Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 26. september 2005

Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarsins, vill endilega skipta íslenzku krónunni út fyrir evruna og segir hana vera „varanlega lausn“ fyrir íslenzkt efnahagslíf „til að losna við sveiflur.“ Þetta hefur Sveinn reyndar verið að tuða um í einhver ár án þess að því hafi fylgt merkilegur rökstuðningur og var þetta síðast haft eftir honum í frétt í Fréttablaðinu 21. september sl. Ég veit ekki hvort Sveinn hefur fylgst með þróun evrunnar og evrusvæðisins síðan evran var tekin í notkun sem almennur gjaldmiðill í byrjun árs 2002, en ummæli hans benda ekki beint til að sú sé raunin. Fyrir það fyrsta veit Sveinn væntanlega mætavel að evran verður ekki tekin upp hér á landi nema með því að ganga í Evrópusambandið með öllum þeim ókostum sem því myndi fylgja fyrir Ísland einkum hvað snýr að fullveldi landsins, lýðræði, sjávarútvegsmálum og efnahagsmálum almennt.

Þess utan hefur evrusvæðið einfaldlega verið að reynast afskaplega illa á undanförnum árum. Annar stærsti banki heimsins, HSBC í London, gaf út skýrslu í  sumar sem bar nafnið “European meltdown?” þar sem m.a. kom fram að reynslan af evrusvæðinu væri svo slæm að það gæti verið sumum af aðildarríkjum þess í hag að yfirgefa það og taka upp sína fyrri sjálfstæðu gjaldmiðla á ný. Nefnir bankinn sérstaklega Þýzkaland, Ítalíu og Holland til sögunnar í þessum efnum sem hafi beinlínis beðið skaða af upptöku evrunnar.

Það sem einkum veldur þessu að mati HSBC bankans er miðstýring Seðlabanka Evrópusambandsins á stýrivöxtum innan evrusvæðisins sem hafi leitt af sér ýmsar neikvæðar afleiðingar fyrir aðildarríki svæðisins og gert þeim erfitt fyrir að hafa eðlilega stjórn á efnahagslífi sínu. Bankinn segir ennfremur í skýrslunni að hættan á því að evrusvæðið liðist í sundur sé komin á það stig að það sé nauðsynlegt fyrir aðildarríki þess að velta alvarlega fyrir sér kostum þess að segja skilið við það. Og fleiri hafa talað á hliðstæðum nótum s.s. bandaríski nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði, Milton Friedman, sem sagði m.a. í viðtali við fréttavefinn Euobserver.com á síðasta ári að sterkar líkur væru á því að evrusvæðið liði undir lok á næstu árum.

Í sumar var ennfremur greint frá því að OECD teldi útlit fyrir að hagvöxtur í aðildarríkjum evrusvæðisins myndi dragast saman um helming á næstu tveimur áratugum ef ekki yrðu gerðar róttækar kerfisbreytingar í efnahagsmálum svæðisins í því augnamiði að halda hagvexti í takti við önnur aðildarríki stofnunarinnar. Ef breytingar yrðu ekki gerðar myndi afleiðingin verða sú að þjóðartekjur á mann myndu dragast saman í samanburði við Bandaríkin og önnur lönd. Ástæða þessa væri einkum sú að almenningur í evrulöndunum væri að eldast og þar með myndi framleiðsla dragast saman ef ekki yrðu gerðar breytingar.

Fram kom í umfjöllunum fjölmiðla af málinu að OECD væri sífellt að verða gagnrýnni á frammistöðu evrulandanna í efnahagsmálum. Helstu kerfisbreytingar sem nauðsynlegt er að ráðast í að mati stofnunarinnar eru m.a. aukinn sveigjanleiki á vinnumarkaði, aukin samþætting innri markaðarins og aukið frumkvöðlastarf. Þá þurfi einnig að auka framleiðni svo og aðhald í opinberum fjármálum. Aðildarríki Evrópusambandsins samþykktu sérstaka áætlun árið 2000 sem m.a. var ætlað að stuðla að þessum umbótum og átti sambandið að verða upplýstasta, öflugasta og samkeppnishæfasta efnahagssvæði í heiminum árið 2010. Flestir eru hins vegar sammála um að Evrópusambandið sé lengra frá þessu markmiði í dag en þegar áætlunin var samþykkt og að útilokað sé að það náist á tilsettum tíma.

Og svona mætti lengi halda áfram um slæmt ástand evrusvæðisins en ég læt nægja að fjalla að lokum um nokkur meginatriði. Meðalatvinnuleysi innan evrusvæðisins er í kringum 10% og hefur verið lengi og hagvöxtur er lítill sem enginn. Á sama tíma eru þau aðildarríki Evrópusambandsins í Vestur-Evrópu sem ekki hafa tekið upp evruna, Svíþjóð, Bretland og Danmörk, að gera það mun betra í efnahagsmálum en evrulöndin þó við Íslendingar séum þó að gera það betra en löndin þrjú og evrusvæðið samanlagt. Hagsveiflur aðildarríkja evrusvæðisins hafa ekki samlagast eins og til stóð sem aftur hefur þýtt að miðstýrðir stýrivextir innan þess henta í raun engu þeirra eins og áður er komið inn á. Verðlag innan svæðisins hefur heldur ekki samlagast þrátt fyrir að kennismiðir Evrópusambandsins hafi lofað öðru. Þvert á móti hefur munurinn þar á aukizt síðan evran var tekin í noktun sem almennur gjaldmiðill og er nú orðinn meiri en gerist á milli einstakra ríkja Bandaríkjanna.

Samkvæmt skoðanakönnun sem gerð var af Gallup á meðal neytenda í aðildarríkjum evrusvæðisins og birt var í marz sl. sögðust meira en 90% aðspurðra vera þeirrar skoðunar að tilkoma evrunnar hefði orðið til þess að hækka verðlag. Þetta er í samræmi við aðrar kannanir um sama efni sem gerðar hafa verið á undanförnum árum síðan evran var tekin í notkun sem almennur gjaldmiðill. Samkvæmt könnun sem gerð var fyrir þýzka blaðið Stern í ágúst sl. vilja 56% Þjóðverja að Þýzkaland segi skilið við evrusvæðið og taki upp þýzka markið á nýjan leik.

Í ljósi þessa alls er kannski ekki að furða að mikill meirihluti Íslendinga sé á móti því að skipta íslenzku krónunni út fyrir evruna og hafi verið nú um árabil samkvæmt skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið fyrir Samtök iðnaðarins sjálf. Er þetta það sem Sveinn Hannesson vill að Ísland verði hluti af? Ég verð bara að segja eins og er að ég veit ekki hvar blessaður maðurinn hefur verið!

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband