Föstudagur, 9. september 2005
66.700.000.000 og Síminn hringir áfram
Miklum áfanga var náð í vikunni þegar reidd var af hendi greiðsla fyrir eitt stærsta ríkisfyrirtæki landsins. Stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar er þar með lokið og á sama tíma hefur ríkið loksins dregið sig alfarið úr samkeppnisrekstri á fjarskiptamarkaði. Skv. greinagerð frá forsætisráðuneytinu barst ríkissjóði greiðsla frá Skipti ehf. að upphæð 66,7 milljarðar krónar fyrir Símann. Nærri helmingur fjármagnsins, 32,2 milljarður króna, var greiddur í erlendri mynt og verður allur sá hluti notaður til að greiða upp erlendar skuldir.
Ekki stendur til að bera í bakkafullan lækinn um hvernig ráðstafa hefði mátt því fjármagni sem fékkst fyrir Símann. Hins vegar finnst mér vert að velta upp nokkrum atriðum sem tengjast í fyrsta lagi viðbrögðum stjórnarandstöðunnar, sem frekar en fyrri daginn hafði ekkert nytsamlegt til málann að leggja, í öðru lagi úthlutun fjármagnsins og í þriðja lagi hugmyndafræðinni á bakvið tilfærslur sem þessa.
Nú er rétt að taka fram að ég hef enga sérstaka skoðun á því hvernig ráðstafa hefði átt fjármagninu á annan hátt. Það gleður mig að mikill hluti þess er notaður til að greiða niður skuldir (eins og komið verður að hér síðar) en hvað varðar restina af fjármagninu þá er það verkefni ríkisstjórnarinnar að ráðstafa því. Þessi ríkisstjórn hefur farið vel með efnahagsmál síðustu ár (þó svo að hún hafi verið óþarflega eyðlusöm á köflum) og er því treystandi til að ráðstafa þessu fé. Hvort að það fer í götur, skip eða spítala er ekki aðalmálið. Allt eru þetta verkefni sem ríkisstjórnin hafði á prjónunum hvort eð er.
Síðan má auðvitað deila um hversu mikil þörf er á því að ríkið sinni sumum af þessum verkefnum en það er efni í annað díbeit.
Viðbrögð Stjórnarandstöðunnar
Á þriðjudag var tilkynnt hvernig ríkisstjórnin hefði ákveðið að ráðstafa fjármagninu. Nú geta menn s.s. haft ýmsar skoðanir á því. Ingibjörg Sólrún, sem mikla reynslu hefur af opinberum rekstri eftir ,,glæsilegan feril sem borgarstjóri, hafði nú sitt að segja um málið. (Rétt þykir mér nú að taka fram að um leið og vinstri menn byrja að tala um peninga verður manni dálítið órótt. Sérstaklega þegar þeir tala um peningana okkar. Það hefur áður komið fram hér á vefritinu.)
Þannig er sagt frá í frétt um málið: ,,Formaður Samfylkingarinnar telur ríkisstjórnina fara of geyst í að ráðstafa fénu, sem fékkst fyrir sölu Símans, fram í tímann. Hún telur farsælla að leggja peningana til hliðar og ávaxta þá fyrst um sinn í stað þess að ráðstafa fénu fram í tvö næstu kjörtímabil.
Kannski hefði Ingibjörg átt að lesa betur greinagerð forsætisráðuneytisins en þar kemur skýrt fram að féið verður ávaxtað á tvennan hátt. Í fyrsta lagi sparar ríkið sér umtalsvert fjármagn í vaxtagreiðslur með því að greiða upp hluta af erlendum skuldum og í öðru lagi verður peningurinn lagður inn til ársins 2007 þar sem hann mun ávaxtast. Ingibjörg hafði ekki frekari hugmyndir um hvað hún vildi við fjármagnið gera. Fannst bara ríkisstjórnin fara of geyst í að ráðstafa því. Þegar Ingibjörg var síðan spurð að því af hverju hún héldi þetta var svarið einfalt. Menn eiga bara ekkert að vera að ráðstafa fjármagni svona langt fram í tímann. Þetta eru engir smáaurar.
Í sömu frétt segir: ,,Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, hefur gagnrýnt hvernig stjórnvöld hafa staðið að ráðstöfun símasölupeningana þótt hann telji verkefnin góð og gild.
Þar höfum við það. Verkefnin góð og gild en samt gagnrýni á það hvernig fjármagninu er ráðstafað. Gaman væri ef að Ingibjörg eða Steingrímu gætu bent á hvað ef þessu þau hefðu viljað stroka út af listanum. Hvorugt þeirra hefur sagt nokkuð til um það.
Þau vilja kannski segja við kjósendur út um allt land að þau vilji ekki byggja upp þá vegi sem til stendur að byggja? Kannski telja þau málefni geðfatlaðra ekki mikilvæg? Kannski er Landhelgisgæslan ekki heldur á forgangslista hjá þeim? Við vitum ekki svarið við neinum af þessum spurningum því þau höfðu ekkert um það að segja hvað þau hefðu vilja gera við fjármagnið. Við hins vegar vitum að bæði vilja þau að hið opinbera starfi í samkeppni á fjarskiptamarkaði. Steingrímur telur slík fyrirtæki betur komin í höndum ríkissins en einkaaðila. Það er hans skoðun og hana ber að virða. Ingibjörg hefur á hinn bóginn sýnt vilja sinn í verki með ævintýrinu í kringum línu.net. Ekki ber að virða þá skoðun því að það voru borgarbúar sem tóku á sig allan kostnað vegna þessa misheppnaða ævintýris.
Silfrinu útdeilt
Eins og ég sagði upphafi hef ég s.s. enga sérstaka skoðun á því hvernig ráðstafa hefði átt fénu. Kannski hefði jafnvel verið gott að ráðstafa því ekki. Held þó að þá hefði það fljótlega gufað upp í ýmsan rekstur hins opinbera. Það er þó fyrst og fremst gleðiefni og um helmingur þess sé notaður til að greiða niður erlendar skuldir. Við skulum hafa í huga að vaxtagreiðslur erlendra skulda voru hærri en arður Símans til ríkissjóðs. Þetta sjá allir. Tja, allir nema vinstrimenn.
Allt eru þetta verkefni sem þegar voru á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Ég fagna sérsaklega ráðstöfun fjármagns til kaupa á nýju varðskipi og flugvél til Langhelgisgæslunnar enda hafa málefni hennar verið mér hugfangin. Tel ég nauðsynlegt að hún sér styrkt og efld og hér hefur verið stigið löngu tímabært skref til þess. Því verða væntanlega gerð fleiri skil hér á íhald.is þegar fram sækja stundir.
Hvað uppbyggingu hátæknisjúkrahúss varðar þá tel ég þá framkvæmd betur komna í höndum einkaaðila. Ég trúi því að einn daginn munu einkaaðilar stofnsetja (eða kaupa) sjúkrahús og gera í framhaldi af því þjónustusamning við ríkið. Ríkið rekur í dag stór sjúkrahús og eru þau mjög illa rekin. Það er ekki bara að það vanti meira fjármagn í rekstur þeirra heldur eru þau að mörgu leyti illa rekin. Aftur, efni í aðra umræðu.
Meira hef ég ekki um einstaka liði ráðsöfunarféssins að athuga. Málefnum nýsköpunarsjóðs verða gerð frekari skil síðar.
Næstu verkefni
Þó svo að hér sé lokið stærstu einkavæðinu Íslandsögunnar þá er enn langt í land. Ríkið á eignarhlut í fjöldamörgun fyrirtækjum og stendur enn í ýmiss konar atvinnurekstri sem betur væri komin í höndum einkaaðila. Það er ekki eins og ríkið hafi unnið í lottói og fengið einhvern óvæntan pening. Þessi peningur var til en fastur í ríkisfyrirtæki, m.ö.o. ríkið átti þetta fjármagn til.
Þá er eðlilegt að spyrja, hvað á ríkið meira? Hér má sjá lista yfir þau fyrirtæki sem ríkið á enn eignarhlut í. Ríkið á allt frá 0,6% hluta til 100% hluta í hinum ýmsu fyrirtækjum s.s. hótelum, hestaleigum, orkuveitum, trésmiðjum, sláturfélögum, útgerðarfélögum og svo mætti lengi telja. Meirihluti þeirra fyrirtækja sem ríkið á enn hlut í eru fyrirtæki á samkeppnismarkaði. Eignahlutur þeirra er betur komin í höndum einstaklinga en hins opinbera og tel ég að ríkið eigi að halda áfram af miklum krafti við að koma þessum fyrirtækjum úr eign ríkisins yfir til einkaaðila. Ríkið fékk um 67 milljarða fyrir Símann. Það er líklega annað eins ef ekki meira til sem liggur í eignum ríkissins í hinum ýmsu fyrirtækjum.
Þá er bara að halda áfram báráttunni fyrir einkavæðingu. Nema auðvitað að Steingrímur J. og Ingibjörg hafi einhverjar betri hugmyndir?
Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is
Breytt 6.10.2006 kl. 13:19 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004