Föstudagur, 19. ágúst 2005
Endalok veikburða hræðslubandalags
Þáttaskil hafa átt sér stað í borgarmálapólitíkinni. R-listinn, sem hefur verið í gjörgæslu seinustu árin og að undanförnu í dauðadái, hefur geispað golunni. Eins og kunnugt er var það Vinstrihreyfingin grænt framboð sem tók öndunarvélina úr sambandi. Eftir stóðu misjafnlega sorgmæddir aðstandendur. Flestir þeirra önduðu léttar við fráfallið en eftir stóðu þó sorgmædd borgarstjórinn og forseti borgarstjórnar sem harma mjög endalokin og vildu helst halda öndunarvél hins hruma sjúklings í gangi sem lengst, þó batahorfurnar væru ekki beysnar. En hvernig hljómar minningargrein hræðslu- og valdabandalags félagshyggjumanna í Reykjavík? Um það hefur verið deilt seinustu daga þegar saga R-listans hefur verið rifjuð upp. Væntanlega mun arfleifð R-listans verða mikið í umræðunni í næstu borgarstjórnarkosningum.
Forysta R-listans í þrjú kjörtímabil skilur eftir sig næg verkefni og fjölda úrlausnarefna, sem brýnt er að takast á við. Þeir sem kynna sér lykilmálefni borgarinnar sjá ókláruð verkefni - áskoranir um að gera betur og taka af skarið. Gott dæmi um það eru skipulagsmálin. Nú þegar að R-listinn er dauður (og aðstandendur hans farnir að byggja upp tilveruna í kjölfar þess sem lengi hefur blasað við en gerðist svo loks með því að VG aftengdi sjúklinginn) má vissulega segja að saga hans sé skrautleg. R-listinn var stofnaður árið 1994 sem sameiginlegt framboð Framsóknarflokks, Samtaka um Kvennalista, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags. Þá náði R-listinn, undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur alþingismanns Kvennalista, táknrænum sigri og felldi meirihluta Sjálfstæðisflokksins sem setið hafði í tólf ár samfellt.
Fyrir síðustu kosningar var flokkalitrófið allt breytt frá R-listanum gamalgróna árið 1994 og umrót hafði orðið á vinstrivængnum og sameinuðust flokkarnir þrír sem eftir stóðu um að halda samstarfinu áfram sem kosningabandalagi. Samið var fyrir allar þrjár kosningarnar um skiptingu allra embætta, ef kosningabandalagið myndi sigra kosningarnar. Í öll þrjú skiptin var Ingibjörg Sólrún í áttunda sæti listans, baráttusætinu, og því auðvitað sett á mörkin, sem þýddi það auðvitað að ef ekki yrði meirihluti stæði Ingibjörg Sólrún utangarðs og þyrfti ekki að starfa þar í minnihluta nema að takmörkuðu leyti. Eins og allir vita þurfti Ingibjörg Sólrún aldrei að fara í prófkjör til að verja stöðu sína eða keppa við aðra um áttunda sætið. Hún fékk það sérpantað og var í öll þrjú skiptin sameiningartákn allra flokkanna og utan kvóta þeirra.
Síðast var Ingibjörg Sólrún stimpluð sem fulltrúi óháðra ásamt Degi B. Eggertssyni lækni. Reyndar hefur verið kostulegt að fylgjast með hinum svokallaða fulltrúa óháðra tala um stöðu sína sem þessi óháði aðili, og jafnvel talað um hann sem sérvalinn fulltrúa óháðra kjósenda. Eins og allir vita sem kynna sér sögu hins látna R-lista var Dagur B. sérvalinn af Ingibjörgu Sólrúnu í sjöunda sæti listans sem óháður. Það var ekkert spurt almenna kjósendur um það val. Dagur var ekki kjörinn í prófkjöri. Þetta tal um óháða er því hjáróma þvæla hin mesta. Enn hefur ekkert heyrst hvernig hinn óháði borgarfulltrúi varð óháður. Nema þá að hann hafi orðið óháður við val Ingibjargar Sólrúnar. Það er stór spurning svosem. Það má þó segja hinum látna (R-listanum) til hróss að nú undir lokin voru allir flokkarnir sammála um að ef samstarfið yrði áfram skyldu ekki verða í boði óháðir aðilar er hefðu verið sérvaldir af forystufólkinu. O sei, sei, það er mikið að fólk vaknar til lífsins um veruleikann.
Eins og fyrr segir var R-listinn orðinn undir lokin eins og gatasigti. Flestir þekkja enda stöðuna sem þar hefur verið frá því að leiðtoganum mikla var steypt af stóli fyrir að vilja vera þingframbjóðandi eins flokksins og lumbra á hinum flokkunum sem höfðu stutt hana til borgarstjórasetu, meira að segja aðeins örfáum mánuðum áður í harðri kosningabaráttu. Eins og flestir vita fannst leiðtoganum mikla ekkert athugavert við það að vinna í kosningabandalagi með tveim flokkum á einum vettvangi en berja á þeim á öðrum. Enda hlustuðu flokkarnir tveir ekkert á tal hennar og losuðu sig við hana. Flestir þekkja stöðuna sem hefur verið í borgarstjórnarmeirihlutanum á kjörtímabilinu: á þrem árum hafa setið þrír borgarstjórar í nafni R-listans. Átökin urðu sífellt meiri bakvið tjöldin - muna annars ekki allir eftir næturfundunum í Ráðhúsinu um það hvernig redda ætti þessu fyrir horn vegna borgarstjóraskiptanna?
Nú undir lokin höfðu aðstandendur R-listans sífellt meiri áhyggjur af þessum veikburða sjúklingi sem samstarfið var orðið. Skipuð var nefnd flokkanna til að ná saman um áherslur fyrir kosningarnar og láta reyna á samstarf. Merkilegt var allan tímann að fylgjast með þessum viðræðum. Allan tímann snerust þær um völd og áhrif - því að skipta niður mögulegum áhrifum og völdum eftir kosningar - deila niður efstu sætum á framboðslista. Þetta var bæði í senn svo hlægilega absúrd og ankanalegt. Þessar samningaviðræður verða eflaust dæmdar sem hinar misheppnuðustu í manna minnum. Auðvitað gekk mönnum illa að skipta átta sætum milli þriggja aðila svo jafnræðið væri algjört. Það hefði allavega þurft mjög snjallan stærðfræðing í lið með R-listanum til að fá þau til að ná að skipta átta fulltrúum milli þriggja. Það þarf sennilega bjartsýnasta fólk í heimi til að halda að þetta sé möguleiki.
Svo var talað um hvort sumir gætu fengið dúsur. Fyndnust var umræðan um það að komið skyldi á tveim varaborgarstjórum, svo að flokkarnir sem ekki hefðu borgarstjórastólinn gætu unað sáttir við sitt. Sennilega hafa þessir tveir átt að halda í höndina á borgarstjóranum, svo hann færi nú ekki að gera meiri vitleysu af sér en gert hefur verið. Svo var rætt um hvernig ætti að velja fulltrúana - deilt um fólk og persónuplotterí fram og til baka. Fyndnast var að heyra þær raddir úr Samfylkingunni að velja ætti listann í opnu prófkjöri og borgarstjóraefnið þyrfti nú bráðnauðsynlega að vera valið af borgarbúum í prófkjöri. Þetta gat nú varla verið fyndnara fyrir þá sem hafa pólitískt minni. Það muna væntanlega flestir að Ingibjörg Sólrún var handvalin alltaf í áttunda sætið og það var auðvitað ekkert prófkjör í því fyrir drottninguna nei, að einhverjum skyldi nú detta slíkt í hug. En nú þótti það möguleiki. Kannski segir það okkur allt um veikburða forystu lægsta samnefnarans (les: borgarstjórans).
R-listinn hefur verið lík að því er segja má allt frá því að Ingibjörgu Sólrúnu var hent fyrir borð sem leiðtoga samstarfsins. Síðan hefur allt þarna innanborðs verið gert með hverri reddingunni á reddingu ofan. Spyrja má sig að því hvað gerist í framhaldinu innan meirihlutaflokkanna þriggja. Nú er R-listinn gufar upp og eftir standa þrenn flokkaframboð á þessum væng getur ýmis uppstokkun orðið. Greinilegt er á öllum fréttum að tveir stjórnmálamenn syrgja mest endalok R-listans. Það eru Steinunn Valdís og Alfreð Þorsteinsson. Er það mjög skiljanlegt, enda er valdasess þeirra mjög í vafa í flokksframboðum. Steinunn Valdís treysti á R-listasamstarf áfram svo hún yrði sameiningartákn hans. Hennar staða er allt önnur ef hún þarf að sækjast eftir leiðtogastól Samfylkingarinnar í borginni sem Stefán Jón vermir. Væntanlega verður harður slagur þar um sessinn. Svo spyrja margir hvort eðalbloggarinn Össur skelli sér í slaginn.
Allir þekkja svo stöðu Alfreðs sem á í vök að verjast á eigin slóðum, enda ekki glæsileg afrek sem hann hefur á að státa úr Orkuveitu Reykjavíkur. Fullyrða má að forsætisráðherra sárni ekki mjög endalok R-listans og noti tækifærið nú til að losna við Alfreð úr forystusæti flokksins í borgarstjórn. Fyrst eftir dauða R-listans heyrðust þær raddir innan Framsóknar og Samfylkingar að möguleiki væri á áframhaldandi samstarfi. Það voru helst borgarstjóri og forseti borgarstjórnar sem fyrir því töluðu. Það var þó allan tímann veikburða tal, þó að fyrir sjálfstæðismenn hefði það verið besta niðurstaðan. Það hefði varla verið amalegt fyrir Samfylkinguna að verja þann mikla forystumann sem Alfreð hefur verið í þeirra augum til fjölda ára. Þau hafa með stolti horft upp á hann stjórna Orkuveitunni og varið öll hans verk. En það gerist ekki: Samfylkingin hefur rétt eins og VG boðað sérframboð og eftir stendur Alfreð einn grátandi í erfidrykkjunni.
Innan VG barðist Björk Vilhelmsdóttir fyrir áframhaldandi lífi R-listans en varð undir innan eigin raða. Árni Þór Sigurðsson og hans stuðningsmannasveit hafði betur. Reyndar var svo að skilja á Björku að halda ætti í R-listann hvað svo sem það kostaði. Talaði hún um það að koma þyrfti nú í veg fyrir að íhaldið kæmist til valda og hún myndi gera hvað sem væri til að tryggja að R-listinn færi fram til að berja nú á íhaldinu. Með ólíkindum var að hlusta á þennan borgarfulltrúa. Talaði hún eins og það væri eina baráttumál R-listans að berjast gegn Sjálfstæðisflokknum. Engin önnur rök voru týnd til. Lengi höfum við sjálfstæðismenn reyndar haldið því fram að R-listinn væri aðeins til í þeim tilgangi að vera valdablokk gegn Sjálfstæðisflokknum og áhrifum hans og styrkleika meðal borgarbúa. Þessu neituðu jafnan aðstandendur R-listans.
Það er ágætt að Björk Vilhelmsdóttir hefur með hræðslutali sínu og einhliða áróðri fyrir tilvist R-listans (sem byggist aðeins upp á því að íhaldið komist nú ekki til valda) staðfest þessi orð sem lengi hafa verið í umræðunni. Merkilegt er reyndar að þessi borgarfulltrúi sýni skoðunum fjölda borgarbúa slíka lítilsvirðingu að allt eigi að reyna að gera til að rödd þeirra fyrir breytingum nái ekki fram að ganga. En tal Bjarkar staðfestir tilgang R-listans til þessa. Það er ágætt að Björk segi svosem hug sinn. En á bakvið Sjálfstæðisflokkinn eru kjósendur því gleymir Björk Vilhelmsdóttir. Það er fólk sem treystir flokknum fyrir verkunum. Ég veit ekki hvort að Björk trúir því eða ekki en það er svo að innan Sjálfstæðisflokksins er ekki illt fólk þar er fólk sem er annt um sveitarfélagið sitt og vill vinna fyrir það af heilindum. Það er leitt að hlusta á Björku og finna að hún er á móti flokknum og vill R-lista bara til að lumbra á íhaldinu en hún afhjúpar sinn hugsanagang með því vissulega.
Búast má við deilum milli Samfylkingarinnar og VG í kjölfar þessara slita samstarfsins sem kosningabandalags. Reyndar hefur seinustu daga mátt sjá forsmekk þess hvernig Samfylkingin mun hamast þar á VG. Þar er talað af krafti og báðir kenna flokkarnir hinum um það að hafa slökkt á öndunarvél hins langveika sjúklings sem R-listinn var. Allir sem pólitískt nef hafa sjá að á þessum bæjum eru mun fleiri ánægðir með endalokin en þeir sem syrgja þau. Mitt í ólgu hins látna R-lista berast þær fréttir frá Ólafi F. Magnússyni fyrrum sjálfstæðismanni og óháðum borgarfulltrúa, sem nú er orðinn frjálslyndur að flokkur hans sé til í slaginn. Þar talar leiðtoginn um að auðvitað muni hann og Margrét Sverris leiða listann. Það verður seint sagt að þau hafi verið valin til framboðs með lýðræðislegum hætti hafa sennilega hist saman tvö yfir kaffibolla og plottað sig saman um að ákveða uppröðun efstu sæta. Hvenær fór valið fram?
Nú þegar að endalok R-listans eru orðinn veruleiki vaknar óneitanlega sú spurning hvaða áhrif þessi niðurstaða hafi á sitjandi meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Enn eru níu mánuðir til kosninga. Það verður óneitanlega merkilegt að fylgjast með því hvernig flokkunum þremur gengur að vinna saman sem ein heild eftir þessi sögulegu þáttaskil. Það er þó víst að kosningabaráttan í Reykjavík er hafin með ákvörðun vinstri grænna þess efnis að aftengja sjúklinginn. Framundan eru væntanlega flokkaframboð flokkanna sem hafa myndað R-listann og má búast við átökum þeirra á milli, jafnt um atkvæðin og svo það hverjum það hafi verið að kenna að R-listinn, sem stjórnað hefur borginni í rúman áratug, leið undir lok þrátt fyrir að vera meirihlutaaflið í borgarmálunum. Það gæti orðið mjög hart í ári meðal rústanna innan R-listans ef fram heldur sem horfir.
Þegar að harðvítug kosningabarátta er hafin meðal flokkanna þriggja og keppni um atkvæðin hefst getur allt gerst. Það má því alveg búast við lamaðri pólitískri forystu næstu mánuðina. Hún hefur reyndar ekki verið beysin eftir öll borgarstjóraskiptin, en það stefnir skiljanlega í mun meiri átök. Framundan er mjög hörð kosningabarátta í höfuðborginni. Þetta sást best í gær með fundi borgarráðs þar sem fulltrúar R-listans heitins ályktuðu út og suður og ekki laust við að Alfreð kallinn sé farinn að stríða samstarfsmönnum sínum og minni á sig í leiðinni hvað varðar leikskólamálin. Er þetta það sem koma skal: veikburða eymdarmeirihluti sem karpar út og suður í kosningabaráttunni og kapphlaup um að koma sér í fréttirnar. Þetta verður mjög áhugavert á að horfa fyrir okkur stjórnmálaáhugamenn en að sama skapi skaðar stöðu borgarinnar að sjá pólitísk hrossakaup og fjölmiðlahosserí hins látna kosningabandalags.
Á meðan R-listinn hefur gufað upp og horfið út í myrkrið hefur Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík horft á endinn á þessum eymdarferli R-listans, endalok klaufalegustu samningaviðræðna seinni tíma, sem voru dæmdar til að mistakast. Eins og sést hefur á nýlegum könnunum á Sjálfstæðisflokkurinn góða möguleika á því að ná hreinum meirihluta í borgarstjórn og velta vinstriflokkunum úr sessi (veita þeim náðarhöggið eftir kjötkatlasuðuna í OR og fleiri stöðum). Með öflugum lista og góðri kosningastefnu mun Sjálfstæðisflokkurinn sigra næstu kosningar. Í grunninn séð verður kosið um það hvort borgarbúar vilja marka nýja sýn til framtíðar og kjósa öfluga forystu í borgarmálunum eftir veiklulega forystu hins fallna R-lista. Grunnpunktur sjálfstæðismanna verður að benda á ferska sýn til framtíðar og öflugt fólk sem sé tilbúið til að leiða af krafti þau mál sem setið hafa á hakanum hjá R-listanum.
Það blasir allavega við að mörg sóknarfæri eru framundan hvað varðar Sjálfstæðisflokkinn í borgarmálunum, nú þegar að hinn veiklulegi R-listi er kvaddur án alls söknuðar jafnt stuðningsmanna hans sem og andstæðinga.
Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr(a)simnet.is
Breytt 6.10.2006 kl. 13:19 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004