Föstudagur, 8. júlí 2005
Hryðjuverkaárás í London – mikilvægi samstöðu
Tugir almennra borgara létu lífið í fjórum sprengingum í London í gærmorgun og fjölmargir særðust lífshættulega. Heimsbyggðin stendur sem felmtri slegin eftir þessi mannskæðu hryðjuverk í miðborg London, sem skaða saklausa borgara og er beint að þeim þáttum sem veldur mestum skaða, samgöngukerfi Lundúnaborgar. Mannlífið í borginni hefur farið úr skorðum sínum eftir hryðjuverkaárásina. Erfitt er að komast um, umferðarhnútur hefur myndast á milli staða og með því að lama neðanjarðarlestakerfið eru auðvitað lamaðar samgöngur á mikilvægum punktum í borginni. Margir höfðu lengi búist við að hryðjuverkamenn myndu láta til skarar í Bretlandi, en þegar það gerðist varð undrun fólks þess því meiri. Áfallið er mikið og breskt samfélag er sem lamað eftir árásirnar. Lengi hefur al-Qaeda talað um að ráðast á Bretland og nú hefur það gerst, illu heilli. Lögreglu hafði ekki borist viðvörun um að hryðjuverk væru yfirvofandi. Kemur þetta hryðjuverk sem þruma úr heiðskíru lofti eftir að London var í vikunni valin sem vettvangur Ólympíuleikanna árið 2012.
Áður óþekkt sella sem tengir sig við al-Qaeda hryðjuverkasamtökin hefur nú lýst þessu hryðjuverki á hendur sér. Bera hryðjuverkin að öllu leyti handbragð al-Qaeda. Mjög margt er líkt með hryðjuverkinu á Spáni þann 11. mars 2004. Sprengjur í bakpokum sprungu þá í lestum í miðborginni og í úthverfum. Tæplega 200 manns létu lífið í þessu hryðjuverki. Lengi vel fullyrtu spænsk yfirvöld að ETA stæði að baki þeim, en bakpokasprengjur og koparhvellhettur sem tendraðar eru með boðum úr farsíma báru þó ekki merki um handbragð ETA. Ljóst varð því fljótt að al-Qaeda stóð að baki. Hryðjuverkaárásin í London var líkt og hryðjuverkaárásin í Madrid bæði ófyrirleitin og grimmdarleg. Henni var einvörðungu beint gegn saklausum borgurum. Ætlunin var í senn bæði að myrða og særa óbreytta borgara. Árásunum var ekki beint að þjóðarleiðtogum eða hefðarfólki. Þeir sem féllu í valinn, særðust og urðu fyrir henni að einhverju leyti er saklaust fólk, venjulegt fólk í London, af ólíkum uppruna sem ekkert hefur sér til sakar unnið og var aðeins á röngum stað á röngum tíma.
Vinnubrögð af þessu tagi og árásin sem slík, í senn bæði nú og í fyrra á Spáni, ætti að mínu mati endanlega að sannfæra alla heimsbyggðina um hvernig al-Qaeda og tengd hryðjuverkasamtök vinna. Þau skeyta engu um mannslíf, svífast einskis til að ráðast að vestrænum gildum og mannlegri tilveru. Hér er auðvitað ekki einvörðungu um að ræða árás á breskt samfélag, breska þegna og tilveru þeirra. Þetta er auðvitað aðför að öllum sem tilheyra vestrænu samfélagi. Þessu ber að taka með þeim hætti og það ber auðvitað að bregðast við með ákveðnum hætti. Uppræta þarf hryðjuverkasamtök sem vinna með þessu tagi og ráðast að saklausum borgurum með svo grimmdarlegum og ógeðfelldum hætti. Jafnframt má búast við að vestrænt samfélag sameinist í viðbrögðum sínum. Í London er undarleg stemmning í kjölfar þessara hryðjuverka. Í raun má segja að íbúar borgarinnar séu sterkir og standi eftir þessa árás staðráðið í að standa vörð um gildi tilveru sinnar og láti þessa grimmdarlegu aðför að sér styrkja sig í baráttunni gegn hryðjuverkum. Ró er yfir borginni og íbúarnir þar eru að jafna sig á áfallinu.
Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, var staddur á leiðtogafundi átta helstu iðnríkja heims í Gleneagles í Skotlandi þegar hryðjuverkaárásin í London átti sér stað í gærmorgun. Hann ávarpaði bresku þjóðina og heimsbyggðina alla vegna þessa skelfilega voðaverks frá Skotlandi um morguninn. Hann sagði þar að hryðjuverkaárásirnar hefðu verið gerðar vegna þess að á sama tíma væru leiðtogar helstu iðnríkja heims að funda. Sagði hann það sérstaklega villimannslegt að árásirnar hefðu verið gerðar á sama tíma, og þjóðarleiðtogar sætu á fundi til að ræða um aðgerðir til að aðstoða Afríku og draga úr loftslagsbreytingum. Þá sagði forsætisráðherrann að þrátt fyrir þetta illverki hryðjuverkamanna myndu Bretar standa vörð um þau gildi og lifnaðarhætti sem þeir hefðu alla tíð haft í heiðri og staðfesta landsmanna, væri meiri en hryðjuverkamanna, sem vildu í senn valda saklausu fólki dauða og limlestingum og koma fram öfgastefnu víðsvegar um heim. Hefur þetta sannast af viðbrögðum landsmanna við hryðjuverkunum. Ennfremur er ljóst að árásin mun ekki vega að þeim verkefnum sem þar átti að ræða.
Blair sagði í yfirlýsingu sinni í gærmorgun að hann og ríkisstjórn hans myndu í samstarfi við landsmenn alla berjast gegn vágestinum. Ekki kæmi til greina að láta hann eyðileggja það sem byggt hafði verið upp í bresku samfélagi. Blair kom fram af festu og krafti með yfirlýsingu sinni og sannaði styrk sinn sem stjórnmálamanns að mínu mati með ræðu sinni í Skotlandi. Hann var augljóslega mjög skelkaður er hann flutti ræðuna og sýndi með tignarlegum hætti rétt viðbrögð og að mínu mati var þetta með betri ræðum stjórnmálaferils forsætisráðherrans. Hann sýndi og sannaði styrk sinn sem forystumanns í stjórnmálum og kom fram af festu og ákveðni við erfiðar aðstæður í sögu þjóðarinnar. Eftir hádegið hélt forsætisráðherrann svo til London til að fylgjast betur með stöðu mála. Sat hann þar fundi með ríkisstjórninni og borgaryfirvöldum. Ávarpaði hann svo bresku þjóðina að nýju seinnipartinn í embættisbústað sínum, Downingstræti 10. Fundurinn hélt áfram í Gleneagles og tók Jack Straw utanríkisráðherra Bretlands, við stjórn hans í fjarveru forsætisráðherrans sem kom svo aftur til Skotlands í gærkvöldi. Í dag mun svo ráðast hver niðurstaða fundarins er.
Er tilkynnt hafði verið um hryðjuverkin í London í gærmorgun komu leiðtogar iðnríkjanna átta á fundinum í Gleneagles fram opinberlega saman auk gesta sinna á fundinum, leiðtogum annarra ríkja. Þeir stóðu þar saman meðan Blair las yfirlýsingu í nafni þeirra allra. Þetta skelfilega hryðjuverk varð til þess að þeir urðu sammála um framkvæmdir og orðið samstaða verður vonandi lykilorð þessa leiðtogafundar, er honum lýkur formlega. Það þarf að vinna sameinað að þeim verkefnum sem skipta máli, samstaða og samheldni þarf að verða niðurstaða þessa fundar. Það má ekki láta hryðjuverkaöflin eyðileggja þennan fund og yfirskyggja hann með þessum skelfilega verknaði. En nú er þetta hryðjuverk og atlaga hryðjuverkaafla að breskum þegnum og bresku samfélagi er orðin staðreynd er mikilvægast auðvitað að leiðtogar þjóðanna standi saman og ennfremur að allir heimsbúar séu sameinaðir í baráttunni gegn hryðjuverkum.
Gleymum því ekki að það er ásetningur þessara niðurrifsafla að sundra samstöðu heimsins. Það mun ekki takast, svo lengi sem við stöndum saman gegn þeirri ógn sem blasir við. Baráttan gegn hryðjuverkum hefur tekið á sig nýja mynd við tíðindi gærdagsins í Lundúnum. Atburðir gærdagsins eru áminning til allrar heimsbyggðarinnar um grimmd og ennfremur þess efnis að hryðjuverk á vestrænt samfélag verða ekki liðin. Þeim er svarað af fullri hörku. En mikilvægast er eins og ég hef sagt að standa vörð um samstöðu þjóðanna í baráttunni. Nú er tækifærið til að sameinast í baráttunni gegn hryðjuverkum af enn meiri krafti en áður.
Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr(a)simnet.is
Breytt 6.10.2006 kl. 13:19 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004