Leita í fréttum mbl.is

Skattabylting í Austur-Evrópu

Pólsk stjórnvöld tilkynntu nýverið að þau hyggðust koma á flötum 18% skatti á tekjur fyrirtækja og einstaklinga. Sama verður að segja um hlutfall virðisaukaskatts. Eins og staðan er í dag eru skattar á fyrirtæki 19% í Póllandi og tekjuskattur einstaklinga 40%. Með breytingunum er ætlunin að einfalda skattkerfið og gera það skilvirkara, eitthvað sem ekki þykir vanþörf á. Hreinsa burt flókið kerfi alls kyns skattahlutfalla og undanþága. Gera pólsk stjórnvöld ráð fyrir að aukinn hagvöxtur muni bæta hinu opinbera upp tekjumissinn auk þess sem búist er við að lægri skattar þýði að fólk verði líklegra til að standa í skilum. Er hugmyndin að næstu þrjú ár fari í að koma þessum breytingum á.

Pólski Íhaldsflokkurinn (Platforma Obywatelska), sem er í stjórnarandstöðu eins og er, hefur lagt til að gengið verði enn lengra í lækkun skattahlutfallsins og komið verði á 15% flötum skatti, en þingkosningar verða í Póllandi næsta haust. Póland er þó langt því frá eina dæmið í Evrópu um þessa þróun sem hófst fyrir margt löngu. Hafa mörg ríki í Austur-Evrópu þegar komið á flötum skatti. Má þar fyrst nefna Eistland, sem hóf þessa þróun árið 1991 með 26% flötum skatti sem síðar var lækkaður í 20%, en einnig t.a.m. Lettland, Slóvakíu, Serbíu, Rúmeníu, Georgíu, Úkraínu og Rússland. Í síðastnefnda landinu er skatthlutfallið aðeins 13%. Tilgangurinn er alls staðar fyrst og fremst að laða að erlendar fjárfestingar og gera löndin samkeppnishæfari.

Er hér um að ræða afar áhugaverða og spennandi þróun sem enn hefur þó ekki náð til Vestur-Evrópu. Þó eru ýmsar þreifingar til staðar. Þannig hefur brezka Adam Smith stofnunin kynnt niðurstöður rannsóknar þess efnis að brezk stjórnvöld gætu tekið upp 22% flatan tekjuskatt án þess að það myndi hafa í för með sér tekjumissi fyrir ríkissjóð. Ástæðan er einkum sögð vera sú að tilraunir til að komast hjá skattlagningu myndu dragast verulega saman. Madsen Pirie, forseti stofnunarinnar, sagði af því tilefni að flatur skattur væri það sem koma skyldi. Sú þróun færðist smám saman yfir Evrópu. Það sem væri að gerast í Austur-Evrópu væri tilraun sem ætti sér stað í raunheimi, ekki væri aðeins um að ræða einhverja tilgátu. Og reynslan hefði sýnt að þetta virkaði!

Þróunin í Austur-Evrópu hefur ekki hvað sízt ýtt við þýzkum stjórnvöldum. Gerhard Schröder, kanslari Þýzkalands, tilkynnti á dögunum að skattar á þýzk fyrirtæki yrðu lækkaðir úr 25% í 19%, þá einkum í því skyni að reyna að slá á gríðarlegt atvinnuleysi í landinu en einnig til að sporna við því að fyrirtækin flyttu starfsemi sína austur á bóginn. Þessar tölur segja þó ekki alla söguna þar sem þýzkar borgir leggja líka ýmsar álögur á þýzk fyrirtæki og segja hagfræðingar að lækkunin sé því nær því að hafa farið úr 38% í 32% að meðaltali. Auk þess hyggjast þýzk stjórnvöld hækka fjármagnstekjuskatta til mótvægis. Í skýrslu sem unnin var fyrir þýzka fjármálaráðuneytið nýverið var lagt til að komið yrði á 30% flötum skatti á einstaklinga og fyrirtæki í Þýzkalandi, en slíkt er þó ekki enn sem komið er á dagskrá þar í landi.

Mikil bylting hefur átt sér stað í skattamálum hér á landi á síðustu árum fyrir tilstuðlan ríkisstjórna sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengst af leitt. Á rúmum áratug hafa skattar á fyrirtæki verið lækkaðir úr 51% í 18% og einnig hafa verið samþykkt lög sem fela í sér að eignarskattar fyrirtækja og einstaklinga verði afnumdir. Einstaklingar hafa heldur ekki farið varhluta af þessum miklu umbótum í skattaumhverfinu hér á landi þegar kemur að almennum tekjuskatti. Hann hefur verið lækkaður verulega á undanförnum árum og nú síðast tilkynnti ríkisstjórnin fyrir síðustu jól að hann yrði lækkaður enn frekar fyrir lok þessa kjörtímabils eða um 4%.

Eins og kunnugt er hélt Verzlunarráð Íslands nýverið viðskiptaþing þar sem m.a. voru kynntar tillögur um að komið yrði á 15% flötum skatti hér á landi á tekjur fyrirtækja og einstaklinga sem og á neyzlu. Ber að sjálfsögðu að fagna þessum tillögum. Það verður ennfremur fróðlegt að fylgjast áfram með þróuninni í Austur-Evrópu og vonandi að hún nái fyrr en síðar hingað til lands.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is

(Birt áður á www.sus.is)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband