Mánudagur, 10. janúar 2005
Ögmundur og Palestína, kosningar í Palestínu
Ögmundur Jónasson, þingmaður hefur undanfarna viku verið á ferð í Palestínu ásamt öðrum verkalýðsleiðtoga, Eiríki Jónssyni, formanni Kennarasambandsins.
Já, Ögmundur er er ekki bara þingmaður heldur líka verkalýðsforingi. Hann er formaður BSRB og titlar sig oft sem slíkan. Ferð þessi er farin í boði palestínskra verkalýðshreyfinga fyrir milligöngu félagsins Ísland Palestína. (ÍP)
Það er svo sem ekki í frásögu færandi þó að þeir vinirnir, Ögmundur og Eiríkur fari saman til útlanda. Það sem hins vegar er athugunarvert er að á sama tíma og Ögmundur mælir götur Palestínu notar hann vefsíðu sína til að bera út fordóma og áróður gegn Ísraelsmönnum.
Auðvitað ríkir hér á landi málfrelsi og menn hafa rétt til að hafa skoðanir. Það er hins vegar spurning hvernig menn afla sér upplýsinga og koma þeim á framfæri. Að fara í guided tour um Palestínu í fylgd palestínumanna er eins og að hafa farið árið 1958 með áróðursmannni Stalínstjórnarinnar um Sovétríkin. Að sjálfsögðu fær maður bara aðra hlið á málinu. Það að Ögmundur noti vefsíðu sína til tjá sig er heldur ekki ámælisvert en hins vegar hlýtur að vera hægt að gera þá kröfu til þingmanna að þeir skoði málin rökrétt og skoði báðar hliðar málsins áður en þeir bera út áróður og alls kyns vitleysu. Það eru alltaf tvær hliðar á öllum málum, en Ögmundi virðist ekki finnast mikilvægt að skoða þær báðar. Það eru einkennileg vinnubrögð fyrrverandi blaðamanns.
Um skrif Ögmundar
Ekki ætla ég hér að taka öll atriði í skrifum Ögmundar og setja þau undir smásjá.
Hér á eftir eru þó nokkur dæmi sem gefa hugmyndir af skrifum hans annars vegar og raunveruleikanum hins vegar: (Það sem er tekið af vefsíðu Ögmundar er skástrikað)
Það er óhuggulegt að verða vitni að því þegar heilaþvegið fólk, iðulega óharðnaðir unglingar í hernum, framkvæmir illvirki eins og Ísraelar óumdeilanlega fremja á Palestínumönnum.
Vissulega er það óhuggulegt ef það er rétt sem Ögmundur talar hér um. Hins vegar virðist Ögmundur aðeins horfa á þetta mál frá annarri hliðinni. Eru ungir palastínskir drengir (og stúlkur) sem sprengja sig í loft upp í strætisvögnum og kaffihúsum kannski ekki heilaþvegin? Tekið skal skýrt fram að hér er ég ekki að segja að allt sem Ísraelsmenn hafa aðhafst á svæðunum sé afsakanlegt eða rétt. Langt því frá. En að þjálfa upp hryðjuverkamenn er ekkert annað en heilaþvottur.
Á kvöldgöngu fyrir svefninn sáum við þrjá bryndreka rétt hjá hótelinu. Inn um rúðurnar mátti greina ísraelska hemenn rýna í vegakort. Þeir voru greinilega að ákveða hvar ætti að bera niður í nótt, hvar skyldi tekið hús á mönnum svona til að halda hinni hernumdu þjóð við efnið; til að minna á hver stjórnar og hver hlýðir, hver hefur valdið og hverjum ber að sýna undirgefni.
Veit Ögmundur Jónasson s.s. út á hvað hernaðartækni Ísraelsmanna snýst eða gaf hann sér bara það sem víst að þeir væru þarna að brugga eitthvað slæmt. Hvað er þetta annað en hlutdrægur áróður?
Ögmundur talar um ,,áróður zíonista og líkir Ísraelum við Nasista. (í grein 8.1.2005) Maður hefði haldið að þingmenn komnir á besta aldur væru lausir við kynþáttafordóma. Hvað ætli myndi gerast ef að Björn Bjarnason (sem hér er tekinn sem dæmi af því að hann er með öfluga heimasíðu sem oft hefur vakið athygli) myndi fara í ferðalag til Ísraels skrifa þaðan að hann hefði séð unga palestínska drengi og þeir hafi greinilega verið að ákveða hvaða strætó þeir gætu nú sprengt og myndi í nokkra daga skrifa um hvað Palestínumenn væru vondir og illa innrættir? Ég held að íslenskir fjölmiðlar létu nú eitthvað í sér heyra. Hann yrði sakaður um fórdóma, kynþáttahatur zionisma og svo frv.
Ögmundur kallar varnarmúr Ísraelsmanna kynþáttamúrinn illa.
Hann tekur hins vegar ekki fram að múrinn var byggður af nauðsyn eftir stanslausar sjálfsmorðsárásir palenstínskra ungmenna í Ísrael. Það er auðvitað ekki eðlilegt að almenningur í Ísrael geti ekki farið í strætó eða á kaffihús án þess að eiga það á hættu að vera sprengdir í loft upp með naglaprengjum og fleiru. Ef að Ögmundur sér sérstaka ástæðu til þess að fordæma þennan múr þarf hann einnig að fordæma sjálfsmorðsárásir palestínumanna. Það er ekki bara hægt að skoða aðra hliðina á málinu, eins og hann gerir. Hins vegar gefur Ögmundur sér það að þegar nokkrir ísraelskir hermenn skoða kort séu þeir með eyðileggingarstarfsemi í huga. Athyglisvert.
Einnig er rétt að nefna að eftir að viðkomandi varnarmúr var byggður hefur sjálfsmorðsárásum stórlega fækkað í Ísrael. Skiptir það Ögmund engu máli?
Kosningar í Palestínu
Í gær, sunnudag voru haldnar frjálsar kosningar í Palestínu.
Eftir að guðfaðir hryðjuverkanna, Yasser Arafat, lést nýlega hefur heimsbyggðin fylgst með athygli með gangi mála hjá palanstínsku heimastjórninni. Leiðtogar úti um allan heim horfa í fyrsta skipti í mörg ár fram á að friðarviðræður geti hafist af einhverju viti. Sharon hefur sýnt vilja til að draga til baka landnemabyggðir gyðinga og hefur í raun síðustu vikur og mánuði lagt sitt pólitíska líf undir til að sjá frið á milli þjóðanna. Nú liggur ljóst fyrir að Abbas bar sigur úr bítum og verður forseti heimastjórnar Palestínu. Hann þykir ekki spilltur eins og forveri sinn og er líklegur til að stíga skref í átt til friðar.
Sitt sýnist hverjum um Abbas. Sumir hafa trú á því að hann geti komið friðarviðræðum á eitthvert skrið. En eitt skulum við athuga. Þegar hann var forsætisráðherra komust friðarviðræður á eitt besta skrið sem þær hafa komist á í mörg ár. Hann neyddist hins vegar til að segja af sér af því að hann gat ekki unnið undir Arafat.
Ekki minnist Ögmundur á það. Skiptir kannski heldur ekki máli?
Eins og áður sagði er fyrrverandi forseti heimastjórnarinnar, Arafat, látinn.
Aftur og aftur tókst honum að koma í veg fyrir frið í sínu eigin landi. Bill Clinton fyrrv. Bandaríkjaforseti reyndi að koma á friði með Arafat og Barak (fyrrv. forsætisráðh. Ísraels) sumarið 2000. Þegar allt virtist vera að ganga upp hafnaði Arafat samningunum og allt fór í háaloft. Fræg eru orð Clintons þegar hann kvaddi Arafat. Arafat þakkaði honum fyrir að reyna en Clinton opnaði hurðina fyrir hann og sagði,
I´m a faliure and you´ve maid me one. This is your fault.
Arafat kom fram í vestrænum fjölmiðlum og talaði um að hann hefði viljað frið, síðan fór hann til Palestínu og kallaði ,,Jihad, Jihad, Jihad. Engum manni í sögunni hefur tekist að vera í jafn mikilli mótsögn við sjálfan sig eins og Yasser Arafat.
Fleiri verða orð mín um þetta mál ekki nú. Það er vonandi að góðir menn taki nú við stjórninni í Palestínu og útrými hryðjuverkasamtökum eins og Hamas. Þá fyrst er hægt að horfa í átt til friðar.
Eins og staðan er í dag er líklegast að Abbas takist að stíga skref í átt til friðar.
Að lokum
Til að gæta allrar sanngirni bendi ég fólki að lesa sjálft pistla Ögmundar á heimasíðu hans. Þeir eru skrifaðir dagana 4. 10. janúar 2005. Ögmundur á vissulega hrós skilið fyrir að halda úti lifandi heimasíðu þar sem kjósendur hafa aðgang að honum. Það er mikil vinna að halda úti heimasíðu. Rétt er að taka fram að grein þessi er ekki skrifuð gegn Ögmundi eða árás á persónu hans sem slíka. Að sama skapi er það ekki tilgangur minn að réttlæta allar þær aðgerðir sem Ísraelar hafa framkvæmt á þessu svæði. Hins vegar er einhliða skoðun Ögmundar á þessum málum gagnrýnisverð.
Einnig tek ég fram að þó að ég tali nokkrum sinnum í greininni um ungt palestínufólk sem framið hefur sjálfsmorðsárásir á ég að sjálfsögðu ekki við alla Palestínumenn. Það þarf oftast mjög fáa til að koma slæmu orði á alla. Í báðum þessum löndum er fólk sem þráir ekkert annað en frið, langþráðan frið. Að sama skapi er í báðum löndum fólk sem engan áhuga hefur á friði.
Gísli Freyr Valdórsson
Einnig bendi ég þeim sem áhuga hafa á þessum málum að lesa eftirfarandi greinar:
Honestreporting.com er mjög góð síða sem fer yfir helstu fréttir sem berast frá Ísrael og Palestínu. Þar er einnig að finna minningargrein um Yasser Arafat og tekur fyrir í grófum dráttum bæði ævi og hryðjuverkaferil hans.
Friðjón R. Friðjónsso skrifaði mjög góða grein á sus.is um homma í Palestínu.
Hér er gott dæmi um lélega blaðamennsku og tilbúna mynd frá svæðinu.
Sindri Guðjónsson hefur áður skrifað um þessi mál á þessu vefriti.
Breytt 6.10.2006 kl. 13:19 | Facebook
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004