Leita í fréttum mbl.is

Nýtum tímann!

Sem kunnugt er hefur mikið starf verið unnið á undanförnum árum við að færa eignarhald og rekstur fyrirtækja í hendur einkaaðila með einkavæðingu þeirra. Því ber að fagna enda eru nú flestir orðnir þeirrar skoðunar að alla jafna eigi opinberir aðilar ekki að standa í samkeppnisrekstri við einkaaðlila og einkarekstur sé í flestum tilfellum heppilegasta rekstrarformið.

Fyrirtæki í eigu ríkisins
Mikið verk er þó enn óunnið hvað þetta varðar eins og glögglega kom í ljós í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Sigurðar Kára Kristjánssonar á Alþingi. Þar kom í ljós að ríkið og stofnanir þess eiga eignarhluti í u.þ.b. 200 hlutafélögum og einkahlutafélögum víðs vegar um landið. Í flestum tilvikum er vandséð að rétt sé að ríkið eigi þessa hluti. Stefán Friðrik Stefánsson hefur þegar gert þessum lista góð skil hér á síðunni í nýlegri grein. Því er óþarft að tíunda nánar það sem þar kemur fram, en engu að síður rétt að hnykkja á málinu þar sem um brýnt hagsmunamál er að ræða fyrir allan almenning að ríkið dragi sig í meira mæli út úr atvinnurekstri.

Einkavæðing síðustu ára
Á síðustu árum hafa allmörg fyrirtæki verið færð úr eigu ríkisins í hendur einkaaðila. Ánægjuleg dæmi um vel heppnaða einkavæðingu eru sala ríkisbankanna, fyrst Fjárfestingabanka atvinnulífsins og svo Landsbankans og Búnaðarbankans. Ávinningurinn hefur skilað sér til alls þorra almennings þar sem aukin samkeppni hefur skapast og bankarnir farið að kappkosta að bjóða betri kjör. Í því sambandi má nefna lækkaða vexti á lánum til íbúðakaupa, þar sem bankarnir tóku nýverið að undirbjóða Íbúðalánsjóð – nokkuð sem ekki var í spilunum fyrir fáeinum misserum síðan. Eigendur bankanna hafa hagrætt í rekstrinum þannig að þrátt fyrir að kjör neytenda séu nokkru betri en áður er hagnaður bankanna líka meiri, sem skilar sér í fjárfestingum til eflingar atvinnulífsins. Það er í raun ótrúlegt til þess að hugsa að aðeins eru fáein misseri síðan bankarnir voru að mestu reyrðir í klafa hins óheppilega ríkisrekstrar.

Af öðrum fyrirtækjum sem að fullu hafa verið færð í hendur einkaaðila frá árinu 1991 má nefna Ríkisskip, Jarðboranir, SR-Mjöl, Lyfjaverslun Íslands, Skýrr, Íslenska aðalverktaka og Áburðarverksmiðjuna.
Til stendur að selja Símann á næstu misserum og fagna ber viljayfirlýsingum Iðnaðarráðherra og Fjármálaráðherra þess efnis að Landsvirkjun verði breytt í hlutafélag á næstu árum. Það eykur líkur á sölu hennar fyrr en síðar, þó Vinstri grænir virðist ætla að þvælast fyrir því ferli á vettvangi borgarstjórnar.

Nýtum tímann
Umrædd þróun er einkum því að þakka að hér hefur setið fremur hægrisinnuð ríkisstjórn allt frá árinu 1991. Ekki er víst að svo verði um alla framtíð. Því er mikilvægt að tíminn sé vel nýttur til einkavæðingarinnar. Vinstri menn hafa engan sérstakan áhuga á einkavæðingu. Komist þeir til valda eru þeir því líklegir til að stöðva það ferli sem verið hefur undanfarin ár. Ólíklegra er þó að samstaða náist meðal þeirra um að snúa þróuninni við í verulegum atriðum, þó þeir kynnu að stöðva hana að sinni. Það er því ekki úr vegi, nú þegar kjörtímabilið er tæplega hálfnað, að þingmenn og ráðherrar setjist yfir áðurnefndan lista og geri gangskör að því að koma þessum málum í betra horf.

Þorsteinn Magnússon


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband