Leita í fréttum mbl.is

Ríkisútvarpið á krossgötum

Óhætt er að fullyrða að Ríkisútvarpið sé á krossgötum. Á þessu ári eru 75 ár liðin frá stofnun þessa rótgróna ríkisfjölmiðils. Um þessar mundir eru einnig að eiga sér stað breytingar á yfirstjórn fyrirtækisins. Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, hefur sagt starfi sínu lausu og hættir eftir rúman mánuð, þann 1. september nk. Þann dag tekur hann til starfa í utanríkisþjónustunni og mun í vetur verða sendiherra Íslands í Kanada. Deilt var um störf Markúsar í vetur samhliða fréttastjóraráðningu hjá fréttastofu útvarps og hann hefur nú ákveðið að skipta um vettvang. Hefur hann starfað með hléum hjá RÚV allt frá árinu 1966. Hann var einn af fyrstu fréttamönnum Sjónvarpsins og starfaði þar allt til þess að hann varð stjórnmálamaður. Markús Örn sat í borgarstjórn 1970-1985 og var um tíma forseti borgarstjórnar. Hann varð formaður útvarpsráðs í byrjun níunda áratugarins og var ráðinn eftirmaður Andrésar Björnssonar á útvarpsstjórastóli árið 1985.

Markús Örn var ráðinn borgarstjóri árið 1991 er Davíð Oddsson varð forsætisráðherra og hætti þá sem útvarpsstjóri. Hann var borgarstjóri í þrjú ár en hóf aftur störf hjá RÚV er hann var ráðinn framkvæmdastjóri útvarps árið 1996. Markús Örn var að nýju ráðinn sem útvarpsstjóri árið 1997 og tók við starfinu af Pétri Guðfinnssyni við starfslok hans, en Pétur hafði lengi verið framkvæmdastjóri Sjónvarps og var ráðinn útvarpsstjóri er sr. Heimir Steinsson lét af störfum árið áður og tók að nýju við fyrra starfi sínu sem prestur á Þingvöllum. Nú þegar að Markús Örn er á útleið, endanlega að því er virðist óneitanlega, úr starfi útvarpsstjóra og lætur af störfum hjá Ríkisútvarpinu eftir langt starf blasir við að breytingar blasi við hjá Ríkisútvarpinu og þar þurfi að stokka verulega upp. Jafnframt er ljóst að starf útvarpsstjóra hefur breyst mjög í tímanna rás og við eftirmanni Markúsar Arnar blasi nýtt starfsumhverfi og aðstæður í harðnandi samkeppni á fjölmiðlamarkaði.

Í gær rann út umsóknarfrestur um embætti útvarpsstjóra. Er fresturinn rann út höfðu 22 lagt inn umsókn, þ.á.m. reynt fjölmiðlafólk og áhugafólk um ríkisfjölmiðilinn af ýmsu tagi ennfremur. Margt hefur breyst í fjölmiðlaumhverfinu á undanförnum árum og við Ríkisútvarpinu blasir allt annað landslag á fjölmiðlamarkaði en fyrir einungis átta árum er Markús Örn Antonsson var öðru sinni ráðinn til starfa á útvarpsstjórastól. Því vakti það óneitanlega athygli að þegar þetta mikla starf, stjórnendastarf þessarar öflugu fjölmiðlastofnunar ríkisins voru ekki gerðar neinar hæfniskröfur eða útlistað nánar hverskonar aðila væri auglýst eftir eða hvaða sýn hann hefði til verkefnisins. Í grunninn tel ég mikilvægt að á þessum stóli sitji aðili sem hafi starfað að fjölmiðlum, þekki starfsumhverfið því mjög vel og sé sviðsvanur á þessum vettvangi. Meðal umsækjenda eru margir slíkir aðilar.

Við blasir að á 75 ára afmæli sínu að Ríkisútvarpið sé í tilvistarkreppu og erfiðleikar blasi við stofnuninni. Við blasir að breyta þurfi til í innra kerfi Ríkisútvarpsins. Var að mínu mati alveg sláandi að lesa umfjöllun Morgunblaðsins um RÚV fyrr á árinu. Hún sannaði svo ekki varð um villst að Ríkisútvarpið sé á algjörum villigötum og taka verði rekstur þess til algjörrar endurskoðunar. Það hefur verið vitað til fjölda ára að rekstur Ríkisútvarpsins er glórulaus með öllu og að rekstrarform fyrirtækisins getur ekki gengið til lengdar. Þetta var endanlega staðfest að mínu mati með rekstrartölum sem komu fram í umfjöllun Moggans. Í stuttu máli sagt kom þar fram að Ríkisútvarpið var síðast rekið með tekjuafgangi á árinu 1997 en frá því ári hafi samanlagður taprekstur verið þar og hafi nemið ríflega 1400 milljónum króna. Ennfremur kom fram að á undanförnum áratug, eða frá árinu 1995, hafi eigið fé stofnunarinnar farið úr 2,5 milljörðum króna niður í núllið.

Er ekki hægt lengur að fljóta sofandi að feigðarósi er kemur að málefnum RÚV.
Taka verður hlutina til endurskoðunar og stokka allhressilega upp. Fyrir nokkrum mánuðum lagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, fram á Alþingi frumvarp til breytinga á útvarpslögum. Ánægjuefni var að slíkt frumvarp skyldi loks lagt fram eftir margar tilraunir menntamálaráðherra af hálfu Sjálfstæðisflokksins til að stokka upp stöðuna og færa RÚV til nútímans. Í frumvarpi ráðherrans er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpinu verði breytt í sameignarfélag. Þannig getur Ríkisútvarpið að mörgu leyti starfað sem hlutafélag. Þessi staða mála er þó skýrt merki þess að ekki standi til að einkavæða Ríkisútvarpið, sem mér þykja mjög slæm tíðindi. Það hefur verið skoðun mín til fjölda ára að ríkið eigi ekki að vera á fjölmiðlamarkaði eða eigi allavega að draga sig meira út úr honum. Eins og fram hefur komið verða afnotagjöldin lögð niður og er áætlað að nefskattur komi til sögunnar í staðinn.

Ein mikilvæg breyting sem blasir við er að til sögunnar mun koma rekstrarstjórn í stað pólitísks útvarpsráðs. Markmiðið með breytingunni er að gera slíka rekstrarstjórn ábyrga fyrir stefnumótun fyrirtækisins og ekki síður fjárreiðum þess. Mun samkvæmt tillögunum verða bundinn endi á það að slík rekstrarstjórn vinni í dagskrármálum beint og ráðningu starfsmanna eins og nú er gert. Seinustu tvo áratugi, eða frá setningu útvarpslaga 1985 sem breyttu landslagi ljósvakamiðla, hefur útvarpsráð haft það hlutverk að fara yfir umsóknir í stöður hjá fyrirtækinu og hefur yfir dagskrármálum að segja. Sú skipan mála mun loks heyra sögunni til. Eins og öllum varð ljóst í deilunum um ráðningu fréttastjóra útvarpsins í mars og apríl á þessu ári er útvarpsráð barn síns tíma. Sú skipan mála sem það er byggt á og eðli þess við að fara yfir umsóknir og meta þær er fyrir löngu gengin sér til húðar. Það getur ekki gengið lengur að pólitískt skipað ráð með slíkt hlutverk sé þar til og fari yfir starfsumsóknir þar og meti beint.

Eins og ég hef sagt alla tíð frá því að menntamálaráðherra lagði fram frumvarp sitt harma ég að ekki sé gengið lengra í átt til nauðsynlegra breytinga á RÚV. Jákvæðir punktar eru þá helst tilkoma rekstrarstjórnarinnar, sem taka mun á rekstrarmálum RÚV og ber loks ábyrgð á rekstrinum og tengdum málum. Það hefur lengi verið einn af akkilesarhælum RÚV að þar hefur verið raðað upp í fremstu röð hverri silkihúfunni á eftir annarri sem enga ábyrgð ber á rekstrarlegum forsendum. Nú breytist það. Rekstrarlegar forsendur verða loks meginstef hjá RÚV. Hinsvegar er slæmt að farin sé einhver málamiðlunarleið að hætti Framsóknar og endað í einhverju sameignarfélagsformi en ekki farið beint í hlutafélagaformið, sem er hið eina og réttasta í grunninum sem forsenda. Þetta frumvarp verður rætt á þingi í haust samhliða umræðu um ný fjölmiðlalög. Er hárrétt að bæði sé rætt á sama tíma, enda nátengd mál að mínu mati sem þurfa að vinnast samtvinnað í gegnum þingið.

Þegar að Þorgerður Katrín lagði fram frumvarp sitt undir lok þingvetrarins hafði stjórnarandstaðan auðvitað skoðanir á því. Sumt átti að vera svona en ekki með öðrum hætti og allt eftir því. Merkilegust var þó óneitanlega tillaga VG um framtíðarsýn fjölmiðlabatterís ríkisins. Kom þar fram sá vilji flokksins að koma á fót dagskrárráði í RÚV. Það myndi auðvitað miðstýra dagskrárgerð. Það er ekki að spyrja að framtíðarsýn VG - miðstýringaráráttan er sjaldan fjarri þeim. Eins og fyrr segir um frumvarp menntamálaráðherra tel ég það ágætt skref en þó ekki gott að öllu leyti. Sem hægrisinnuðum einstakling í stjórnmálalitrófinu tel ég það í raun afleitt. Ég tel að það styrki RÚV um of og undirstöður þess með undarlegum hætti. Menn eru að veita RÚV alltof mikið fríspil til að vera á markaðnum. Með því getur RÚV staðið að annarri starfsemi sem tengist starfsemi félagsins, t.d. á sviði fjarskipta og margmiðlunar eða öðrum sviðum fjölmiðlunar.

Þetta vinnur algjörlega gegn mínum grunnskoðunum um RÚV. Ég hef styrkst sífellt meir í þeirri skoðun minni seinustu vikurnar um að Ríkisútvarpið verði að einkavæða og klippa á tengingu fjölmiðla við ríkið. Það höfum við í SUS auðvitað sagt til fjölda ára og allir vita afstöðu okkar til málsins. Mér hefur alla tíð þótt tímaskekkja að ríkið standi í þessum rekstri. Margir tala um að nauðsynlegt sé að ríkið reki útvarpsstöðvar og sjónvarpsstöðvar og reyna að réttlæta tilveru ríkisstöðva á ýmsan hátt, til að reyna að viðhalda úreltu systemi. Að mínu mati er óeðlilegt að ríkið standi í því að kaupa erlent afþreyingarefni í samkeppni við einkastöðvar og hafi á dagskrá t.d. Sjónvarpsins. Meginhluti þess efnis sem þar er getur vel verið á dagskrá einkastöðvanna. Eina forsendan að mínu mati fyrir því að ríkið reki sjónvarpsstöð er sú að þar væri innlent menningar- og afþreyingarefni að öllu leyti eða allavega ráðandi hluti af dagskránni. Þannig er það ekki í dag, langt frá því. Meginefnið er erlent efni.

Eins og fyrr segir blasir nýtt fjölmiðlaumhverfi við nýjum útvarpsstjóra. Er mikilvægt að við starfinu taki fjölmiðlamanneskja sem þekkir sviðið mjög vel og þau verkefni sem við blasa. Vona ég að menntamálaráðherra ráði til starfans þann aðila sem er líklegur til að stýra þessu fleyi rétta átt, í markvissa átt til uppstokkunar og breytinga og leiði vinnuferlið þar með öðrum hætti og taki til hendinni. Ekki veitir af því ef RÚV á að standa undir nafni sem fjölmiðill allra landsmanna, en ekki safnhaugur erlends afþreyingarefnis t.d. í sjónvarpi. Reyndar má segja að Rás 1 sé flaggskip útvarpsstöðvanna. Þar er áhugavert efni allan daginn. Með aldrinum hef ég lært sífellt betur að meta það sem þar er boðið upp á. Þar er innlend dagskrá í hávegum höfð og öflug dagskrárgerð sem RÚV getur vissulega verið stolt af. Hinsvegar hef ég aldrei skilið tilvist Rásar 2 og tel rétt að hún verði lögð niður sem fyrst.

Fyrir fjórtán árum er Markús Örn Antonsson varð borgarstjóri var starfið auglýst, sem eðlilegt er. Að lokum var ráðinn til starfans klerkur utan úr sveit, mikill heiðursmaður og menningarlega sinnaður maður vissulega. Hinsvegar hafði hann litla sem enga reynslu af fjölmiðlastörfum og ekki verið þekktur fyrir afrek á þeim vettvangi. Hef ég jafnan verið þeirrar skoðunar að þá hafi átt að ráða þá manneskju sem var öflugust á því sviði að leiða RÚV sem fjölmiðlafyrirtæki. Margir urðu hissa við val þáverandi menntamálaráðherra og það var umdeilt mjög lengi hvernig að því var staðið. Nú, sem þá auðvitað, er það menntamálaráðherra sem heldur á þessu ferli og það er Þorgerðar Katrínar að velja til starfans þann sem hún vill að vinni á sínum forsendum og leiði RÚV með þeim hætti sem frumvarp hennar gerir ráð fyrir að RÚV verði á komandi árum. Verður fróðlegt að sjá hver sá aðili verður.

Við blasir enn harðnandi samkeppni hjá RÚV. 365 – ljósvakamiðlar hafa ákveðið að hefja útsendingar á fréttastöð í sjónvarpi sem muni ganga í allavega 16 tíma á dag og halda úti fréttaveitu til landsmanna í gegnum daginn. Spyrja má sig að því hver tilgangur RÚV sé orðinn ef hægt ef einkaaðilar geta haldið úti fréttaveitu með þessum tagi sem gengur allan daginn og getur með því haldið á almannavarnarhlutverkinu sem RÚV hefur jafnan haft. Frægt varð annars að RÚV varð síðust allra til að segja frá frægum Suðurlandsskjálftum fyrir fimm árum. Þar fór almannavarnargildið fræga út í veður og vind. Sjónvarpið sýndi frá EM í fótbolta og lét leikina halda áfram þrátt fyrir stöðu mála og útvarpið var mun seinna með fréttirnar en Bylgjan sem hélt vel á þessari stórfrétt. Með tilkomu fréttastöðvar af þessu tagi er komin fréttaveita sem haldið getur á stórfréttum allan sólarhringinn, hvað svo sem RÚV gerir.

Óneitanlega tel ég að 365 skjóti boltanum mjög hátt með því að starta þessari fréttastöð. Það má deila um hvort pakkinn muni ganga eða þá hvort að menn séu að tefla á vöð sem halda ekki. En tillagan er djörf og ef hún gengur er kominn fjölmiðill sem mun byggjast upp sem öflug fréttaveita til allra landsmanna, í gegnum sjónvarpið, netið og útvarpið – allt í senn. Þannig að við blasir að RÚV er á öðrum tilvistargrunni þegar að nýr útvarpsstjóri sest á skrifstofu sína í haust og tekur til við að stjórna þessu rótgróna fjölmiðlaveldi ríkisins. Spyrja má sig að því hvort sá risi er á brauðfótum eða muni geta aðlagað sig að breyttum tímum með auðveldum hætti samhliða breytingunum sem steðja að þessu gamla veldi. Sótt er allavega harkalega að honum og fróðlegt hvernig nýr yfirmaður stjórnar fleytunni á þeirri vegferð sem framundan er. Það mun allavega að ég tel fljótt reyna á hvernig hann heldur á verkefninu sem framundan er.

Grunnur alls sem ég ætlast til á næstunni af menntamálaráðherra við val þessa yfirmanns fjölmiðlaveldis ríkisins er að fagmanneskja í fjölmiðlunarstörfum taki við starfinu og þar verði nýjar og ferskar hugmyndir aðalsmerki. Það verður merkilegt að sjá til verka nýja útvarpsstjórans í vetur og hvaða breytingar, ef nokkrar, muni koma með nýjum húsbónda. Það er þó alveg ljóst að nýr útvarpsstjóri hefur stórt og mikið verkefni fyrir höndum og næg úrlausnarefni bíða hans eða hennar er tekið verður til við það sem bíður á skrifborðinu í Efstaleiti.

Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr(a)simnet.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband