Mánudagur, 11. júlí 2005
Mánudagspósturinn 11. júlí 2005
Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, ritaði grein í Morgunblaðið 28. júní sl. undir fyrirsögninni Evrópa er svarið þar sem hann fjallaði um þá stjórnmálakreppu sem Evrópusambandið er í um þessar mundir. Eins og kunnugt er er sú kreppa einkum tilkomin í kjölfar þess að Frakkar og Hollendingar höfnuðu fyrirhugaðri stjórnarskrá sambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslum fyrir rúmum mánuði síðan og ekki bætti úr skák að leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins skyldu ekki geta komið sér saman um hvernig fjármagna ætti sambandið á næstu árum. Það var annars löngu orðið tímabært að eitthvað að marki heyrðist frá íslenzkum Evrópusambandssinnum um stöðuna innan sambandsins en þeir hafa nær algerlega þagað þunnu hljóði um þau mál síðan hún kom upp. Svo neyðarlegt hefur þetta ástand raunar verið að pólitískir andstæðingar þeirra hafa beinlínis óskað eftir því opinberlega að þeir tjáðu sig nú eitthvað um málið.
En svo vikið sé að grein Andrésar þá byrjar hann hana á því m.a. að segja að líkja mætti erfiðleikum Evrópusambandsins við vaxtarverki unglings sem væri að breytast í fullorðna manneskju. Í kjölfarið þessara orða veltir maður því óneitanlega fyrir sér í hvað sambandið er nákvæmlega að breytast að mati Andrésar? Eitt ríki? Og í framhaldi af því hvenær megi búast við því að þessir vaxtaverkir Evrópusambandsins taki enda? Eða má eiga von á slíkum vandræðalegum afsökunum úr herbúðum Evrópusambandssinna um alla framtíð í hvert sinn sem eitthvað bjátar á hjá sambandinu?
Andrés segir síðan að mörg stór mál bíða Evrópusambandsins og nefnir þar m.a. fyrirhugaða aðild Búlgaríu, Rúmeníu og Króatíu sem og aðildarviðræður við Tyrki. Tilgangurinn með því að nefna þetta til sögunnar er ljóslega sá að reyna að sýna fram á að engan bilbug sé að finna á sambandinu þrátt fyrir stjórnmálakreppuna. Miklar líkur verða þó að teljast á því að búið væri að leggja öll áform um frekari stækkun Evrópusambandsins á hilluna um óákveðinn tíma ef forystumenn sambandsins hefðu ekki verið búinir að gefa þessum ríkjum opinberlega loforð um að hefja við þau aðildarviðræður á ákveðunum tíma áður en núverandi aðstæður komu upp. Enda lýstu ýmsir forystumenn Evrópusambandsins yfir efasemdum, eftir höfnun Frakka og Hollendinga á stjórnarskránni, um að rétt væri að halda áfram með frekari stækkunaráform. Rökin fyrir því að halda áfram í þeim efnum eru því ekki þau að allt sé í himnalagi innan Evrópusambandsins, sem augljóslega er ekki raunin, heldur þau að það yrði aðeins til að auka á álitshnekk sambandsins út á við ef það hætti við að hefja viðræður við umrædd ríki eins og til stóð.
Síðan segir Andrés að erfiðleikar, eins og þeir sem Evrópusambandið glímir við um þessar mundir, séu ekki nýjir af nálinni í sögu sambandsins en að það hafi áður staðið slíkt af sér. Hann bætir síðan við að því sé þó ekki að neita að aðstæðurnar núna séu mun flóknari en áður eftir að aðildarríki Evrópusambandsins eru orðin 25 og hvert með sínar áherzlur. Sem notabene er einmitt einn helzti veikleiki sambandsins. Það þarf þó auðvitað ekki að hafa mörg orð um það að þó Evrópusambandið hafi staðið ýmislegt af sér hingað til (þá aðallega með ólýðræðislegum vinnubrögðum eins og þekkt er) þýðir það vitanlega ekki að það muni ávallt verða raunin. Evrópusambandið er auðvitað ekki eilíft frekar en önnur mannanna verk þó margur sanntrúaður Evrópusambandssinninn kunni e.t.v. að halda það. Hvað annars kemur út úr þeirri kreppu sem sambandið er í núna veit auðvitað enginn.
Andrés viðurkennir síðan að höfnun Frakka og Hollendinga á stjórnarskrá Evrópusambandsins hafi verið pólitískt áfall fyrir sambandið enda sennilega ekki annað hægt. Hann viðurkennir ennfremur að forystumenn Evrópusambandsins hafi ekki verið í takti við almenning í aðildarríkjum þess og segir síðan að þeir verði að finna þá tónlist sem íbúar Evrópu [lesist Evrópusambandsins] eru tilbúnir að hlusta á. Þetta hljómar allt mjög vel hjá Andrési þó hann hafi mér vitanlega ekki séð ástæðu til að nefna þetta áður. En svo segir Andrés: Það er hins vegar ljóst að öll skynsamlega (!) rök hníga að því að finna sameiginlega leið til að þróa Evrópu [lesist aftur Evrópusambandið] áfram. Þróa Evrópusambandið hvert áfram? Hvernig sér Andrés þá þróun fyrir sér? Nú erum við s.s. komin aftur að unglingnum með vaxtarverkina. Og það sem meira er, hver eru öll þessi skynsamlegu rök? Þau fylgdu ekki með í greininni þó að um vægast sagt ansi mikla fullyrðingu sé að ræða.
En það á sem sagt að hlusta á almenning í aðildarríkjum Evrópusambandsins en samt að halda áfram á sömu braut í þróun sambandsins. Öðruvísi verða orð Andrésar varla skilin. Hvernig gengur þetta upp? Hvað ef almenningur vildi t.d. vinda ofan af Evrópusambandinu og breyta því bara í einfalt fríverzlunarsvæði? Það er sennilega ekki mikil hætta á að hlustað yrði á slíkt af hálfu forystumanna sambandsins enda auðvitað um að ræða kolrangt svar, svona eins og nei í þeim tiltölulega fáu þjóðaratkvæðagreiðslum sem haldnar hafa verið um samrunaskref innan þess.
Andrés segir svo að aðildarríki Evrópusambandsins muni finna lausn á þeirri stjórnmálakreppu sem sambandið er í því það sé ekki nein önnur skynsamleg leið til fyrir þau varðandi framtíðina, hvort sem er félagslega, stjórnmálalega og efnahagslega. Fullyrðingagleðin heldur áfram og allur rökstuðningur heldur að sama skapi áfram að vera víðsfjarri. Það má vel vera að fyrir Andrési og mörgum skoðanabræðrum hans sé hér um að ræða eitthvert náttúrulögmál en svo er þó langt því frá í raunveruleikanum.
Ég held að það sé tímabært fyrir Evrópusamtökin að þau upplýsi hvernig þau sjái fyrir sér þróun Evrópusambandsins í framtíðinni. Ertu Evrópusamtökin hlynnt fyrirhugaðri stjórnarskrá sambandsins? Eru þau hlynnt því að því verði breytt í eitt ríki? Það væri sérstaklega áhugavert að fá svar við þessum spurningum í ljósi þess að samtökin eru aðilar að regnhlífarsamtökunum European Movement sem einmitt hafa það sem sitt helzta markmið að stuðla að því að Evrópusambandinu verði breytt í sambandsríki (united federal Europe) ef marka má heimasíðu þeirra. Eru Evrópusamtökin hlynnt þessu markmiði? Ef svo er ekki, hvað eru þau þá að gera í þessum félagsskap?
Svar við þessari spurningu er einmitt ekki sízt áhugavert í ljósi fullyrðingar Andrésar um að ljóst sé að hræðsluáróður andstæðinga Evrópusambandsins um yfirþjóðlegt vald og súperríki Evrópu eigi ekki við rök að styðjast. Það þarf þó ekki annað en að lesa fyrirhugaða stjórnarskrá sambandsins (fyrir þá sem leggja í það) til að sjá hver hugmyndin með henni er öðru fremur. Reyndar er alveg nóg að lesa fyrsta hluta hennar til þess. Þess utan er auðvitað alveg merkilegt að því sé haldið fram að Evrópusambandið sé ekki yfirþjóðlegt vald því það er nákvæmlega það sem sambandið er. Stjórnvöld í aðildarríkjum Evrópusambandsins verða þannig að fara eftir ákvörðunum sem teknar eru á vettvangi sambandsins og hvers vegna? Jú, vegna þess að ákvarðanirnar eru teknar af yfirþjóðlegu valdi sem þau hafa gengizt undir.
Andrés lýkur svo grein sinni á enn einni fullyrðingunni: Smáríkin innan ESB bera ekki skarðan hlut frá borði í stækkaðri Evrópu og ef eitthvað er þá eru smærri ríkin að styrkja stöðu sína í Evrópu nútímans. Það er nefnilega það og sem fyrr er allur rökstuðningur víðsfjarri. Annars er ég þó það sæmilegur í landafræði að ég efa stórlega að Evrópa hafi eitthvað stækkað að ráði á undanförnum árum. En að öllu gamni slepptu er þarna auðvitað átt við Evrópusambandið eins og áður þegar talað er um Evrópu enda eitt lykilatriðið í áróðri Evrópusambandssinna að telja fólki trú um að Evrópa og Evrópusambandið sé eitt og hið sama. Það þarf þó varla mikla skynsemi til að sjá í gegnum slíkt þó Evrópusambandssinnar haldi greinilega að hægt sé að telja fólki trú um hvaða vitleysu sem er.
Og að lokum með vísan í fyrirsögnina á grein Andrésar; Ef Evrópusambandið er svarið, hver er þá spurningin?
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Breytt 6.10.2006 kl. 13:19 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004