Leita í fréttum mbl.is

Velkominn til starfa Árni: Það er nóg að gera

Árni M. Mathiesen hefur nú tekið við starfi fjármálaráðherra. Árni er að mínu mati mjög merkilegur maður. Hann hefur þurft að taka óvinsælar ákvarðanir og hefur staðið fastur á bakvið þær hvernig sem vindar blása. Frægt er þegar sjómenn buðu Árna ekki að taka þátt í sjómannadeginum í heimabæ sínum fyrir nokkrum árum. Það eru ekki margir stjórnmálamenn sem hafa það hugrekki að standa fast á bakvið ákvarðanir sínar. Margir hverjir breyta skoðunum eftir nýjust könnunum og eru eins og vinhanar sem ekkert fá staðist. Sem betur fer hafa slíkir stjórnmálamenn ekki verið við völd í landsstjórninni undanfarin ár. En það er nú annað mál.

Árni Mathiesen tekur við góðu búi af Geir H. Haarde. Reyndar tók Geir einnig við góðu búi af Friðriki Sophussyni á sínum tíma. Allt frá því að Davið Oddsson myndaði sínu fyrstu ríkisstjórn árið 1991 hafa ríkisfjármál verið tekin föstum höndum. Fyrsta verk þáverandi fjármálaráðherra var að ná tökum á þeirri stanslausu eyðslusemi og vanrækslu ríkissjóðs sem forveri hans í starfi, Ólafur Ragnar Grímsson, stóð fyrir. Á s.l. 14 árum hefur náðst að halda verðbólgu í jafnvægi og vel verið hugsað um ríkissfjármálin. Eitt stærsta verkefni núverandi ríkissjórnar hefur verið að einkavæða stór ríkisfyrirtæki eins og bankana, Símann og fleiri fyrirtæki sem eru að sjálfsögðu betur farin í höndum einkaaðila eins og dæmin með bankana hafa sýnt. En jæja, látum þetta nægja af lofsöng um ráðherrana.

Það er mikið verk eftir óunnið. Nýr fjármálaráðherra þarf að taka enn fastar á útgjöldum ríkissjóðs til að hægt sé að lækka skatta enn frekar en það sem hefur þegar verið lofað. Ekki geri ég ráð fyrir öðru en að núverandi ríkisstjórn standi við þær skattalækkanir sem þegar hafa verið tilkynntar. En betur má ef duga skal. Enn er ríkið að standa í gæluverkefnum stjórnmálamann og enn er ríkið að borga undir sérhagsmunahópa verulegar fúlgur af fjármagni sem væri betur komið hjá skattgreiðendum sjálfum. Þó svo að núverandi ríkisstjórn hafi oft á tíðum verið eyðslusöm þá hefur hún gengið lengra en margar aðrar í lækkun skatta á einstaklinga og fyrirtæki. Geri ég ráð fyrir að á því verði framhald.

Eins og áður var minnst á hefur þessi ríkisstjórn verið stórtæk í einkavæðingu. Hins vegar er ríkið enn að vasast í ýmiss konar rekstri sem er betur falinn í höndum einkaaðila. Eins og sést í svari fv. fjármálaráðherra við fyrirspurn Sigurðar Kára Kristjánssonar á ríkið enn hluti, misstóra þó, í mörgum fyrirtækjum. Tel ég brýnt að losað verði um þessa eignarhluta sama hversu stórir þeir eru. Fyrirtæki eins og Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Íslandspóstur, Sunnlensk orka og svo frv. eru dæmi um fyrirtæki sem einkaaðilar eru fullfærir um að eiga og reka. Jafnframt á ríkið hluta í mörgum fyrirtækjum tengdum ferðaiðnaði s.s. hótelum, hestaleigum, frumkvöðlasetrum og svo frv. Það má e.t.v. vera að ríkisvaldið hafi á sínum tíma hjálpað ákveðnum fyrirtækjum að hefja rekstur (aðallega í gegnum Byggðarstofnun) og eigi því enn eignarhluta í þeim fyrirtækjum. En samt sem áður tel ég að ríksvaldið beri að draga sig úr atvinnurekstri á samkeppnismarkaði og setja hluti sína á sölu.

Hér var aðeins stiklað á stóru um umsjón ríkisfjármála og mögulega einkavæðinug ríkisfyrirtækja. Eins og sést er af nógu að taka og því biða fjölmörg verkefni nýs ráðherra.

Ég óska Árna til hamingju með nýtt starf og óska honum alls hins besta. Jafnframt vona ég að Árni hafi engu gleymt frá því að hann var sjálfur í Sambandi Ungra Sjálfstæðismanna og muni á næstu tveimur árum beita sér fyrir aðhaldi í ríkisrekstri og einkavæðingu ríkisfyrirtækja.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is

Powered by Hexia

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband