Leita í fréttum mbl.is

Vinstrimenn og peningar: Fer ekki vel saman

Mikið brá mér að heyra Björk Vilhelmsdóttur fráfarandi borgarfulltrúa Vinstri-Grænna tala um Baugsmálið í kastljósinu fyrir viku síðan. Þar talaði hún um að þetta mál allt saman gerði þeim sem fátækari eru erfiðara fyrir.

Eins og alþjóð nú veit notaði Jón Ásgeir kreditkort Baugs til að kaupa sér nauðsynjavörur, allt frá pulsu og kók upp í Gucci jakkaföt. Gott og vel, það er ekki almennings að dæma það heldur dómstóla ef ólöglegt er. En þegar Björk var innt álits á þessu í Kastljósinu s.l. föstudag hafði hún það eitt að segja að það að sjá hvernig ,,þessir menn” eyddu peningunum og sjá hvernig þeir lifðu ,,gerði fátæktina svo erfiða.” Ekki hafði Björk s.s. nánari útskýringu á því nema þá að það væri erfitt fyrir fátækt fólk að sjá hvernig ,,þessir menn” eyddu peningunum sínum.

Þá er er ekki laust við að maður spyrji, meiga þeir sem eiga peningana ekki ráða því hvernig þeir eyða þeim? Þó svo að Jón Ásgeir (eða einhver annar sem á peninga) kaupi sér Gucci jakkaföt (já, eða pulsu og kók) og ég hafi ekki efni á því að kaupa mér slíkt hið sama þá gerir það líf mitt ekkert erfiðara. Þó svo að ég hafi ekki efni á einkaþotu eins og Björgólfur Thor þá líður mér ekkert verr fyirr vikið. Þvert á móti samgleðst ég Björgólfi fyrir að hafa náð þeim árangri sem hann hefur náð í viðskipalífinu. Nú er bara vonandi að hann fái íslenska flugmenn til að fljúga þotunni og að hún verði þjónustuð á Íslandi

Björk var einmitt spurð í þessum sama þætti hvort að þeir mættu ekki eyða eigin peningum eins og þeim lysti. ,,Nei, það finnst mér ekki,” var svarið. Hvernig vill Björk þá að hlutunum sé háttað? Ég held ég geti svarað því. Með gegnumheilli sósíalstefnu er líklega svarið við því. Björk eins og fleir kollegar hennar á vinstri kantinum líta á þetta fjármagn sem eign allra landsmanna (eða hins opinbera) en ekki eign þeirra sem hafa það á milli handanna. Vinstrimenn líta á fjármagn sem ,,sameiginlegan” sjóð allra landsmanna og í raun má enginn eiga meira en annar, eða öllu heldur, það má enginn stela frá öðrum með því að eiga meira.

Og annað dæmi. Jóhanna Sigurðardóttir skrifa pistil á heimasíðu sína þann 18. ágúst s.l. Þar gagnrýnir hún réttilega að yfirdráttarlán bankanni til landsmanna hafa aukist um 25% á einu ári. Ef þetta er rétt er það alls ekki gott því að yfirdráttarlán eru með dýrustu lánum sem bankarni bjóða. Rétt er að taka fram að Jóhanna er ein af þessum stjórnmálamönnum sem maður er sjaldan sámmála en þó veit maður hvar og fyrir hvað hún stendur ólíkt mörgum öðrum kollegum sínum úr sama. Jóhanna setur í pistli sínum réttilega út á að vextir af yfirdráttum nái allt upp í 19%.

Jóhanna segir í pistli sínum: ,, Fyrst í stað eftir að fólk fór í verulegu mæli í skuldbreytingar og endurfjármögnun lána eftir að bankarnir breyttu lánskjörum sínum í ágúst 2004 drógust yfirdráttarlán heimilanna saman, en í apríl 2005 höfðu þau aftur náð fyrri hæðum frá því sem þau voru í ágúst 2004. Þau hafa síðan aukist jafnt og þétt og voru tæpir 68 milljarðar í lok júní. Að meðaltali voru því yfirdráttarlán í júní sl umreiknað á hvern Íslending á aldrinum 18-80 ára um 330 þúsund krónur. Ef reiknað er með 19% yfirdráttarvöxtum á þessi lán þá þyrfti að greiða af 330 þúsund króna yfirdráttarláni um 62 þúsund krónur á ári.”

Ef rétt er (sem ég hef enga ástæðu til að efa) þá er þetta vissulega vandamál. Ef fólk var búið að greiða upp yfirdrætti og aðrar skuldir með endurfjármögnun en er síðan aftur komið í sama farið þá er illt í efni. Jóhanna telur sig hafa lausnina eða allavega telur hún sig vita hvernig stíga eigi fyrst skrefið í áttina: ,,Bankarnir ákveða sjálfir yfirdráttarvextina, en hæstu yfirdráttarvextir eru nú um 19.2% eða rúmu einu prósentustigi lægra en almennir dráttarvextir. Full ástæða er til að skoða þau lagaákvæði sem gilda um dráttarvexti, en Seðlabankinn ákveður dráttarvexti auk þess sem nauðsynlegt er að huga að því að bönkum verði settar ákveðnar skorður í töku yfirdráttarvaxta.”

Vissulega vill Jóhanna vel með þessu en það sem hún áttar sig ekki á er að bankarnir þvinga ekki yfirdráttarlán á viðskipavini sína. Það að fólk hafi greitt upp skuld með endurfjármögnum og sé svo komið aftur í meiri skuld t.d. með yfirdrætti er ekki bankanum að kenna heldur einstaklingunum sjálfum. Þó svo að það sé rétt sem Jóhanna segir í grein sinni að ,, yfirdráttarlánum virðist vera otað að fólki enda blóðmjólka bankarnir fólk með okurvöxtum á þessum lánum” þá er það fólksins að kynna sér málin áður en slegið er á yfirdrátt eða annars konar lán. Þetta er ekki verkefni fyrir ríkið að leysa heldur almenning sjálfan.

Ég legg til að Jóhanna og fleiri beini athygli sinni að fólkinu sjálfu í stað þess að argast út í ríkið og bankana yfir þessari stöðu. Af hverju hvetur hún fólk ekki til að spara áður en það eyðir peningum sínum? Vinstri menn eru einum of duglegir við að lofa tekjulitlu fólki betri tímum þegar þeir komast til valda. Og hvernig lofa þeir því. Jú með því að lofa hækkun á bótum og fleiri styrkjum frá ríkinu og hinu opinbera. Það er auðvitað bara ávísun á hærri skatta og fátæktargildru. Af hverju hvetja vinstrimenn fólk aldrei til að fara vel með fjármagn sitt? Það að Jón Ásgeir kaupi sér dýr jakkaföt gerir fátækt manna ekkert erfiðari. Vinstri menn gera hana hins vegar erfiðari með því að vera ekki hreinskilnir þegar kemur að peningum. Helsta baráttuvopn Jóhönnu hefur t.a.m. verið að argast út í ríkið og fólk sem á peninga í stað þess að beina sjónum sínum að því að hvetja þá fólk sem á litla peninga á milli handanna að fara vel með þá og lifa ekki um efni fram ef það hefur ekki efni á því. Að vera ríkur hefur stundum ekkert með innkomu að gera. Það er fullt af fólki sem hefur há laun en á enga peninga. Það skuldar jafnvel bara meira ef eitthvað er.

Þegar öllu er á botninn hvolft er það einstaklinganna sjálfra að ákveða hvernig þeir fara með fé sitt en ekki hins opinbera. Það er kominn tími til að vinstrimenn hætti að líta peninga hornauga og saka þá sem þá eiga um græðgi. Vinstri menn telja sig alltaf vera að berjast gegn fátækt en í margar aldir hafa þeir barist röngum vígvelli.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is

Powered by Hexia

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband