hins vegar ekki jafn gott mál eru fréttir NFS og Vísi.is af málinu. Þórir Guðmundsson fréttamaður á NFS flutti frétt á föstudagskvöldið um málið. Þar talaði hann um ,,niðurlægjandi” biðraðir og valdníðslu Ísraelsmanna á landamærastöðinni áður fyrr. Bíddu nú við, hver segir að biðröðin hafi verið niðurlægjandi? Er það álit Þóris sjálfs? Er það komið frá fjölmiðlum út í heimi? Er það kannski álit Sveins Rúnars Haukssonar, læknis eins og hann var kynntur í frétt Þóris af málinu. Sveinn Rúnar Hauksson er líka kynntur sem læknir í frétt af Vísi.is. Sveinn Rúnar var ekki beðinn um frekara álit í þeirri frétt enda sem betur fer því að hann er ekki bara ,,læknir” heldur formaður samtakanna Ísland-Palestínu sem hafa oftar en ekki gefið hlutdrægt álit á málefnum þessara tveggja landa.

Af hverju var ekki hægt að kynna Svein Rúnar sem formann Ísland-Palestínu þannig að áhorfendur fréttanna hefðu getað fengið fréttina með þeim fyrirvara að upplýsingarnar kæmu frá hlutdrægum aðila. Það er allt í lagi. Menn mega alveg vera hlutdrægir en til hvers að standa í þessum feluleik. Og til hvers var Sveinn Rúnar kynntur í fréttinni. Það var ekkert haft eftir honum. Hann var ekki ynntur álits á neinu. Ekki var fjallað sérstaklega um Svein Rúnar heldur aðeins þessi eina setning, ,, Sveinn Rúnar Hauksson læknir var á ferð um Rafah í síðustu viku.” Gott hjá honum.

Alveg gleymdist að minna á að Palestínumenn eru ekki í stakk búnir til að taka alveg yfir landamærastöðina. Þess vegna er Evrópusambandið að hjálpa til á svæðinu til að byrja með á meðan Palestínumenn komast upp á lag með þetta sjálfir. Hvergi var minnst á það að það voru Egyptar sem vildu líka takmarka aðgang Palestínumanna inn í Egyptaland s.l. 30 ár þó svo að fréttir af Vísi.is og NFS hafi snúist meira og minna um það hvað Ísraelsmenn eru búnir að vera vondir við Palestínumenn í 30 ár.

Þórir Guðmundsson var að sama skapi með fyrrnefndan lækni og konu hans, Björk Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa, í viðtali á NFS í hádeginu í föstudag. Já, hver er betri til að gefa upp rétta mynd af ástandi Ísrael – Palesínu en forsvarsmenn samtaka hliðholl Palestínu og hatri á Ísrael.
Af hverju var enginn til að segja hina hliðana á málinu?

Björk Vilhelmsdóttir fór að sama skapi mikinn í viðtalinu. Hún minntist brosandi á að nýlega hefðum við minnst á hina frægu Rósu Parks sem á sínum tíma neitaði að standa upp fyrir hvítum manni í strætó. Flestir þekkja þá sögu. Björk vildi meina að sama aðskilnaðarstefna væri í gangi í Ísrael þar sem Palestínumönnum væri jafnvel bannað að fara í strætó. Í fyrsta lagi er Palesínumönnum ekki bannað yfir höfuð að fara í strætó í Ísrael og í öðru lagi stunduðu blökkumenn í BNA það ekki að sprengja sjálfa sig upp í strætisvögnum með naglasprengjum eins og palestínskir hryðjuverkamenn hafa hvað eftir annað gert.

Þórir, Sveinn Rúnar og Björk mega alvega vera hlutdræg í málinu. Það er ekkert sem bannar það. Hins vegar held ég að ég verði að gera þá kröfu til Þóris að hann gæti sanngirni og sinni verkum sínum af trúverðugleika. Ólafur Teitur Guðnason kemst ágætlega að orði í formála bókar sinnar, Fjölmiðlar 2004. Þar segir hann,

,,Að mínu viti er hlutleysi innantómt markmið í fréttamennsku og reyndar beinlínis rangt markmið. Í fyrsta lagi tekst engum að víkja skoðunum sínum alveg til hliðar og því ákaflega villandi að gefa í skyn að það sé gert. Í öðru lagi er augljóst að það felst í starfi fréttamanna að þeir beiti dómgreind sinni og dragi ályktanir. Hvernig meta þeir öðruvísi hvað er fréttnæmt og hvað ekki? ... Það, að halda því fram að fréttamenn séu hlutlausir, er eingöngu til þess fallið að eyða nauðsynlegri umræðu um hvort mat þeirra hafi verið eðlilegt og ákvarðanir þeirra réttar. Fréttamenn eiga ekki að keppa að því að vera hlutausir. Þeir eiga að keppa að því að vera sanngjarnir.“ [1]

Eg er ekki að gera þá kröfu að Þórir verði hlutlaus. En sem áhorfandi NFS þá hlýtur maður að gera þá kröfu að fréttamenn hennar séu sanngjarnir.

Og fleira þessu tengt. Það er með ólíkindum að sjá hvernig fólk eins og Sveinn Rúnar og Björk nota hvert tækifæri sem þau fá til að fjalla um hatur sitt á Ísrael og Ísraelsmönnum. Ekki dettur þeim í hug að fjalla um það hvernig börn eru þjálfuð í vopnaburði í Palestínu. Ekki fjalla þau um það þegar unglingar eru handteknir við þá iðju hvað eftir annað að reyna að smygla rörsprengjum í gegnum landamærin.

Og út í annað en þó tengt fjölmiðlum. Hér fyrr í sumar var mikið fjallað um Cindy Sheehan sem fyrr á þessu ári missti son sinn sem var hermaður í Írak. Ekki er það tilgangur minn að gera lítið úr láti unga mansins eða sorg konunnar. En sonur hennar skráði sig af sjálfsdáðum í herinn fyrir nokkrum árum og var síðar sendur til Íraks þar sem hann lét lífið.

Móðir hans náði heldur betur athygli fjölmiðla í sumar þegar hún tjaldaði fyrir utan heimili Bush Bandaríkjaforseta í þeirri von (að hennar sögn) að ná af honum tali til að mótmæla innrásinni í Írak. Að sjálfsögðu fjölluðu allir fjölmiðlar (þ.á.m. íslenskir) um malið. Konan var álitin hetja sem þorði að standa upp gegn hinum brjálaða forseta. Mitt álit er hins vegar það að ,.sorg” hennar hafi farið langt út fyrir öll mörk og hafi snúist upp í fjölmiðlasirkus sem hvorki hún né aðrir gátu stjórnað. Sheehan kom fram í hinum ýmsu ljósvakamiðlum auk fjölda tímaritaviðtala. Henni var meira að segja boðinn samningur um að skrifa bók sem nú er komin út. Athyglin er hins vegar ekki meiri en sú að bókin hefur aðeins selst í fáum eintökum og fáir koma til að fá áritaðar bækur. Það er ljós að konan þráði aðeins fjölmiðlaathygli á kostnað sonar síns. Maðurinn hennar er farinn frá henni, vinir hennar hafa yfirgefið hana og nánast enginn kaupir bókina. Það er svona þegar fólk ætlar að græða á kostnað annara. Og fjölmiðlar spila auðvitað með.

Nema núna. Ég geri ekki ráð fyrir að nokkurt blað eða fjölmiðill á Íslandi komi til með að birta þær myndir sem koma hér að neðan en þær eru frá því að Sheehan áritaði bók sína fyrir framan búgarð Bush forseta í síðustu viku. Innan við 100 manns mættu þrátt fyrir að atburðurinn hafi verið margaulýstur.

Gísli Freyr Valdórsson

[1] Ólafur Teitur Guðnason, Fjölmiðlar 2004. Bókafélagið Ugla, Reykajvík 2005. bls. 11



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband