Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 22. ágúst 2005

Í leiðara Blaðsins 28. júlí sl. var fjallað um hið svonefnda fjölmenningarsamfélag sem mjög hefur verið í umræðunni hér á landi á undanförnum árum. „Í opinberri umræðu – sem einatt er næsta lituð af pólitískri rétthugsun – er gengið út frá því sem vísu að fjölmenningarsamfélagið sé fagurt og gott, að það sé beinlínis eftirsóknarvert í sjálfu sér og að styðja beri það og fóstra á alla lund,“ segir leiðarahöfundur Blaðsins og minnir síðan lesandann á að mannkynssagan sýni að full ástæða sé til að taka ávallt með fyrirvara hugmyndafræði eða trúarsetningum sem boði nýtt og betra þjóðfélag. Góð markmið tryggi einfaldlega ekki afleiðingarnar.

Leiðarahöfundurinn leggur síðan áherzlu á nauðsyn umræðu um þessi mál, innflytjendum hafi fjölgað hratt hér á landi á undanförnum árum og sjálfgefið sé að sú þróun leiði til ákveðinnar spennu og núnings sem alls ekki megi loka augunum fyrir. Að sama skapi sé út í hött að „gefa sér það að slíkan vanda megi allan rekja til innfæddra og meintra fordóma þeirra.“

Leiðarahöfundurinn gagnrýnir síðan þær hugmyndir að æskilegt sé að börn innflytjenda séu tvítyngd, enda sýni reynsla annarra þjóða að slíkar ráðstafanir séu helzt til þess fallnar að viðhalda einangrun innflytjenda á nýjum slóðum. Afleiðingin sé sú að börnin nái fullum tökum á hvorugu tungumálinu sem aftur leiði til þess að þau verði ólíklegri síðarmeir til að ná þeim árangri í námi eða starfi sem þau annars ættu alla möguleika á. Að lokum leggur leiðarahöfundurinn áherzlu á nauðsyn þess að Ísland sé opið fyrir framandi menningarstraumum og duglegu fólki sem vilji setjast hér að en einnig það að menn ættu að forðast að líta á fjölmenninguna sem eftirsóknarverða í sjálfu sér.

Lykilatriði í öllum umræðum um fjölmenningarsamfélagið er auðvitað það hvað hugtakið felur í sér. Að margra mati hefur það ekki verið nægilega ljóst og að sumu leyti hafa verið um það skiptar skoðanir. Því er kannski nærtækast í því sambandi að skoða hvaða skilning stjórnvöld víðast hvar í nágrannaríkjum okkar, sem flest hafa margfalt meiri reynslu af þessum málum en nokkurn tímann við, hafa lagt í hugtakið. Samkvæmt því felur það í sér það fyrirkomulag að innflytjendur haldi í tungumál sín og menningu og engin eiginleg aðlögun eigi sér stað. Fyrir vikið er mikil hætta á að til verði svokölluð “gettó” innan viðkomandi þjóðfélaga eða í raun einangruð þjóðfélög innan þeirra.

Það er ekki langt síðan það var nánast lagt að jöfnu við kynþáttahatur að tala um aðlögun innflytjenda bæði hér á landi sem og víða í Vestur-Evrópu. Sjálfur hef ég reynslu af því. Í því sambandi má geta þess að einn helzti gagnrýnandi hugmyndarinnar um fjölmenningu var bandaríski heimspekingurinn Ayn Rand. Og þó hugmyndin um fjölmenningarsamfélagið, eins og við þekkjum hana í dag, hafi ekki verið til upp úr miðri 19. öldinni þá má einnig nefna að brezki heimspekingurinn John Stuart Mill gagnrýndi einnig slíkar hugmyndir sem hann taldi hamlandi fyrir frelsi einstaklingsins. Margir gagnrýnendur fjölmenningarinnar telja hana fela í raun í sér aðskilnaðarstefnu sem komi í veg fyrir að innflytjendur geti orðið hluti af þeim þjóðfélögum sem þeir setjast að í og tekið eðlilegan þátt í þeim til jafns við aðra.

En tíðarandinn hefur gerbreyzt. Í dag tala flestir um aðlögun eins og þeir hafi aldrei gert annað, jafnt fólk innan Samfylkingarinnar sem aðilar á vegum Alþjóðahússins. Í nágrannalöndum okkar eru ráðamenn hver á fætur öðrum að verða afhuga hugmyndinni um fjölmenningarsamfélagið að fenginni reynslu af því og gagnrýni á það vex. Stjórnmálamenn kalla eftir því að hafizt verði þegar handa við að þjappa íbúum landa sinna saman í stað þess að stía þeim í sundur eins og gert hafi verið með fjölmenningarstefnunni.

Þetta á einkum við í Bretlandi. Skemmst er t.a.m. að minnast þess í sumar þegar David Davis, ráðherra innanríkismála í skuggaráðuneyti brezka Íhaldsflokksins, kallaði eftir því að fjölmenningarstefnan yrði endanlega gefin upp á bátinn þar í landi og lögð áherzla á sameiginleg brezk gildi og sama er að segja um þingmann flokksins Boris Johnsson í nýlegri grein í brezka dagblaðinu Telegraph. Rétt er að nefna einn mann enn til sögunnar í þessu sambandi en sá er Trevor Phillips, formaður sérstakrar nefndar á vegum brezkra stjórnvalda um kynþáttamál. Phillips er sjálfur af afrísku bergi brotinn og hefur um tveggja ára skeið kallað eftir því að sagt yrði skilið við fjölmenningarstefnuna sem sé að hans mati úreld og eigi ekki við í dag. Í stað hennar þurfi að leggja áherzlu á að flykkja íbúum Bretlands í kringum brezk gildi.

Reynsla t.a.m. Hollendinga er sú sama, en þeir eru sú þjóð sem sennilega hefur gengið einna lengst fram í því að framfylgja fjölmenningarstefnunni. Hollenzka þingið gaf út sameiginlega skýrslu upp á 2.500 blaðsíður í upphafi síðasta árs (2004) sem allir flokkar þingsins stóðu að. Þar var farið er yfir reynslu Hollendinga af innflytjendamálum undanfarna þrjá áratugi og komizt að þeirri niðurstöðu að tilraunin til að skapa umburðarlynt fjölmenningarsamfélag í Hollandi hefði algerlega mistekizt. Í skýrslunni eru fyrri ríkisstjórnir Hollands gagnrýndar harðlega fyrir að hafa stuðlað að aðskilnaði þjóðarbrota í krafti fjölmenningarstefnunnar. Verstu mistökin eru sögð vera þau að börn innflytjenda skyldu vera hvött til að læra móðurmál sitt í staðinn fyrir hollenzku. Innflytjendur í Hollandi yrðu einfaldlega að verða Hollendingar ef landið ætti að hanga saman sem ein heild.

Lengi væri hægt að halda áfram um þessi mál en skal hér látið staðar numið. Það er annars einmitt í krafti þess pólitíska rétttrúnaðar, sem getið er í leiðara Blaðsins sem fjallað var um í upphafi greinarinnar, sem ákveðnum háværum aðilum hér á landi tókst lengi vel að koma í veg fyrir alla eðlilega umræðu um málefni innflytjenda sem og alla gagnrýni á þá samfélagsgerð sem hugmyndin um fjölmenningarsamfélagið felur í sér. Sem betur fer hefur smám saman verið að losna um heljartök þessa pólitíska rétttrúnaðar á íslenzku þjóðfélagi og umræðan um þennan mikilvæga málaflokk smám saman verið að opnast samhliða því. Þeirri þróun hljóta allir sannir lýðræðissinnar og áhugamenn um tjáningarfrelsi og opna og málefnalega umræðu um brýn þjóðfélagsmál að fagna.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband